Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Túlkunaráráttan

Biblí

Stundum er því slengt fram í okkur trúleysingja að við séum óttalegir bókstafstrúarmenn. Yfirleitt gerist þetta þegar við vitnum í óþægilega kafla í Biblíunni, þegar við bendum á að túlkun einhvers trúmannsins á ákveðnum orðum úr Biblíunni sé hæpin eða þegar trúmenn reyna að eigna orðum Biblíunnar siðferði og gildi dagsins í dag.

Rökin fyrir því að við séum bókstafstrúarmenn eru þau að við gleymum því að túlka þurfi orðin í Biblíunni. Það er nefnilega ekki bara hægt að lesa þau eins og þau standa og halda að merking þeirra sé sú augljósa. Ó nei. Til þess að vel sé þarf sá sem túlkar orðin helst að vera með fimm ára nám í prestadeild HÍ að baki.

Það er hálf furðulegt þegar lútherskir prestar beita fyrir sig háskólanámi gegn túlkunum annarra á Biblíunni. Er það í anda Lúthers að trúaryfirvöld séu einráð um „rétta“ túlkun á trúarritinu?

En þetta er ekki það sem vekur mesta athygli við túlkunarþörf kristinna trúmanna. Athyglisvert er að merking orða Biblíunnar virðist þróast nánast algjörlega eins og almenn viðhorf og gildi í viðkomandi samfélagi. Í gegnum tíðina höfum við séð túlkun manna á viðhorfum sem finna má í Biblíunni til hluta eins og þrælahald, kynlíf, dans, samkynhneigð og skilnaða breytast algjörlega í takti við viðhorf samfélagsins. Aldrei er Biblían á undan heldur þurfa frjálslyndari trúmenn að draga hina íhaldssamari sparkandi og ýlandi á eftir sér inn í nútímann, eins og við höfum og erum að upplifa varðandi viðhorf ríkiskirkjunnar til samkynhneigðra.

Biblían er ein af grunnstoðum kristinnar trúar. Hún er orð guðs sem heitir Guð. Ef menn trúa því virkilega að bókin sé innblásin af heilögum anda sem hafi viljað koma ákveðnum skilaboðum á framfæri þá skulda menn nú útskýringu á því af hverju andinn var svona óskýr. Af hverju sagði hann ekki bara það sem hann meinti?

Ef menn átta sig á því að Biblían er samin af mönnum sem bjuggu í samfélagi sem var svo ólíkt því sem við búum í að stór hluti, jafnvel meirhluti, af því sem í bókinni stendur á einfaldlega ekki við eða er jafnvel algjörlega á skjön við almenningsálitið þá eiga menn bara að segja það og hætta þessum túlkunarleik.

Það dettur engum í hug að túlka atburði Njálssögu eins og hún hafi verið samin á Íslandi árið 2011. Það sama ætti að gilda um aðrar gamlar skáldsögur.

Egill Óskarsson 26.05.2011
Flokkað undir: ( Biblían )

Viðbrögð


Guðbergur Ísleifsson - 26/05/11 09:25 #

[ athugasemd færð á spjallborð ]


Guðbergur Ísleifsson - 26/05/11 11:58 #

[Viðkomandi er bent á spjallið]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.