Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Opið bréf til 40 háskólakennara

Samkvæmt yfirlýsingum frá Bjarna Randveri Sigurvinssyni og Guðna Elíssyni þá hafa 40 háskólakennarar komið Bjarna Randveri til varnar í kærumáli Vantrúar gegn honum. Við í Vantrú erum forvitin að vita á hvaða forsendum það er. Nú er fullkomlega ljóst að Bjarni Randver var með ósannindi og rangfærslur glærum sem fjölluðu um Vantrú.

Við höfum í löngu máli útskýrt hver þessi ósannindi voru en líklegast er að þið kennararnir 40 hafið aldrei skoðað þær útlistanir beint frá okkur. Það er því við hæfi að nota tvö dæmi af glærunum til að sýna aðferðafræði Bjarna Randvers og hvers vegna við erum ósátt við þær.

Fyrra dæmið sem við tökum er hvernig Bjarni Randver tekur hluti úr samhengi. Eftirfarandi tilvitnun var á glærum Bjarna Randvers og er í fyrrverandi formann Vantrúar Matthías Ásgeirsson:

Ég er orðinn þreyttur á trúmönnum sem ... móðgast svo þegar þeir eru kallaðir hálfvitar.

Þarna virðist Matthías vera að kvarta yfir því að trúmenn, bara allir trúmenn væntanlega, móðgist yfir því að vera kallaðir hálfvitar. Þessum Matthíasi þykir greinilega allt í lagi að kalla trúmenn hálfvita og það er bara undarlegt að þeir kvarti.

Kannski að við ættum að skoða tilvitnunina án þess að út úr henni sé klippt:

Ég er orðinn þreyttur á trúmönnum sem halda að þeir geti vaðið uppi í þessu samfélagi, hrópandi yfirlýsingar í allar áttir. Hótandi mönnum heljarvist og eilífðar- kvölum... [sic] og móðgast svo þegar þeir eru kallaðir hálfvitar.

Þetta er töluvert annar Matthías. Þetta er Matthías sem kvartar yfir tvöfeldni ákveðins hóps trúmanna sem segir allt ljótt um hina og þessa og kvarta þegar þeim er svarað í sömu mynt. Það mætti segja að þessi Matthías sé að umorða fræg orð sem gengu út að fólk sæi flísina í augum annarra en ekki bjálkann í sínu eigin auga.

Seinna dæmið sem við bendum á er orðið hlandspekingur. Í glærum Bjarna Randvers var því haldið fram að þetta orð hefði verið notað um nafngreinda/n einstakling/a. Staðreyndin er sú að fyrrnefndur Matthías Ásgeirsson notaði þetta orð á bloggsíðu sinni þegar hann var að fjalla um óhefðbundna lækningaraðferð sem kallast á ensku "urine therapy". Hlandspeki er þýðing á því orði. Matthías var ekki að nota orðið hlandspekingur um einn eða neinn heldur einfaldlega að hæðast að því að til væri eitthvað sem kallaðist hlandspeki.

Þessi tvö dæmi eru lýsandi fyrir þá aðferðafræði sem Bjarni Randver hefur notað í umfjöllun sinni um Vantrú og raunar svörum sínum til siðanefndar Háskóla Íslands. Hann hefur engan áhuga á að reyna að skoða samhengi hlutanna heldur safnar einfaldlega saman því sem hljómar illa fyrir Vantrú. Hann hefur greinilega fundið orðið hlandspekingur í yfirborðskenndri yfirferð á bloggsíðu Matthíasar Ásgeirssonar og ákveðið að nota það gegn félaginu.

Í glærum Bjarna Randvers má finna fjölmörg svona dæmi. Hann notar til að mynda hnjóðsyrði sem Vantrúarfélagar hafa notað um sjálfa sig og lætur eins og þau séu dæmi um árásir þeirra á annað fólk. Hann tekur líka orð sem Vantrúarfélagar hafa vitnað í og voru upprunalega notuð af trúmönnum til að lýsa sjálfum sér og notar þau sem dæmi um orðnotkun félagsmanna.

Nú gæti verið að þið 40 háskólakennarar séuð ekki hrifin af Vantrú og okkur er alveg sama um það. Okkar tilgangur er að vekja umræðu og berjast fyrir mannréttindum okkar hóps en ekki að vinna vinsældarkeppnir. Við teljum hins vegar með öllu ólíðandi að svona óheiðarlegur málflutningur sé stundaður gegn okkur (af manni sem starfar fyrir kirkjuna) innan Háskóla Íslands. Háskólakennarar eiga að vita að jafnvel verstu pólitísku andstæðingar þeirra eiga skilið heiðarlega umfjöllun af þeirra hendi.

Ef þið, þessir 40 háskólakennarar, viljið verja þessi vinnubrögð Bjarna Randvers þá hljótið þið að sjá að þið eruð um leið að verja rétt samstarfsmanna ykkur og nemenda til þess að nota óheiðarleg vinnubrögð í sínum störfum. Við óskum eftir svörum ykkar.

Ritstjórn 12.05.2011
Flokkað undir: ( Háskólinn )

Viðbrögð


Halldór - 12/05/11 22:42 #

Hverjir eru svo þessir 40 kennarar? Bara svo allt sé uppi á borðum.


Guðbergur Ísleifsson - 12/05/11 23:13 #

[ Gríðarlega löng umræða um ummæli Matthíasar flutt á spjallborð ]


Finnur - 13/05/11 05:51 #

Hafa einhverjir háskólakennarar tekið upp hanskan fyrir ykkur?

Ef ekki, og þar sem þið dróguð kæruna til baka eftir samráð við stjórnendur háskólans, þá virðist þið nú standa á ansi veikum grunni.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 06:23 #

Okkar tilgangur er að vekja umræðu og berjast fyrir mannréttindum okkar hóps en ekki að vinna vinsældarkeppnir.


Guðbergur Ísleifsson - 13/05/11 06:51 #

Mér þætti líka fróðlegt að fá að vita hvað hinum "almenna" félagsmanni í Vantrú finnst um þessa færslu eftir Þórð Ingvarsson:

http://blogdodd.maurildi.com/2009/09/24/sirka-1-ar-li%C3%B0i%C3%B0/

Ég veit að Matta og fleirum af forkólfum Vantrúar finnst þessi skrif í fínu lagi og í versta falli fyndin, en hvað finnst öðrum?


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 08:26 #

Blog út í bæ og einkaskoðanir koma félaginu Vantrú ekkert við. Líf og störf félagsmanna geta og verða aldrei skoðanir félagsins. Guðbergur, þú verður að vitna í sjálft vefritið.


Carlos - 13/05/11 08:37 #

Blogg út í bæ, ef þau eru eftir stjórnarfólk Vantrúar, núverandi eða fyrrverandi koma málinu og félaginu ákaflega mikið við, Salvatore!

Þau varpa ljósi m.a. á innri hvata félagsskapar, gefa vísbendingu um hvert félagið stefni eða hafi tekist á við og hverskonar einstaklinga menn eiga við.

Þau eru opinber gögn, alveg eins og það sem koma í vefritinu og lúta ekki lengur stjórn höfunda.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 08:51 #

Nei, Carlos ekki frekar en athafnir og einkablog skráðra félagsmanna í Þjóðkirkjunni. Þá væri kirkjan í hræðilegum málum ef þannig rannsóknaraðferðir væru notaðar til að finna út hver skoðun þjóðkirkjunnar er. Rit og vefur kirkjunnar eru opinber skoðanir kirkjunnar (ræður presta á tru.is). Það er efni sem kirkjan verður að lifa við eins og við gerum hér á Vantrú. Fjöldi greina hefur ekki fengist að fara á Vantrúarvefinn vegna þess að þær hafa ekki staðist kröfur félagsins.


Guðbergur Ísleifsson - 13/05/11 09:03 #

Frelsari: Samkvæmt þinni skilgreiningu þá koma skoðanir, t.d. þingmanna eða forkólfa stjórnmálaflokka og framsetning á þeim skoðunum, málunum ekkert við ef þær eru skrifaðar annars staðar en á vef alþingis eða viðkomandi stjórnmálaflokks. Viltu ekki hugsa þig betur um áður en þú segir svona vitleysu?

En ég var að spyrja: Hvað finnst hinum almenna félagsmanni í Vantrú um svona skrif eins og eru í þessari færslu Þórðar ... sem ég minni á að er einn innsti koppurinn í búri Vantrúar og tekur iðulega þátt í umræðum fyrir þeirra hönd, bæði hér og annars staðar?


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 09:40 #

Þetta blog Þórðar fengist aldrei að birtast á vantrúarvefnum. þráinn bertelsson lét stórt orð falla um aðra þingmenn. Eru orð hans opinber skoðun VG og um leið skoðun allra félagsmanna í VG. Nei, auðvitað ekki þó að hann sé innsti koppur í búri. Dæmir þú VG úr leik vegna orða Þráins. Á allur þingflokkurinn að segja af sér vegna þess? Þú ert einfaldlega að hugsa þetta alltof þröngt Guðbergur.


Guðbergur Ísleifsson - 13/05/11 09:46 #

Ég hef hvergi sagt að þetta hafi verið skoðun Vantrúar sem félags, Frelsari. Ég var að spyrja um álit hins almenna Vantrúarmeðlims á þessum skrifum. Þorir enginn að svara spurningunni?


Sveinn Þórhallsson - 13/05/11 09:47 #

Þú ert einfaldlega að hugsa þetta alltof þröngt Guðbergur.

Hugsa? Þvílíkur brandari


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 09:54 #

Guðbergur, skoðanir félagsmanna á skrifum Þórðar eru jafn margar og fjöldi félagsmanna. Eina sem ég get sagt þér að þetta blog er ekki á vantrúarvefnum og er ekki skoðun félagsins. Við ritskoðun ekki félagsmenn utan vantrúarvefsins og fylgjumst ekki með ferðum þeirra. Það er kannski gert í þeim félögum sem þú ert skráður í Guðbergur og þykir eðlilegt. En hér á fólk líf fyrir utan félagið.


Einar - 13/05/11 10:12 #

Ég hélt fyrst þegar ég sá fréttir af þessu máli að hópur háskólakennara hefði blöskrað framkoma þessa kollega síns og væru að biðja um að óháð nefnd yrði stofnuð til að skoða athæfi þessa kennara.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 10:34 #

Það er eiginlega akkúrat öfugt. Þessir 40-menningar vilja verja akademískt frelsi út í rauðan dauðann þrátt fyrir að það frelsi innihaldi útúrsnúninga, lygar og afskaplega lélega akademík.

Vinnubrögð Bjarna Randvers eru svo léleg að það er með hreinum ólíkindum að það finnist svona margir sem leggi samþykki sitt við svona vinnubrögðum.

Maður hefur hreinlega áhyggjur af HÍ sem menntastofnun ef svona vinnubrögð eiga að líðast og er ég með gráðu frá þessari stofnun.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 10:47 #

Gaman að því að sjá Carlos og Guðberg fara mikin hér án þess að þora að reyna að verja Bjarna Randver eða á nokkurn hátt fjalla um þau tvö dæmi sem nefnd eru í greininni varðandi hvernig Bjarni Randver hagaði ''kennslu'' sinni innan veggja HÍ.

Ég held ég viti afhverju, þeir geta ekki varið þetta eða gert annað en að neyðast til að taka undir með okkur í Vantrú með hvað þetta er lélegt og rangt. Frekar dreifa þeir athyglinni og vísa í blogg hér og þar og biðja Matta að segja okkur hverjir þessir trúmenn eru sem hann talar um þó það komi augljóslega fram að hann er að tala um þá trúmenn sem móðgast þegar þeir eru kallaðir hálfvitar þrátt fyrir að ganga um bæji og borg og spá eilífðarkvölum og helvítisvist.

Það þarf engin nöfn í þessu samhengi, hann er bara að tala um þá sem falla undir hatt þessarar hegðunnar.

Það væri svo rosalega flott ef Carlos og Guðbergur myndu segja sína skoðun á meðferð Bjarna Randvers á þessari tilvitnun í Matta og segja okkur svo hvernig þeim fyndist það ef við í Vantrú tækjum tilvitnun svipaða þessari af þeirra bloggi og birtum hér á Vantrú í nýjum búningi (eins og BR gerir) með því að fella út nóg af orðum til að samhengið snarbreytist og úr verði ný merking sem lýsir ykkur í kolröngu ljósi.

Koma svo....


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 10:48 #

Blogg út í bæ, ef þau eru eftir stjórnarfólk Vantrúar, núverandi eða fyrrverandi koma málinu og félaginu ákaflega mikið við, Salvatore!

Þannig að Vantrú er Liverpool aðdáandi, sem var bæði með og á móti IceSave samningunum. Eru engin takmörk fyrir rökleysunum sem fólk leyfir sér að koma með hingað.....


Guðbergur Ísleifsson - 13/05/11 11:22 #

Ég hef farið yfir allt málið og mitt mat er að Bjarni Randver hafi komið fram af fagmennsku í vinnslu sinni á því efni sem hann notaði á námskeiðum sínum. Mér finnst umkvörtunarefni Vantrúar vegna vinnubragða hans svo léttvægt að það sýni í raun best hversu fagmannlega þetta efni var unnið - svo ég svari nú honum Hirti Brynjarssyni, vantrúarmeðlimi.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 11:28 #

Ástæða taugaveiklunarinnar innan HÍ er sú að Bjarni Randver og stuðningsmenn eru sannfærðir um að réttskipuð siðanefnd ætlaði að áminna hann fyrir að hafa brotið siðareglur skólans.

Ef menn hefðu ekki talið neinar líkur á slíku hefði ekki verið nein ástæða til allra þessara láta.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 12:06 #

"Ég hef farið yfir allt málið..."

Þú hefur ekki aðgang að nema brotabroti af því sem telst vera 'allt málið'. Málið er fyrir utan það löngu hætt að snúast eingöngu um kennslu BR, eins og þú vissir ef þú hefðir farið yfir 'allt málið.


Guðbergur Ísleifsson - 13/05/11 12:17 #

Egill, ég var að meina "allt málið" eins og það birtist hér á Vantrú.is


Freyja Búa (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 12:29 #

Guðbergur, viltu að þeir verði nafngreindir allir með tölu? Það yrði ansi lengi gert, þú hlýtur að vita að það er til fjöldinn allur af ofsatrúarmönnum sem varla má anda á án þess að fjandinn sé laus. Ef þú stendur út á torgum gargandi heimsendir eða ferð í grunnskóla og segir þar börnum að foreldrar þeirra séu á leið til helvítis fyrir að trúa ekki á guð osvfr. þá geturðu tekið þetta til þín, annars ekki. Þetta eru engin geimvísindi.

Og að linka inn á persónulegt blogg til að reyna grafa undan trúverðugleika Vantrúar, það er bara verulega lágkúrulegt og segir allt sem segja þarf um þig.


Sigurgeir - 13/05/11 14:08 #

Vandamálið hjá Guðbergi virðist vera að hann telji Vantrú bera alla sök á hvernig málið hefur þróast, en ekki Bjarna og fylgjegnda hans. Mín spurning til Guðbergs yrði þá að vera hvers vegna hann kemst að þeirri niðurstöðu? Því eftir að hafa fylgst með þessu máli, þögull, að þá get ég ekki séð en að meðlimir Vantrúar hafi sýnt mikla biðlund við þetta mál. Mál sem byrjaði sem gagnrýni á glærur háskólakennara(og síðast þegar ég vissi var kennsluefni kennara ekki hafið yfir gagnrýni). Og fylgir því að í byrjun þessa máls hafi meðlimir Vantrúar verið tilbúnir til að ná sáttum. Svo get myndi mig langa til að spyrja einnig hvort að þessi "umræða" Guðbergs gæti verið sprottin af einhverri andhúð hans á félaginu? Sérstaklega það sem svona æst "umræða" virðist, að mínu mati, of fylgja gagnrýnendum félagsins frekar en félagsmönnum Vantrúar.


Guðbergur Ísleifsson - 13/05/11 14:28 #

Sigurgeir ... þessi umræða snýst um vinnubrögð Bjarna Randvers, hvort þau hafi verið fagleg og hvort hann hafi slitið eitthvað þannig úr samhengi að ámælisvert megi telja.

Ég tel svo ekki vera og endurtek að ég tel vinnubrögð Bjarna við gerð námsefnisins hafa verið fagleg í alla staði þótt vissulega sé enginn og ekkert hafið yfir gagnrýni.

Um þína fabúleringar um mig nenni ég ekki að fjalla enda langt utan við efnið.


Sigurgeir - 13/05/11 14:40 #

Ég læt þáfabúleringar mínar liggja, enda eins og þú segir fabúleringar. En hvort sem þær eru réttar eður ei, væri þér þá sama ef ég myndi kynna þig þannig í kennslu? Draga upp hin og þessi dæmi sem lytu út fyrir að þú hefðir einhverja áráttu illindi gagnvart Vantrú? Einhvern veginn myndi ég halda að þú myndir ekki telja þig þá njóta sannmælis í slikri kynningu, eða er það kannski rangt hjá mér?

Ég get ekki betur séð en að vinnubrögð Bjarna hafi verið svipuð við gerð þessara glæra. Semsagt að hann hafi tekið út það sem, virtist, lýta illa út fyrir félagið í stað þess að klára málið og skoða félagið alminnilega. Þetta kalla ég ekki vönduð vinnubrögð og ef Bjarni fengi útgefið verk sem innheldi slík vinnubrögði efast ég að nokkur myndi vilja taka mark á því né honum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 16:48 #

Ég tel svo ekki vera og endurtek að ég tel vinnubrögð Bjarna við gerð námsefnisins hafa verið fagleg í alla staði þótt vissulega sé enginn og ekkert hafið yfir gagnrýni.

Lestu þetta. Komdu svo hingað og reyndu að halda því fram blygðunarlaust að gerð námsefnisins hafi verið "fagleg í alla staði".


Guðbergur Ísleifsson - 13/05/11 17:20 #

Þessi spraðatíningur ykkar og æsingur varðandi orðið "hlandspekingur" er auðvitað bara pínlegt upphlaup í ykur þegar þess er gætt að einn af ykkar helstu leiðtogum í Vantrú, sjálfur ritstjóri vantru.is, kallar nafngreindan, trúaðan einstakling, sem auk þess er látinn og getur því ekki borið hönd fyrir höfuð sér eftirfarandi nöfnum í einu og sömu greininni:

Frathaus Prumpuhali Rugludallur Geðstirða gamalmenni. Óforskamfeilin karlremba. Trúarbulla. Andlegi ofbeldisseggur. Fordómafulli drullusokkur. Siðblindi síkópati. Gott að hann skuli vera dauður. Illa skrifandi. Nautheimskur. Afæta.

Son hans, núverandi biskup yfir Íslandi kallar þessi sami ritstjóri:

Fauta með skítlegt eðli. Ærulausan hommahatara. Skíthaus. Óvirðulega ómenni.

Og á þetta allt linkar svo téður ritstjóri margoft frá vantru.is svo allir geti lesið það. Og engin ykkar gerir athugasemd við það.

En nú eruð þið að reyna að gera mikið mál út af því að einn ykkar skuli vera sagður hafa kallað einhvern "hlandspeking"?

Þið ættuð nú bara að þakka fyrir að Bjarni tók ekki dýpra í árinni í samantekt sinni um ykkur.

Birgir: Ég er búinn að lesa færsluna hans Hjalta og hún hbætir engu við né dregur frá því sem áður hefur komið fram.


Sigurgeir - 13/05/11 17:38 #

Það er semsagt ekki nóg að taka dæmi, Guðbergur, til að sýna fram á meiningu þeirra heldur þurfa þeir að gefa skilgreiningu fyrir hverju orði fyrir sig?


Arngrímur - 13/05/11 17:41 #

Þar sem ég hef verið ávarpaður í fleirtölu einsog hluti af einhverslags tillitslausu Vantrúarskrímsli get ég sagt að ég er ekki hlynntur málflutningi einsog þeim sem birtist í bloggfærslu Þórðar - það þarf hann að eiga við sjálfan sig. En það er nú aldeilis munur á bloggskrifum og háskólakennslu!

Það sem menn tjá sig um á sinni eigin síðu er þeirra mál. Það sem háskólakennarar tjá sig um í skólastofu er ekki þeirra einkamál. Til þeirra eru gerðar ítrustu kröfur, og viðlíka orðbragð og Þórður hafði um páfann yrði aldrei liðið í kennslustund við HÍ.

Þetta er nú ekki flóknara en það. Málin eru ósambærileg og þú réttlætir ekki ófagleg vinnubrögð með því að benda á böl annarsstaðar. Var þá rangt af Vantrú að láta reyna á málið frammi fyrir siðanefnd? Dragðu eigin ályktun, en dragðu ekki umræðuna í endalausa hringi um tittlingaskít sem engu máli skiptir.

Með vinsemd og virðingu.


Guðbergur Ísleifsson - 13/05/11 17:59 #

Sigurgeir: Skil ekki hvað þú ert að segja. "Þeir" hverjir?

Arngrímur: "Var þá rangt af Vantrú að láta reyna á málið frammi fyrir siðanefnd?"

Ég dæmi ekki um það en hefði viljað sjá málið fara alla leið. Og helst lengra.


Arngrímur - 13/05/11 18:03 #

Ég líka, en nú er málið komið í nýjan farveg. Við sjáum svo hvað kemur út úr því. Um það getum við sammælst, er það ekki?


Guðbergur Ísleifsson - 13/05/11 18:06 #

Jú, við getum sammælst um það.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 18:10 #

Svo skal böl bæta að benda á annað verra. Er semsagt allt í lagi með rangfærslur BR í kennslu í háskólanum, af því að ritstjóri Vantrúar segir eitthvað ljótt á bloggi sínu?

Eru vinnubrögð BR verjandi, já eða nei.


Trausti Reynisson (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 18:15 #

Fólk má svo sem eyða tíma sínum í að þrasa við Guðberg en það hefur ekkert upp á sig. Hann mun ekki skipta um skoðun sama á hverju sem gengur eða hvað þið segið. Hann er hér gagngert til að dreifa uppbyggilegri umræðu á dreif.

En endilega ef ykkur finnst þetta gaman, haldið áfram.


Sigurgeir - 13/05/11 18:19 #

Það sem ég meina Guðbergur er einfaldlega það að ég vil fá að vita hvort: A)þú teljir það nauðsynlegt fyrir Vantrúar meðlimi að gera grein fyrir notkun hvers og eins orðs á listanum. Og B) hvort "hlandspekings" dæmið sem tekið hefur verið fram sýni ekki nógu vel hvernig orðunum er safnað saman. því í raun er söfninin á þessum orðum í líkingu við að ef ég(eða einhver viljugur aðili) liti léttilega yfir facebook síðu þína, eða aðrar síður sem þú hefur tjáð þig á, og safnað saman orðum, sem þú hefur sett fram, í lista sem væri svo settur fram eins og þú hafi meint öll orðin í óvild annarra, þó svo þú hafir verið að endurtaka orð annara. Það væri hins vegar harla kölluð vönduð vinnubrögð af minni hálfu(eða þess sjálfviljugs aðila sem tæki verið að sér) að setja fram listann þannig. Og ég geri enn ráð fyrir að ef þú værir kynntur í einhvers konar glæruröð, eða annars konar kynningu, að þú myndir vilja njóta sannmælis.

Ef Bjarni hefði ætlað sér að vinna faglega hefði hann leitað eftir andstæðum fyrir eigin áliti. Að setja fyrirfam ákveðna skoðun á félagi eða félagsmönnum of fiska út það sem hann teldi sönnun fyrir því áliti er ekki bara léleg vinnubrögð heldur líka rangt og stenst eingann veginn þær kröfur sem settar eru fyrir fagleg vinnubrögð.


Guðbergur Ísleifsson - 13/05/11 18:31 #

Birgir: Ég er búinn að svara þessu fyrir mitt leyti ... já, þau voru og eru fagleg og örugglega verjandi að mínu mati.

Trausti: Læt öðrum um að meta þitt innlegg.

Sigurgeir: Ég og mín Facebook-síða er ekki umræðuefnið hér.


Guðbergur Ísleifsson - 13/05/11 18:42 #

Læt öðrum "EFTIR" ætlaði ég að segja. Biðst afsökunar á einstaka stafsetninga- og málfarsvillum.

Vona að þessu sé þá lokið hvað mig varðar.


Sigurgeir - 13/05/11 18:42 #

Nei hún er það ekki, en það sem ég setti fram er samt sem áður dæmi um svipuð vinnubrögð og koma fram í glærum Bjarna.

Og ég tek fram að spurningum mínum var ekki svarað, kannski vegna þess að mér láðist að setja spurningamerki fyrir aftan þær. Ef svo er þá set ég þær fram aftur.

A)Telur þú það nauðsynlegt fyrir Vantrúar meðlimi að gera grein fyrir notkun hvers og eins orðs á listanum? Og B) hvort "hlandspekings" dæmið sem tekið hefur verið fram sýni ekki nógu vel hvernig orðunum er safnað saman?

Svo í lokin þá minni ég aftur á það að, nei, vinnubrögð Bjarna voru ekki fagleg. Ef þau ættu að teljast fagleg hefði hann sjálfur sett fram hvernig orðin voru notuð, og sett fram gögn til að andmæla.


Viðar - 13/05/11 18:45 #

Að fjalla um félag eins og Vantrú í námskeiði um "nýtrúarhreyfingar" innan guðfræðideildar, vitandi það að efnið er umdeilt og vand með farið, án þess að setja sig í samband við félagið, bjóða meðlimum þess að gera athugasemdir við námsefnið áður en fyrirlesturinn er fluttur eða gera nokkra tilraun til að kynna báðar hliðar málsins eru einfaldlega léleg vinnubrögð, lengra nær það ekki.

Mundi ekki líðast ef nemandi ynni jafn illa í verkefnum og ritgerðum.


Guðbergur Ísleifsson - 13/05/11 18:58 #

Sigurgeir: Með fullri virðingu, þá er þetta eitthvað svo ruglingslegt hjá þér að ég treysti mér ekki til að svara þér. Þú verður að spyrja einhvern annan en mig að því sem þú ert að spyrja um.


Sigurgeir - 13/05/11 19:33 #

Afsakaðu Guðbergur ég skal reyna að vera skýrari.

Það fyrsta sem ég vildi taka fram, var einfaldlega það að ég skildi að þú og þín facebook síða, eða aðrar síður sem þú hefur tjáð þig á voru ekki til umræðu.

Hins vegar var dæmið sem ég setti fram um að skoða tjáðar síður í leit eftir orðum, sem litu illa út fyrir þig, og setja þau fram á þann hátt að þú sjálfur hafi meint þau í óvild, hafi verið svipað og orðasöfnun Bjarna á glærunum.

Sem dæmi. Ég get með öðrum orðum ekki sett fram lista af orðum, móðgandi eða slæmum, sem ég hefði fundið, á facebook eða öðrum síðum, sem dæmi af þínu málfari. Ég held ég telji mig fara með sannleik þegar ég segi, að þér finndist ég ekki fara með rétta mynd af þér ef ég setti fram slíkann lista. Ef ég hef rangt fyrir mér máttu endilega láta mig vita.

Þá líka við þegar hann tekur til tilvitnanir. Það virðist vera að Bjarni hafi ákveðið fyrir niðurstöðu um félagið og ákveðið að safna sönnunargögnum til að styðja þær. Það eru ekki rétt vinnubrögð. Að taka tilvitnanir úr samhengi til að ýta undir einhverjar fyrirfram ákveðin álit eða niðurstöður um félagið(eða hvað annað sem gæti verið til umræðu) eru ekki aðeins óvönduð vinnubrögð, heldur líka rangt og letilegt.

Ég vil neflilega meina að. Ef Bjarni þykist geta gripið orð sem honum líst á, eða sleppt samhengis þar sem orðin eru notuð, þá er hann ekki að vanda vinnbrögð sín.

Einnig þar sem kröfur fyrir fagleg vinnubrögð gera ráð fyrir að, hann finni ekki aðeins rök með heldur líka á móti máli sínu. Það er að segja, hann getur haft einhverja hugmynd eða tilgátu um félagið sem hann þarf að finna sannanir fyrir. En til þess að sú tilgáta geti talist markverð þarf hann að prufa hana fyllilega. Í því felst að hann finni ekki einungis sannanir fyrir sínu máli, heldur líka gegn því. Semsagt ef þessi orðalisti einkenni málfar Vantrúar þá þarf hann að sýna fram á það, en einnig þarf hann að geta sýnt að hann hafi gert tilraun til að sýna fram á hið gagnstæða, kannski birta líka lista yfir orðafar gagnrýnenda Vantrúar. Að birta lista og segja "þetta einkennir þeirra málfar" er ekki nóg, það þarf rökstuðning.

Einnig tek ég fastlega undir því sem Viðar skrifar í sínu innleggi og myndi vilja undirstrika það í samhengi við fagleg vinnubrögð.

Spurningarnar sem ég setti svo fram eru einfaldlega til að forvitnast um hvort þér finnist meðlimir Vantrúar ekki hafa nóg til síns máls. Og þá hvaða kröfur þú gerir til þeirra svo mál þeirra verði nægilega vel rökstutt. Er eitt dæmi nóg? Þurfa þeir að sína samheingi við hvert orð sem Bjarni telur upp á listanum? Hvers vegna ekki Bjarni Sjálfur?

Ef ég er enn of óskýr, endilega bentu mér á hvar, það er ekki ætlunin að vera of ruglingslegur í málfari. En ég vona að ég hafi komið minni meiningu til skila.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/05/11 11:40 #

Umræðan um ummæli mín um trúmenn sem móðgast þegar þeir eru kallaðir hálfvitar hefur verið flutt á spjallborðið. Þar getur Guðbergur haldið þessu áfram.

Ég ítreka að ef einhver, þar með talið Guðbergur, vill ræða áfram um þessi tilteknu ummæli mín eða þá ákvörðun að færa þá umræðu á spjallið skal sú umræða fara fram á spjallborðinu.

Annað varðandi þetta bréf til 40 háskólakennara er hægt að ræða hér.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.