Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Eru lífrænt ræktuð matvæli hollari en önnur?

Grænmeti

Því er oft haldið fram að lífrænt ræktuð matvæli séu hollari en "venjuleg" matvæli. Ekki alls fyrir löngu var því t.a.m. haldið fram í heilsukálfi Fréttablaðsins að lífræn matvæli væru 40 sinnum næringarríkari en önnur. Svipuð gífuryrði hafa heyrst áður frá þeim sem hafa atvinnu af því að selja heilbrigðan lífstíl. En er eitthvað hæft í þessum staðhæfingum heilsugúrúanna, og hvað segja þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á málinu?

Næringarsnauðar staðhæfingar

Í umfangsmikilli samantekt Joseph D. Rosen sem birtist í tímaritinu Comprehensive reviews in food science and food safety í maí síðastliðnum kemur fram að í flestum tilfellum þar sem talsmenn fyrir lífrænt ræktuðum matvælum staðhæfa um aukið næringargildi miðað við önnur matvæli er lítið sem ekkert á bak við yfirlýsingarnar. Stundum eru staðhæfingarnar ekki byggðar á neinum gögnum, og því bara skot út í loftið. Oftar er þó byggt á einhverjum rannsóknum, en þær eru í flestum tilfellum illa unnar eða ekki ritrýndar (Rosen, 2010).

Þegar bera á saman niðurstöður rannsókna á ákveðnu sviði er gjarnan beitt aðferð sem á íslensku hefur verið kölluð allsherjargreining (meta-analysis). Aðferðin felst í því að rýna margrar rannsóknir sem fjalla um sama viðfangsefni og taka saman niðurstöður þeirra með tölfræðilegri greiningu. Með þessarri aðferð er hægt að átta sig á hverjar heildarniðurstöður rannsókna á ákveðnu sviði eru, jafnvel þótt niðurstöður einstakra rannsókna séu misvísandi.

Alan D. Dangour og félagar hafa nýlega gert tvær rannsóknir af þessu tagi þar sem næringargildi og hollusta lífrænna matvæla eru tekin fyrir.

Munurinn lítill sem enginn

Í fyrri rannsókninni sem birtist 2009 voru niðurstöður rannsókna á næringargildi lífrænt ræktaðra matvæla kannaðar. Teknar voru saman niðurstöður 55 rannsókna og bendir allsherjargreining á niðurstöðunum til þess að enginn munur sé á næringargildi lífrænt ræktaðra matvæla og annarra. Örlítill munur reyndist vera á innihaldi milli lífrænt ræktaðs grænmetis og "venjulegs", en munurinn var sitt í hvora áttina eftir efnum og ekki svo mikill að það hefði áhrif á raunverulegt næringargildi matvælanna (Dangour o.fl., 2009).

Seinni rannsóknin, sem birtist í júlí síðastliðnum, beindist að hollustu lífrænt ræktaðra matvæla, þ.e. hvort neysla lífrænt ræktaðra matvæla hefði góð áhrif á heilsu fólks umfram neyslu matvæla sem ræktuð eru með hefðbundnum aðferðum. Eftir leit í nær 100.000 fræðigreinum fundust einungis 12 greinar sem taldar voru hæfa könnun af þessu tagi og gáfu niðurstöður þeirra ekki tilefni til að ætla að heilsusamlegra sé að neyta lífrænt ræktaðra matvæla en annarra. Vegna þess hve fáar rannsóknirnar voru þótti höfundum ekki ástæða til að framkvæma eiginlega allsherjargreiningu en þó þykir þeim ljóst að ekki séu enn til gögn sem sýni að lífrænt ræktuð matvæli séu hollari en þau sem ræktuð eru með hefðbundnum aðferðum (Dangour o.fl., 2010).

Ef eitthvað er að marka rannsóknir á sviðinu er því ljóst að harla lítil innistæða er fyrir digurbarkalegum yfirlýsingum heilsugúrúanna og að lítið fæst fyrir peninginn þegar rándýrt, lífrænt ræktað, fæði ratar ofan í matarkörfuna í stað þess venjulega.


Heimildir:

Baldvin Örn Einarsson 25.10.2010
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Björg - 25/10/10 13:01 #

Monsanto hefur erfðabreitt korn í mikklu kappi og hefur patentað ógrinni af fræjum (eignast náttúru?) og eru ofan á allt að terrorisa alla bændur sem vilja ekki rækta kornin þeirra og bændur sem eru mögulega að endurplanta fræjin eftir síðustu uppskeru. Þeir banna bændum að nýta fræin eins og hefð er fyrir, bóndinn verður að kaupa rándýr fræ í hvert skipti. Þetta er ómannlegt fyrirtæki og er ekki að gera góða hluti fyrir erfðabreyttan mat. Umræðan um lífrænt og erfðabreytingu er komin svo rosalega út fyrir efnið, farið að líkjast trúarbrögðum! "Mitt er hollara!" "Nei mitt!" "Nei mitt!!" :P Lífrænt ræktað er frábært en ekki allir hafa efni á því og erfðabreitt matvæli þurfa ekki endilega að vera slæm, það er fyrirtækið Monsanto sem er að erfðabreita án tillit til náttúrunnar og neita að játa nokkur mistök og reka alla vísindamenn sem hafa komið með athugasemdir. Ég hef ekkert á móti erfðabreittum mat, ég held það þurfi bara að taka einkaréttinn í burtu, þú getur ekki eignast og stjórnað náttúrunni, það þarf að loka Monsanto og leifa vísindamönnunum að vinna þetta rétt með tilliti og virðingu, ekki græðgi og óþolinmæði. Mæli með heimildarmyndinni "The world according to Monsanto" - http://video.google.com/videoplay?docid=6262083407501596844#


B - 25/10/10 13:08 #

Staðhæfingin um að lífrænt ræktuð matvæli séu næringarríkari er einfaldlega röng, eins og kemur fram. Þau geta hinsvegar haft ýmis konar hliðar áhrif eins og hærri andoxunarvirkni (sem kemur líka fram í þessum pappírum).

Þetta var lengi aðal sölu punkturinn fyrir lífrænt, ég veit ekki hvaðan allar þessar fullyrðingar um aukið næringargildi komu.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 25/10/10 16:16 #

Andoxunarefnin, já, hafa lengi verið sölupunktur fyrir lífrænt ræktað, þó að enn sé óljóst hvaða áhrif þessi efni hafa nákvæmlega á líkamann.

En samkvæmt Rosen er einmitt afskaplega lítið til af gögnum til að styðja það að lífrænt ræktuð matvæli innihaldi meira magn andoxunarefna en önnur matvæli. Annað hvort hefur munurinn ekki reynst tölfræðilega marktækur eða að mælingarnar hafa verið gallaðar.

Hann tekur sem dæmi rannsókn sem sýndi að lífrænt ræktuð Kiwi innhéldu mun meira af andoxunarefnum en þau sem ekki voru lífrænt ræktuð. Rannsakendurnir tóku ekki með í reikninginn að mikill meirihluti andoxunarefnanna var í híðinu, sem er óætt. Þegar innihald aldinkjötsins eins var mælt hvarf munurinn.

Rosen bendir einnig á að mikill munur sé á andoxunarefnainnihaldi í uppskeru milli staða og ára, og þannig geti lífrænt ræktað grænmeti ræktað á einum stað og einum tíma haft innihaldi meira af andoxunarefnum heldur en "venjulegt" grænmeti ræktað á næsta bæ á sama tíma. Árið eftir getur dæmið svo snúist við. Þessu til stuðnins vísar hann í rannsóknir gerða á ferskjum árin 2004 og 2005, þar sem nákvæmlega þetta mynstur kom fram.


Kári - 25/10/10 17:41 #

það er erfitt að rökræða þessi mál með svona lítið milli handanna. Ég bý í Bandaríkjunum og hér virðist mönnum mikið í mun að sannfæra fólk um ágæti lífrænt ræktaðra vara. Flestar rannsóknir sem ég heyri af (aðallega gegnum fréttaveitur því miður) eru mjög afmarkaðar. T.d. "Lífrænt ræktuð Kaliforníu-jarðaber innihéldu 5 sinnum meira af vítamínum en ólífrænt ræktuð" sem segir manni svosem ekki neitt. Penn og Teller gerðu eftirminnilegan Bullshit-þátt um lífræn matvæli en maður treystir nú ekki alltaf þeim ágætu herramönnum.


Inga Hrund - 25/10/10 17:53 #

Margir velja lífrænt til að ýta undir minni notkun á skordýraeitri og minni lyfjanotkun í búfjárrækt.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 25/10/10 18:57 #

Minni lyfjanotkun, kannski, en það er ekki minni notkun á skordýraeitri í lífrænni ræktun.

Skordýraeitrin sem notuð eru eru "náttúruleg", sem þýðir að það þarf að nota þau oftar og þar af leiðandi meira af þeim.

Náttúruleg skordýraeitur þurfa alls ekki að vera neitt minna eitruð en önnur skordýraeitur.

En það er efni í annan fyrirlestur ...


Brynjar Örn Ellertsson (meðlimur í Vantrú) - 25/10/10 19:48 #

Ég er svo mikið sammála þessari grein. Þeir sem halda því fram að lífrænt ræktað sé hollara þurfa að fara að sýna fram á það! Og það vill þannig til að það er ekkert að ástæðulausu sem mörg matvæli eru gerilsneydd og unnin að einhverju leiti þar sem ef það væri ekki gert gæti það í sumum tilfellum valdið sjúkdómum td. eins og mjólkurvörur.


Snaevar - 25/10/10 19:56 #

Ég hélt nú að aðalrökin fyrir lífrænni ræktun að þar væri maður að forðast skordýraeitur og ofnotkun tilbúins áburðar! Lífrænt ræktaðir ávextir líta amk oft verr út en þeir sem eru ræktaðir á hefbundin hátt og eru minna girnilegir. Ofnotkun á áburði er alvarlegt vandamál sem lífrænn landbúnaður vonandi vinnur gegn. Ég þekki ekki til hvaða skordýravarnir eru leyfðar innan lífræns landbúnaðar, en ég hélt að það væru þá aðalega efni sem væru sannanlega ekki skaðleg og brotna niður fljótt, sem og t.d. að nota skordýr sem borða önnur skordýr (vespur sem drepa blaðlýs t.d.). Á sama hátt vonast maður til að betur sé farið með dýrin á lífrænum búgörðum en í hefðbundinni kjötverksmiðjuframleiðslu.


Ragnar (meðlimur í Vantrú) - 25/10/10 20:48 #

Skordýraeitursrökin eru afskaplega léleg. Þetta er algert snefilmagn af skordýraeitri sem eftir situr á ávöxtunum og grænmetrinu þegar komið er út í búð að það getur bara ekki haft nein áhrif á mannslíkamann. Þetta er þannig snefilmagn að ef við ætluðum að hafa áhyggjur af því magni þá þyrftum við líka að hafa áhyggjur af þeim náttúrulegu eiturefnum í vörunum sjálfum sem mun meira er af (blásýra í eplasteinum o.s.frv.).

Það er mun meiri ástæða til að hafa áhyggjur af sveppa- og bakteríusmiti á grænmeti og ávöxtum frá framleiðendum sem hafa af einhverjum undarlegum ástæðum kosið að sleppa að nota skordýra- og sveppaeitur.


Snaevar - 26/10/10 03:59 #

Snefilefni af skordýraeitri er bara aðeins of mikið þegar það eru börnin þín sem borða þetta. Það eru margar rannsóknir sem sýna að snefilefni af þessari gerð safnast upp í líkamanum ef þú borðar þau oft og geta haft slæm áhrif á börn. Ég fletti bara upp einni nýlegri grein um þetta: http://ehp03.niehs.nih.gov/article/info:doi/10.1289/ehp.1002044 "Several reports (Schettgen et al. 2002, Lu et al. 2006a; 2006b; 2008; 2009) have clearly demonstrated the significant contribution of dietary intakes to the overall OP and pyrethroid pesticide exposure in children and highlighted the critical need to quantify the health risks associated with the low but chronic daily exposures to those pesticides


Carlos - 19/11/10 23:14 #

Lífrænt ræktuð matvæli, t.d. kaffi leitast við að endurnýta alla mögulega hluti, á staðnum. Það er ekki nóg að einblína á ávöxtinn heldur þarf að skoða ferlið allt. Greinin missir því marks fyrir þær sakir að hún horfir of þröngt á málið.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 19/11/10 23:20 #

Missir marks?

Hér eru einungis til umræðu þær fullyrðingar að þessi matvæli séu hollari fyrir neytandann. Það hvaða áhrif þessi landbúnaður hefur að öðru leiti kemur því máli ósköp lítið við.

Hins vegar er alls ekki víst að þessar aðferðir skili nokkru hvað varðar umhverfisvernd heldur, en það er efni í aðra grein og kemur þessari einfaldlega ekki við.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.