Brynjólfsmálið 1925
Menntamálaráðherra, Jón Magnússon, ofsótti Brynjólf Bjarnason fyrir ritdóm hans um "Bréf til Láru", eftir Þórberg Þórðarson, sem birtist í Alþýðublaðinu þann 24. mars árið 1925. Honum var vikið úr kennslu á vegum ríkisins. Brynjólfur fékk þá vinnu í Kvennaskólanum sem var þá einkaskóli.
Þann 15. apríl, sama ár, var Brynjólfur Bjarnason svo kærður fyrir guðlast vegna skrif sín í Alþýðublaðinu. Í Öldinni okkar er þessu guðlastamáli lýst:
Öldin okkar [Iðunn]
15/4 Nýlega hefur dómsmálaráðherra, eftir tilmælum kirkjulegra yfirvalda, látið höfða sakamál gegn Brynjólfi stúdent Bjarnasyni, sem nú stundar kennslu hér í bænum, en las áður um skeið náttúruvísindi við Hafnarháskóla, fyrir grein í Alþýðublaðinu 24. f. m. Er hún um Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson, bók, sem er nú mjög umrædd hér í bænum, bæði til lofs og lasts. Í grein Brynjólfs segir m.a.: “Íslendingar hafa löngum verið nokkuð treggáfaðir og einfaldir gagnvart kúgurum sínum; Þeir eru orðnir þeim svo vanir, eins og hægt er að venja menn á frá blautu barnsbeini að elska og virða guð almáttugan, þó að allir eiginleikar hans séu útskýrðir ýtarlega og menn gangi þess ekki gruflandi, að hann sé ekki annað en hégómagjarn og öfundsjúkur harðstjóri og óþokki.” En fyrir þessi síðustu ummæli er málið höfðað.
Mál Brynjólfs er gott dæmi um harðræði og pólitíska hörku þess tíma þegar kirkja og yfirvöld gátu leyft sér að svipta menn atvinnu fyrir skoðanir sínar. Aðeins voru 50 ár síðan bannað var með lögum að hafa aðra trú en þá ríkisreknu, þannig að völd kirkjunnar voru afar mikil. Brynjólfur var fyrsti maðurinn til að fá dóm fyrir guðlast samkvæmt hegningarlögum frá árinu 1869. Sambærilegt mál kom upp 58 árum síðar er Úlfar Þormóðsson, ritstjóri Spegilsins, var kærður fyrir guðlast árið 1983.
20/5 Kominn er út bæklingur eftir Brynjólf Bjarnason, er hann nefnir “Vörn í guðlastsmálinu”. Skýrir hann þar ummæli sín í ritdóminum og skilgreinir nánar hvað lá að baki orðum hans um guðshugmynd ríkjandi þjóðskipulags.
Brynjólfur var fundinn sekur fyrir að hafa "smánað guðshugtakið".
Flokkað undir: ( Guðlast )
Reynir (meðlimur í Vantrú) - 28/06/11 10:31 #
Engin furða að menn séu sauðskir þegar þeir kenna sig við sauðahjörð sem rekin er af hirðum, bæði á jörðu og himni.
Brynjólfur var fundinn sekur um að "smána guðshugtakið" en mikil er skömm þeirra sem sóttu þetta mál og dæmdu - og mikil er skömm Alþingis og okkar tæpri öld síðar að búa enn við þessa 125. gr. almennra hegningarlaga:
Engin hugmynd, stefna eða trú er hafin yfir gagnrýni, háð eða dár. (Ekki þessi fullyrðing heldur.)