Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Veðmál Pascals

Pascal

Margir trúaðir beita einhverri útgáfu af veðmáli Pascals í von um að sannfæra aðra um að það sé þess virði að trúa á æðri mátt. Ætlunin mín er að taka fyrir helstu rökin fyrir því að veðmálið standist enga skoðun í von um að fólk hætti að beita því sem rökum fyrir því að trúa á ákveðinn æðri mátt.

Stutta útgáfan af veðmálinu er þannig að fólk hefur óendanlega meiri ávinning af því að trúa frekar en að trúa ekki, óháð því hvort guð sé til eða ekki. Niðurstaðan er samkvæmt veðmálinu að maður hefur allt til að vinna og engu að tapa á því að trúa. Það eru fjórar mögulegar útkomur eftir að maður deyr:

1. Ef guð er til og þú trúir = Óendanleg hamingja í himnaríki.
2. Ef guð er til og þú trúir ekki = Ekkert gerist eða óendanlega slæmar afleiðingar. (fer eftir söfnuðnum)
3. Ef guð er ekki til og þú trúir = Ekkert.
4. Ef guð er ekki til og þú trúir ekki = Ekkert.

Sjónarhornsgalli

Þegar veðmálinu er beitt er einn galli sem trúaðir gera sér sjaldan grein fyrir: hinn trúlausi trúir ekki á eftirlíf. Það þýðir lítið að reyna að bera gull og græna skóga á hinn trúlausa þegar hann hefur engar forsendur til að trúa því að eftirlífið sé raunverulegt. Sama gildir um hótanir um slæmar afleiðingar ef hann óhlýðnast. Endilega hótið okkur vist á slæmum stað sem við trúum ekki á, það mun örugglega sannfæra okkur trúlausa um að trúa á ykkar eftirlíf.

Að sama skapi er erfitt að réttlæta það að hinn trúlausi ætti að verja lífi sínu á að trúa í þeirri von að hann komist til himnaríkis. Í augum þeirra eiga allir bara eitt líf og því ber að njóta. Af hverju ætti hann að tileinka það veru sem hann trúir ekki að sé til?

Segjum að hinn trúlausi kaupi rökin að hann ætti að tilbiðja æðri máttinn í þeirri von að ef hann er til, þá lendi hann í himnaríki. Væri slíkt ekki blekking sem æðri mátturinn myndi sjá í gegnum? Myndi trúaða manneskjan (sem væri að beita veðmálinu) ekki vilja að allir fylgjendur síns æðri máttar væru heiðarlegir hvað trúrækni þeirra varðar?

Fleiri en ein trúarbrögð

Segjum svo að búið sé að sannfæra trúleysingjann um að það sé eftirlíf. En hverjar eru kröfurnar (ef einhverjar) svo hægt sé að njóta þess? Nú vandast málin þar sem trúfélagsgreinarnar eru nokkuð margar. Svo dæmi sé tekið eru að minnsta kosti 33 stórar greinar út frá kaþólsku kirkjunni. Sumar greinar eru útilokandi frá öðrum svo það er ekki hægt að vera í náð beggja á sama tíma, jafnvel þótt um sé að ræða sama guðinn. Eitt besta dæmið um þetta er gyðingdómurinn og kristni þar sem ekki er hægt að afneita Jesú og upphefja hann sem son guðs á sama tíma. Hvað ef allir hafa rangt fyrir sér og ?hinn sanni? æðri máttur hefur ekki verið uppgötvaður? Hvað ef þetta líf hefur engin áhrif á stöðu manns í eftirlífinu?

Hvað ef við tökum veðmálinu?

Nú hefur fyrrverandi trúleysinginn tekið veðmálinu og byrjar að rækja ákveðna trú sem hann telur að sé líklegust til að koma á góðan stað í eftirlífinu - ef það er til. Líf hans mun nú snúast um það að lifa af, eins og áður, en núna þarf hann að finna tíma til að gera það sem trúin krefst af honum. Sum trúarbrögð krefjast þess að fólk verji aukatíma sínum í að breiða út boðskapinn til annarra eða í aðrar athafnir.

Ekki nóg með að þau krefjist þess að maður geri eitthvað, heldur fara þau líka út í það að banna manni að gera hluti. Ef þetta væru hlutir sem trúleysingjum langar að gera, þá þyrfti þeir ekkert að trúa til þess að gera þá. Trúin væri sem sagt byrjuð að stjórna lífi fyrrverandi trúleysingjans og eyða þeim dýrmæta tíma sem hann hefur í þessu lífi vegna fáránlegs veðmáls sem stenst enga skoðun.

Svavar Kjarrval 29.05.2011
Flokkað undir: ( Rökvillur )

Viðbrögð


Ragnar Þór Pétursson - 29/05/11 10:19 #

Þetta er mjög gruggugur pistill. Og alls ekki til þess fallinn að höggva á vandann við veðmál Pascals. Veðmálið er, eins og Anselm-rökin, mjög öflug röksemd – fyrst og fremst vegna þess hve hugmyndin er skýr og einföld. Rökvillan er lúmsk – og liggur sannarlega ekki í því að til eru mörg trúfélög eða að Pascal gleymi að gera ráð fyrir vantrú.

Hér er kjarni málsins aðeins strokinn lauslega.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 29/05/11 13:00 #

Verð að vera ósammála þér Ragnar, þetta er mjög fín grein sem afgreiðir rökvillurnar í veðmáli Pascals á skýran, einfaldan og endanlegan hátt. Það er algjör óþarfi að flækja málið frekar.


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 29/05/11 13:12 #

Greinin hefði verið alltof löng ef ég hefði farið út í hvern einasta galla í veðmáli Pascals.


Ragnar Þór Pétursson - 29/05/11 13:50 #

Veðmál Pascals snýst um einn einfaldan hlut: Ef hvorki er hægt að sanna A né B en afstaða A er miklum mun ábátasamari en B – hví þá að velja B?

Svarið við því er margþætt. Getur falist í skilgreiningu á „sönnun“ eða styrk sönnunargagna. Getur líka falist í einhverju allt öðru. En það getur ekki falist í því að A eða B séu upphafspunktar sem maður metur stöðuna út frá. Sá sem hefur þegar valið A mun áfram velja A hvað sem B sinnar segja og öfugt. Efinn, óvissan er það sem gerir veðmálið relevant.

Þú, Svavar, sakar kristna um að gleyma þessum efa en kjarninn hjá þér er að þú tekur þennan efa af þeim vantrúuðu. Hví skyldu þeir trúa á Guð þegar þeir gera það hvorteðer ekki?


Ragnar Þór Pétursson - 29/05/11 13:50 #

Þetta snýst ekki um lengd. Þetta snýst um nákvæmni.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 29/05/11 14:10 #

En svarið er afgreitt á einfaldan hátt, leið B er ekki ábatasamari nema þú gefir þér ákveðnar forsendur. Og ef þú gefur þér þær, þá þarftu hvort sem er ekki veðmál Pascals til að taka afstöðu.


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 29/05/11 14:24 #

Ég er ekki alveg að skilja inntak þitt, Ragnar, en skal reyna að svara eftir bestu getu.

Greinin fjallar um tilraunir trúmanna til að reyna að sannfæra trúlausa um að trúa með því að sannfæra þá um að það sé réttara að trúa, ef ske kynni að æðri mátturinn sé til. Ég kannast ekki við að hafa ritað greinina með þeirri forsendu að trú eða trúleysi sé vegur sem fólk getur ekki farið af.

Það er til fólk sem er mjög ginnkeypt fyrir rökleysum eins og veðmáli Pascals og vona ég að það geri sér grein fyrir fáránleika veðmálsins áður en það verður svo innlimað í trú að það geti ekki horfið þaðan án slæmra afleiðinga.

Að lokum er greinin einnig fyrir trúfólk sem notar veðmálið sem sannfæringartól um að fólk ætti að trúa "just in case". Trúfólkið sem les greinina mun þá vonandi hætta að nota þessa aðferð þegar það gerir sér grein fyrir því hversu fáránleg beiting hennar er.


Ragnar Þór Pétursson - 29/05/11 14:36 #

Valgarður: „B er ekki ábátasamari nema þú gefir þér ákveðnar forsendur“

Eina forsendan sem gefa þarf er sú sem felst í B til að byrja með. Það eru engar viðbótarforsendur í spilinu.

A er ábátasamari ef A reynist rétt. B ef B reynist rétt. Punktur.

Veðmálið snýst svo um það hvað „skynsamlegast“ sé að gera ef ekki er hægt að greina á milli A og B með rökum.

Gagnrýni á veðmál Pascals hlýtur á endanum að snúast um að hægt SÉ að greina á milli A og B með skynsamlegum rökum og þar með bakka aðra „skoðunina“ upp, hefja hana upp yfir hina.

En það er algjörlega máttlaus mótrök að segja að sá sem á annað borð er sannfærður um A mun ekki láta sannfærast af B. Ekki síst vegna þess að hér er í raun ekki um tvo kosti að ræða. Þetta snýst um A og ekki-A. Það er, neitun fullyrðingar og fullyrðingu.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 29/05/11 14:59 #

En hvað ef að C er rétt og til er almáttug vera sem hefur sérstakt dálæti á guðleysingjum og mun veita þeim himnavist að lífi þeirra loknu en muni kvelja trúað fólk um alla eilífð þegar þeir hrökkva uppaf.

Því að það eru nákvæmlega jafn mikil gögn sem styðja þennan möguleika og möguleika A. Þ.e.a.s. engin.

Og þannig verðum við að álikta að báðir séu jafn líklegir og ógildi í raun hugsanlegan ávinning af hvor öðrum.


G. - 29/05/11 15:09 #

Verð að vera sammála fyrrum samnemanda mínum Ragnari, a.m.k. að hluta. Ekki að ég ætli að vera Pascal, ég held að rökin hans gangi ekki upp, né guðstrú, enda sjálfur trúlaus. En kafli Svavars um sjónarhornsgallann sýnist mér samt vera óskýr rökleysa.

Svavar segir "Þegar veðmálinu er beitt er einn galli sem trúaðir gera sér sjaldan grein fyrir: hinn trúlausi trúir ekki á eftirlíf." Já, það vita það allir, bæði trúlausir jafnt sem trúmenn. En þetta hugsunartilraun, sem hinn trúlausi er beðinn um að gera: þ.e.a.s. trúmaðurinn segir við trúleysingjann "Hvað ef það er til eftirlíf ... ?" og þá má trúleysinginn ekki bara segja "Nei, ég trúi ekki á svoleiðis!" Því það jafngildir því að taka ekki veðmálið til skoðunar. Sem sagt, ekki bara það að trúleysinginn fallist ekki á rökin, heldur vill hann ekki íhuga þau.

Svavar orðar að vísu kostina þannig að annaðhvort sé guð til eða ekki og svo geti maður annaðhvort trúað eða ekki. En svo teflir hann fram þeirri staðreynd að trúleysinginn trúi ekki á eftirlíf sem einhverjum sjónarhornsgalla en það er auðvitað heimatilbúinn vandi því eftirlífið er hluti af pakkanum ef guð er til í þessu veðmáli.

Trúleysingi getur alveg tekið svona skilyrta röksemdafærslu til skoðunar án þess að fara í keng út af því að hann trúi ekki á eftirlíf. Alveg eins og hann getur hugleitt óraunveruleg skilyrðissambönd af hvaða tagi sem er. Trúleysingi getur t.d. alveg metið hýpótesur eins og "Hvað ef það væri til lækning við alnæmi, væri þá ekki rétt að ... ?" án þess að fara í keng og svara "En það er ekki til lækning á alnæmi!" eða "Ef það fyndust sannanir fyrir tilvist geimvera, þá myndi ..." án þess að hrökkva í kút og benda á að það séu nú ekki til neinar sannanir fyrir slíku.

Það er sem sagt hárrétt hjá Ragnari að vandinn við veðmál Pascals er alls ekki það að Pascal gleymi að gera ráð fyrir vantrú trúleysingjans. Trúleysinginn er beðinn um að fallast á að annaðhvort sé guð (og eftirlíf) til eða ekki -- sem hann gerir ("annaðhvort p eða ekki-p", enginn myndi hafna því óháð því hvort sá hinn sami trúir fullyrðingunni p eða fullyrðingunni ekki-p). Svo er hann beðinn að meta stöðuna ef guð væri til annars vegar og ef guð væri ekki til hins vegar eftir því hvort hann tryði eða tryði ekki. Þetta er ekki vandinn við rökin!

Ég er hins vegar ósammála Ragnari um að það sé enginn vandi fyrir Pascal að það séu til mörg trúfélög eða mörg trúarbrögð; það er sannarlega raunverulegt vandamál fyrir Pascal.


G. - 29/05/11 15:14 #

"vera Pascal" á auðvitað að vera "verja Pascal" hér að ofan.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 29/05/11 15:16 #

Ég sneri víst við A og B úr þinni líkingu, en punkturinn er að til þess að veðmál Pascals skipti máli þarftu að gefa þér forsendur sem eru innifaldar í veðmálinu.


Sigurgeir - 29/05/11 15:42 #

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki enn að ná því sem Ragnar og G. sjá að greininni. A er ábátasamara ef það reynist rétt, en B breytir ekki máli, en A breytir þá eingu ef það reynist rangt.

En til að fá þá hugsun að A sé ábátasamari þá þurfum við að gera okkur upp vissar forsendur, Þurfum að spyrja "hvað ef". Svo fyrst þegar við gerum okkur upp þessar forsendur, eilíft líf með guði eða annað slíkt, þá fyrst sjáum við hversu ábátasamt A er.


Ragnar Þór Pétursson - 29/05/11 15:59 #

G.

Vissulega er fjöldi trúarbragða vandamál. En það vandamál er angi af öðru vandamáli sem í grunninn er þetta: Segjum sem svo að þessi ávinningur sé til staðar – hvernig má ég tryggja mér hann?

En ég held það komi aldrei til þess að sá sem ætlar að fjalla í stuttu máli um veðmál Pascals þurfi að eyða tíma í þá spurningu. Veðmálið er gallað á grundvallarleveli. Sem í sjálfu sér er sami galli og á verufræðirökunum hans Anselms.

Það, að hægt sé að hugsa sér, fullkomna eða hagfellda ástæðu til breytni – getur aldrei „af sjálfu sér“ orðið ástæða til breytninnar – jafnvel ekki þótt ávinnignurinn sé margfaldaður til að vega upp á móti litlum líkum.


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 29/05/11 18:15 #

Auðvitað á fólk ekki að útiloka hluti blákalt svo hugsanatilraunir eru alveg réttlætanlegar að því leiti. En það borgar sig að taka þær með fyrirvara og helst ekki byggja of mikið á þeim. Sé það gert er mikil hætta á að tilraunin leiði út í bull eða rosalega óraunhæfar pælingar.

En hvað ef það væri til trúleysisguð sem myndi refsa manni í eftirlífinu ef maður byrjaði að tilbiðja æðri mætti? Væri það réttlát ástæða til þess að halda sig frá trúarbrögðum?


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 29/05/11 19:42 #

Veðmál Pascals ætti frekar að heita beðmál trúmanna. Það er hægt að setja inn hvaða ímyndaða jákvæða afleiðingu í stað guðstrúar til að komast að sömu niðurstöðu fyrir trúmenn. Þess vegna flokkast þetta ekki undir veðmál, heldur lélegt aflátsbréf. Það er eflaust hægt að kaupa slíkar tryggingar ennþá í Róm.


Sveinn Þórhallsson - 31/05/11 07:38 #

Vandinn við veðmál Pascals er í grunninn þessi: Það gerir ráð fyrir því að fólk geti tekið meðvitaða ákvörðun um að trúa/trúa ekki.


Jóhannes - 31/05/11 11:55 #

Mér finnst þetta veðmál eiga rétt á sér. Það eina sem vantar inn í eru líkur á tilurð eilífar sælu og væntanlegur gróði af lífinu. Væntanlegur vinningur trúaðra svona:

Væntanlegur vinningur af lífi og eftirlífi gefið að þú sért trúaður = vinningur af lífi gefið að þú sért trúaður + vinningur af eftirlífi * líkur á að eftirlíf sé til * líkur á að þú hafir hagað þér rétt

Styttri útgáfa E[L og eL | trú]=E[L|trú] + V(himnaríki)P(himnaríki)P(hegðun)


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 09/06/11 13:37 #

Kannski má skýra þetta betur með því að vísa til hefðbundinna veðmála.

Veðmál Pascals lítur fyrir okkur trúlausum út eins og að leggja aleiguna undir að fá tvær sjöur í teningakasti, fimm eins í póker eða 61 í rúllettu.

Í báðum tilfellum er verið að veðja "öllu" á eitthvað sem engar upplýsingar eru til um að geta verið til staðar og ekkert sem bendir til að geti gengið eftir.


U - 09/05/12 10:04 #

Mér finnst rökvillan í veðmáli Pascals liggja í því að hann gerir ráð fyrir því að það sé einungis "annaðhvort-eða"..

Hann útilokar alla aðra möguleika..

Maður gæti hugsað sér að líkurnar á að vinna í lottó séu 50/50 þar sem maður annaðhvort vinnur eða ekki, ekki satt?


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 10/05/12 09:22 #

Það er rétt hjá þér, U.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.