Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúmannafrávarp

Vantrúarbiblían

Samkvæmt einhverjum sálfræðikenningum þá er það að eigna öðrum sínar eigin hugmyndir, sem maður er óöruggur með, kallað frávarp. Getur verið að trúmenn stundi þessi varnarviðbrögð grimmt?

Alvöru bókstafstrú

Nýjustu dæmin um trúmannafrávarp eru hugsanlega að finna í bókadómi ríkiskirkjuprestins Gunnars Jóhannessonar. Þar segir hann meðal annars þetta (með feitletrun frá mér):

Það er full þörf á að þeir sem vilja beina umræðu um trú og trúmál í skynsamlegan farveg átti sig á þeirri óskynsemi, rangfærslum og fordómum sem fólgin eru í málflutningi bókstafstrúaðra guðleysingja á borð við Richard Dawkins.

Ég efast um að Gunnar kalli sjálfan sig „bókstafstrúaðan“. En ef við notum einhverja skynsamlega skilgreiningu á því orði [1] og notum það ekki bara sem uppnefni, þá virðist Gunnar nefnilega vera bókstafstrúarmaður. Eins og áður hefur verið bent á, þá virðist hann til dæmis aðhyllast þá skoðun að biblían sé óskeikul:

Biblían er innblásið orð Guðs, og sem slík er Biblían fullkomin, áreiðanleg, óskeikul og sönn. #

Gunnar segir að vísu að hún sé ekki óskeikul í öllu sem hún „segir“ en að hún sé það í því sem hún „boðar og kennir“ (og tekur dæmisögu sem dæmi). Gunnar hefur reyndar ekki sagt hvort að hann trúi því að atburðir eins og brottförin úr Egyptalandi, innrásin í Kanan eða jafnvel Nóaflóðið hafi raunverulega átt sér stað, hvað þá hvort að guðinn hans hafi fyrirskipað þjóðarmorð (eins og biblían virðist „boða og kenna“). En það er ljóst að hann telur biblíuna vera óskeikult kennivald, er það ekki trú á bókstafinn?

Er Gunnar ekki bara að gera okkur trúleysingjunum upp hans eigin bókstafstrú?

Alvöru bókadýrkun

Í sama bókadómi segir Gunnar einnig þetta:

Þrátt fyrir allt vona ég að bókin [Ranghugmyndin um guð] komi víðar við en á altari guðleysingjanna í Vantrú.

Ríkiskirkjan, og þar með Gunnar, hefur auðvitað biblíuna á altarinu í kirkjunum sínum og þarna er Gunnar að gera okkur í Vantrú upp svipaða skoðun á bók Dawkins. Eins og ég skrifaði á Vantrú fyrir tveimur árum síðan þá fannst mér The God delusion ekki vera eitthvert meistarastykki, hún er samt fín og ég mæli alveg með henni.

Aðalatriðið er samt það að þarna er Gunnar ranglega að segja að við dýrkum þessa bók, og hann virðist telja það á einhvern hátt undarlegt, en á sama tíma dýrkar hann sjálfur bók, biblíuna. Að mati Gunnars er hún „fullkomin“, „óskeikul“ og „orð Guðs“.

Frávarp eða saklaust rugl?

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hver tilgangurinn sé með því að setja fram svona augljósar rangfærslur. Er Gunnar bara að reyna að pirra trúleysingjana? Eða er hann bara að rugla? Eða er Gunnar að eigna okkur þessar skoðanir af því að hann er óöruggur með sínar eigin sambærilegu skoðanir?


[1] Eins og til dæmis sem vísun til þess að viðkomandi líti á trúarrit sem mikið kennivald eða telji að það sé óskeikult eða telur mikinn hluta þess vera sögulegan, þegar klárlega er um goðsagnir að ræða.

Hjalti Rúnar Ómarsson 12.01.2011
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Sigurgeir - 12/01/11 15:32 #

Flottur pistil Hjalti og ég verð að taka undir þessar sömu spurningar. Mér hefur oft fundist sumun trúuðum mjög í mun að útmála trúleysingja sem trúaða, sérstaklega hef ég tekið eftir því í umræðum þar sem umfjöllun snertir á meðlimi Vantrúar. Ég er áreiðanlega bara að endurtaka umræðu sem hefur verið hér áður, en ég kemst ekki hjá því þar sem að stimpla trúlausa sem trúaða á trúleysi virðist gríðarlega mikilvægt. Þá stundum virðist hugmyndin að draga úr gildi þeirra rökleiðslu með því að segja: "þið eruð með sömu bókstafstrúna og við ef ekki verri". Eða er ég kannski að fara með rangt mál? er þetta kannski allt byggt á stórum miskilningi hjá mér? Maður hlýtur að spyrja sig.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/01/11 16:08 #

Sæll Sigurgeir. Jú ég held að það gæti vel verið rétt að eitthvað svipað sé í gangi þegar þeir reyna að troða á okkur trúarstimplinum. En mér finnst það ekki jafn gott dæmi og þetta, þar sem að það sem hann Gunnar telur upp er svo augljóslega rangt.


Eiríkur Kristjánsson - 13/01/11 09:20 #

Örn Bárður veitti ykkur þarna (í athugasemd) þvílíkt rökfræðilegt rothögg að ég held þið getið allt eins gefist upp: "Vantrú er heiti á samtökum og í því er auðvitað tilvísun í „trú“!" Þetta föttuðuð þið ekki þegar þið nefnduð samtökin?

En ættuð þið samt ekki, að hætti guðfræðinga, að byrja allar rökræður um Dawkins á: "tja, hver er skilningur þinn á Dawkins?" Ég held til dæmis að Dawkins sé hið þróunarlíffræðilega í okkur öllum, og við höfum öll okkar barnaþróunarlíffræði (þó á hana reyni stundum þegar árin færast yfir). Getið þið sannað hungansflugu? Eða halakörtu? Auðvitað ekki, þær eru svo ólíklegar, þess vegna hlýtur að vera til breskur líffræðingur, fæddur 1941. Annars meikar þetta ekkert sens. Hann hefur gefið okkur "Ranghugmyndina um Guð" sem geymir mikinn lærdóm og leiðsögn þó að staðreyndirnar séu auðvitað missannar. Samt held ég að það sé mikil speki og náð í þeim, þó ósannar séu. Megið þið verða ofan á í baráttunni um lífsviðurværið. Góðar stundir.


Einar - 13/01/11 21:55 #

Býst við að þetta sé kaldhæðni hjá þér Eiríkur, hvað varðar athugasemd Aulabárðar.. Arnars Bárðar átti þetta að vera, fyrirgefðu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.