Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Spegilsmálið 1983

Þremenningarnir
Frá vinstri: Ragnhildur Helgadóttir fyrrverandi alþingismaður, Þórður Björnsson (1916-1993) fyrrverandi ríkissaksóknari og Úlfar Þormóðsson ritstjóri Spegilsins

Segja má að endurkoma Spegilsins árið 1983 - sem var spaugtímarit er tilheyrði gulu pressunni - hafi endað með galdrafári. Þegar annað tölublað Spegilsins kom út 4. júní sama ár bað Ríkissaksóknari lögreglu að gera upplag blaðsins upptækt. Í upphafi var blaðið gert upptækt vegna ærumeiðinga og kláms en á síðustu stigum málsins breyttist ákæran í guðlast og klám.

Grín Spegilsins á háttvirtri alþingiskonu Ragnhildi Helgadóttir, með fölsuðum grín-dagbókum í hennar nafni, var kveikjan að því að Þórði ríkissaksóknara var skipað að gera blaðið upptækt. Þannig var guðlast og klám aðeins fyrirsláttur til að vernda persónu þingkonunnar sem kunni alls ekki að meta húmor þeirra Spegilsmanna.

Ef til vill voru þessar aðgerðir á endanum færasta leiðin til að forða persónu hennar frá áberandi meiðyrðalögsókn með tilheyrandi endurtekningu á efninu. Hin siðprúða og guðhrædda Ragnhildur hafði mikinn áhuga á 125 gr. hegningarlaga um guðlast sem endurspeglast í umræðunni á Alþingi árið 1978 um barnabókina "Félaga Jesú".

Henni tókst að slá tvær flugur í einu höggi með því að forða persónu sinni frá spaugi Spegilsins og fá blaðið í staðin dæmt fyrir guðlast samkvæmt 125 gr. hegningarlaga. Í Öldinni Okkar má lesa um málið:

Öldin okkar

[Iðunn]

Spegillinn gerður upptækur
Ritstjórinn kærður fyrir guðlast

4/6 Ríkissaksóknari fór þess á leit við lögreglustjórann í Reykjavík að 2. tbl. Spegilsins, sem dreift var í verslanir fyrir skemmstu, yrði gert upptækt þar sem efni þess bryti í bága við almennt velsæmi. Voru lögreglumenn sendir í verslanir og tóku þeir það sem til náðist af upplaginu. Ritstjóri Spegilsins og forsvarsmaður “Félags áhugamanna um alvarleg málefni” sem gefur blaðið út, var þó ekki af baki dottinn. Lögreglunni mun hafa láðst að taka í sína vörslu upplíminga af blaði því sem gert var upptækt og gerði ritstjórinn sér lítið fyrir og lét prenta nýtt upplag og hafði raunar aukið við efnið frásögn af aðgerðum lögreglunnar. Að sögn hans var þetta gert svo að almenningi gæfist kostur á að kynna sér efni hins bannaða blaðs. Seinni prentun blaðsins var seld vegfarendum á Lækjartorgi. Var salan fljótlega stöðvuð af lögreglu. Það af blaðinu sem til náðist var gert upptækt og sölumenn teknir til yfirheyrslu. Þeim var þó sleppt fljótlega.

Unnið að upptöku Spegilsins

blíblí

Lögreglumenn þurftu að fara á milli söluturna að leita dyrum og dyngjum að blaðinu. Einnig var leitað á heimili útgefanda og blaðamanna Spegilsins. Vinsældir blaðsins voru miklar, því rýrnuðu upptækar birgðir verulega í vörslu hins opinbera. Á endanum varð ríkið að kaupa upptæku eintök Spegilsins, enda þótti ekki fært að klippa út dæmdan guðlastarhluta blaðsins og skila því svo til útgefanda. Þannig gerðist ríkið óvænt einn umsvifamesti kaupandi og lesandi guðlastsins.

Eftir upptöku spegilsins tók DV viðtal við Úlfar Þormóðsson og Þórð Björnsson ríkissaksóknara:

"EKKI KLÁM FREKAR EN NÝJA TESTAMENTIÐ" segir Úlfar Þormóðsson

“Ég hef talað þrívegis við ríkissaksóknara en hann neitar að svara til um hvers vegna hald var lagt á blaðið.” Þetta sagði Úlfar Þormóðsson aðstandandi Spegilsins í samtali við DV.

”Ríkissaksóknari neitar jafnframt að segja hver hafi kært blaðið til saksóknaraembættisins. Ég talaði við Þórð Björnsson ríkissaksóknara daginn eftir að hald var lagt á blaðið og sagði hann mér þá að hann væri ekki búinn að lesa það.”

-Fullyrt er að klám sé í blaðinu. Hvað viltu segja um það?
Ég segi það að þeir sem finna klám í blaðinu, þeir eru eitthvað svolítið veikir í huganum. Ég fullyrði að það er ekki meira klám í blaðinu en í Nýja testamentinu. Ef blaðinu er flett og aðeins horft á myndirnar gæti lesanda dottið í hug að um klám væri að ræða. En ef textinn er lesinn sér hver heilvita maður að svo er ekki. Útgáfan byggir á því að menn séu sjáandi og læsir.”
-Hve mikill kostnaður var við þetta tölublað?
“Kostnaðurinn er vel á fjórða hundrað þúsund. Með því að leggja hald á upplagið tekur ríkissaksóknari sér það vald að sekta mig um þessar 300 þúsundir. Hann er búinn að dæma mig með fáránlegum yfirlýsingum um innihald blaðsins.

Þetta þarf að sendast til heimsmetabókar Guinnes. Það þekkist ekki einu sinni austur í Rússía að menn séu dæmdir án þess að ákæra hafi verið gefin út. Ég mun að sjálfsögðu fara í skaðabótamál við embætti ríkissaksóknara ef hann heldur því til streitu að leggja hald á blaðið.”

Þórður Björnsson ríkissaksóknari sagði í samtali við DV að málið væri enn í rannsókn hjá embætti lögreglustjóra og ákvörðun um ákæru yrði tekin þegar skýrslur bærust embættinu. Blaðamaður DV leitaði álits Þórðar Björnssonar á ummælum Úlfars um að ríkissaksóknari hefði ekki lesið tölublað Spegilsins áður en ákveðið var að leggja hald á upplagið. Þórður Björnsson sagði ekki standa í neinum leiðréttingum eða ritdeilum við Úlfar Þormóðsson. Við svo búið neitaði ríkissaksóknari að ræða mál Spegilsins frekar.

7. júní mótmælir Blaðamannafélag Íslands meðferð hins opinbera á Speglinum:


BLAÐAMANNAFÉLAGIÐ MÓTMÆLIR AÐFERÐUM HINS OPINBERA

“Aðalfundur Blaðamannafélags Íslands, haldinn 4. júní 1983, fordæmir þær aðferðir sem beitt var af hálfu hins opinbera þegar “Spegillinn” var gerður upptækur að kvöldi 30. maí sl.” Segir í ályktun sem samþykkt var samhljóða á aðalfundi Blaðamannafélagsins. Síðan segir: “Ef stjórnvöldum líkar ekki það sem fram kemur í fjölmiðlum geta þau leitað réttar síns fyrir dómstólum. Stjórnarskráin felur dómstólum að skera úr í deilum um það hvort gengið hafi verið yfir einhver mörk í prentuðu máli.

Aðalfundurinn bendir á hið hættulega fordæmi sem felst í þessum aðgerðum hins opinbera – án þess að í því felist nokkur afstaða til innihalds hins upptæka blaðs – og skorar á löggjafarvaldið að gangast þegar í stað fyrir endurskoðun á löggjöfinni um prent- og tjáningarfrelsi. Þannig að þessari grundvallaratriði í lýðræðisskipulaginu verði betur tryggð í framtíðinni.”

Guðlastadómur

Ákæra fyrir guðlast var svo birt þann 29. júní 1983. 1. desember sama ár var dómur kveðin upp í sakadómi Reykjavíkur. Einn af dómurum í sakadómi var séra Bjarni Sigurðsson sem dæmdi fyrir hönd kirkjuyfirvalda í máli Úlfars. Stækur miðaldafnykurinn af gömlu rannsóknarréttum kristninnar angaði svo af þessu máli að sumir hlutu að hafa sviðið í augun.

Hæstiréttur 1984 bls.858

Dómsorð:

Ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða, Úlfars Þormóðssonar, á að vera óröskuð, en greiðslufrestur sektar er vikur frá birtingu dóms þessa.

Ákærði sæti upptöku á framangreindu lesmáli og myndefni í 4445 eintökum 2. tölublaðs 43. árgangs blaðsins Spegilsins og í 172 eintökum 1. tölublaðs 1. árgangs blaðsins Samvisku Þjóðarinnar, svo og myndmótum og offsetfilmum, er þetta efni varðar.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eiga að vera óröskuð. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 20.000.00 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurmars K. Albertssonar héraðsdómslögmanns, 20.000.00 krónur.

Guðlastið ógurlega

Blaðsíða

Þar sem blaðið er bannað samkvæmt lögum er ekki hægt að skoða það á tímarit.is. En hvað var svona agalegt í þessu tímariti að það vakti svona óvægin og hörð viðbrögð yfirvalda? Myndin hér að ofan er úr greininni sem varð kveikjan að guðlastakærunni. Greinin er yfirstrikuð vegna dómsins. Þetta er stórhættulegt stöff. En auk málatilbúnaðs ríkissaksóknara er engu síður hægt að lesa greinina orðrétt í riti Hæstaréttar 1984, blaðsíður 864-865:

Meginmál greinarinnar sem ákært er út af er á þessa leið:

"Þetta er hvort tveggja lögbrot og regin hneyksli. Að hugsa sér að það skuli hafa verið látið átölulaust hingað til að þjónar Guðs freisti barna með áfengi, sem leiðir til ofdrykkju, glæpa, rána, morða og alkóhólisma. Og það í kirkjum landsins. Ég gat ekki horft uppá þetta lengur. Þess vegna kærði ég" sagði Erna Guðmundsdóttir, sanntrúuð kona og bindindissöm, er Spegillinn hitti hana að heimili hennar í Njarðvíkunum á dögunum.

"Hér hef ég myndir af Óla bróður mínum, sem segja meira en mörg orð um nauðsyn þess að stöðva þegar brennivínsgjafir prestanna" sagði Erna að lokum og krafðist þess að við birtum myndirnar.

Til vinstri Ólafur á fermingardaginn. Til hægri Ólafur 12 árum eftir altarisgönguna.

Myndina tók Erna er hún loks hafði upp á bróður sínum en hann "býr" í Harlemhverfinu sem svo er nefnt. Hún færði honum ýmsan prentaðan fróðleik um áfengisbölið og reyndi með fortölum að fá hann til að snúa úr því spori, sem altarisgangan hafði beint lífi hans í."

Útigangsmaður

Til vinstri við textann er mynd af fermingardreng í kyrtli, og heldur hann á sálmabók, en til hægri er mynd af öldruðum mæðulegum blökkumanni, sem hallar sér fram með hendur undir kinnum. Við hlið hans er blaðabunki og slitnar tuskur breiddar yfir hann. Fyrir ofan meginmálið er fyrirsögn með stóru letri í þrem línum: "Ofbeldi, rán, glæpir og morð." Þar fyrir ofan er önnur undirstrikuð fyrirsögn með stækkuðu letri, en þó minni en í aðalfyrirsögn, á þessa leið: Afleiðingar altarisgöngunnar.

Við úrlausn þessa sakarnefnis ber að hafa í huga, að altarissakramentið, öðru nafni heilög kvöldmáltíð, er helgasta athöfn kristinnar guðsdýrkunar og annað tveggja sakramenta evangelískrar lúterskrar kirkju. Kristur efndi sjálfur til þessarar helgiathafnar kvöldið áður en hann var krossfestur, á skírdagskvöld, og fylgjendur hans hafa óslitið haft það um hönd allar götur síðan. Altarissakramentið hefur fjölþætta merkingu. Það er víða nefnt í Nýja testamentinu, og er ljóst, að fyrstu kristnu söfnuðirnir hafa safnast saman og sameinast um þessa táknrænu athöfn og hafa leitað í henni samfélags við Krist með sérstökum hætti. Þeir hafa í sakramentinu minnst fórnar hans með þakkargjörð, leitað fyrirgefningar og tengst í kærleika innbyrðis. Kristnir menn sækja því umfram allt trúarlífi sínu næringu í heilaga kvöldmáltíð. Viðhorf kristinna manna til altarissakramentisins er enn óbreytt frá því í árdaga. Táknin eru enn hin sömu, brotning brauðs og neysla brauðs og víns. Mönnum er einnig við altarisgöngu í sjálfs vald sett, hvort þeir neyta vínsins eða ekki.

Verndarandlag 125. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er trúartilfinning fólks og réttur þess til að hafa hana í friði, sé um að ræða trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags samkvæmt 63. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þar sem alkunna er, að altarissakramentið og þátttaka í því er kjarnaatriði evangelisk-lúterskrar trúarkenningar og trúariðkunar, telur dómurinn, að birting ofangreinds les- og myndefnis sem heild varði við lagagreinina, enda verður birting þessa efnis hvorki talið framlag til málefnalegrar umræðu um trúmál né hún talin hafa listrænt gildi.

Ekki verður talið, að lagagreinin sé fallin úr gildi fyrir notkunarleysi, þegar haft er í huga, að almennt sneiða menn hjá brotum af þessu tagi vegna virðingar fyrir trúarskoðunum annarra og þeim, sem kann að sýnast nærri trúarsannfæringu sinni hoggið, finnst e.t.v. ekki rétt að hefjast handa og sitja á sér að láta sverfa til stáls. Ekki verður heldur fallist á, að 233. gr. a. hegningarlaganna hafi rýmt út 125. gr. laganna, þar sem verndarandlag hennar er annað og víðtækara, hún verndar önnur huglæg gildi með afdráttarlausum hætti, m.a. er það gert refsivert að hæða og smána aðrar tilfinningarlegar eigindir en trúarbrögð.

Með vísan til ábyrgðarreglna 10. og 15. gr. laga um prentrétt telst ákærði því hafa brotið gegn 125. gr. almennra hegningarlaga og því unnið til refsingar samkvæmt henni, enda hefur ákærði játað, að hann beri einn ábyrgð á birtingu efnisins.

Árið 1984 gaf Úlfar Þormóðsson út bókina "Bréf til Þórðar frænda" sem var svar hans til þáverandi Ríkissaksóknara Þórðar Björnssonar vegna ákæru embættisins á hendur honum vegna útgáfu Spegilsins. Bókin kom út eftir dóm héraðsdóms en þá átti Hæstiréttur eftir að dæma í málinu. Ákærur vegna kláms voru síðar að mestu felldar niður í Hæstarétti en guðlastdómur héraðsdóms stóð óhaggaður.

Þriðjudaginn 26. júní 1984 er dómur sakadóms yfir Úlfari Þormóðssyni staðfestur og er hann því eini núlifandi íslendingurinn sem dæmdur hefur verið fyrir guðlast. Segja má að hann sé okkar eigin Salman Rushdie með þeirri undantekningu að dómnum var ekki fullnægt yfir Rushdie.

Frelsarinn 15.06.2011
Flokkað undir: ( Guðlast )

Viðbrögð


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 15/06/11 14:31 #

Það væri snilld ef Vantrú kæmist yfir eintak af blaðinu og myndi birta greinina eins og hún var uppsett.


Jón Frímann - 15/06/11 20:13 #

Þá er það verkefni fyrir mig að komast yfir eintak af þessu blaði, og birta það.


Guðmundur - 15/06/11 22:44 #

Spurning að tala bara beint við Úlfar? Annars á Þjóðdeildin í Þjóðarbókhlöðunni öll eintök af öllum útgefnum tímaritum, og ég held að það eigi að vera hægt að fá afrit (a.m.k. ljósrit, veit ekki með þróaðri afritunaraðferðir)


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 16/06/11 17:04 #

Einsog kemur fram í greininni þá er þetta yfirstrikaða greinin:

"Þetta er hvort tveggja lögbrot og regin hneyksli. Að hugsa sér að það skuli hafa verið látið átölulaust hingað til að þjónar Guðs freisti barna með áfengi, sem leiðir til ofdrykkju, glæpa, rána, morða og alkóhólisma. Og það í kirkjum landsins. Ég gat ekki horft uppá þetta lengur. Þess vegna kærði ég" sagði Erna Guðmundsdóttir, sanntrúuð kona og bindindissöm, er Spegillinn hitti hana að heimili hennar í Njarðvíkunum á dögunum.

"Hér hef ég myndir af Óla bróður mínum, sem segja meira en mörg orð um nauðsyn þess að stöðva þegar brennivínsgjafir prestanna" sagði Erna að lokum og krafðist þess að við birtum myndirnar.

Til vinstri Ólafur á fermingardaginn. Til hægri Ólafur 12 árum eftir altarisgönguna.

Myndina tók Erna er hún loks hafði upp á bróður sínum en hann "býr" í Harlemhverfinu sem svo er nefnt. Hún færði honum ýmsan prentaðan fróðleik um áfengisbölið og reyndi með fortölum að fá hann til að snúa úr því spori, sem altarisgangan hafði beint lífi hans í."

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.