Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kvörtun frá foreldri - fyrri hluti

Börn í sandkassa

[Seinni hluti]

Í lok árs 2008 komst leikskólastarfsmaður og móðir tveggja leikskólabarna að því að vinnustaður hennar, sem hún hafði byrjað að vinna á í byrjun sama árs, gerði öllum fimm ára börnum að taka þátt í uppsetningu á kaþólskum helgileik. Leikskólastarfsmaðurinn valdi þennan tiltekna skóla því hann kenndi í anda sömu stefnu og fyrri leikskóli barnanna, sem hafði gætt fyllsta hlutleysis gagnvart mismundandi trúarskoðunum í kringum jól og aðrar hátíðir. Aukalega spurði móðirin út í stefnu skólans í upphafi og var tjáð að leikskólinn væri ekki með trúartengda dagskrá í kringum jól. Helgileikurinn var tekinn fram í skóladagatali skólans en það fór framhjá móðurinni, einfaldlega þar sem hún taldi sig þegar hafa fengið upplýsingar um annað.

Helgileikurinn átti að vera æfður upp á hvern dag í þrjár vikur sem verður að teljast nokkuð stíft og mikið inngrip í líf barnanna. Í lok nóvember þegar móðirin komst fyrst að því að hann væri á dagskrá þá spurði hún eftir því hvort hún mætti taka saman fyrir skólastjórnendur upplýsingar um þessi mál þar sem hún taldi skólann, sem opinbera stofnun, vera í órétti með að bæta svona umfangsmiklum trúarlegum helgileik inn í daglegt starf barnanna í svona langan tíma. Það var samþykkt með semingi en í kjölfarið buðu skólastjórnendur fram samkomulag þar sem þær myndu reyna að fara bil beggja.

Samantekt móðurinnar fer hér á eftir:

Hvernig samrýmist uppsetning á helgileik í leikskóla barnanna minna hlutleysi gagnvart trúarbrögðum eins og kveðið er á um í gegnum leikskólalög og víðar?

2008 nr.90 12.júní/ Lög um leikskóla

2. gr. Markmið.

Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.

Meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla skulu vera:
a. að fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra,
b. að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku,
c. að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar,
d. að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,
e. að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,
f. að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.

13. gr.Aðalnámskrá.
Ráðherra setur leikskólum aðalnámskrá sem er endurskoðuð reglulega. Í henni koma fram helstu markmið leikskólastarfs og uppeldis- og menntunarhlutverk leikskóla, sbr. 2. gr. Í aðalnámskrá skal m.a. leggja áherslu á gildi leiks í öllu leikskólastarfi. Einnig skal fjallað um markmið fyrir námssvið leikskólans, foreldrasamstarf, þróunarstarf, mat á leikskólastarfi og tengsl leikskóla og grunnskóla. Í aðalnámskrá skal skilgreina hæfniþætti á námssviðum leikskólans í samræmi við aldur og þroska barna.

Úr aðalnámskrá:

Markmið leikskólastarfs
Samkvæmt lögum nr. 78/1994 bera sveitarfélög meginábyrgð á rekstri leikskóla. Menntamálaráðuneytið mótar uppeldisstefnu leikskóla og sér um að fram fari mat á leikskólastarfi. Leikskóli er ekki skyldunám og hefur því nokkra sérstöðu sem fyrsta skólastigið. Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi barna sinna en leikskólastarfið er viðbót við það uppeldi sem börnin fá á heimilum sínum. Leikskólinn er fyrir öll börn, óháð andlegu og líkamlegu atgervi, menningu eða trú.

Samkvæmt lögum um leikskóla skal meginmarkmið með uppeldi í leikskóla vera að:

  • veita börnum umönnun, búa þeim hollt uppeldisumhverfi og örugg leikskilyrði

  • gefa börnum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta barnahópsins undir leiðsögn leikskólakennara

  • kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega svo þau fái notið bernsku sinnar

  • stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og jafna uppeldisaðstöðu þeirra í hvívetna

  • efla kristilegt siðgæði barna og leggja grundvöll að því að börnin verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun

  • rækta tjáningar- og sköpunarmátt barna í þeim tilgangiað styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt

Athugið að núverandi aðalnámskrá var samin útfrá lögum sem féllu úr gildi 12.júní 2008 þegar ný Lög um leikskóla tóku gildi. Í lögunum frá 1994 var svohljóðandi klausa um markmið leikskóla: "að efla kristilegt siðgæði barna og leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun."

Í stað hennar kom: "Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar."

Aðalnámskrá heldur áfram gildi sínu þrátt fyrir að lögin sem hún byggði á sé orðin úrelt fyrir utan þau atriði sem standast ekki lengur vegna hinna nýju laga.

Helgileikir teljast ekki til kristinnar arfleiðar íslenskrar menningar þar sem það er fyrirbæri sem er almennt mjög ungt á Íslandi og aðeins hlotið einhverja útbreiðslu á allra síðustu árum. Þar fyrir utan stangast hún á við t.d. yfirlýst markmið menntastofnanna en í aðalnámskrá um kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði er talin ástæða til að taka sérstaklega fram að "[s]kólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun og er því fyrst og fremst ætlað að miðla þekkingu og auka skilning á kristinni trú og öðrum trúarbrögðum. Liður í því er að nemendur séu hvattir til að setja sig í annarra spor og skoða viðkomandi átrúnað innan frá, með augum hins trúaða."

Hvernig mun [leikskólinn] hjálpa börnunum að setja sig í spor þeirra sem eru utan þjóðkirkjunnar á jafnumfangsmikinn hátt- og á sama tíma og þau taka þátt í uppsetningu helgileiks sem hampar á óeðlilegan hátt trú sem líkur eru á að fjórða hvert barn, eða foreldrar þess, aðhyllist ekki?

Eftir að ljóst var að fækkun var viðvarandi og mikil á milli ára í þjóðkirkjunni þá hefur það verið yfirlýst markmið kirkjunnar að leita inn í skólanna til að snúa þeirri þróun við og það hafa þeir ekki endilega farið leynt með. Á sama tíma reyna þeir að réttlæta innrásina með því að meirihluti landsmanna sé í þjóðkirkjunni þrátt fyrir að upphaflega ástæða innrásarinnar sé einmitt sú að þeir séu í raun að hverfa úr trúarlífi sífellt stækkandi hóps Íslendinga og eru þess vegna í sífellt stækkandi órétti í þessari innrás sinni. Vegna þessa geta skapast mjög erfiðir árekstrar innan skólastofnanna ef þær spyrna ekki nógu snemma fótum við og standa vörð um þann frið og þá einingu sem þarf að ríkja í öllu skólastarfi.

Burtséð frá hlutföllum um það hversu margir eru innan þess trúfélags sem fær inni í opinberum leikskóla með helgileik þá brýtur það gegn persónuverndarlögum að afla upplýsinga um nemendur leikskólans sem flokkast sem viðkvæmar persónuupplýsingar".

Samkvæmt persónuvernd telst allt eftirfarandi viðkvæmar persónuupplýsingar:

a. Upplýsingar um uppruna, litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir, svo og trúar- eða aðrar lífsskoðanir.
b. Upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað.
c. Upplýsingar um heilsuhagi, þar á meðal um erfðaeiginleika, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun.
d. Upplýsingar um kynlíf manna og kynhegðan.
e. Upplýsingar um stéttarfélagsaðild.
f. Sértæk ákvörðun: Ákvörðun sem afmarkar rétt og/eða skyldur eins eða fleiri tilgreindra einstaklinga.

Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga lýtur mjög ströngum reglum. Fyrir það fyrsta þá þarf leikskólinn að rökstyðja það af hverju hann fer fram á slíkar upplýsingar frá foreldrum barnanna og er vafasamt að ætla að hægt sé að réttlæta það með nokkrum hætti að opinber stofnun sem á að gæta hlutleysis þegar kemur að trúmálum þurfi að fara fram á slíkar upplýsingar. Og þó að skólinn hefði löggilda ástæðu til þess að safna upplýsingum um trúarsannfæringu eða lífsskoðanir foreldra barnanna við innritun, þá er gerð um það krafa að svo viðkvæm gögn séu geymd í læstum hirslum og einungis aðgengileg þeim kennurum eða starfsmönnum skólans sem á þurfa að halda vegna starfa sinna.

Það er hins vegar ekkert sem segir að foreldrar megi ekki af eigin frumkvæði upplýsa skólann um trú sína ef þeir telja þörf á því t.d. vegna þess að barnið megi ekki neyta einhverrar ákveðinnar fæðu. En það ætti alltaf að vera undir foreldrunum sjálfum komið og skólanum óviðkomandi af fyrra bragði.

Þar sem uppsetning helgileiksins á [leikskólanum] er frekar umfangsmikil, nær yfir 3 vikna tímabil á skóladagatalinu og er á þeim tíma daglega partur af rútínu barnanna, þá ættu að vera til um hann gögn frá foreldraráði, kennararáði og skólastjórn sem ber að taka fyrir jafn umfangsmikinn þátt í starfsháttum skólans sem fellur utan aðalnámskrár.

Ég vil spyrja, eru þau gögn til og get ég fengið að sjá þau? Þannig að ég sjái hvernig var komist að þeirri niðurstöðu að þetta samrýmdist þeim lögum og reglum sem nú gilda um hlutleysi og jafnræði í skólastarfi.

Í námskrá [leikskólans] koma einungis fram mjög takmarkaðar upplýsingar sem gefa ekki fyrirfram til kynna hversu umfangsmikill þessi helgileikur er: "Elstu börn leikskólans æfa helgileik og sýna fjölskyldum sínum. Einnig sýna þau helgileikinn í salnum í [leikskólanum] fyrir yngri börnin."

Í skýrslu starfshóps um samstarf kirkju og skóla sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg og gefin út í febrúar 2007 er komist að eftirfarandi niðurstöðu:

”Hlutverk leik- og grunnskóla varðandi trúarbragðafræðslu. Innan leik- og grunnskóla bera kennarar ábyrgð á kennslu og fræðslu barna um trúarbrögð, lífsskoðanir og kristilegt siðgæði. Lögð er áhersla á að í skólum fer fram fræðsla um mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð en þar er ekki stunduð boðun trúar. Í engum tilfellum er skólastarfi og starfi trúar- og lífsskoðunarhópa blandað saman.

Leik- og grunnskólar hafa því mikilvæga hlutverki að gegna að gera fjölbreytileikann sýnilegan á jákvæðan hátt og rækta með börnum og unglingum umburðarlyndi og skilning. Þess vegna er lögð áhersla á mikilvægi þess að stuðla að samræðu og fræðslu um trúarbrögð almennt í þeim tilgangi að tryggja rétt allra, bæði meiri- og minnihluta, og ala börn og nemendur upp við að virða almenn mannréttindi.

Börnum og unglingum skal ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar. Í leik- og grunnskóla skal börnum ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar þeirra eða foreldra þeirra. Forðast skal aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra.”

Í siðareglum kennara og leikskólakennara kemur eftirfarandi fram:

Kennurum ber að hafa jafnrétti allra nemenda að leiðarljósi í skólastarfi. Kennarar eiga að vinna gegn fordómum og mega ekki mismuna nemendum t.d. vegna kyns, þjóðernis eða trúarbragða.

Foreldrasamtökin Heimili og skóli sendu frá sér ályktun á síðasta ári að undangenginni könnun vegna mikillar umræðu um vinaleiðina:

"Mikilvægt er að friður ríki á hverjum tíma um þá þjónustu sem býðst innan skólans. Með tilliti til jafnræðissjónarmiða og með vísan í 2. grein grunnskólalaga, telur stjórn Heimilis og skóla eðlilegra að til framtíðar standi sálgæsluþjónusta Þjóðkirkjunnar börnum og forsvarsmönnum þeirra til boða utan húsakynna skóla, eftir að skóladegi lýkur."

Það sama hlýtur að gilda um helgileiki sem teljast yfirleitt til trúaráróðurs eða -innrætingar líkt og útdeiling helgirita, sálmasöngur og bænir t.d. Foreldrar eru algjörlega frjálsir til þess að nýta sér alla þá þjónustu sem kirkjan býður uppá eftir að skóladegi lýkur, t.a.m. uppsetningu á helgileik í gegnum sunnudagaskóla eða eftir öðrum leiðum í samráði við sóknarprest sinn. Leikskólinn hefur þegar skýrt hlutverk og ekki er efnilegt að því mikilvæga starfi sem skólanum ber að sinna sé ógnað með óeiningu vegna einhvers sem á ekki heima í opinberu skólastarfi eða að annað sem skólinn á sannarlega að sinna víki fyrir einhverju sem á alls ekki að vera á forræði skólastofnanna heldur á forræði forráðamanna barnanna og engra annarra.

Í nýlegum úrskurði Mannréttindanefndar SÞ var norska ríkið sagt brjóta á þessum réttindum foreldra og barna með einhliða trúaráróðri í skólum - helgileikjum, útdeilingu trúarrita, sálmasöng, bænum o.s.frv. Samskonar úrskurður var kveðinn upp í máli annarra norskra foreldra gegn ríkinu af Evrópudómstólnum. Í framhaldi af því hefur norska ríkið verið í mikilli endurskoðun með alla uppbyggingu á trúarbragðafræði í hinum norsku skólum.

Ásatrúarfélagið sendi frá sér ályktun til skólayfirvalda um að farið sé að lögum í skólum landsins og mannréttindi virt. Ályktunin var samþykkt á Allsherjarþingi Ásatrúarfélagsins 2006.

Siðmennt, Ung vinstri græn og Samband ungra sjálfstæðismanna sendu öll frá sér ályktanir sem ítreka hlutleysi skólastofnanna og hvetja til þess að mannréttindi séu virt þegar kemur að trúfrelsi manna, það kom allt í kjölfar ályktunnar samtakanna Heimili og skóli.

Í nóvember 2007 var sagt frá því að fallið hefði verið frá Vinaleið þjóðkirkjunnar í Flataskóla í Garðabæ. Í kjölfar fyrirspurnar frá Persónuvernd til Flataskóla var fallið frá að hafa fulltrúa þjóðkirkjunnar starfandi við skólann við „kristilega sálgæslu“. Foreldri við skólann mislíkaði að þurfa að tilgreina sérstaklega ef það vildi ekki að fulltrúi trúfélags nálgaðist barn þess í skólanum, að öðrum kosti var um „ætlað samþykki“ að ræða.

Með þessu móti eru foreldrar neyddir til að gefa upp afstöðu sína til trúarbragða, en það teljast „viðkvæmar persónuupplýsingar“ samkvæmt lögum um persónuvernd (nr. 77, 2000, 9. gr.) og því var leitað til Persónuverndar.

Í svari frá skólastjóra kom fram að upplýsingarnar um þá sem báðust undan afskiptum fulltrúa trúfélags í skólanum voru í höndum skólastjóra, aðstoðarskólastjóra, deildarstjóra, umsjónarkennara viðkomandi barna og fulltrúa þjóðkirkjunnar. Annar skóli í Garðabær fylgdi svo í kjölfarið en vinaleiðin er enn starfandi í þriðja grunnskólanum í Garðabæ. Núna er í undirbúningi skaðabótakrafa á hendur bæjaryfirvöldum vegna vinaleiðarinnar sem var þar starfrækt, að öllum líkindum á ólögmætan hátt.

Í sumar var sagt frá baráttu föður skóladrengs í Hjallaskóla í Kópavegi í fjölmiðlum. "[...], faðir sjö ára drengs, er óánægður með kirkjuferðir Hjallaskóla á aðventu. Segir hann um trúboð að ræða og slíkt samræmist hvorki mannréttindasáttmála Evrópu né íslenskum lögum. [...] hefur árangurslaust reynt að leita réttar síns. „Ef þetta er ekki trúboð, þá er trúboð ekki til,“ segir [...], faðir úr Kópavoginum, um svokallaðar kirkjuferðir sem sjö ára sonur hans fer í sem hluta af skólastarfi, en drengurinn gengur í Hjallaskóla. Bæði [...] og móðir drengsins eru án trúar og sárnar að sonur þeirra sé sendur í kirkju á vegum skólans þar sem honum er meðal annars gert að biðja til guðs.

Samkvæmt alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (nr. 10/1979) skal enginn þurfa að þola geðþótta- eða ólögmæta röskun á einkalífi, fjölskyldu eða heimili (17. gr.). Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar (18. gr.). Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, eftir því sem við á, lögráðamanna til þess að tryggja trúarlegt og siðferðislegt uppeldi barna sinna í samræmi við þeirra eigin sannfæringu (18. gr.) "

Í nóvember 2007 var sagt frá því í fréttum Ríkissjónvarpsins að prestar fengju ekki lengur að vitja barna í þremur af fimm leikskólum í Seljahverfi. Fram kom að leikskólastjórar teldu ekki rétt að mismuna börnum eftir trúarskoðunum, taka yrði tillit til þess að við byggjum í fjölmenningarsamfélagi og að trúarlegt uppeldi ætti að vera í verkahring foreldra en ekki leikskóla.

Faðir sem átti dætur í einum þessara leikskóla sagði svo frá þeirri reynslu: "Þar til síðasta vor átti ég börn í leikskóla í Seljahverfi og þekki því vel til þessara mála. Eins og fjölmargir aðrir Íslendingar erum við hjónin trúlaus og því kusum við að dætur okkar færu ekki til prests þegar hann heimsótti Hálsaborg. En það runnu á okkur tvær grímur þegar dætur okkar komu heim af leikskólanum og sögðu að þær tvær og einn drengur af erlendum uppruna hefðu verið tekin til hliðar þann daginn meðan hin börnin áttu stund með presti.

Ég fékk ónotatilfinningu í magann þegar þær lýstu þessum leikskóladegi. Það var átakanlegt að hugsa til barnanna þriggja sem tekin voru úr hópnum þennan dag vegna lífsskoðana foreldranna. Ef ekki hefði verið fyrir þennan eina dreng, sem þá hefði verið einn útundan, hefðum við hiklaust látið stelpurnar fara í kristniboðið hjá séra Bolla. Það var ekki fyrr en drengurinn hætti á leikskólanum og dætur okkar voru einar teknar til hliðar að við höfðum samband við leikskólann og báðum um að okkar börn yrðu ekki lengur skilin frá öðrum. Þrátt fyrir lífsskoðanir okkar, sem skipta okkur töluverðu máli, gátum við ekki hugsað okkur að láta skera dætur okkar svo frá öðrum börnum í leikskólanum. Raunin er að leikskólatrúboð er ekkert val.

Það er nefnilega ekkert val fyrir börn að þau séu tekin úr hópnum. Ekkert foreldri á að vera sett í þá stöðu að neyðast til að velja á milli trúboðs og þess að barnið sé tekið til hliðar. Leikskólar eiga ekki að vera trúboðsstofnanir."

Þetta er ekki tæmandi greinargerð um þá mótspyrnu sem er að vakna vegna vaxandi ásóknar kirkjunnar inn í menntastofnannir landsins en ætti hugsanlega að gefa einhverja mynd af henni. [Leikskólinn] er í raun til mikillar fyrirmyndar í þessu fyrir utan þessar þrjár vikur á árinu rétt fyrir jólin. En jólin eru yfirleitt mjög mikilvægur tími í lífi lítilla barna (og fjölskyldna) og þrjár vikur eru heil eilífð og til þess fallin að gera kristilegan átrúnað að órjúfanlegum hlut í undirbúningi jólanna í huga ómótaðs barns.

Því er ég eindregið mótfallin. Jólin eru upprunalega ekki trúarlegs eðlis og þau eru heldur ekki í eðli sínu mjög trúarleg í dag og ég vil fá að eiga þau jól sem ég hef hingað til átt með börnunum mínum í friði, eins og svo mörg lög og reglugerðir segja að ég eigi fullan rétt á auk þess sem það eru skýlaus mannréttindi okkar að þurfa ekki að taka þátt í helgiathöfnum sem samræmast ekki lífsskoðunum okkar.

Þeim sem vilja hlutleysi í skólunum er hins vegar oft brigslað það að vilja banna jólahald en því fer víðsfjarri því langflest í jólahaldi Íslendinga tengist ekki á nokkurn hátt trú. Þar ber fyrst að nefna og halda uppá jólasveinanna okkar litríku sem lita jólahald landans líklega meira en nokkuð annað.

[Seinni hluti]

Ritstjórn 28.10.2010
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Valtýr Kári Finnsson - 28/10/10 14:26 #

Úfff. Þriggja vikna stanslausar æfingar á leikriti. Datt virkilega eingum í hug að börnin hefðu kanski ekki gott né gaman af þessu?

Ég ætla að giska á að þetta sé sagan af jesúbarninu (baby jeebus!). Meyfæðing, englar, vitringar, myrra og margt fleira sem börn munu ekki hafa neinn skilning á né áhuga. Og þetta munu þau þurfa að einbeita sér að í þrjár vikur?

Hefði ekki verið hægt að gera eitthvað skemmtilegra/gagnlegra?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.