Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kvörtun frá foreldri - seinni hluti

Barn að stara á þig

[Fyrri hluti]

Fimm ára dóttir móðurinnar og leikskólastarfsmannsins sem við sögðum frá í fyrri hlutanum var á deildinni þar sem ætlunin var að setja upp kaþólskan helgileik, en móðirin vissi að hún jafnt og öll önnur börn átti hvorki að þurfa að þola trúarinnrætingu sem samræmdist ekki hennar lífsskoðunum né að vera tekin út úr sínum hóp vegna sömu skoðanna. Hún skrifaði því samantekt um þessi mál fyrir skólastjórnendur.

Eftir lestur samantektarinnar höfðu skólastjórnendur frumkvæði að því að leggja fram þá tillögu að helgileikurinn yrði til að byrja með aðeins æfður seinni part á þriðjudögum því móðirin hætti störfum klukkan tvö þá daga og börnin hennar tvö gætu þá yfirgefið skólann með henni. En þegar nær drægi sýningardegi þá ætluðu þær að skipta barnahópnum upp í tvennt til daglegra æfinga svo dóttirin gæti alltaf fengið að fylgja þeim hópi sem ekki væri að æfa án þess að verða áberandi utanveltu.

Í stuttu máli þá var framkvæmdin skelfileg eins og kemur fram í kvörtunarbréfi sem móðirin skrifaði leikskólastjóra eftir að annar kennara dótturinnar hafði tilkynnt henni að nú þyrfti hún að víkja af deildinni í einhverja daga því hún truflaði æfingarnar á helgileiknum.

Kvörtunarbréfið fer hér á eftir, fyrir utan nöfn og persónuleg atriði sem voru tekin út:

Sæl [...],

Í seinni kaffipásu hjá mér á fimmtudag þá hitti ég á [kennara A] við kaffivélina. Þar hóf hún máls á því að það gengi ekki lengur að hafa [dótturina] á [deildinni] því að þörfin væri svo mikil að æfa helgileikinn. Það þyrfti því að taka hana eina til hliðar eða senda hana eina eitthvað annað ef hún ætti ekki að taka þátt í þessu.

Ég benti henni á að það hefði verið samið um annað því ég greinilega var með sama skilning á þessu og [aðstoðarleikskólastjórinn] setti upp fyrir mig í sínu svari. [Kennari A] margítrekaði það hins vegar að [dóttirin] væri fyrir og stæði í vegi fyrir þessum helgileik.

Ég benti á að rétturinn væri allur mín megin, leikskólinn er í raun að brjóta ýmis lög og reglur með því að setja [dótturina] í þá stöðu sem hún er búin að vera í og [kennari A] sjálf að brjóta siðareglur leikskólakennara, sérstaklega með því að setja mér þessa afarkosti sem hún gerði á fimmtudag.

Aukalega ljóstraði [kennari A] því svo upp að [dóttirin] hefur verið tekin til hliðar með aðeins einni eða tveim stelpum á meðan restin af hópnum hefur verið að æfa, það var ekki það sem var samið um og gerir þær stelpur sem lentu í því mjög áberandi utangarðs. Þó að þetta hefði verið framkvæmt eins og samið var um í byrjun desember þá hefði það samt komið mjög áþreifanlega niður á [dótturinni] og þetta hefur kvalið mig hvern dag síðan ég samþykkti þetta, en mér voru ekki gefnir aðrir kostir af ykkar hendi. Eftirá að hyggja þá hefði ég ekki átt að gefa mig fyrir því að helgileikurinn yrði settur upp innan leikskólans.

Ég tel mig nú hafa komið of mikið til móts við ykkur, því það er í raun leikskólinn sem er í órétti en ekki ég og mér finnst það gífurlega ámælisvert að vera svo í framhaldinu settir þeir afarkostir sem [kennari A] margendurtók við mig á föstudag. Það var samningur og ákveðin sátt í gildi sem þó var mjög léleg og óheiðarleg lausn fyrir [dótturina] með tilliti til þess að leikskólinn á að vera hennar griðastaður þar sem hún á að geta upplifað sig örugga en ekki utangarðs og einmana. En vegna heiftarlegra viðbragða í upphafi þá taldi ég mig tilneydda til að taka þeim samningi í góðu.

Ég er margbúin að spyrja [dótturina] út í hvað hún sé að gera á leikskólanum til að reyna að fylgjast með hvernig hún upplifir þessar aðstæður. Hún hafði ekki nefnt helgileikinn á nafn en ég hafði heldur ekki spurt beint út í hann. Ég spurði líka eftir því hvað hinir hóparnir hefðu verið að gera en aldrei minntist hún einu orði á þessar æfingar eða helgileikinn. Á fimmtudag fékk ég það svo frá henni með því að ganga meira á hana að hún telur sig vera að fara að taka þátt í helgileiknum/sýningunni næsta þriðjudag.

Hún telur að hún hafi ekki fengið hlutverk eins og hinar stelpurnar af því að hún hafi verið lasin og var mjög leið yfir því. Ef ég skildi hana rétt þá stóð hún í þessari meiningu eftir að hafa hlustað á tal kennaranna sín á milli. Hún sagði að allir myndu taka þátt í sýningunni nema þeir sem hugsanlega yrðu veikir eða "eitthvað" á sýningardaginn. Hún var svolítið óskýr með æfingarnar, að einhverju leiti taldi hún sig hafa verið að taka þátt í þeim. Hún var gráti næst þegar hún var að segja mér frá þessu en ég hugsa að hún hafi ekki þorað að segja mér frá þessu fyrr því hún skiljanlega skilur ekkert í því af hverju hún er sett svona sér á bekk. Eins og börnum er tamt að gera þá eru líkur á því að hún hafi á einhvern hátt tekið þetta inn á sig, ekki talið sig verðuga þess að fá að vera með og því skammast sín of mikið til að ræða þetta við mig.

Miðað við það hvað bæði [kennari B] og [kennari A] voru tvístígandi með framkvæmdina og hvernig líðan [dótturinnar] var þegar hún sagði mér frá þessu á fimmtudag þá er það greinilegt að þetta er verkefni sem þær hafa ekkert vald á. Ég margítrekaði samt við þær að þær ættu að fá að lesa yfir samantektina sem ég tók saman fyrir ykkur til að fá betri skilning á okkar aðstæðum, mér skilst að þær hafi ekki verið búnar að gera það þarna á fimmtudag.

Mér finnst afskaplega illa hafa verið staðið að þessu og á engan hátt hafa verið komið nógu vel fram við dóttur mína. Að ljúga að henni til að fría sig frá því bæði að reyna að útskýra á heiðarlegan hátt málið eða til að komast upp með að halda framkvæmd helgileiksins til streitu er afskaplega slæmt og rýrir í raun allt traust mitt til þeirra kennara sem eiga að vera að sinna henni af heiðarleika, umhyggju og með tilliti til þess að jafnræði allra barnanna sé tryggt eins og ég veit að þær segjast þó allar vera miklar áhugamanneskjur um á [deildinni]. Þær eru kennarar hennar og meira að segja tvær þeirra skólagengnar sérstaklega sem leikskólakennarar og hefðu því átt að rísa undir þeirri ábyrgð sem lá á þeim í þessu máli, í stað þess að reyna að kenna mér um eða reyna að fá mig til að ákveða framkvæmdina því að þær gátu sjálfar ekki látið þetta ganga upp á heiðarlegan hátt.

Fyrirvarinn á því að ég geri athugasemd við þetta er heldur engin afsökun fyrir því að halda þessu til streitu. Ég var búin að láta ykkur upplýsingar í té sem þið hefðuð getað nýtt ykkur til að blása þetta af gagnvart foreldrum, minnsta mál hefði líka verið að setja upp eitthvert annað jólaleikrit. Þið hafið enga hugmynd um það hvort nokkurt foreldri hefði sett sig upp á móti því en þið höfðuð það skýrt fyrir framan ykkur að foreldri var búið að kvarta undan því að þetta yrði framkvæmt.

Rök ykkar virðast vera þau að eitthvað sem hugsanlega hefði getað gerst (kvörtun frá foreldri sem hefði viljað þröngva sinni trúarsannfæringu uppá dóttur mína) vó þyngra heldur en það sem sannanlega lá á borðinu, kvörtun foreldris sem fór fram á að lög og reglur yrðu virtar.

Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að skólar og leikskólar eiga að vera hlutlausar stofnanir þegar kemur að trúmálum. Þessi hörmulega framkvæmd á þessu öllu er ein skýrasta sönnunin fyrir því að ekkert trúboð, sama hvaða nafni það nefnist, á heima í skólastofnunum.

Nálgun [kennara A] svo á fimmtudag gagnvart mér þar sem hún ítrekaði það minnst fimm sinnum að ekki væri pláss fyrir [dótturina] á hennar eigin [deild] kom mér í mjög mikið uppnám. Ég tel það vera skýrt að [kennari A] var í raun að úthýsa [dótturinni] af [deildinni] og úr því leikskólaplássi sem ég er að borga fyrir. Vegna þess hringdi ég á föstudagsmorguninn og tilkynnti að ég kæmist ekki í vinnu. Ég nefndi engin veikindi enda voru þau ekki til staðar.

Ef það er búið að úthýsa barninu mínu úr sínu leikskólaplássi en mér að öðrum kosti gert að taka afarkostum sem hvorugur kemur til greina þá er staðan einfaldlega þannig að ég kemst ekki í vinnu. Ég var áður búin að bjóðast til að taka hallan á mig, sem þó hefði verið mjög ósanngjarnt, með því að fá launalaust frí þegar helgileikur yrði æfður. Það var ekki hægt. En þetta tel ég vera á ykkar ábyrgð og mun ekki sætta mig við það að tapa launum vegna þess.

Mér þykir mjög miður að valda með þessu svo álagi á samstarfskonur mínar á [minni deild] og [börnin sem ég ber ábyrgð á], en við erum á kafi í ýmsum verkefnum eins og jólagjafa- og kortagerð. Auk þess sem [...] sem er nýkominn í hópinn minn er enn nokkuð óöruggur. En mér finnst mér hafa verið stillt upp við vegg þannig að ég átti einskis annars úrkost og var farin að óttast mjög um velferð og líðan [dótturinnar] í þessum aðstæðum.

[Kennari B] og [kernnari A] voru áður búnar að reyna að rukka mig um það hvernig mér finndist að það ætti að framkvæma þetta, þ.e. án þess að sleppa helgileiknum. Ég er aðeins foreldri þegar ég kem inn á [deild dótturinnar] og það er þeirra að haga skólastarfi þannig að það samræmist öllum lögum og reglum. Ef þær voru í vafa þá hefðu þær átt að leita beint til þín eða [aðstoðarskólastjórans] því ég hef ekkert ákvörðunarvald í þessu.

En vegna óánægju minnar hef ég ákveðið að skrifa skólanefnd [bæjarfélagsins] og fá fram hennar afstöðu í þessum málum. Ég er ekki spennt fyrir því að fara í einhver leiðindi við [leikskólann] sérstaklega því að vinnustaðurinn hefur að öllu öðru leyti reynst mér mjög vel. En þið hljótið samt að þurfa að axla einhverja ábyrgð á því að þverbrjóta svona á dóttur minni og mér í þessu tiltekna máli. Aðallega vil ég þó að bæjarfélagið taka afstöðu til þess trúboðs sem fer fram í skólum þess og leikskólum því á meðan þeir taka það ekki fyrir þá hljóta þeir að vera á einhvern hátt ábyrgir fyrir framkvæmdinni eins og hún er í dag.

Ég ætla mér líka að biðja um úrskurð persónuverndar á ólögmætu upplýsingaöfluninni, um trúarsannfæringu fjölskyldna, sem [skólastefnan] stendur fyrir og um það hvernig vinaleiðin er framkvæmd í grunnskólum [bæjarfélagsins]. Hún er ekki framkvæmanleg öðruvísi en að kúga út upplýsingar um trúarsannfæringu fólks því að öðrum kosti væru börnin talin leyfileg bráð fyrir þá presta eða djákna sem sinna vinaleiðinni.

Er réttur kristinna foreldra á [leikskólanum] til að hafa sína trúarsannfæringu það öfgakenndur að þið teljið þann rétt réttlæta það að brotið sé á trúfrelsi barna allra annara, ungum og lítt mótuðum? Er partur af þeirra rétti sá réttur að þröngva sinni trúarsannfæringu upp á aðra?

Eftir þessa reynslu þá myndi ég þó ekki mæla með því fyrir nokkurt foreldri að reyna að koma barninu sínu undan þessu, ég tel það hafa komið mjög illa niður á [dótturinni]. Auk þess reyndi það gífurlega á mig hversu mikilli mótstöðu ég mætti af ykkar hendi í upphafi þar sem ég var að ósekju bæði vænd um öfgar og "bókstafstrúar trúleysi" fyrir að biðja ykkur einfaldlega að virða þau lög og reglur sem eru í gildi. Ég vil þó ekki álasa þér persónulega fyrir þessi viðbrögð þar sem ég hef heyrt af svona öfgakenndum viðbrögðum víðar og veit að þetta kemur til sem einhvers konar varnarviðbrögð í erfiðum aðstæðum, en þau eru jafn gróf fyrir því gagnvart þeim sem lendir í þeim.

Öll þessi hörmulega framkvæmd er skýlaust alfarið á ykkar ábyrgð.

Það er algerlega óásættanlegt að foreldrar geti ekki fengið fram réttlæti til handa börnum sínum öðruvísi en að þau séu sett í algerlega óásættanlegar aðstæður og vegna þess nái þessi kristna kúgun að halda velli.

[...] [Dóttirin var búin að ganga í gegnum mikla erfiðleika fyrir þetta] Þetta vissuð þið báðar, [kennari B] og þú, og megið því vel gera ykkur grein fyrir því að svona skelfileg framkvæmd á þessu er ekki aukalega á hana leggjandi.

Með því að grafa undan þeim lífsskoðunum og trúarsannfæringu sem hún býr við hjá móður sinni eru þið að brjóta enn frekar niður sjálfsmynd hennar sem þarfnast þvert á móti mikillar uppörvunnar og stuðnings.

Nú veltur það á ykkur hvort þið viljið vakna af þeirri afneitun sem þið hafið leyft ykkur að lifa í fram að þessu. Ef það verður ekki af því þá hefur þetta reynt það mikið á okkur að ég tel mig vera tilneydda til þess að leita annað til að knýja fram þá sanngirni sem við hefðum átt að fá í þessu strax í upphafi. Ég hef ekki áhuga á því að gjalda fyrir ykkar mistök í nánustu framtíð í gegnum óþægindi og vandræðagang í kringum mig og börnin vegna þess að ekki hafi verið tekið á þessu á réttan hátt.

Ég skil það að þið teljið ykkur þurfa að draga ákveðna línu í þessu þar sem að þetta eru svo viðkvæm mál fyrir marga en þið verðið að átta ykkur á því að það verður aldrei friður um þetta ef þið dragið þá línu ekki á réttum stað gagnvart öllum aðilum.

Það sem er orðið verður ekki tekið til baka, en það liggja næg tækifæri fyrir alla aðila sem koma að þessu í því sem getur gerst í framhaldinu.

Með von um yfirvegaða úrlausn mála,

mínar bestu sáttakveðjur,

[...]

Í kjölfar þessa bréfs var móðirin kölluð á fund með leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra, kennara A og kennara B sem entist í heila tvo klukkutíma. Þar neitaði meðal annars kennari A að hafa ætlað að vísa dótturinni af deildinni. Leikskólastjórinn spaugaði með það að hún ætlaði sér að kaupa bara leikskólann þegar móðirin benti á að svona framkvæmd stæðist varla rýni í opinberum leikskóla. En lét svo í það skína að hún væri til í að móta nýja stefnu í þessu í samvinnu við starfsfólkið.

Móðirin gerði svo ekkert frekar í málinu eftir að hafa verið tekin á eintal eftir áramót inn á skrifstofu leikskólastjórans sem tilkynnti henni að skólinn yrði alltaf með áberandi trúarlegar áherslur á meðan hún yrði í forsvari fyrir hann. Móðirin sá að henni og börnunum var ekki lengur vært á leikskólanum og hún sagði upp störfum og starfaði út mars 2009.

[Fyrri hluti]

Ritstjórn 29.10.2010
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Valtýr Kári Finnsson - 29/10/10 10:43 #

Úff. Þetta er nú meiri lesningin. Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda, hvernig er hægt að koma svona fram við barn?


Björg - 29/10/10 18:09 #

Ég er hálf slegin eftir að hafa lesið þetta. Úff! Aumingja barnið og móðirin að standa í þessari geðveiki. Ég hef þó tekið eftir því að það er rosalega mikið um svona hegðun á Íslandi, réttindi annara er fótum troðið því "yfirmanneskjan" er með skoðanir sem, að þeirra mati, gilda meira en reglur og almennt siðferði gagnvart öðrum, fólk er of hrokafullt um eigin skoðanir og raðar í kringum sig starfsfólk með svipaðar skoðanir svo erfitt er að koma með athugasemdir. Bölvaður klíkuskapur útum allt og ekkert tillit tekið til fólks með aðrar lífsskoðanir, fólk kann ekki lengur að koma til móts við hvort annað, "my way or the highway".

Ég gleymi ekki þegar ég var í partíi hjá vinkonu minni, þar var kona sem er kennari og kennir barnadeild í grunnskóla og hún var að springa úr stolti yfir eigin skoðunum á trúmálum en henni finst að það eigi að BANNA trúabragðafræðslu og EFLA kristinfræði. Trúarbragðafræðsla að hennar mati býr til múslíma og siðleysingja og það ættu engin börn að fá að heira á það minnst að það væri til meira en kristni...!? Á svona fanatísk manneskja að fá að kenna börnum? Hjálpi mér Tútti! Ég ákvað að vera ekki að ræða við hana eða mótmæla "ræðunni", það hefur ekkert uppá sig að rökræða við fólk sem sér lífið í gegnum drykkjarrör. Þó sé ég eftir að hafa ekki spurt um hvaða skóla hún kennir í, skoðanir hennar voru það þröngar og fanatískar að ég hefði viljað senda yfirmanni hennar bréf.

Það er svo lítið um ábyrgðartilfiningu hjá fólki almennt í dag en við öll berum ábyrgð á því sem við segjum og gerum.... þarf í alvörunni að taka það framm?


Adeline - 30/10/10 00:47 #

Þetta er nú meiri píslarvottargangan fyrir aumingja fólkið. meira bullið... Ef aðili-sökum sinnar trúar -vill ekki taka þátt í eða láta barn sitt taka þátt í einhverju sem gerist í skólatíma, er þá rétt að frekjast áfram þangað til skólinn = allir -hætta því sem þeir eru vanir ? bara útaf sérþörfum annarra? Sorry ég bara á ekki orð yfir svona forréttindahóp sem þið hér í Vantrú viljið gera ykkur að. Ég sjálf sleppti ýmsu í skóla útaf minni trú -og var ekkert að væla yfir því -það var útaf mínu vali ekki útaf því að allir hinir væru svo vondir við mig. Vantrú- er þetta ekki orðið bara trúfélag? ég hef svolítið mikið kynnt mér trúfélög hérlendis ...og mörg sem talin eru öfgakennd. en aldrei - hef ég heyrt fólk eins öfgakennt og obsessed eins og meðlimi Vantrúar. Meira propagandað sem þið stundið hér. (og annarsstaðar ef útí það er farið, standið uppá kassa á lækjartorgi og boðið trú ykkar).


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 30/10/10 04:34 #

Já, alveg satt. Ert þú svona, það sem kallast á íslenzku, fáviti?


Móðirin - 30/10/10 11:38 #

Adeline, ég var ekki að biðja um sérmeðferð vegna trúleysis míns, ég var aðeins að fara fram á það að skólinn færi eftir þeim lögum sem eru í gildi.

Ef þú ætlar að tjá þig meira um þetta þá vil ég biðja þig um að lesa fyrst samantektina sem var birt í fyrri hlutanum. Þetta mál er ekki byggt á nokkurri heimtufrekju heldur rökstutt mjög ýtarlega í samantektinni.

Skólinn vissi að hann var í órétti og borgaði mér til dæmis laun þá þrjá daga sem ég var frá á meðan helgileikurinn var kláraður.

Hlutleysi er ekki það sama og "trúleysistrúboð" eins og þú virðist halda. Hlutleysi er aðeins heiðarlegasta afstaðan gagnvart öllum aðilum óháð því hverju þeir trúa eða trúa ekki og þau lög sem til eru í dag endurspegla þá afstöðu.


Halldór Logi Sigurðarson - 30/10/10 12:54 #

@Adeline

Ég bendi á svar Þórðar Ingvarssonar.

Ef aðili-sökum sinnar trúar -vill ekki taka þátt í eða láta barn sitt taka þátt í einhverju sem gerist í skólatíma, er þá rétt að frekjast áfram þangað til skólinn = allir -hætta því sem þeir eru vanir

Skólinn, hlutlaus stofnun á aldrei að þurfa að setja fólk í þannig stöðu. Aldrei.

Sorry ég bara á ekki orð yfir svona forréttindahóp sem þið hér í Vantrú viljið gera ykkur að.

Þetta er ekki barátta Vantrúar sem umræðan er um, barátta þessa félags er fyrir alla aðra, ekki félagið.

hef ég heyrt fólk eins öfgakennt og obsessed eins og meðlimi Vantrúar. Meira propagandað sem þið stundið hér.

Sýndu fram á hvar öfgarnar eru, og sjáum síðan hvort það sé hugsunarlaust hagsmuna áróður, eða málefni sem hefur verið borinn fram rökstuðningur fyrir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.