Umræðan um tillögu mannréttindaráðs um að banna trúboð í opinberum skólum hefur verið á þvílíkum villigötum að ég tel að algjört grundvallaratriði hafi gleymst. Ég hef alltaf litið svo á að trú fólks (barna líka) sé einkamál sem að hverjum er í sjálfsvald sett að gera opinbert.
Flestir gagnrýnendur mannréttindaráðs hafa hamrað á því að foreldrar geti "einfaldlega" óskað eftir því að börn þeirra verði ekki þáttakendur í trúariðkunum á vegum skólans. En með því að gera það, eru þeir að opinbera trúarskoðanir sínar. Sambærileg spurning væri til dæmis: "Kýstu sjálfstæðisflokkinn?".
En af hverju að stoppa þar? Er ekki hægt að gera enn betur til þess að þjóna ólíkum hópum?
Skólar gætu til dæmis krafist þess að fá upplýsingar um heildartekjur foreldrana. Þannig væri hægt að búa til sér bekk þar sem að öll börnin væru með flotta ferðatölvu til þess að auðvelda þeim og kennurum þeirra námið. Einnig væri hægt að fá skólasálfræðing til þess að hitta nemendur reglulega og meta líkur á hvort að viðkomandi nemandi sé samkynhneigður. Þannig væri hægt að búa til sér bekk fyrir samkynhneigða þar sem að hægt væri að þjóna þeirra hagsmunum betur.
Er vandamálið kannski að við flokkum börnin ekki í nógu marga hópa nógu snemma? Skólin ætti kannski að fara fram á að allir nemendur skili inn fullu genamengi þannig hægt sé að meta líkur á alls kyns kvillum í framtíðini og þannig bjóða upp á nám við hæfi. Er ekki bara holt fyrir börnin að átta sig á því snemma hvaða hópi þau og skólafélagar þeirra tilheyra? Hversvegna ættu t.d. börn efnaðra foreldra að verða vinir barna fátækra foreldra sem eiga kanski ekki XBox eða hafa ekki efni á að fara í bíó?
Við erum allavega búin að stíga fyrsta skrefið og samkvæmt nokkrum háværum meðlimum "meirihlutans", þ.m.t. þingmönnum og prestum, eigum við alls ekki að stíga til baka.
En með því að gera það, eru þeir að opinbera trúarskoðanir sínar.
Sterkur punktur, vel rökstuddur.
Aðskilnaður barna í skóla eftir trú eða trúleysi foreldranna leiðir ekki til góðs.
Mér finnst þetta einmitt vera mjög góður punktur. Af hverju á ég að þurfa að afhjúpa trúarskoðanir mínar fyrir skólanum?
Af hverju á barnið mitt að líða fyrir mínar trúarskoðanir?
Eða réttara sagt:
Af hverju kemur skóli barnsins míns mér í þá stöðu að ég þurfi að velja milli þess að það sé ég sem líð fyrir trúarskoðanir annarra (þeas, ég leyfi barninu mínu að sitja undir trúboði) eða barnið mitt að líða fyrir mínar trúarskoðanir (þeas ég tek barnið mitt út úr hópnum og geri það öðruvísi í augum samnemenda)?
Hvers vegna í ósköpunum geta kristnir ekki bara fylgt sínum eigin boðskap sem er settur fram í gullnu reglunni? Myndi nokkur kristin manneskja virkilega vilja að fulltrúar annarra trúarbragða sæti um börnin í skólanum og reyndu að sannfæra þau um að það sem foreldrarnir segja sé bara kjaftæði?
Held ekki.
Við erum ekki bara að tala um að prestarnir segi börnunum að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir.
Mér finnst í sjálfu sér eðlilegt að banna trúboð í skólum, en síðan er spurningin hvar línan liggur varðandi hvað er "trúboð"? Sem dæmi velti ég fyrir mér hvort að eftirfarandi kynning myndi flokkast sem "trúboð" og af hverju þá:
"Hæ, við erum hér að láta vita af því að það er kristilegt æskulýðsstarf fyrir 10-12 ára í þessari kirkju á þessum tíma og allir eru velkomnir sem vilja koma."
Ef þetta er trúboð, er þá verið að ýta á börn að fara í fótbolta ef þessu væri breytt á eftirfarandi hátt:
"Hæ, við erum hér að láta vita af því að það er fótboltaæfingar fyrir 10-12 ára á stað X á þessum tíma og allir eru velkomnir sem vilja koma."
Auðvitað er himinn og haf milli þess að ýta á börn að fara í trúarstarf eða fótbolta, en væri þessi framsetning almennt að ýta á einhvern að fara í eitt eða neitt?
Annars þá finnst mér tillögurnar almennt séð mjög illa unnar og sem dæmi má taka fyrstu tillöguna. Ég á erfitt með að sjá hvernig ætti að framfylgja þessu án þess að a) hafa bein afskipti af því hvenær trúfélög eru með sitt starf (er það í verkahring mannréttindaráðs?) b) reyna að hafa áhrif á hvort forráðamenn geti fengið tímabundna undanþágu frá skólaskyldu út af trúartengdum ástæðum (fermingarnámskeið)
Endilega deilið fleiri leiðum til að framfylgja þessu því að mér sýnist a liðurinn vera utan verksviðs ráðsins og b liðurinn jaðra við mannréttindabrotum gagnvart forráðamönnum og börnunum...
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Inga Hrund - 22/10/10 09:14 #
Ég les mikið af pistlum hér á Vantrú.is og er oftast sammála en þetta finnst mér ekki málefnalegt. Sorrí.