Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er rétt að banna vissar skemmtanir um páska?

Vikivaki

Blaðamaður hjá Morgunblaðinu óskaði eftir áliti okkar í greinardálknum "Með og á móti" sem birtist þann 17. apríl sl. Við vorum beðin um afstöðu varðandi þess hvort trúarbrögð ættu að stjórna skemmtanalífi fólks. Við vorum sjálfsögðu á móti og útskýrðum af hverju:

Það gengur ekki í siðuðu samfélagi að þröngva vissum lífsskoðunum upp á fólk.

Samfélagið er fyrst og fremst veraldlegt þó að einhverjir haldi öðru fram. Drifkraftur samfélagsins og skipulag byggist á veraldlegum gildum óháð trúarbrögðum.

Trúarbrögð ákveða ekki hvernig dómskerfi okkar er uppbyggt eða hvernig viðskipti fara fram. Hvað þá hvernig völdum er dreift í samfélaginu, hvernig fólk kemst í valdastöður né hvernig menntun er háttað.

Þessir samfélagsþættir hafa tryggar undirstöður í veraldlegum grunni. Engin ástæða er til að ein eða fleiri trúarbrögð ákvarði hvenær eða hvernig fólk skemmtir sér – rétt eins og þau ákvarða ekki hvernig menntun okkar eða dómskerfi er háttað.

Fólki frá ólíkum menningarheimum fer fjölgandi hérlendis – og þar með fjölgar ólíkum trúarhópum í landinu. Annar hópur, sem fer stækkandi, eru trúleysingjar – fólk sem trúir ekki á nokkurn guð.

Þótt Ísland sé smáríki þá er það engu að síður fjölmenningarríki. Það gengur ekki í siðuðu samfélagi að þröngva vissum lífsskoðunum upp á fólk, beint eða óbeint, sama hve mikill fjöldi aðhyllist þær. Auk þess er orðum aukið hve margir Íslendingar aðhyllast kristni.

Skráning í trúfélag við fæðingu jafngildir ekki trúarviðhorfum og kannanir sýna að stór hluti þeirra sem skráðir eru í ríkiskirkjuna aðhyllist ekki kristni.

Með því að trúarbrögðin stjórni að nokkru leyti skemmtanalífi er verið að knýja einstaklinga til að hlíta kristnum sið. Þó að þessari skilyrðislausu virðingu við helgidaga sé ekki viðhaldið með ofbeldi þá er það rangt.

Það er mýta að frídagar séu trúarbrögðum að þakka. Vissulega eru sumir merktir kristni en við getum þakkað verkalýðsfélögum og baráttu þeirra það að við þurfum ekki að mæta í vinnu á laugardögum og fáum ágætt sumarfrí. Fólk ætti að hafa möguleika á að ráðstafa trúarfrídögunum með þeim hætti sem það kýs. Vel má vera að margir kysu að lengja sumarfríið eða taka gott frí með börnunum á starfsdögum skóla í stað þess að sleppa vinnu stöku fimmtudag.

Þannig að: Nei, trúarbrögð eiga ekki að stjórna skemmtanalífi fólks.

Mynd fengin úr Hvað er vikivaki? af Vísindavefnum

Ritstjórn 23.04.2011
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.