Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Útvarp Rót 1988

Snara

Árið 1988 bar fyrsta apríl upp á föstudaginn langa. Þann dag var aprílgabbið á Útvarp Rót á þá leið að fornleifafræðingar hefðu við uppgröft á Golgatahæð fundið minjar sem bentu til þess að Jesús Kristur hafi ekki verið krossfestur heldur hengdur og að kirkjunnar menn um allan heim væru að vinna að því að skipta út krossum fyrir gálga í kirkjum landsins. Guðhræddum klerkum og góðborgurum var ekki skemmt.

Séra Ólafur Skúlason, sem þá var sóknarprestur, notaði páskamessu í beinni útsendingu til að æsa sig yfir meintum guðlastalýð á Útvarpi Rót. Herra Ólafur bauð sig fram til embættis biskups og var skipaður í embættið árið 1989. Afskipti hans að fjölmiðlum áttu eftir að vekja töluverða athygli (sbr. Maltmálið, Sjónvarpsmálið og Spaugstofumálið).

Í kjölfar grínsins á Útvarpi Rót sendi Þjóðkirkjan erindi til Útvarpsréttarnefndar, sem tók málið til skoðunar. Um það má lesa í Morgunblaðinu þann 12. apríl sama ár:

Aprílgabb Útvarps Rótar:

Á ekki von á frekari aðgerðum af hálfu útvarpsréttarnefndar ­ segir Kjartan Gunnarsson, formaður nefndarinnar "ÞAÐ hefur engin formleg kæra borist útvarpsréttarnefnd vegna þessa máls og að öllu óbreyttu á ég ekki von á frekari aðgerðum af hálfu nefndarinnar. Við munum þó væntanlega fara yfir og ræða efnisatriði þessa máls á næsta fundi," sagði Kjartan Gunnarsson, formaður útvarpsréttarnefndar, er hann var spurðu hvort nefndin myndi aðhafast eitthvað frekar í máli því sem upp kom vegna "aprílgabbs" Útvarps Rótar á föstudaginn langa, en þar var fullyrt að gálgar myndu leysa krossa af hólmi sem tákn kristinna manna.

Kjartan sagði að athygli sín hefði verið vakin á þessu máli síðastliðinn föstudag og hann hefði þá haft samband við útvarpsstjóra Útvarps Rótar, Þórodd Bjarnason, og fengið hjá honum endurrit og hljóðupptöku af umræddri dagskrá. Í samtali fulltrúa útvarpsréttarnefndar við útvarpsstjórann á laugardag hefði komið fram að útvarpsstöðin hefði á laugardag fyrir páska, 2. apríl, sent út tilkynningu, þar sem beðið var afsökunar á þessari dagskrá. "Sú afsökun var þríþætt og beindist til allra þeirra sem telja má að hafi verið misgert við í þessari útsendingu," sagði Kjartan ennfremur. "Engin formleg kæra hefur borist útvarpsréttarnefnd vegna þessa máls og í samtali sem ég hef átt við útvarpsstjórann hefur það ítrekað komið fram að beðið hefur verið afsökunar á þessu. Sjálfur vil ég ekki leggja neinn efnislegan dóm á þessa dagskrá þar sem til þess kynni að koma að ég þyrfti að fjalla um málið sem úrskurðaraðili, það er að segja ef að formleg kæra kemur fram. Hins vegar get ég sagt það, eftir að hafa rætt málið við biskup, að þá er fyrirgefningin og iðrunin tvö af megininntökum kristinnar trúar og ætli maður geti nokkuð sett sig á hærri hest en sá sem kom til að boða okkur kristna trú," sagði Kjartan Gunnarsson.

Morgunblaðinu hefur borist afrit af ávarpi Þórodds Bjarnasonar, útvarpsstjóra Útvarps Rótar, sem flutt var laugardaginn 9. apríl síðastliðinn. Þar segir meðal annars: "Hvað gabbið sjálft varðar, geta víst flestir fallist á að gálgahúmor þess hafi sneitt ískyggilega nálægt mörkum þess sem smekklegt getur talist. Þessi uppákoma vekur hins vegar upp áleitnar spurningar varðandi þjóðkirkjuna og ríkistrú almennt."

Síðar í ávarpinu segir að Útvarp Rót sé grasrótarútvarp þar sem orðið sé frjálst og að stöðin telji sig einungis skuldbundna dagskráraðila um og hlustendum, auk gildandi útvarpslögum. "Við höfum haft mikið og gott samstarf við ýmsa trúarsöfnuði um dagskrárgerð. Hafi einhverjum þeirra þótt gamanið grátt, biðst ég hér með afsökunar. Trúað fólk tekur þátt í útvarpsdagskrá velflestra samtaka hér á Útvarp Rót. Hafi það hneykslast, biðst ég líka afsökunar. Hafi einhverjum hinna kristnu hlustenda Útvarps Rótar sárnað við okkur, þykir mér það ákaflega leitt og bið þá innilegrar afsökunar á sprellinu. Aðrir eiga ekkert inni hjá okkur og tel ég málið að öðru leyti úr sögunni," segir Þóroddur Bjarnason útvarpsstjóri í ávarpi sínu.

Miklar ritdeilur urðu um málið í Morgunblaðinu og heilu leiðararnir lagðir í málið um meint guðlast. Herra Pétur Sigurgeirsson biskup lét svo málið niður falla eftir að útvarpsstjóri Rótarinnar, Þóroddur Bjarnason, baðst opinberlega afsökunar eins og lesa má í frétt Morgunblaðsins.

Frelsarinn 30.06.2011
Flokkað undir: ( Guðlast )

Viðbrögð


Ólafur - 30/06/11 09:20 #

Alveg Makalaust hvað kristnir telja sig komast upp með að grafa yfir saklaust grín, ef ég væri sem dæmi með svokallað "podcast" eða jafnvel með mína eigin útvarpsstöð sem gerði gis af fáfræði kristinna, og vegna þess hversu margir hlustuðu á stöð mína myndi ég aldrei koma nálægt því, og ef eitthvað koma í veg fyrir að beðist yrði afsökunar á gríni.

Sérstaklega þegar þar að kæmi vegna einhverra kristinna hópa sem vilja endilega reka nefið í annara manna mál og reyna svo að kæra fyrir það sem þeim kemur ekki við.

Hvernig kæmi það annars út fyrir hæstarétti, Guðlast, og sá ákærði er trúleysingi, ásamt alls starfsliðs útvarpsstöðvarinnar? ekki færi ég að spila auglýsingu á 5 mínútna fresti sem vísaði kristnum frá því að hlusta á stöðina vegna guðlasts, ekki séns, Í HELVÍTI!.

Takk fyrir mig.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.