Mál Gunnars í Krossinum er ömurlegt í alla staði og auðvitað ber Jónína Benediktsdóttir enga ábyrgð á hegðun núverandi manns síns gagnvart unglingsstúlkum í fjölskyldu hans fyrr á árum eða öðrum kvenmönnum.
Í gegnum tíðina hefur Gunnari tekist að fá ófáa menn upp á móti sér með því að halda á lofti kristinni trú í sinni tærustu mynd. Í krafti ritninganna hefur hann ausið úr skálum vandlætingar sinnar á báðar hendur ófeiminn og keikur. En þrátt fyrir að heimsmynd hans byggi á að skapari hans hafi gert okkur svo illa úr garði að allt okkar líf sé glatað vegna eigin synda vill hann einhverra hluta ekki kannast við syndina í eigin ranni, a.m.k. ekki þá mynd hennar sem æ fleiri konur vitna nú um.
Í stað þess að játa, iðrast og gera yfirbót, eins og siðurinn býður, eða bjóða hina kinnina, hefur Gunnar gripið til þess ráðs að ráðast á þær konur sem telja sig þolendur brota hans og sverta mannorð þeirra. Eins og við bentum á í nýlegri grein eru viðbrögð hans spegilmynd af viðbrögðum herra Ólafs Skúlasonar biskups á sínum tíma.
Málin eru þó ekki alveg sambærileg því Gunnar hefur þó sagt að hann vilji stíga til hliðar, a.m.k. tímabundið, „á meðan þetta gjörningaveður gengur yfir“ og hann hefur sér við hlið konu sem er óhrædd við að tjá sig og fara mikinn.
Það var frænka Gunnars, séra María Ágústsdóttir, sem gaf þau hjónakornin saman á boðunardegi Maríu fyrir tæpum níu mánuðum. María þessi (presturinn þ.e.a.s.) er þekkt fyrir guðfræðilegar útlistingar sínar á ástinni og hefur m.a. sagt í prédikun: „Án elskunnar til Guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika.” Rökstuðningurinn er þessi: “Að elskan til Guðs er undanfari, forsenda, elskunnar til náungans er hins vegar ljóst af bæði textanum úr 5. Mósebók og guðspjallinu, Mk 10.17-27.” En ekki vitum við hvernig hún skautaði við þetta tilefni yfir Mt. 5:32 sem segir: “sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór”.
Allnokkru fyrr, eða árið 2003, vakti Jónína hneykslan trúleysingja þegar hún skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem hún hafði þetta að segja um barnaníðinga: "Trúleysi, siðleysi og illmennska einkennir alla þá sem viðhafa og geta framkvæmt slík ódæðisverk, þ.e. að svipta börn sakleysinu og sjálfsvirðingunni eða réttara sagt að taka börn af lífi."
Grein sína kallaði Jónína “Botninum náð” en Bjarni Jónsson í Siðmennt svaraði henni stuttu síðar með greininni “Jónína Ben. á botninum” þar sem hann sagði m.a.:
Ég er sammála geinarhöfundi um siðleysið og illmennskuna en ég vil leyfa mér að mótmæla harðlega þeirri staðhæfingu Jónínu að trúleysi sé það sem einkennir hóp barnaníðinga. Ég tel að Jónína hafi með skrifum sínum móðgað mig og aðra trúleysingja.
Samkvæmt þeim skrifum sem birst hafa að undanförnu um mál barnaníðingsins kemur fram að hann hafi verið virkur í starfi KFUM og Óháða safnaðarins auk þess að hafa verið í kirkjukór! Að því gefnu að það sé einhver sannleikur í þessum skrifum stemmir það ekki við staðhæfingar Jónínu Ben.
Þetta var auðvitað árið 2003 þegar Guðmundur var enn í Byrginu, Helgi Hróbjartsson enn í Afríku, Gunnar Björnsson enn á Selfossi og málverkið af herra Ólafi Skúlasyni tók enn á móti sérhverjum gesti biskupsstofu. Jónína svaraði í Morgunblaðinu í grein sem hún kallaði “Fyrirgefðu, Bjarni” þar sem hún sagði m.a.:
Þú villt sönnun þess að barnaníðingar séu trúlausir. Mér finnst þú vanvirða mig með þessari bón því auðveldara verkefni hef ég nú ekki fengið síðan ég dró andann í fyrsta sinni, nýfædd.
Sönnunin er augljós þeim sem trúir, en ávallt falin trúleysingjum þó svo að þeir séu ekki siðlausir. Í ljósi þess að Bjarna hefur ekki tekist að finna Guð hefur sagan kennt okkur að hann veit ekki hvað trú er. Þess vegna verð ég að álykta að hann viti ekki heldur hvað trúleysi sé.
Trúleysingjar sem tileinka sér siðferði guðlegra kenninga hvaðan sem þær koma, drekka vatnið, sem betur fer, en hafa ekki fundið uppsprettuna. Borða ávextina en sjá ekki ræturnar. Ruglast oftast á trú og trúarbrögðum og ætla fólki einhverskonar aðild að ákveðinni skor, eins og Bjarni virðist hafa skráð mig í íslensku þjóðkirkjuna.
Guð hefur frá fyrsta degi leitt manninn frá siðleysi með skilaboðum sínum til þjóða og einstaklinga. Þessum skilaboðum kemur Guð augljóslega til mannsins í gegnum sendiboða sína.
... ég er sannfærð um eitt; að þeir sem misnota börn kynferðislega eru ekki sáttir við kynferði sitt. Maður sem skilur ekki kynferði sitt verður alltaf trúleysingi því sársaukinn er slíkur að það góða frá Guði hlýtur að vera hulið honum. Kynferði hefur frá fyrsta degi skipt sköpum enda hlutverkin skilgreind þegar bitið var í eplið löngu fyrir Krist. Málið er annað í dag, því að nú éta menn ekki epli heldur börn. Lifandi börn! Slíkir menn eru siðlausir trúleysingjar, en ekki eru allir trúleysingjar siðlausir menn. Lítil börn sjá oft bara hálfan heiminn þegar þau horfa út um gluggann, svo vaxa þau inn í restina. Þetta er í raun tilgangur lífsins.
Börn líkt og samkynhneigðir eiga rétt á því að vaxa, sama hvað trúleysinginn er sjúkur.
Jónínu er vorkunn. Hún er hvorki fyrsta né síðasta manneskjan sem fellur fyrir persónutöfrum trúarleiðtoga og eflaust er ást þeirra hjóna fölskvalaus. En kannski er nú ráð fyrir Jónínu að efast þó ekki væri nema örlítið um eigin dómgreind. Er ekki orðið deginum ljósara að þótt menn mígi utan í Krist er það engin trygging fyrir góðu siðferði? Og vonandi lætur hún ekki staðar numið þar heldur tileinkar hún sér gagnrýna hugsun þegar kemur að heilsu og heilbrigði.
Úr því sem komið er verður Gunnar ekki minni maður þótt hann viðurkenni að jafnvel hann hafi leiðst út af mjóa vegi dyggðarinnar, þvert á móti yrði hann maður að meiri. Svo er það spurning hvort Jónína stendur enn við eftirfarandi orð sín frá 2003:
Ég skora á réttarkerfið og yfirvöld að láta mæður já eða börnin sjálf dæma í slíkum málum sem upp koma gegn barnaníðingum og morðingjum barna og unglinga og sjá hvort rödd samviskunnar og verndarengill hins góða hljómi ekki að nýju.
Kannski er komið annað hljóð í strokkinn en ef Gunnar játar meint brot bendir allt til að dómur þolendanna yrði miklu vægari en dómur almennings verður ef hann heldur áfram að neita og skíta út þær konur sem láta sig þó hafa það að bera vitni í málinu.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.