Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kynþáttafordómar Þjóðkirkjunnar

Moroni

Nýlega var alþjóðlegur baráttudagur gegn kynþáttamisrétti. Af því tilefni hélt ný Þjóðmálanefnd ríkiskirkjunnar málþing. Í öllum erindunum var auðvitað talað gegn fordómum og hvað þeir væru slæmir, en mér fannst alveg vanta viðurkenningu á því að kirkjan er enn að boða fordóma gegn ákveðnum hópi fólks.

Þessi hópur er trúleysingjar. Trúleysingjar eru auðvitað ekki kynþáttur, en samkvæmt fyrirlestri formanns Þjóðmálanefndarinnar er kynþáttamisrétti ekki bara þegar fólki er beitt misrétti vegna kynþáttar, heldur einnig þegar fólki er beitt misrétti vegna „uppruna, þjóðernis, litarháttar eða trúar.” #

Ríkiskirkjan hefur nefnilega mjög nýlega boðað börnum fordóma gagnvart trúleysingjum, og gerir það eflaust enn. Ef kirkjunnar fólki er alvara með þessu tali sínu, þá ætti það að viðurkenna að það hafi gert þetta og hætta að boða fordóma gegn trúleysingjum.

Ef fólk trúir því ekki að ríkiskirkjan boði fordóma gegn trúleysingjum, þá vil ég benda þeim sem fermdust á níunda eða tíunda áratugnum hjá ríkiskirkjunni að líta í fermingarkverið þeirra, það var mjög líklega Líf með Jesú, gefin út af Æskulýðsstarfi þjóðkirkjunnar, þýdd og staðfærð af bræðrunum Einari og Karli Sigurbjörnssonum. Í byrjun kaflans Er Guð til? er gefin vísun á vers í Sálmunum sem hefur í gegnum aldirnar verið notað til að boða fordóma gegn trúleysingjum:

Heimskinginn segir í hjarta sínu: „Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er. (Sálmur 14.1)

Ég held að það myndi heyrast eitthvað ef Þjóðkirkjan hefði vísað í vers þar sem stæði:

Heimskinginn segir í hjarta sínu: „Enginn er guð nema Allah og Múhameð er spámaður hans." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Eða bara einfaldlega: „Gyðingar eru heimskir og vondir". Þá myndi kannski heyrast eitthvað.

Annað svipað dæmi er úr handbók fyrir leiðtoga í barna- og æskulýðsstarfi sem æskulýðsnefnd Kjalarnesprófastsdæmis tók saman árið 2001. Í því var helgileikur handa unglingum, Leitið og þér munuð finna, þar sem strákur (S) og biblían (b) ræða saman:

S: (Lítur á klukku) Er klukkan orðin átta? Fundurinn í æskulýðsfélaginu byrjar eftir hálftíma - og ég lofaði Óla Jóa að koma. Reyndar langar mig ekkert til að fara. Þar fyrir utan er þetta allt of kristilegt félag. Nei, ég trúi sko ekki á þetta allt. Þetta er bara snakk. Það er enginn Guð til.
B: Heimskinginn segir í hjarta sínu: Enginn Guð (sálm 14.1).

Enn nýlegra dæmi er úr predikun þar sem biskup ríkiskirkjunnar endurtekur þetta:

Í Biblíunni segir: „Heimskinginn segir í hjarta sínu: Enginn Guð!“ #

Ég legg til að á næsta ári, þegar baráttudagurinn rennur aftur upp, biðjist Þjóðkirkjan opinberlega afsökunar á þeim fordómum sem hún hefur boðað gegn trúleysingjum í gegnum aldirnar og gerir enn. Eflaust verður það ekki gert, þar sem að flest fólkið sem stjórnar ríkiskirkjunni, prestarnir og biskuparnir eru líklega haldnir þessum „kynþáttafordómum” og sér ekkert athugavert við það.


Mynd af englinum Moroni frá EstudioBLAU

Hjalti Rúnar Ómarsson 15.05.2011
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Jón Steinar - 15/05/11 16:25 #

Stjórnarskráin er nokkuð skýr um þessi atriði og þarf ekki að álykta neitt um hvað í þessu felst. Mér sýnist á öllu að þeir megi alveg glugga í þetta plagg.

  1. gr. [Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.]

Jón Steinar - 15/05/11 16:31 #

Ef mönnum þykir þetta opið, þá er verðugt verkefni fyrir Vantrú að hafa samband við stjórnlagaráð um að bæta inn orðinu "trúleysis" á eftir "trúarbragða". Þessi grein gæti túlkast þannig að ekki sé gert ráð fyrir trúleysi eða öðrum ótrúbundnum lífsskoðunum. Hef raunar heyrt þá túlkun oftar en einu sinni.


Jón Steinar - 15/05/11 16:37 #

Hommar og lesbíur hafa raunar gert kröfu um að orðið "kynhneigðar", sé þarna inni, að mig minnir, til að taka af allan vafa. Kirkjunnar menn hafa verið sakaðir um að sýna þeim fordóma einmitt á grunni þess að það sé einfaldlega leyfilegt samkvæmt stjórnarskrá.


Jón Steinar - 15/05/11 16:39 #

Allsherjarregla kirkjunnar virðist í öllu vera að allt sé leyfilegt, sem ekki er sérstaklega bannað.


Einar Steinn - 15/05/11 20:59 #

Góðir punktar, nema en það er ekki hægt að kalla þetta "kynþáttafordóma". Kynhneigð og lífsskoðun er ekki kynþáttur. Betra væri að tala hér bara einfaldlega um FORDÓMA Þjóðkirkjunnar.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 16/05/11 09:38 #

Einar, ég myndi persónulega ekki nota orðið "kynþáttur" svona, en eins og ég tek fram í greininni, þá er þetta skilgreining frá formanni þjóðmálanefndar ríkiskirkjunnar.


Carlos - 16/05/11 10:30 #

Þótt ég hafi efasemdir um það hvort kirkja geti haft fordóma hafa samkirkjulega sinnaðir guðfræðingar löngum viðurkennt, að svona fordómar eins og koma fyrir í ívitnuðum versum og texta æskulýðsnefndar Kjalarnessprófastsdæmis eru óheppilegir og hjálpa ekki til skilning og virðingar á lífsskoðun trúleysingja. Því miður eru þeir enn í notkun sumstaðar í jafnvel upplýstustu kirkjum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/05/11 16:05 #

Það má efast um það hvort kirkja geti haft fordóma en það er ekki hægt að efast um að (tilteknar) kirkjur hafa alið á fordómum.


Nils Gíslason - 25/05/11 21:15 #

Merkileg umræða. Til að sýna hvernig þetta orð "heimska" er notað annarstaðar en í Biblíunni set ég hér klippu úr Wiki. „Sannast sagna eru rit Hegels um vísindaleg efni þvílíkt hyldýpi heimsku og vanþekkingar, jafnt á þeirra tíma mælikvarða sem þessara, að það hlýtur að teljast ein helzta ráðgáta í gervallri sögu mannlegrar hugsunar hvers vegna maður sem hafði látið annan eins samsetning frá sér fara varð ekki að athlægi um heimsbyggðina þegar í stað. En vegir heimsandans eru órannsakanlegir. Margar kenningar Hegels um viðfangsefni vísindanna át Friedrich Engels eftir honum, Lenín eftir Engels, og nú síðast Maó Tse-tung eftir Lenín. Til dæmis má nefna þá kenningu þeirra Leníns og Maós að jákvæður og neikvæður rafstraumur séu þráttarfyrirbæri rétt eins og plús og mínus í reikningi og stéttarbaráttan í félagsfræði. Þess ber að geta að kenning Hegels um rafmagn virðist mun flóknari, en því miður er ókleift að láta hana í ljósi á annarri tungu en móðurmáli meistarans. Skilgreining Hegels á rafmagni hefst eitthvað á þessa leið: „Rafmagn er hinn hreini tilgangur formsins sem leysir sjálfan sig úr viðjum þess; það er formið sem tekur að sigrast á skeytingarleysi sínu...“.“


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 25/05/11 21:46 #

Nils, sérðu þá ekkert athugavert við fullyrðingar eins og "Trúleysingjar eru heimskir og vondir"?


Þór - 19/12/11 14:52 #

Góður pistill. Ég hef stundum velt þessu fyrir mér sjálfur. Hvort þessi málflutningur sé eðlilegur komandi frá þjóðkirkjunni.

Hvort sem maður hefur heyrt predikun biskups eða prests á jólum þar sem hann hefur sett út á trúleysi og trúleysingja. Oft á grófan hátt. Greinar sem maður les í morgunblaðinu eru oft ekki skárri og hjá prestsyninum í fréttablaðinu. Sem og hjá prestum og trúuðum á blogginu. Skot á trúleysi, kallaður heimskur, hvernig sem það er orðað. Undir rós eða hvernig sem þeim dettur í hug.

Ætli eitthvað myndi ekki heyrast ef skipt yrði út "trúleysingi" og "svertingi" eða "gyðingur" og síðan sett út á þessa minnihlutahópa á sama hátt og kirkjan hefur gert hér gegn trúleysingjum.

En það virðist vera "í lagi" einhvernvegin hér á landi. Allavega sér maður ekki nein læti, nema hér. Og á Vantrú þakkir skildar fyrir það.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/12/11 14:58 #

Varðandi það að þetta "virðist vera "í lagi" hér á landi er bara ekki rétt. Þetta er einmitt ekki í lagi og á ekki að viðgangast. Þessi undarlega óvinavæðing ríkiskirkjunnar er til háborinnar skammar og málflutningur hjá einum æðsta embættismanni ríkisins er þjóðinni til minnkunnar, svo ekki sé minna sagt.

Þetta er stofnun sem "á að rúma alla" einsog þeir segja gjarnan sjálfir. En samt kjósa þeir að viðhalda svona hatursáróðri og viðbjóði. Það er ekki eðlilegt og það verða fleiri en við í Vantrú að taka til máls og skamma þetta fólk þegar svona orðræða fer fram.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/12/11 15:04 #

Það mætti samt halda, eins og Þór bendir á, að þetta væri í lagi. Sem betur fer hefur þeim fjölgað sem láta í sér heyra þegar talsmenn trúarbragða opinbera fordóma sína gagnvart þeim sem aðhyllast ekki sömu lífsskoðun.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.