Í bakþönkum sínum í Fréttablaðinu þann 30. apríl síðastliðinn fjallar Davíð Þór Jónsson um söguna af af því þegar Guð skipaði Abraham að fórna syni sínum Ísak og dró síðan skipunina til baka. Davíð Þór kallar þessa sögu eina þá misskildustu í Gamla testamentinu.
Við fyrstu sýn virðist sagan draga upp mynd af andstyggilegum Guði sem pínir fólk og lætur það halda að hann geri ómanneskjulegar kröfur til þess. En slíkur skilningur byggir á algerri vanþekkingu á sögulegum bakgrunni frásagnarinnar og því samfélagi sem hún gerist í.
Niðurstaða Davíðs Þórs er að í raun sé sagan táknræn um það að Guð afþakki barnfórnir eins og áður hefðu tíðkast. Hann segir menn hafa átt erfitt að skilja þessa sögu síðustu 4000 ár (sem er væntanlega nokkuð ofmat á aldri hennar - allavega í þessari útgáfu). Meðal þeirra sem hafa misskilið hana eru væntanlega flestallir gyðingar og kristnir menn - þar á meðal höfundur Hebreabréfs.
Sjálfur útiloka ég aldrei að mínar túlkanir á textum Biblíunnar geti verið rangar - þó ég útiloki stundum ýmsar fráleitar túlkanir sem menn koma fram með - og oft er ég ekki einu sinni viss hvaða túlkun mér finnst sennilegust. Hins vegar hef ég gagnrýnt það að börnum sé kennd nákvæmlega þessi saga. Þau hljóta að "misskilja" hana á nákvæmlega sama hátt og flestir hafa gert til þessa.
Þannig er þetta einstaklega ógeðfelld saga til að kenna börnum. Vissulega munu einhver barnanna skilja að ef umrædd túlkun sé rétt þá sé þessi Guð of andstyggilegur til að verðskulda trú (ályktun sem getur leitt að guðleysi). Hins vegar er hætta að sum börn muni telja þetta fullkomlega eðlilega framkomu hjá þessum Guði vegna þess að í þeirra huga er Guð grundvöllur alls siðferðis.
Ef túlkun Davíðs Þórs er rétt þá verður ekkert eðlilegra að kenna börnum söguna því skýringin á bak við hana þarnast meiri skilnings en þau búa yfir. Jafnvel tel ég að mörg börn á fermingaraldri ættu erfitt með að skilja túlkunina. Það sama gildir um fjölmargar aðrar sögur sem börnum eru kenndar í kristinfræðitímum. Niðurstaðan er augljóslega sú að færa þarf kennslu um trúarbrögð mun ofar í grunnskólann en nú tíðkast.
Það er annað sem grein Davíðs Þórs sýnir og það er nokkuð sem ég hef séð aftur og aftur í rökræðum mínum við guðfræðinga síðustu árin. Það er gríðarlega breið gjá milli hins trúaða almennings og guðfræðinga. Það sem meira er þá er afar lítill áhugi hjá guðfræðingum á raunverulegri trú fólks sem þeir gera jafnvel lítið úr þegar trúleysingjar vísa til hennar.
Að mörgu leyti er þá grein Davíðs Þórs góð því hana má sjá sem tilraun hins hámenntaða til þess að brúa þessa gjá. Þó verður að segjast að fullyrðingastíll greinarinnar er ekki til fyrirmyndar. Það er hins vegar undantekningin en ekki reglan. Það á sérstaklega við um presta sem virðast oft hafa ákaflega lítinn áhuga á að koma fræðum sínum til skila.
Prestar og guðfræðingar eru hins vegar duglegri að koma veikustu pörtum fræða sinna til skila. Það eru túlkanir á biblíunni sem eru vafasamar tilraunir til þess að réttlæta texta biblíunnar með nýstárlegum og oft froðukenndum túlkunum sem henta betur í frjálslyndu samfélagi nútímans. Þetta er grænsápufræðin.
Ég á eftir að skoða túlkun Davíðs Þórs betur áður en ég dæmi hana endanlega. Ég tel þó að ástæðan fyrir því að hann skrifi greinina sé frekar sú að hann vilji fegra trú sína og trúarbók heldur en að hann vilji koma fræðunum til almennings.
Ég er ósammála þér, Óli Gneisti. Ég tel ástæðu Davíðs með greininni fyrst og fremst þá að koma fræðunum til almennings og leiðrétta misskilninginn á sögunni.
Svo er spurning hvernig þessi túlkun á sögunni um Abraham og Ísak kemur heim og saman við framhaldsöguna í NT þegar guð fórnar einkasyni sínum fyrir syndir mannanna. Er það kannski þá enn eitt dæmi um tvöfaldan siðferðisboðskap þessara trúarbragða?
Það væri gaman að fá heimildir fyrir pælingu Davíðs Þórs. Ég er sérstakur áhugamaður um "fórnina" en hef ekki séð þessa skýringu áður. Ég bendi hinsvegar á að allskonar fórnir voru vinsælar á þessum tímum, dýr, matur, blóm, brennifórnir osfr.
-Besti bitinn fyrir guðina.
Það sem ég sé helst að þessari túlkun er sagan um Abraham og Ísak er talin kallast á við fórndardauða Jesúsar. Samkvæmt skýringu Davíðs Þórs, er þessu ekki lengur fyrir að fara. Það eru fjölmörg dæmi um það að Nt er að kallast á við Gt og sagan um fæðingarstað Jesúsar er ágætt dæmi um þá hneygð. Var það ekki í Mika sem sagt er að frelsarinn fæðist í Betlehem. Höfundar Nt leggja sig svo í líma við að tengja Jesús við Betlehem, jafnvel þótt það krefjist alveg makalausra skýringa. Þeir leystu þett með að segj að allir gyðingar þurftu að ferðast til heimabæjar forfeðra sinna til að láta telja sig. Nokkuðu sem er afar furðulegt og á sér enginn fordæmi, en vísar sannarlega til að ritararnir eru að vandræðast með fæðngarstað, manns sem sannarlega var til. Ekki færu þeir að fabúlera svonalagað um mann sem aldrei var til. Þá væri auðveldast bara að segja að frelsarinn hafi fæðst í Betlehem. Annars er þetta ruglingslegt því Jesús er sagður bæði fæddur í Jerúsalem og Nasaret.
Þetta eru sannarlega spennandi pælingar og er ekkert alltof viss um að Davið sé að "hreinsa" þessa ljótu sögu, heldur bara að reyna að varpa ljósi á hana. Það er jú það sem þetta gengur allt út á.
Ég held reydnar að þeim mun meira sem maður pælir í kristindómnum, þeim mun liklegra er að maður endi sem gnósti.
en það er önnur saga.
Þú finnur pælingunum stað í ritskýringarverki Gerhards von Rad frá 7. áratugnum og öllum helstu ritskýringarverkum frá og með þeim tíma. Ég held að meira að segja Anchor Bible Commentary sé með þetta.
Ennþá áhugaverðari eru pælingar sálgreina eins og Marie Balmary um textann,því að hann er jafndjúpur og Ödípusarsagan þegar kemur að samsetningu mannshugans.
Loks tekur Sören Kirkegaard stórkostlega á þessum texta í "Frygt og bæven".
Heimfærsla textans til kristindóms er náttúrlega ekkert annað en tilraun síðari kynslóða til að skilja hvað Guði gekk til með þetta allt.
Hvort sagan er falleg eða ljót skal liggja milli hluta, sögur fornaldar eru ekki endilega fallegar frekar en sögur okkar tíma, þótt þær beri með sér dýpri merkingu en séð verður af yfirborðinu. Þessi hefur alla vega orðið til að æsa upp hugsanir árþúsundanna.
Það þarf ekkert að færa trúarbragðakennslu upp á efri stig grunnskólans. Ekki frekar en Grimmsævintýrin. Það þarf bara að hætta að kenna börnum trú en nálgast efnið frekar eins og aðrar goðsagnir og ævintýri.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 14/05/11 14:58 #
Nú gæti þetta verið ímyndun í mér en á þessari mynd þá sýnist mér Abraham svipa þónokkuð til Davíðs Þórs - allavega einsog hann gæti litið út eftir 40 ár eða svo.