Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vantrú og prestapóstlistinn

prestar

Eins og lesendur Vantrúar vita hefur félagið gagnrýnt ríkiskirkjuna harkalega gegnum tíðina. Rekja má stofnun Vantrúar að hluta til þess að biskup Íslands úthúðaði trúleysingjum í nýársávarpi. Þó Vantrú fjalli ekki bara um ríkiskirkjuna og gagnrýni ýmislegt fleira en kristna trú hefur stór hluti starfsseminnar snúist um ríkiskirkjuna þar sem vægi hennar er óeðlilega mikið hér á landi.

Kirkjan hefur auk þess staðið fyrir kristniboði í leik- og grunnskólum landsins og prestar hennar hafa verið óskaplega duglegir við að segja ósatt um málstað trúleysingja í prédikunum sínum – sérstaklega ef prédikunin er flutt í útvarpi allra landsmanna. Þetta og fleira höfum við gagnrýnt harkalega hér á Vantrú. Það mætti, með því að færa örlítið í stílinn, segja að ríkiskirkjan hafi verið höfuðandstæðingur Vantrúar frá stofnun félagsins.

Póstlistinn

14. febrúar 2007 komst Vantrú í sannkallaða gullnámu. Þennan dag rambaði meðlimur félagsins á póstlista starfandi presta á vefsíðu sem var öllum aðgengileg. Á póstlistanum var ýmislegt krassandi, þar með talið umræður um Vantrú.

Þó efnið væri krassandi og veitti okkur einstaka sýn á þankagang og taktík “andstæðinga“ okkar urðu strax umræður um það innan félagsins hvort rétt væri að lesa þessi samskipti. Það var ljóst að þó gögnin væri að finna á galopinni vefsíðu töldu prestarnir sig vera að ræða saman í trúnaði.

Ég ætla ekkert að fegra þetta. Það voru skiptar skoðanir á málinu. Sumum þótti ástæða til að upplýsa kirkjuna að póstlistinn væri öllum aðgengilegur en öðrum þótti engin ástæða til þess, á listanum væru upplýsingar sem skiptu okkur verulegu máli og það væri afar gott fyrir okkur að hafa aðgang að umræðum prestanna.

Niðurstaðan

Eftir snarpar umræður félagsmanna ræddi stjórn félagsins málið. Niðurstaða stjórnar var að ekki væri annað í stöðunni en að upplýsa kirkjuna um málið. Ég var formaður félagsins og fékk það verkefni að hafa samband við biskupsstofu.

Þó einhverjir hafi ekki verið sammála niðurstöðunni sættust félagsmenn á hana.

Viku* eftir að við uppgötvuðum póstlistann hringdi ég í Árna Svan Daníelsson verkefnastjóra á biskupsstofu og benti honum á að samskipti prestanna væru öllum aðgengileg á opinni vefsíðu. Árni Svanur var snöggur til, lokaði síðunni samstundis og þakkaði mér kærlega fyrir ábendinguna. Ég veit ekki hvort hann upplýsti prestana um þetta en geri ráð fyrir því.

Ég neita því samt ekki að stundum væri ég til í að upplýsa hvað klerkarnir töluðu um sína á milli en þrátt fyrir að Vantrú hafi haft aðgang að þessum samskiptum prestanna höfum við aldrei nýtt okkur þær upplýsingar sem þar komu fram og aldrei birt nokkuð af því hér á vefritinu eða annars staðar. Við höfum aldrei dreift stafkrók úr þeim trúnaðarsamtölum sem við höfðum aðgang að. Slíkt væri einfaldlega ekki réttlætanlegt með nokkrum hætti.

Hvað myndi kirkjan gera?

Ímyndum okkur eitt augnablik að ríkiskirkjufólk fengi aðgang að trúnaðarsamtölum félagsmanna á innri vef Vantrúar. Slíkt er ekki óhugsandi. Reyndar liggja þessi samtöl ekki á glámbekk heldur er þau að finna á lokuðu spjallborði sem einungis er ætlað félagsmönnum. Það er þó hægt að komast í þau með ýmsum ráðum ef viljinn er fyrir hendi, t.d. með því að brjótast inn í kerfið eða einfaldlega villa á sér heimildir. Ætli ríkiskirkjufólk, sjálfskipaðir talsmenn siðgæðis og verndarar siðarins í landinu, myndi bregðast við á sama hátt og Vantrú?

Ég er ekki viss.

*Málið tafðist um einn dag vegna veikinda.

Matthías Ásgeirsson 05.01.2011
Flokkað undir: ( Leiðari , Ríkiskirkjan )

Viðbrögð


gös - 05/01/11 10:18 #

Ég brenn af forvitni núna. :)


Halldór L. - 05/01/11 12:16 #

Var þessi grein birt bara til þess að vekja öfund? ;)

Og gott hjá ykkur að segja til, þetta kalla ég heiðarleika.


Kári Emil Helgason - 05/01/11 13:42 #

Af hverju eruð þið að segja okkur þetta? Það má ekki segja svona, þá verður maður svo forvitinn.


Halldór L. - 05/01/11 14:22 #

Svo að ég svari spurningunni, þá held ég að "alger þagnarskylda sé hjá prestum".


Hanna Lára (meðlimur í Vantrú) - 05/01/11 15:06 #

Ég tek ofan fyrir Matthíasi að vera samkvæmur sjálfum sér og gefa ekki upp efnið sem um ræðir.

Matthías sýnir sterka siðferðisvitund og mega kirkjunnar menn öfunda okkur, hin trúlausu, að hafa svo góðan dreng í okkar röðum.

Skiljanlega ertir það forvitni okkar að lesa um þetta "prívat spjall" kirkjunnar manna og okkur langar kannski til að fá að vita hvað nákvæmlega var sagt á þessari vefsíðu þeirra. En Matthías fer hér á undan með góðu fordæmi og sýnir einstakan drengskap.

Aukinheldur hefa klerkar sagt og skrifað nægilega margt andstyggilegt um vantrú og vantrúaða, svo við getum rétt ímyndað okkur óhroðann.

Að minnsta kosti nægir það mér sem hvatning í baráttunni fyrir algerum aðskilnaði ríkis og kirkju og þetta er bara enn ein áminningin um hve nauðsynlegur hann er. Heil og sæl.


Fusillade - 06/01/11 08:17 #

Hver er tilgangurinn með því að segja frá þessu svona löngu seinna?

Var biskupsstofa að brjótast inn á póstlistann hjá ykkur? Voruð þið að komast að því að þeir hafi verið að lesa ykkar samskipti?

Koma nú, engar hálfkveðnar vísur!


Ingi Rúnar - 07/01/11 11:42 #

Er þetta eitthvað um að sumir prestar viðurkenna ykkar málstað..?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/01/11 12:53 #

Ég er nokkuð viss um að flest sumt ríkiskirkjufólk lítur á okkur í Vantrú sem hættulega siðleysingja, níðinga sem láta ekkert gott af sér leiða.

Þessi grein er (meðal annars) tilraun til að benda því fólki á að svo er ekki. Við erum, þrátt fyrir alla okkar gagnrýni á kirkjuna, alveg ágætt fólk og við stundum ekki nokkuð glæpsamlegt athæfi til að klekkja á kirkjunni.


Karl V. Matthíasson. - 10/01/11 03:24 #

Mér finnst það heiðarlegt hjá Vantrú að misnota ekki upplýsingar af lokuðum lista sem henni var þó opinn. Ef við í kirkjunni "kæmumst" inn á lokaðan umræðulista Vantrúar vona ég að niðurstaðan yrði sú eftir stilltar umræður að við myndum gera hið sama og Vantrú gerði gagnvart okkur "Allt sem þér viljið aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra" Gleðilegt ár. Kalli Maft


Lena Rós Matthíasdóttir - 10/01/11 11:04 #

Ég fagna því að Vantrú skuli eiga svo góðan dreng í sínum röðum, þótt mér komi það reyndar ekki hið minnsta á óvart og geri ráð fyrir að hvert og eitt ykkar (konur sem karlar í Vantrú) sé ,,drengur góður".

Ég veit ekki hvernig ég mögulega get tjáð mínar bestu hugsanir í ykkar átt, öðru vísi en með því að óska ykkur Guðs blessunar. Ég geri samt ekki ráð fyrir að það hafi nokkra merkingu í ykkar huga, veit það ekki, ef satt skal best segja. En í mínum huga er það frómasta óskin mín.

Með þeim orðum óska ég ykkur í Vantrú, gleðilegs árs!


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/01/11 12:53 #

Ég fagna því að Vantrú skuli eiga svo góðan dreng í sínum röðum, þótt mér komi það reyndar ekki hið minnsta á óvart og geri ráð fyrir að hvert og eitt ykkar (konur sem karlar í Vantrú) sé ,,drengur góður".

Lena, þessi fallegu orð ríma ekki við það sem ég sá þig skrifa á Facebook um daginn:


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 12/01/11 14:04 #

Auðvitað var rétt hjá Vantrú að láta vita og nýta ekki upplýsingar sem rambað var á fyrir tilviljun.

Ég velti samt fyrir mér hvort ekki sé rétt að fá þessar umræður birtar? Er ekki einhver sem þekkir upplýsingalögin nægilega vel til að vita hvort ekki er ástæða til að krefjast birtingar gagnanna.

Þarna eru starfsmenn í opinberu starfi á launum hjá ríkinu að ræða mál sem snerta starfið. Er eitthvað þarna sem uppfyllir kröfu upplýsingalaga um trúnað?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 13:13 #

Að gefnu tilefni, í ljósi síðustu frétta endurtek ég lokaorð greinarinnar.

Ímyndum okkur eitt augnablik að ríkiskirkjufólk fengi aðgang að trúnaðarsamtölum félagsmanna á innri vef Vantrúar. Slíkt er ekki óhugsandi. Reyndar liggja þessi samtöl ekki á glámbekk heldur er þau að finna á lokuðu spjallborði sem einungis er ætlað félagsmönnum. Það er þó hægt að komast í þau með ýmsum ráðum ef viljinn er fyrir hendi, t.d. með því að brjótast inn í kerfið eða einfaldlega villa á sér heimildir. Ætli ríkiskirkjufólk, sjálfskipaðir talsmenn siðgæðis og verndarar siðarins í landinu, myndi bregðast við á sama hátt og Vantrú?

Við þurfum ekkert að ímynda okkur því við vitum hvað gerðist.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 13/05/11 14:18 #

Rétt er það - viðbrögð Bjarna Randvers þegar hann komst yfir trúnaðargögn af innra spjalli Vantrúar lýsa því ágætlega að sumum andstæðinga okkar finnst greinilega í fínu lagi að nýta sér stolnar og/eða illa fengin gögn sér til framdráttar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.