Ég vil þakka séra Erni Bárði Jónssyni sneiðarnar í Fréttablaðinu 18. nóvember sl. í grein hans "Skoðanir úr skólum?" Mér varð á að skrifa grein þar sem ég tók undir þá stefnu Menntasviðs Reykjavíkur að forðast beri aðstæður í skólum þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samrýmast trúar- eða lífsskoðun þeirra. Ég ítrekaði að sjálfsagt væri að fræða börn um trúarbrögð og þá sér í lagi kristni hér á landi en samt segir Örn Bárður í "svari" sínu um mig: "Þessi ákafi trúmaður virðist vilja koma allri umræðu um trú og lífsskoðanir út úr skólum borgarinnar og væntanlega landsins alls." Hugsið ykkur.
En rangfærslurnar eru rétt að byrja því sérann ætlar mér og öðrum einmitt að vilja það sem við berjumst gegn, að börn okkar séu tekin út úr hópnum vegna trúarskoðana. Um þann strámann segir presturinn í heilagri hneykslan: "Í ljósi málflutnings trúmanna í Vantrú og Siðmennt sem eiga börn í skólum, spyr ég, hvort yfirvöld þurfi ekki að sjá til þess að slíkt fólk haldi börnum sínum ekki í skoðana-gettói og meini þeim að kynnast viðhorfum annarra?" "Drómaduld, lokunarlosti og haftahugnun Reynis og hans skoðanabræðra er mér ekki að skapi." Enn er trú klínt á trúlausa, efast um uppeldishæfileika þeirra og mér eignaðar annarlegar hvatir. Sem foreldri, formanni Vantrúar og sálfræðingi, sem hefur þar að auki unnið í barnavernd, er mér misboðið.
Ef skólinn gætir þess að fara ekki út fyrir hlutverk sitt og fræðir börn um trú í stað þess að boða þeim, innræta eða láta þau iðka trú er engin þörf á að taka neinn út úr hópnum vegna trúarskoðana. Slíkt kallast mismunun og er bannað með lögum. En Örn Bárður sér ekkert athugavert við trúboð í skólum (brot á aðalnámskrá) og mismunun vegna trúarskoðana (brot á lögum um leik- og grunnskóla). Um það sagði hann svo smekklega í Fréttablaðinu 11. nóv. sl.: "Það hefur alltaf haft kostnað í för með sér að tilheyra minnihlutahópi. Þessi nálgun, "vesalings ég og börnin mín", virkar ekki sannfærandi. Þú verður bara að kyngja því að börnin þín uppgötvi að þau tilheyri minnihlutahópi ef þú hefur valið sjálfum þér og þeim lífskoðanir minnihlutans."
En það kveður við falskan tón þegar prestur sver af sér að hafa "talað um að Gídeon-menn fari með bænir í skólum" þótt hann viðurkenni að hafa "talað fyrir því að þeir gefi börnum NT". Ekki tekur hann svo djúpt í árinni að hann sé á móti bænalestrinum en það liggur í orðanna hljóðan. Er þá eitthvað athugavert við bænalestur Gídeon-manna? Er börnum ekki hollt að sjá hvernig menn, sem kenna sig við fégráðugan fjöldamorðingja og fjölkvænismann í Gamla Testamentinu, tala við guðinn sinn og taki þátt í því? Blundar "drómaduld, lokunarlosti og haftahugnun" í ranni sérans sjálfs eða veit hann að trúboð á ekkert erindi í skóla?
Í grein minni benti ég á að enn eru börn skráð við fæðingu í trúfélag móður þótt slíkt brjóti gegn jafnréttislögum og sé í hæsta máta óeðlilegt. Um það segir presturinn: "Varðandi skráningu barna í trúfélag móður þá senda prestar mánaðarlega skýrslur um skírð börn í sínu prestakalli til Þjóðskrár." En skírn er eitt og skráning annað. Undarlegt að prestar skuli ekki vita það.
Örn Bárður kallar það síðan lyga- og áróðurstuggu að ríkið haldi úti einu trúfélagi en á næstu síðu blaðsins þennan dag kallaði séra Hjörtur Magni Jóhannsson Þjóðkirkjuna orðrétt "ómynduga ríkisrekna trúmálastofnun".
Eins og hæfir efninu lýkur Örn Bárður grein sinni á leikskólaplaninu og segir: "Kirkjan mun ávallt leitast við að standa á sannleikanum og hún mun alltaf lifa því hann sem er "vegurinn, sannleikurinn og lífið" er með henni í verki. Hann er sigurvegarinn og mun að lokum sigra vélráð og vonsku heimsins, vonleysi og vantrú."
Kannski má ég teljast sæll fyrst prestur vill stimpla mig trúaðan, efast opinberlega um foreldrahæfni mína og lýgur upp á mig vélráðum og vonsku í nafni þess sem sagði: "Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna."
Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.
Æ, það er ekkert voðalega spennandi tilhugsun.
Ætti Örn Bárður þá ekki að kæra mig fyrir að segja að hann vilji trúboð í skólum? Í athugasemdum á tru.is segir hann (eftir að grein mín var skrifuð):
Í blaðagreinum mínum hef ég alls ekki talað fyrir trúboði í skólum...
Við, prestar, erum álitnir stórvarasamir trúboðar, á meðan ýmsir aðrir mega boða sínar skoðanir og lífsviðhorf og eru ekki taldir til trúmanna. Þetta er rökvilla. Lífið snýst um trú (lífsviðhorf) og ekkert tómarúm er til í þeim efnum. Samt er ég ekki að tala fyrir trúboði í skólum. Taktu vel eftir þessum síðustu orðum mínum!
Örn Bárður er tvísaga. Segir að hann tali ekki fyrir trúboði en að ýmsir aðrir stundi boðun skoðana og lífsviðhorfa. Niðurstaðan hlýtur því að vera að honum þyki boðun ekki bara leyfileg heldur óhjákvæmileg.
Og hann styður að trúboðssamtök Gídeon-manna fái að koma í skólana og dreifa NT. Það er auðvitað ekkert annað en grímulaust trúboð. Sjá hér.
Hvað þýðir "Drómaduld"?
Eina tilfellið sem ég hef heyrt eitthvað því líkt er orðatiltækið "drepa úr dróma" en drómi var, ef ég man rétt, fyrsti fjöturinn sem var notaður til að binda fenrisúlf. Sem hann sleit auðveldlega.
P.S. Ég held að ummæli Örns dæmi sig sjálf.
Til hamingju með greinina. Vonandi lækkar hún rostann í þessum ómerkilega presti.
Mjög vel skrifuð grein, verð að hrósa þér Reynir fyrir að vera málefnalegur að vanda og ekki láta Örn draga þig niður á hans leikskólaplan.
Mig langar, sem verðandi leikskólakennari, að mótmæla þeirri ásökun Arnar hér fyrir ofan að leikskólabörn séu almennt á pari við það sem Örn Bárður hefur boðið upp á nú nýlega. Hann sér varla upp undir iljarnar á þeim neðan af sinni syllu:)
Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.
Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.
Halldór L. - 25/11/10 15:54 #
Þetta meðal annars hafði hann, Örn Bárður, að segja um þig, Reyni Harðarson:
http://tru.is/pistlar/2010/11/skodanir-ur-skolum/
Nema að þú hafir einhversstaðar lagst gegn umræðu um trú og lífsskoðanir, gætirðu þá ekki kært hann fyrir lygar og svertingu orðspors þíns? Fengið þetta dæmt ómarkvert?