Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Öfgamaður eins og ég

Landslagsmynd

Þriðjudaginn 14. desember las ég frétt um Taimour Abdulwahab. Þessi ólukkulegi maður sprengdi sjálfan sig í loft í Stokkhólmi fyrir skemmstu. Við lestur á fréttinni komst ég að því að þessi maður var bara alveg eins og ég enda var hann litinn hornauga meðal trúbræðra sinna fyrir "að boða öfgar" og "að vera of róttækur". Ég, eins og aðrir meðlimir í Vantrú, veit að ég er öfgamaður enda er það stimpillinn sem við fáum hjá mörgum í samfélaginu.

Ég fór eftir lesturinn að velta fyrir mér hvaða öfgar Taimour hafi verið að boða. Mögulega hefur hann gagnrýnt það að prestar kæmu á leikskóla barna hans til að boða þeim kristna trú. Það gæti líka verið að hann hafi verið andvígur ríkisstyrkjum til kristinna trúfélaga. Hann hefur jafnvel gengið svo langt að hvetja fólk til að skrifa blaðagreinar þar sem ríkjandi skoðanir væru gagnrýndar. Slíkar öfgar hef ég sjálfur ástundað í gegnum tíðina.

Þegar ég leitaði mér að meiri upplýsingum um öfgarnar sem Taimour boðaði þá varð ég svolítið hlessa. Svo virðist sem að hann hafi fyrst og fremst verið talinn öfgasinnaður af því að hann boðaði ofbeldi - sjálfsmorðsprengjuárásir sérstaklega. Svoleiðis öfgar sumsé.

Ég kalla mig stundum öfgatrúleysingja. Það er aðallega gert í hæðni sem ég vona að fólk sjái í gegnum. Öfgar mínar eru nefnilega fyrst og fremst að nota tjáningarfrelsi mitt til gagnrýna skoðanir annarra og hvetja til trúfrelsis og jafnréttis. Hver hugsandi maður ætti líka að sjá að ég á ekkert sameiginlegt með þeim öfgum sem Taimour Abdulwahab var gagnrýndur fyrir. Það er hrein og bein gengisfelling orðsins öfgar þegar því er beint að mér og mínum friðelskandi félögum í Vantrú og er þá fyrst og fremst merki um vitsmunalegt gjaldþrot þess sem notar orðið á þann hátt.

Óli Gneisti Sóleyjarson 18.12.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Sindri G - 18/12/10 15:17 #

Góð grein.


Sigurður Karl Lúðvíksson - 18/12/10 15:40 #

Flott grein. Kaldhæðnin er góð og brúkleg.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/12/10 15:41 #

Þessi mynd finnst mér alltaf summa þetta upp:

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.