Í gær hófst kirkjuþing ríkiskirkjunnar. Með því að skoða hvaða mál eru á borðinu á þessu árlega „Alþingi kirkjunnar“ fæst smá innsýn í ríkiskirkjuna. Hérna er yfirlit yfir helstu áhugaverðu málin.
Stóru málin sem hafa verið töluvert í umfjöllun fjölmiðla upp á síðkastið eru auðvitað þarna. Þetta eru mál eins og stofnun rannsóknarnefndar til að skoða viðbrögð ríkiskirkjunnar við ásökunum á hendur Ólafs Skúlasonar, þáverandi æðsta biskup.
Einnig má sjá viðbrögð við setningu einna hjúskaparlaga þarna, á þinginu er tillaga um að breyta orðalagi í Samþykkt um innri málefni kirkjunnar, þannig að það hljómi svona: „Kirkjuleg hjónavígsla er helgiathöfn þar sem tveir einstaklingar, karl og kona, eða tveir karlar eða tvær konur, heita hvor öðrum ævitryggðum, að eiga, njóta og þiggja saman önn sem yndi lífsins, gleði og sorgir.“
Auk þess er líka lögð fram ný útgáfa af Þjóðkirkjulögunum, en ef kirkjuþing samþykkir það, þá mun kirkjan biðja dómsmálaráðherrann um að bera nýju útgáfuna fram á Alþingi. Þau lög snúast aðallega um innri stjórnun ríkiskirkjunnar. Í nýju útgáfunni er til dæmis því bætt við að skilyrði þess að fá vinnu sem prestur í ríkiskirkjunni sé trúfélagaskráning í hana!
Þarna er auðvitað mikið rætt um fjármál ríkiskirkjunnar. Í skýrslu um fjármál Þjóðkirkjunnar má sjá að ríkið mun líklega borga kirkjunni um það bil 3,5 milljarða árið 2011 (ef kirkjugarðar eru ekki teknir með). Af því munu 981 milljónir fara í laun presta, 27 milljónir í laun biskupa (þeir eru þrír) og 97 milljónir í launakostnað Biskupsstofu.
Sóknargjöld eru kirkjunni auðvitað hugleikin og kirkjan margendurtekur þá ranghugmynd að sóknargjöldin séu félagsgjöld „enda eru [sóknargjöld] félagsgjöld í eðli sínu“ # og sú rétta skoðun, að telja sóknargjöld vera ríkisframlag, er meira að segja kölluð „hleypidómur“.
Ríkiskirkjupresturinn og kirkjuþingsmaðurinn Sigurður Árni Þórðarson hefur áður lofað því að „herða á“ reglum um trúfélagaskráningu „til að sporna við að þriðji aðili geti séð um breytingu á trúfélagsskráningu fólk“. Ég leyfi mér að fullyrða að Sigurður Árni hafi verið að hugsa um skráningarátak Vantrúar. Á þessu kirkjuþingi ætlar Sigurður hins vegar bara að leggja til að fólk geti valið til hvaða sóknar sóknargjaldið þeirra fari og „[m]eð því mætti án efa draga úr úrsögnum úr þjóðkirkjunni og e.t.v. endurheimta hluta þeirra sem yfirgefið hafa söfnuði þjóðkirkjunnar,...“.
Sigurður er ekki einn um að hafa áhyggjur af félagatali ríkiskirkjunnar. Í skýrslu Kirkjuráðs má lesa um það að kirkjuþing 2009 „ályktaði að prestar og söfnuðir sjái til þess að haldið verði vel utan um félagaskráningu í þjóðkirkjuna.“ og vegna þessa hafi biskupinn „vakið athygli sóknarnefnda og presta á þessu máli í vísitasíum og þar sem tækifæri hafa gefist.“
Það er gleðilegt að sjá mál þar sem lagt er til að „kjósa starfshóp til að huga að aðskilnaði ríkis og kirkju“. Hópurinn á að leggja fram tillögur sem „[tilgreina] hvernig, með hvaða markmið og með hvaða hætti full aðgreining íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar gæti farið fram".
Maður vonar auðvitað að það kirkjufólk sem styður jafnrétti í trúmálum, og þar með aðskilnað ríkis og kirkju muni ná yfirhönd innan kirkjunnar, svo að ríkiskirkjan hætti að berjast gegn þessu réttlætismáli.
Eins og oft áður þá ræður kirkjuþing um hvernig skuli tryggja það að fá börn landsins til að aðhyllast trúarskoðanir kirkjunnar og vera meðlimir í henni. Tillaga „til þingsályktunar um námskrá fyrir fræðslu þjóðkirkjunnar“ er ef til vill góð útskýring á því hvers vegna kirkjan bregst illa við tillögum mannréttindaráðs Reykjavíkur:
Markmið uppeldisstarfs í leikskólum skal m.a. taka mót sitt af kristinni arfleið eins og grunnskólinn. Æskilegt er því að auka samstarf kirkjunnar og leikskólans. (bls. 6)
Auka þarf samstarf skólans og kirkjunnar enda nær skólinn til flestra barna sem skírð eru. Kirkjan hefur upp á margt að bjóða sem getur á margvíslegan hátt styrkt hið góða starf sem unnið er í leik- og grunnskólum.
Þar sem bæði leikskólanum og grunnskólanum er ætlað að taka mið af kristnum gildum í starfi sínu er æskilegt að koma á góðu og reglulegu samstarfi við þessa aðila. Þetta samstarf þarf að byggja á forsendum skólanna. (sjá nánar í viðauka 1.) (bls. 7)
Við lestur þessarar tillögu kemur undarleg notkun orðsins „að fræða“ óvönum líklega á óvart, en það er algengt hjá kirkjufólki að tala um „fræðslu“ þegar átt er við að innræta krökkum trúarskoðanir kirkjunnar. Til dæmis er talað um að „[m]egintilgangur með barnastarfi kirkjunnar [sé] að fræða börnin um Guð“ (bls. 5), en þarna er átt við að fá börnin til að tileinka sér ýmsar trúarkenningar varðandi eðli guðs (eins og t.d. þrenningarkenninguna).
Ríkiskirkjufólkið hefur skiljanlega miklar áhyggjur af almannategnslamálum. Fyrir þingið liggur meðal annars tillaga um „að efna til ítarlegrar kynningar á starfsháttum, skipulagi og starfi þjóðkirkjunnar á meðal almennings.“. Því miður virðist þessi kynning ekki snúast um að kynna fólki staðreyndir, heldur áróðurspunkta frá kirkjunni eins og að sóknargjöld séu félagsgjöld. En það er ljóst að þetta á að verða heljarinnar áróðursherferð:
Kynningarátakið verði faglega útfært með fræðslu-og upplýsingamiðlun. Kallað verði á fagfólk innan kirkjunnar í almannatengslum til samstarfs um skipulag og framkvæmd. Lögð verði áhersla á gerð kynningar-og upplýsingaefnis, námskeiða-og ráðstefnuhald, blaðagreinar, samstarf við fjölmiðla og kynningar í söfnuðum og sérstökum hópum og gagnvart stjórnvöldum.
Kirkjuþing síðasta árs stofnaði starfshóp til að búa til „samskiptastefnu“ ríkiskirkjunnar og á þessu kirkjuþingi er þessi áhugaverða tillaga lögð fram. Í þessari stefnu má annað hvort lesa þá glansmynd sem höfundar hennar vilja gjarnan að fólk hefði af kirkjunni, eða þá að þetta er sú draumakirkja sem höfundarnir vilja tilheyra.
Undir liðnum „[Þjóðkirkjan] er opin“ (bls.1) , má til dæmis lesa þetta: „Kirkjan er hlustandi kirkja sem hefur hugrekki til að iðka heiðarlegt og gagnsætt samtal um skilyrði og stöðu trúarinnar í samtímanum.“ Umræðan um tillögur mannréttindaráð Reykjavíkur hafa sýnt fram á að kirkjan hefur ekki „hugrekki“ til að iðka heiðarlegt og gagnsætt samtal. Gott dæmi um þetta er óheiðarlegur málflutningur Arnar Bárðar, en hann er einmitt einn höfunda þessarar samskiptastefnu.
Örn Bárður vill síðan ekki svara þessari grein um óheiðarlega málflutningin hans af því að segist ekki fara inn á þessa ágætu vefsíðu, vantru.is.. Sú vantrúarfælni Arnar Bárðar er auðvitað í frekar mikilli mótsögn við annan áhugaverðan lið í þessari samskiptastefnu: „3.4. Nýir miðlar“. Þar eru áherslupunktarnir þessir:
Við erum virk á netinu og bjóðum upp á þjónustu kirkjunnar.
Við hverjum meðlimi kirkjunnar til bera trú sinni vitni á netinu.
Við eigum gott samstarf við netsamfélög og virka netnotendur.
Ég myndi auðvitað fagna því ef kirkjan myndi „bera trú sinni vitni á netinu“ og eiga gott samstarf við einn virkasta trúmálavef landsins, vantru.is. Góð byrjun væri til dæmis það að vera opin fyrir því að heimsækja vefsíðuna okkar, og kannski vísa á hana þegar þau fjalla um hana (sem er grundvallaratriði í netkurteisi sem kirkjunnar fólk virðist ekki kunna þegar Vantrú á í hlut).
Sumar nethugsjónir kirkjunnar virðast líka vera frekar óraunverulegar, ég get til dæmis ekki ímyndað mér að kirkjan eigi eftir að búa til „tölvuleiki á netinu“ (bls 6) til þess að miðla trúarboðskapnum. En líklega er markhópurinn börn, þannig að kannski myndi það virka. Kirkjan vill líka „leita nýrra leiða við miðlun kristins boðskapar“ og tekur sem dæmi „Barnaefni í útvarpi og sjónvarpi“ (bls. 6)
Áhugaverðasti hluti þessarar samskiptastefnu er líklega lokahlutinn, þar sem minnt er á fjórar tillögur úr skýrslu um samband kirkju og fjölmiðla frá 2008, og það er ljóst að kirkjan hefur nýlega reynt að fylgja þessum tillögum:
1. Krísustjórnun
Að þjóðkirkjan skilgreini formlega farveg sem taki með kerfisbundnum hætti á óvæntum fjölmiðlauppákomum sem snerta kirkjuna. ... Tilgangurinn væri að svala upplýsingaþörf fjölmiðla hratt og vel og gefa kirkjunni tækifæri í að taka frumkvæði í upplýsingaflæðinu og hafa þannig möguleika á að hafa áhrif á tón umræðunnar.
2. Frumkvæði
Að kirkjan verði virkari aðili að fjölmiðlasamfélaginu sjálfu og taki frumkvæði að opinberum samræðum í fjölmiðlum og fagbundnum samtölum við fjölmiðlafólk og aðra mikilvæga skoðanamótandi hópa um mikilvæg siðferðileg málefni. ...
Umræðufundir, námskeið (jafnvel inni á fjölmiðlum) í samstarfi við háskóla og stéttarfélög, og málstefnur, gætu verið leiðir til að ná slíku fumkvæði. Með því að verða slíkur samtalsvettvangur um siðferðileg mál fyrir fjölmiðlafólk verður kirkjan sjálfkrafa sams konar samtalsvettvangur í fjölmiðlaveruleikanum.
3. Vigtun
Að vigta í umræðunni. Brýnt er að koma í veg fyrir að þjóðkirkjunni verði ýtt til hliðar og hún gerð að einum af mörgum og jafnréttháum álitsgjöfum eða hagsmunaaðilum í fjölþættu samfélagi. Þjóðkirkjan er þrátt fyrir allt langsamlega stærsta trúfélag landsins og í raun miklu óumdeildara en ætla mætti af fjölmiðlaumræðunni. Í fjölmiðlum hefur verið tilhneiging til að “marginalisera” kirkjuna og stilla henni upp sem “einum aðila máls” og setja hana á stall með mun smærri trúfélögum eða jafnvel áhugahópum um heimspeki og andleg málefni. Þjóðkirkjan þarf að vigta í umræðunni í samræmi við raunverulega þyngd sína þannig að það verði fyrstu viðbrögð í hugum fjölmiðlamanna þegar siðferðilegt álitamál kemur upp að spyrja: Hvað segir kirkjan við því? Þessu markmiði verður náð með því annars vegar að taka frumkvæði í umræðunni og vera sá samtalsvettvangur fjölmiðlafólks og þjóðarinnar sem rætt er um í tillögu 2 hér að ofan og hins vegar með því að stöðugt sé haldið til haga að þjóðkirkjan er einhver mesta fjöldahreyfing landsins og að á hennar vegum og í hennar nafni eru þúsundir landsmanna að störfum og í leik á degi hverjum. Áminningar þurfa stöðugt að koma fram í fjölmiðlum þar sem “litríkt og vaxandi” hversdaglegt starf kirkjunnar er gert sýnilegt, hvort sem það snýst um kórastarf og tónlist, aðra menningu, mömmumorgna eða tómstundastarf eldri borgara.
4. Starfsfólk
Sérstakur starfsmaður eða starfsmenn þurfa að sinna þessum málum. Setja þarf á fót stöðu upplýsingafulltrúa eða upplýsingastjóra, sem myndi þá hafa sérþekkingu á upplýsingamiðlun og fjölmiðlun.
Það sem vekur mesta athygli er að kirkjan vill fá að vera algjörlega ráðandi í umræðu um hana („að vigta í umræðunni“) og hún heldur málstefnur og fundi um alls konar mál til þess að reyna að komast í þannig stöðu.
Þegar ég fer yfir þessi mál, þá blasir við mér mynd af kirkjunni sem hún vill ekki að aðrir hafi af sér. Kirkjan er mjög upptekin af peningum, hefur áhyggjur af úrsögnum úr kirkjunni, vill gjarnan komast í snertingu við hugi barna og hefur áhyggjur af þeirri mynd sem fólk hefur af henni, og vill eyða miklu í að breyta því.
Ríkiskirkjupresturinn og kirkjuþingsmaðurinn Sigurður Árni Þórðarson hefur áður lofað því að „herða á“ reglum um trúfélagaskráningu „til að sporna við að þriðji aðili geti séð um breytingu á trúfélagsskráningu fólk“.
Eigum við ekki að taka hann á orðinu og benda honum á að þetta hljóti þá lika að eiga við um skráningu barna í trúfélag??
"Markmið uppeldisstarfs í leikskólum skal m.a. taka mót sitt af kristinni arfleið eins og grunnskólinn. Æskilegt er því að auka samstarf kirkjunnar og leikskólans. (bls. 6)
Auka þarf samstarf skólans og kirkjunnar enda nær skólinn til flestra barna sem skírð eru. Kirkjan hefur upp á margt að bjóða sem getur á margvíslegan hátt styrkt hið góða starf sem unnið er í leik- og grunnskólum.
Þar sem bæði leikskólanum og grunnskólanum er ætlað að taka mið af kristnum gildum í starfi sínu er æskilegt að koma á góðu og reglulegu samstarfi við þessa aðila. Þetta samstarf þarf að byggja á forsendum skólanna."Ógeðfelldur lestur.
Það er ekki nema einn lykill á milli F og H á lyklaborði. Ég held að þetta sé innsláttarvilla þar sem orðið "Fræða" kemur fyrir. Það meilkar miklu meiri sens að átt sé við sögnina að hræða.
Og endanlegt markmið hlýtur að miðast við stafinn á milli F og H... er það ekki? Þ.e. Hræða undir yfirskininu að Fræða og þar með að Græða..
Þess má til gamans geta að það var minnst á þessa grein á kirkjuþingi.
Þú getur hlustað á það hérna (*.mp3), þetta er í byrjun upptökunnar.
Sagt að málið um stofnun nefndar varðandi aðskilnaðar ríkis og kirkju væri eina nothæfa tillagan á kirkjuþingi samkvæmt "þeim á Vantrú".
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/11/10 18:23 #
Væri þetta löglegt? Má mismuna eftir trúaskoðunum eða trúfélagsaðild þegar ráðið er í opinber störf? (Störf presta eru auglýst á starfatorgi, laun þeirra greidd úr ríkissjóði og Hæstiréttur hefur sagt að þeir séu opinberir starfsmenn).