Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Getuleysi eða áhugaleysi?

Prestar

Er ríkiskirkjan getulaus eða áhugalaus um samskipti við trúleysishópa? Leitað verður svara við þessari merkilegu spurningu í október:

Vangaveltur um kirkju og kristni býður til námskeiðs, samveru og samtals miðvikudagskvöldið 5. október 2011, kl. 19:30-21:30. Umræðuefnið verður trúleysishreyfingar á Íslandi. Meginverkefni samverunnar er að leita svara við spurningum um hvort þjóðkirkjan geti og/eða eigi að leitast við að eiga í samtali við slíkar hreyfingar og ef svarið er játandi á hvaða hátt slíkt sé mögulegt.

Í fyrstu virðist spurningin undarleg, jafnvel kjánaleg, en þegar betur er að gáð er fullt tilefni til að velta þessu fyrir sér. Raunar varpaði ég sömu spurningu fram fyrir ári. Enginn þarf að efast um að ríkiskirkjunni stendur veruleg ógn af "trúleysishreyfingum" því þær grafa undan stöðu hennar með tilveru sinni einni saman. Fólk kemst ágætlega af án ríkisstyrktra trúarbragða og sér meira að segja margt gagnrýnisvert við þjóðtrúna.

Á vantrú.is er fjöldi greina um framgang og málflutning guðsmanna en jafnvel þótt þeir séu látnir vita af greinum um gjörðir þeirra eða orð gera þeir nær aldrei tilraun til svara. Eitthvað af því sem við segjum hlýtur þó að vera svaravert. Þá vaknar spurningin um hvort getu- eða viljaleysi er um að kenna. Þriðji möguleikinn er líka fyrir hendi og hann er kjarkleysi.

Blammering um kjarkleysi kann að virðast barnalegur skætingur eða einfeldningsleg brýning - sem dæmd er til að mistakast. En hræðsla við Vantrú er engin ímyndun, eins og við höfum orðið áþreifanlega vör við. Fáfræði og hræðsla við hið óþekkta er uppskrift að fordómum. Nú vitum við að forstöðumaður starfshóps ríkiskirkjunnar um samskipti við önnur trúarbrögð elur beinlínis á fordómum um trúleysingja og því er skelfing trúmanna að einhverju leyti skiljanleg. Óafsakanleg, en skiljanleg.

Þegar 73% landsmanna vilja aðskilnað ríkis og kirkju og traust til þjóðkirkjunnar hefur dalað jafnt og þétt úr 60% um aldamót í tæp 40% í fyrra, og ánægja með störf biskups er komin niður í 24% ætti það að duga til að vekja jafnvel mesta þurs úr dvala. Mig grunar hins vegar að ríkiskirkjumenn séu í afneitun, þeir neita að horfast í augu við staðreyndir, enda er það einmitt grunnforsenda trúar þeirra.

Svo eru kannski sumir búnir að sætta sig við að ríkiskirkjan og trúarbrögðin eru í andaslitrunum en hafa ákveðið að njóta á meðan á nefinu stendur og telja að besta leiðin til að halda lífi í bákninu sé að læðast með veggjum og rugga ekki bátnum. Hvað ætti svo sem að fást með því að "eiga samtal" við trúleysishreyfingar? Svarið við því er einfalt:

Ærlegir trúmenn vilja meina að gagnrýni á trúarbrögð þeirra og kirkju sé oft ósanngjörn og byggð á misskilningi. Með samtali við trúleysingja gætu þeir reynt að leiðrétta þennan misskilning. Samskipti verða líka oftast betri þegar menn kynnast. Trúmenn gætu líka komist að raun um að margar af helstu kröfum trúleysingja eru sanngjarnar og hófstilltar. Með því að koma til móts við þær gætu þeir eflaust dregið verulega úr gagnrýni og aukið á ánægju með störf sín, jafnvel traust. Einhverjum gæti þótt það verðugt markmið í ljósi aðstæðna.

Reynir Harðarson 27.05.2011
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Helgi Laxdal - 27/05/11 12:15 #

Góð grein, og verðugt umhugsunarefni.


bjarki - 27/05/11 12:47 #

áhugavert..ég ætla að mæta ef ég man eftir því.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 27/05/11 21:14 #

Trúleysishreyfingar? Eru þær margar á Íslandi? Mér dettur reyndar bara ein í hug, Vantrú. Siðmennt er húmanistahreyfing fyrst og fremst ekki satt eða fellur hún þar undir?

Er ég að gleyma einhverjum?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/05/11 23:04 #

Spjallhópur Siðmenntar, Samfélag trúlausra (SAMT), getur flokkast undir slíkan.


Halldór Benediktsson - 28/05/11 09:01 #

Ég hugsa að höfundur orðsins taki Siðmennt þar inn í. Líklega eru allar hreyfingar sem standa á móti kirkjunni trúleysishreyfingar samkvæmt þjóðkirkjufólki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.