Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Draumasamfélagið?

Prestar

Eins og svo margir sem vilja sjá breytingar á samfélaginu get ég verið afskaplega mikil draumóramanneskja. Ég þykist sjá svo glöggt fyrir mér hvernig samfélagið yrði ef einhverjir draumóra minna myndu verða að veruleika. Sér í lagi hvað varðar trúmál.

Ég hef þá hugmynd að samfélagið yrði betra ef trúarbrögðum og boðun þeirra yrði haldið á þeim stöðum sem þau eiga vissulegt og siðferðislegt erindi á. Menntastofnanir landsins eru ekki meðal þeirra staða sem boðun trúar á heima og það á að vísa henni þaðan, eins og hverri annarri boðflennu.

Sekúlarismi í opinberum stofnunum eins og trúboðsleysi í leik- og grunnskólum leiðir til hlutlausra skóla, sem leiðir til umburðarlyndis í garð samferðamanna fólks, sem leiðir til fordómaleysis í garð trúarbragða og þeirra sem iðka engin trúarbrögð. Þannig geta öll dýrin í skóginum verið vinir, því að trúarbrögð þurfa ekki að hafa nein áhrif á gang mála frekar en skoðanir manna á engifer og myntu.

Vandinn er þegar fólk er farið að láta órökstuddar og óafsannalegar - og jafnframt ósannanlegar - hugmyndir sínar hafa áhrif á líf annarra. Þeir sem aðhyllast kristna trú eru margir á öðrum skoðunum hvað þetta mál varðar, enda hefur kristið trúboð í leik- og grunnskólum engin teljanleg áhrif á líf þeirra eða barnanna þeirra.

Börn kristinna foreldra eru einungis að heyra það sem þau fá að heyra heima hjá sér, en börn múslima, votta Jehóva og gyðinga, svo að dæmi séu nefnd, eru beinlínis innrætt hugmyndir og viðhorf sem brjóta algerlega í bága við það sem fjölskyldur þeirra segja og gera.

Börn trúlausra foreldra eru þá uppfyllt af hugmyndum sem eru jafnvel ekki í líkingu við neitt sem þau hafa heyrt áður. Það sem gerist þá er það að börnin verða fyrir vissum þrýstingi, hins vegar að vera ekki öðruvísi en hin börnin í skólanum og annars vegar að vera ekki öðruvísi en allir í fjölskyldunni sinni.

Kristið fólk á oftar en ekki mjög erfitt með að setja sig í spor annarra hvað þessi mál varðar, eða er jafnvel svo blint á eigið ágæti að það segir að Ísland sé kristið land og að ef við hin getum ekki sætt okkur við það, getum við bara farið eitthvert annað.

Hvernig þætti þeim ef að við hin, sem erum ekki kristin,værum með blóthald í grunnskólum og dreifðum sérvöldum kvæðum úr Hávamálum til barna, kölluðum það heiðið trúboð (því heiðni var jú hérna fyrst) og segðum að þau gætu bara sjálf farið eitthvert annað með sína innfluttu Miðjarðarhafstrú?

Svo þrátt fyrir að börn kristinna manna séu ekki að heyra neitt annað en það sem þau heyra frá foreldrum sínum, þá er lúmskt verið að innræta þeim þá hugsun að þau séu betri en þeir sem trúa einhverju öðru eða jafnvel engu.

Ég veit af reynslu frá fyrstu hendi hvernig það er, ég er alin upp af kristnum foreldrum og var í leikskóla þar sem var - og er enn - stundað grimmt trúboð.

Þegar ég fór í grunnskóla voru þar nemendur sem voru ekki kristnir og ég taldi mig vera betri heldur en þau því það var búið að koma þeim hugmyndum að hjá mér að guðinn minn væri betri en guðinn þeirra (mér var þó ekkert kennt um þeirra guð, annað en það að minn sé betri).

Ég „frelsaðist“ þó út fjötrum trúarbragða og losnaði við þessar ranghugmyndir, en stór hluti þeirra sem verða fyrir boðun kristinnar trúar,eins og hún fer fram,halda í þessar hugmyndir ævilangt og innræta þær í sín eigin börn, sem gerir það að verkum að afleiðingar trúboðs eru eins og krónískur sjúkdómur sem samfélagið losnar ekki við.

Hvernig væri þá að innræta þeim enga trú og sjá hvort að þau, sem fullorðnir einstaklingar með gagnrýna hugsun, trúi einhverju af því sem trúboðar halda fram? Mikið hefði það verið gott ef Móses hefði bætt við ellefta boðorðinu þegar hann kom af fjallinu: 11. Þú skalt halda guði þínum fyrir þig sjálfan.

Ég, verandi draumóramanneskjan sem ég er, tel að samfélagið væri betri staður og að við ættum auðveldara með að lifa í sátt og samlyndi við hvert annað ef það hefði komið fram í biblíunni.

Andrea Gunnarsdóttir 08.12.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Edward - 08/12/10 21:46 #

Sæl, Andrea.

Mig langar til að vita nafn og staðsetningu leikskólans sem þú fórst í þar sem trúboð var og er stundað grimmt, eins og þú segir í grein þinni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/12/10 22:45 #

Af hverju viltu vita það Edward?


Edward - 08/12/10 22:58 #

Ég var nú að spyrja greinarhöfund, Andreu, ekki þig Matti. En ef þú veist hvaða leikskóli þetta er þá máttu svo sem alveg upplýsa okkur hin um það svo við getum varað okkur á honum. Annars myndi ég frekar vilja svar frá Andreu þar sem hún þekkir málið frá fyrstu hendi.


Andrea (meðlimur í Vantrú) - 08/12/10 23:01 #

Leikskólinn heitir Hlíðaból, hann er sjálfstæð stofnun innan Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri.


Ingó - 09/12/10 19:57 #

Sæl Andre

Ég upplifi þetta með fótboltan í samfélaginu og í skólanum ég er ekki mikil fótbolta aðdáandi. Mér finnst fótbolti kenna siðleysi og óheiðarleika og það er þrýstingur á börnin mín að fara í þessa íþrótt og ef þau gera það ekki þá er hætta á að þau verða útundan. Ég neyðist því til þess að láta undan og leyfa þeim að stunda þessa voalegu íþrótt og skólastjórinn í skólanum hefur neitað mér því að taka fótbolta velli af skólalóðinni og banna fótbolta félögum að auglýsa starfsemi sína í skólanum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/12/10 20:06 #

Ingó, þetta er ekki á nokkurn hátt sambærilegt.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 09/12/10 20:06 #

Ég held reyndar að það gæti reynst erfitt að "taka fótbollta velli af skólalóðinni".


Andrea (meðlimur í Vantrú) - 09/12/10 20:51 #

Sæll, Ingó og þakka þér fyrir viðbrögðin. Leitt að heyra að börnin þín neyðist til að spila fótbolta í trássi við þinn og þeirra eigin vilja vegna þrýstings frá umhverfinu. En gengur fótboltinn sem börnin þín spila út á það að sannfæra fólk um að það sé karl uppi á himnum sem skapaði heiminn og fylgist með öllu sem allir gera í þeim tilgangi að nota það gegn þeim þegar þau gefa upp öndina? Er eitthvað félag fótboltaspilara sem þiggur fimmþúsund milljónir á hverju ári úr tómum kassa ríkisins fyrir að láta börn spila fótbolta? Er þjálfari barnanna þinna með hálfa milljón í byrjunarlaun?


Edward - 09/12/10 23:07 #

Þessi leikskóli sem þú nefnir, Andrea, getur engan vegin talist dæmigerður leikskóli á Íslandi enda er hann sjálfstæður og beinlínis stofnaður sem kristinn trúboðsskóli. Finnst þér að þú hafir verið beitt einhvers konar misrétti, jafnvel ofbeldi að vera sett í þennan leikskóla?


Nonni - 10/12/10 09:48 #

Edward: Hvað kemur spurning þín um hvort greinahöfundur telji sig eða telji sig ekki hafa verið beittan misrétti með því að hafa verið í þessum leikskóla greininni við?


Brynjar Örn Ellertsson (meðlimur í Vantrú) - 10/12/10 10:22 #

Að mínu mati er trúboð á ungra aldri ofbeldi á hugum barnanna: Sjá: Dispatches - In God's Name


Ingó - 10/12/10 19:41 #

Sællir Vantrúar menn

Ég ætlaði alls ekki að gera lítið úr greininni hér það sem ég vildi sýna fram á er hversu mikilvægt það er fyrir okkur að fá að koma málefnum okkar á fram færi.

Það er ótrulegt hvað við maðurinn erum vanafastar skepnur og það sem telst eðlilegt eiga allir í samfélaginu að sætta sig við taka þátt í.

Ég fann fyrir svipaðri tilfiningu í skrifum Andreu og ég ber til fótboltans. Mér finnst eins og fólki finnist að allir eigi bara að vera í þjóðkirkjunni og horfa á fótbolta. Ef farið er út fyrir þetta þá er fólk orðið skrítið og furðulegt.

Kveðja Ingó


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/12/10 20:01 #

Ég skil ekki þessa líkingu með fótbolta. Nú er ég áhugamaður um fótbolta, bæði iðkun og gláp, en ég get ekki séð að það sé nokkur krafa í samfélaginu að annað fólk hafi sama áhugamál. Ég man ekki eftir að nokkur hafi haldið því fram að fólk sem heldur ekki með Liverpool sé siðlaust.

Nú má vera að stundum sé farið í fótbotla í leikfimi - en ég veit ekki til þess að börn séu dregin á völlinn til á glápa á fótbolta í skólatíma.

Þannig að þó þér sé illa við fótbolta kæri Ingó, þá er samlíkingin samt sem áður út í hött.


Nonni - 11/12/10 23:42 #

Samlíkingin er mjög langt frá því að vera út í hött. Þeir sem ekki spiluðu fótbolta í mínu ungdæmi urðu fyrir aðkasti. Það er veitt gífurlegum peningum í almannaeigu í að sjónvarpa og byggja infrastrúktúr fyrir þessa íþrótt, mun meira heldur en nokkra aðra íþrótt, og það er réttlætt með vinsældar- og hefðarrökum. Fótbolti gengur út á það að það eru nokkrir sem eru bestir, og það á alltaf að gefa á þá, og þeir sem klúðra sendingum munu brenna í helvíti þó nokkuð löngu áður en þeir deyja.

Hins vegar er Ingó að taka samlíkinguna ansi langt. Það er ekkert sem bannar að nota skólafótboltavelli til annars en fótbolta, annað en hefðin. Eins er heldur enginn að banna fólki að biðja bænir í frímínútum upp á sitt eindæmi.

Ingó vill samt banna fótboltafélögum að auglýsa í skólanum. Eins á að banna kirkjunni að auglýsa sitt æskulýðsstarf. Sér einhver rökin fyrir því? Mér hefur ekki þótt þörf á því tiltekna banni í tillögum mannréttindaráðs og mætti alveg taka það til endurskoðunar. Það er samt ekki það sem kirkjan og Gídeonfélagið hafa verið að væla yfir, heldur það að þeir fái ekki að stunda trúboð í skólum sem er miklu meira en passífar auglýsingar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.