Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Maltmálið 1993

Maltmálið mikla

Víst ávallt þeim vana halt,
vera hress og drekka Malt.
-Flosi Ólafsson

Árið 1993 tókst ríkiskirkjan aftur á loft vegna meints guðlasts. Í þetta sinnið útaf heilræðavísum séra Hallgríms Péturssonar í umsjón Flosa Ólafssonar. En einni vísunni hafði verið snúið í þágu Malt-auglýsingar sem gerð var fyrir Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Óhætt er að segja að ríkiskirkjan hafi gert sig að athlægi með frumhlaupi sínu í þessu sem og öðrum viðlíka málum.

Maltmálið var líklegast fyrsta guðlastamál herra Ólafs Skúlasonar biskups. Hann beitti sér mjög fyrir kristilegum siðbótum með því að finna skrattann í hverju horni. Til dæmis í útsendingum ríkissjónvarpsins. Sýning myndarinnar "Síðasta freisting Krists" og Spaugstofumálið eru góð dæmi um töluverðan áhuga biskups að bæla niður glæpi gegn ríkisguði landsins.

Engu að síður var litið það alvarlegum augum á þetta að frétt um kveðskapinn komst á baksíðu Morgunblaðsins. Þar þrýsti ríkiskirkjan á ríkissjónvarpið að stöðva birtingu auglýsingarinnar. Svo vel vildi til fyrir kirkjuyfirvöld að í stóli útvarpsstjóra sat klerkur að nafni séra Heimir Steinsson. Séra Heimir bannfærði auglýsinguna fljótlega eftir að neðangreind frétt birtist í Morgunblaðinu. Auglýsingarnar voru teknar af dagskrá RÚV stuttu síðar.

Stöð 2 sýndi þessa hressandi auglýsingu enda var stöðin ekki rekin frá biskupsstofu. Enginn var klagaður til ríkissaksóknara því kirkjuyfirvöld létu bannfæringu séra Heimis nægja í þetta skiptið. Birt var frétt um málið í Morgunblaðsinu þann 23. febrúar 1993 en blaðið greindi ekki frá bannfæringu séra Heimis:


Maltauglýsing með kveðskap séra Hallgríms umdeild
Biskupsritari biður RÚV að birta hana ekki oftar

AUGLÝSING, sem byggir á heilræðavísu eftir Hallgrím Pétursson og flutt hefur verið á sjónvarpsstöðvunum, hefur vakið umræður og þykir sumum að þar sé níðst á menningarverðmætum. Ölgerðin Egill Skallagrímsson er þarna að auglýsa maltöl. Biskupsritari hefur farið þess á leit við Ríkisútvarpið að auglýsingin verði ekki flutt oftar. Helgi Hálfdanarson gerir auglýsinguna að umræðuefni í pistli í Morgunblaðinu sl. laugardag og telur hana gróft dæmi um brot á friðhelgi andlegra verðmæta. Auglýsingastjóri Ríkisútvarpsins, telur ekkert athugavert við auglýsinguna. "Við höfum fengið margar upphringingar frá fólki sem sárnar hvernig snúið er út úr heilræðavísum Hallgríms í þessari auglýsingu. Þarna er verið að níðast á skáldskap sem mörgum er ákaflega kær og helgur," sagði Þorbjörn Hlynur Árnason biskupsritari, í samtali við Morgunblaðið.

Ekkert athugavert "Ég taldi mig ekki vera þann siðapostula að geta stöðvað þessa auglýsingu þótt það hafi verið nefnt við mig áður en byrjuðum með hana," sagði Halldór V. Kristjánsson auglýsingastjóri hjá Ríkisútvarpinu. Hann sagði að frá sínum sjónarhóli væri ekkert athugavert við auglýsinguna, það væri þó ljóst að hún kæmi misjafnlega við fólk og bæri hann fulla virðingu fyrir skoðunum allra. Varðandi tilmæli biskupsritara um að hætt verði að flytja auglýsinguna sagði Halldór að þau hefðu verið tekin til athugunar en yrðu ekki tekin til greina. Ætti að halda málinu til streitu yrði að vísa því til siðanefndar Sambands íslenskra auglýsingastofa. Halldór kvað það fara fyrir brjóstið á mörgum þegar þekkt listaverk væru notuð í auglýsingum en við því væri ekkert að gera. Auglýsingafólk hefði fullan rétt til að nota þetta efni og væri það að hans mati hluti af því lýræðis- og jafnréttisþjóðfélagi sem við byggjum í.

Ekkert niðrandi "Það kemur á óvart að fólk skuli vera að agnúast út í þessa auglýsingu, manni dettur helst í hug að sumir telji sig eiga allt menningarefni í landinu og enginn megi hrófla við því," sagði Helgi Helgasson framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Gott fólk, sem gerði auglýsinguna. Hann sagði að ýmsir virtust hafa horn í síðu allrar auglýsingastarfsemi og fyndu henni flest til foráttu. Svipaðar aðferðir hefðu verið viðhafðar í dægurlagatextum, notaðar ljóðlínur eftir sígilda höfunda og þá virtist enginn hafa neitt við það að athuga. Helgi benti á að í auglýsingunni væri ekki verið að meiða höfundinn og þar væri ekkert niðrandi. "Ég ólst upp við það að guðlast væri að leggja nafn guðs við hégóma. Ef einhver heldur því fram að hér sé guðlast á ferðinni verða menn að athuga að séra Hallgrímur var ekki guð. Mér þykir það ansi hart ef hann er kominn í guða tölu," sagði Helgi.

Frelsarinn 23.06.2011
Flokkað undir: ( Guðlast )

Viðbrögð


Valtýr Kári - 23/06/11 14:22 #

Ég mundi glaður skipta við gvuð á öllm hans unboðsmönnum hér á jörðu og honum Flosa Ólafssyni!

Sá maður var sko menningarverðmæti.


Þorgeir Tryggvason - 24/06/11 14:17 #

Ég man eftir Flosa bregðast við þessu banni. Hann velti fyrir sér hvort það hefði verið betra að hafa þetta:

Víst ávallt þeim vana halt vinna, lesa iðja, umfram allt þó ætíð skalt elska Guð og biðja – um malt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.