Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Boðorðin 10

Biblí

Margir kannast við boðorðin sem Þjóðkirkjan og aðrir kristnir söfnuðir predika sem þann grundvöll sem við eigum að halda uppi. Í þeim er t.d. kveðið á um að halda hvíldardaginn heilagan, heiðra föður og móður, ekki myrða og ekki stela. Biblían inniheldur hins vegar tvær mismunandi útgáfur af boðorðunum 10.

Útgáfan sem er þekktari má finna í 2. Mósebók 20:2-17 og er svona:

2 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
3 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
4 Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni.
5 Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig
6 en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín.
7 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma.
8 Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.
9 Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum.
10 En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna.
11 Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.
12 Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.
13 Þú skalt ekki morð fremja.
14 Þú skalt ekki drýgja hór.
15 Þú skalt ekki stela.
16 Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
17 Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.

Formáli þessara boðorða er sá að gyðingarnir hafa flúið ánauð í Egyptalandi og eru komnir að Sínaífjalli þar sem þeir setja upp búðir. Guð hefur gefið Móse þau fyrirmæli að hann muni koma til Móse á fjallinu í augsýn allra til að taka af allan vafa. (2. Mósebók 19:9-10). Ef einhver, maður eða skepna, stígur á fjallið eða rætur þess, fyrir utan Móse, skal líflátinn. 19. kaflinn fjallar meira og minna um undirbúninginn en ekkert minnst á steintöflurnar frægu. Inntak 20. kaflans byrjar síðan á boðorðunum 10 sem flestir þekkja í dag og enn er ekki minnst á steintöflur. Kaflar 21-23 innihalda fleiri lög sem Jahve setti fyrir þjóð sína. Þau voru öll skrifuð niður í svokallaða sáttmálsbók (2. Mósebók 24:4).

Loksins er minnst á steintöflur í 2. Mósebók 24:12 þar sem Jahve ætlar að færa honum steintöflur, lögmálið og boðorðin. Lok 24. kafla og kaflar 25-31 fjalla um ferð Móse upp á Sínaífjall og inn í skýið til að tala við Jahve. Það er ekki fyrr en í 32. kafla þar sem Móse sér að lýðurinn hefur misgjört. Gengur hann þá niður fjallið með sáttmálstöflurnar í hendi sér (2. Mósebók 32:15), sér það sem fólkið var að tilbiðja gullkálfinn og brýtur síðan hinar heilögu töflur.

Eftir misgjörðirnar við rætur fjallsins fer Móse aftur upp í skýið á Sínaífjalli og reynir að milda reiði Jahve gagnvart lýðnum. Þar mælir Jahve fyrir að Móse eigi að höggva aðrar tvær steintöflur eins og þær fyrri. Ritaði Jahve síðan það sem stóð á fyrri töflunum (2. Mósebók 34:1). Í 2. Mósebók 34:14-26 kemur síðan fram það sem stóð á steintöflunum og á þeim er óþekktari útgáfan af boðorðunum 10:

10 Drottinn sagði: „Nú geri ég sáttmála. Ég ætla að gera þau kraftaverk frammi fyrir þjóð þinni sem aldrei áður hafa verið gerð í neinu landi eða hjá neinni annarri þjóð. Allt fólkið, sem með þér er, skal sjá verk Drottins. Það sem ég ætla nú að gera fyrir þig er ógnvekjandi.
11 Haltu það sem ég býð þér í dag. Ég mun hrekja á undan þér Amoríta, Kanverja, Hetíta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.
12 Gættu þess að gera ekki sáttmála við íbúa þess lands sem þú kemur til svo að þeir verði þér ekki að tálsnöru mitt á meðal ykkar.
13 Þú skalt rífa niður ölturu þeirra, brjóta merkisteina þeirra og höggva niður Asérustólpa þeirra.
14 Þú skalt ekki falla fram fyrir neinum öðrum guði því að nafn Drottins er „Hinn vandláti“, hann er vandlátur Guð
15 Þú skalt ekki gera sáttmála við íbúa landsins. Þegar þeir hórast með guðum sínum og færa guðum sínum sláturfórnir munu þeir bjóða þér og þá muntu neyta fórna þeirra.
16 Takirðu dætur þeirra sem eiginkonur handa sonum þínum munu dætur þeirra halda fram hjá með guðum sínum og fá syni þína til að hórast með guðum sínum.
17 Þú skalt ekki gera þér steypta guði.
18 Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Þú skalt eta ósýrt brauð í sjö daga á ákveðnum tíma í abíbmánuði eins og ég hef boðið þér því að í abíbmánuði fórst þú frá Egyptalandi.
19 Allt sem opnar móðurlíf er mitt og allt það sem er karlkyns af fénaði þínum, frumburðir nauta og sauðfjár.
20 Frumburð asna getur þú leyst með lambi en viljir þú ekki leysa hann skaltu hálsbrjóta hann. Þú skalt leysa sérhvern frumburð sona þinna og enginn tómhentur skal koma fyrir auglit mitt.
21 Sex daga skaltu vinna en hvílast sjöunda daginn, hvort heldur er tími plægingar eða uppskeru.
22 Þú skalt halda viknahátíðina, hátíð frumgróða hveitiuppskerunnar og hátíð ávaxtauppskerunnar við áramót.
23 Þrisvar á ári skal allt karlkyn meðal þín birtast fyrir augliti Drottins, Guðs Ísraels.
24 Þegar ég hef hrakið burt aðrar þjóðir undan þér og fært út landamæri þín skal enginn ásælast land þitt þegar þú,
þrisvar á ári, ferð upp eftir til að birtast fyrir augliti Drottins, Guðs þíns.
25 Þú skalt ekki slátra og bera fram blóð sláturfórnar minnar með sýrðu brauði. Sláturfórn páskahátíðarinnar má ekki liggja yfir nótt til morguns.
26 Þú skalt færa það besta af frumgróða jarðar þinnar til húss Drottins, Guðs þíns. Þú mátt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar.

Ólíkt því sem kom fram í 20. kafla eru þessi fyrirmæli sérstaklega skilgreind sem boðorðin 10 og þarf ekki að líta lengra en í vers 27 og 28 í sama kafla:

2. Mósebók 34:27-28
27 Drottinn sagði við Móse: „Skráðu þessi fyrirmæli því að samkvæmt þeim geri ég sáttmála við þig og Ísrael.
28 Móse var með Drottni fjörutíu daga og fjörutíu nætur án þess að neyta brauðs eða vatns og hann skráði á töflurnar orð sáttmálans, boðorðin tíu.

Þessi boðorð eru nokkuð frábrugðin þeim sem hafa verið hafin upp sem boðorðin 10, hornsteinn samfélags okkar, samkvæmt kristnum mönnum. Jafnvel í íslenskri þýðingu Biblíunnar er þeim ekki haldið uppi sem boðorðunum 10, heldur eingöngu undir samnefni þeirra: sáttmálinn. Textinn í 34. kafla gefur til kynna að óþekktari boðorðin 10 voru á báðum steintöflunum og að þau séu hin sönnu boðorð.

Misræmi

Finna má misræmi í Biblíunni hvað þetta varðar í 5. kafla 5. Mósebókar og þar er Móse að minnast á sáttmálann sem Jahve setti fyrir en þá flytur hann útgáfuna sem kirkjan heldur uppi í dag. Eftir lesturinn nefnir hann að þessi orð voru rituð á steintöflurnar en það var augljóslega ekki rétt eins og áður var rakið. Þetta vekur auðvitað upp ýmsar spurningar um réttleika ritanna. Hvor útgáfan af boðorðunum er réttari? Misræmið í 5. Mósebók má útskýra að heimildamaðurinn hafi einfaldlega ruglast og haft rangt eftir eins og er væntanlega algengt með heimildir þess tíma, hvort sem um sé að ræða rit Biblíunnar eða söguheimildir annarra landa.

Í frásögnum á fólk oft til með að gleyma hlutum eða muna þá á annan hátt en þeim var fluttur. Þetta er einkennandi jafnvel í Íslendingasögum og efast ég um að fólk trúi því í raun að Gunnar á Hlíðarenda hafi getað stokkið hæð sína í fullum herklæðum eða að Sæmundur fróði hafi verið í reglulegu sambandi við kölska. Fólk tekur slíkum frásögnum með fyrirvara og af hverju ætti Biblían ekki að vera meðal þeirra?

Svavar Kjarrval 09.01.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Arnar - 09/01/11 20:37 #

Ég veit ekki betur en að Kristnir hafi tekið þetta frá the book of the dead sem Egyptar geriðu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.