Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Afhjúpun Arnar Bárðar

Blóm

Hér á Vantrú birtist fyrir stuttu aðsend grein frá Halldóri Loga Sigurðarsyni þar sem hann tók saman ýmsar tilvitnanir í séra Örn Bárð Jónsson og sýndi fram á að presturinn virðist skipta full ört um skoðun og eins að hann á það til að lýsa viðhorfum sem endurspegla hvorki kærleikann eða umburðarlyndið sem stundum er sagt einkenna kristna trú.

Greinin var óvægin og virðist hafa farið fyrir brjóstið á Erni Bárði. Þegar Halldór Logi ætlaði sér svo að gera athugasemd við predikun Arnar sem birtist á netinu brá svo við að í stað þess að hleypa henni í gegn sendi presturinn Halldóri ansi einkennilegan tölvupóst.

Tölvupósturinn innihélt heimilisfang og símanúmer Bráðamóttöku Geðdeilar Landspítalans auk leiðarkorts.

Þessi taktík, að birta ekki athugasemdir opinberlega og rökræða þar heldur svara þeim annað hvort með tölvupóstum eða bara hreinlega hunsa þær, er ekki ný af nálinni hjá Erni Bárði. Hún er reyndar furðu algeng hjá prestum. Þegar umræðan verður erfið finnst þeim betra að færa hana frá hinu opinberlega og yfir til þess persónulega. Í svokallaðri afsökunarbeiðni Arnar Bárðar sem nánar verður vikið að hér á eftir kemur ennfremur fram að Örn Bárður óskaði eftir því að hitta Halldór Loga augliti til auglits. Þetta eru heldur engin nýmæli.

Miðað við hvað Örn Bárður leyfir sér í persónulegum samskiptum í gegnum netið, er þá einhver ástæða til þess að ætla að hann sé málefnalegri í eigin persónu? Værir þú ágæti lesandi áfjáður í að hitta mann, sem svarar réttmætri athugasemd þinni með því að vísa þér á geðdeild, augliti til auglits til þess að ræða málin?

„Afsökunarbeiðni“ Arnar Bárðar er svo einhver fróðlegasta lesning sem rekið hefur á fjörur landans lengi. Hún er fróðleg af því að hún er afhjúpandi. Í henni byrjar presturinn á því að gera trúleysingjum enn einu sinni upp öfgatrú og ofstæki sem á að útskýra af hverju hann hélt fyrst að athugasemd Halldórs um kvilla og sjúkdóma væri beint að sér. Þessi útskýring heldur ekki vatni einfaldlega af því að það var augljóst hvert samhengi athugasemdar Halldórs var.

Lokaorðin í yfirlýsingunni eru áhugaverðust og mest afhjúpandi:

Ég biðst að sjálfsögðu afsökunar og fyrirgefningar á að hafa ekki gengið úr skugga um að viðmælandi minn á vefnum væri lögráða og þar með myndugur viðmælandi.

Örn Bárður biðst ekki afsökunar á því að hafa vísað viðmælandi sínum á geðdeild. Hann biðst afsökunar á því að hafa ekki athugað hvort viðmælandinn væri lögráða. Halldór er svo afgreiddur sem ómyndugur viðmælandi vegna aldurs síns. Það er áhugavert. Það stríðir reyndar gegn t.a.m. Barnasáttmála SÞ að afgreiða skoðanir barna sem ómerkar vegna aldurs þeirra. En fyrst og fremst sýnir það auðvitað vanvirðingu Arnar Bárðar fyrir skoðunum þeirra sem ekki eru sammála honum.


ps. Ef „tæplega“ 16 ára einstaklingar eru ekki myndugir viðmælendur að mati séra Arnar Bárðar má þá búast við því að hann beiti sér fyrir því að ríkiskirkjan hætti að ferma 13 og 14 ára ómynduga einstaklinga?

Egill Óskarsson 31.01.2011
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Óli Jón - 31/01/11 09:39 #

Niðurlag greinarinnar er frábært, hafðu góða þökk fyrir :)


Ásta Elínardóttir - 31/01/11 10:53 #

Vil bara taka undir með honum Óla Jóni og segja að niðurlagið er hreint dásamlegt. Þakkir kærar.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 31/01/11 18:37 #

Takk fyrir það Óli og Ásta.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 31/01/11 20:20 #

Svo virðist sem Örn Bárður vilji grípa í gömul ráð Sovét að loka inni á geðveikrarhæli þá sem eru ekki með "réttar" skoðanir. Var Jesú Jósefsson sonur Jósef Stalíns?


Sigga - 05/02/11 22:46 #

Hér er fimlega þrætt framhjá því að segja allan sannleikann, nefnilega ástæðunni fyrir því að Örn Bárður taldi að hann ætti í samskiptum við mann sem gengi ekki heill til skógar.

Er einhver sérstök ástæða fyrir því að Egill vill ekki láta koma fram hér hvers eðlis "athugasemd" Halldórs Loga var eða að greina frá efni hennar.

Getur verið að einmitt það efni varpi ljósi á þann óþægilega sannleika að hér á Vantrúnni hafa menn fyrir löngu misst sig út af hinum gullna meðalvegi sem varðaður er skoðanaskiptum jafningja og eðlilegri gagnrýni.

Ég vænti þess að þessi athugasemd verði fjarlægð hið fyrsta og komið fyrir á spjallborðinu vegna einhverra tylliástæðu ritskoðarans. Þeir eru alltaf sjálfum sér líkir, þeim þykir sannleikurinn óþægilegur.

Það er grátbroslegt að hér á vefsetrinu er tilvísun í ágæta grein Hörpu Hreinsdóttur um siðblindu. Þar kemur fram að eitt aðaleinkenni siðblindra er að þeir eru saklausir, alveg saklausir, allt er hinum að kenna.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 06/02/11 00:17 #

Nú ætla ég að kenna þér svolítið á internetið Sigga. Á þremur stöðum í greininni sérðu að letrið breytist úr svörtu yfir í blátt. Ef að þú færir músarbendilinn þinn yfir bláu orðin sérðu að hann breytist. Smelltu nú á orðið „afsökunarbeiðni“ sem er síðasta bláletraða orðið. Sérðu hvað gerist? Þarna getur þú lesið réttlætingu Arnar Bárðar orðrétt.

Örn Bárður má hins vegar teljast ansi fattlaus ef hann áttaði sig ekki á því hver punkturinn var í athugasemd Halldórs, í samhengi við umræðuna.

Og auðvitað hélt hann ekki að maðurinn væri í alvörunni veikur á geði, þetta bull er þér ekki samboðið.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/02/11 10:23 #

Ég vænti þess að þessi athugasemd verði fjarlægð hið fyrsta og komið fyrir á spjallborðinu vegna einhverra tylliástæðu ritskoðarans. Þeir eru alltaf sjálfum sér líkir, þeim þykir sannleikurinn óþægilegur.

Ég svaraði skrifum Siggu um ritstjórnarstefnu Vantrúar á spjallinu því þetta hefur ekkert með efni greinarinnar að gera.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.