Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kuklvæðing Bylgjunnar - ábyrgð miðlanna

Vi buddlah já

Fyrir helgi var hér fjallað aðeins um viðtöl Heimis Karlssonar í morgunþættinum Í bítið á Bylgjunni við Ingibjörgu Sigfúsdóttur talsmann kukl-vefritsins Heilsuhringurinn.is. Bent var á að sumt af því sem Ingibjörg fjallar um er vafasamt og sumt augljóslega hreinlega svikin vara. Um þau mál verður fjallað áfram hér á kjaftæðisvakt Vantrúar, en í dag ætlum við aðeins að velta fyrir okkur siðferðilegri ábyrgð Bylgjunnar þegar að svona umfjöllun kemur.

Lítum aðeins á siðareglur 365 miðla ehf. til að átta okkur á þeim markmiðum sem miðlasamsteypan sem rekur Bylgjuna setur sér.

Ritstjórnir skulu hafa að forgangsatriði að aldrei sé efast um trúverðugleika miðla 365 og starfsfólks þeirra. Ritstjórnir skulu því nálgast efnistök með hlutleysi og virðingu fyrir öllum hliðum máls þar sem ekki er dreginn taumur málsaðila. Ritstjórnir leitast við að hafa staðreyndir máls réttar og heimildavinnu vandaða og passa sérstaklega upp á að gerður sé skýr greinarmunur á milli staðreyndar og skoðunar. Ávallt skal leiðrétta mistök svo fljótt sem verða má.

[..]

Efnistök skulu aldrei vera háð hvers kyns hagsmunum og/eða hagsmunaaðilum og skulu ávallt hafa það eitt að leiðarljósi að þjóna miðlun vandaðra upplýsinga til almennings.

Hagsmunir auglýsenda og/eða eigenda eru aldrei hafðir til hliðsjónar við vinnslu efnis. Til að almenningur þurfi aldrei að vera í vafa um hlutleysi umfjöllunar skal gera skýran greinarmun á auglýsingum og öðru efni. Einnig skal taka fram ef eigendur miðilsins eru efni fréttaumfjöllunar.

Með hliðsjón af siðareglum 365 miðla má hæglega komast að þeirri niðurstöðu að stjórnendur þáttarins Í bítið séu á mörkum hins ósæmilega þegar þeir kynna kukl með þeim hætti sem fjallað var um í greininni Kuklvæðing Bylgjunnar.

Þáttarstjórnendur veita Ingibjörgu Sigfúsdóttur aðgang að áheyrendum þáttarins með áróður hennar um að heilbrigðisstéttin sé af einhverjum ástæðum ómeðvituð um fjöldann allan af heilsubótarráðum sem hún og vinir hennar á Heilsuhringnum.is þekki til og bjóða upp á. Í mörgum tilfellum eru greinarnar sem hún er að dásama auk þess skrifaðar af fólki sem hefur hag af því að fólk fyllist efasemdum um almenna heilbrigðiskerfið og prófi kuklið í staðinn - í sumum tilfellum eru greinarhöfundar beinlínis að selja þjónustuna sem þeir fjalla um.

Að okkar mati hafa Heimir Karlsson og félagar annaðhvort ekki kynnt sér þær hugmyndir sem Ingibjörg er að reifa, sem þó hlyti að teljast til þess að vanda heimildarvinnu og tryggja að staðreyndir séu réttar, eins og talað er um í siðareglunum, eða þeir kjósa hreinlega að gagnrýna þær ekki né setja skýran fyrirvara við þær, sem ætla mætti að varði við þá reglu að ekki skuli draga taum málsaðila.

Það er þó að sjálfsögðu ekki hægt að ætlast til þess að þáttargerðarfólk kynni sér í þaula allt sem fjallað er um í þættinum, en einmitt þess vegna hlýtur því að bera viss skylda til að ganga út frá almennt viðurkenndri afstöðu fræðimanna til svona hluta, t.d. þeirri afstöðu að taka þurfi fullyrðingum kuklgeirans með miklum fyrirvara þar sem það er vel þekkt að það gengur afar illa að staðfesta mikið af því sem þar er haldið fram.

Í þættinum hefur hins vegar þvert á móti verið stígið skref í hina áttina með því að fullyrða ranglega að greinarnar á Heilsuhringurinn.is séu eftir fræðinga og lækna og einnig með því að gera fremur lítið af því að efast um yfirlýsingar Ingibjargar. En eðlilegast væri kannski að kalla til sérfræðing til að koma með álit á því sem haldið er fram og stuðla þannig að vandaðri tvíhliða umræðu um þessa hluti, en ekki einhliða auglýsingamennsku.

Það kann hinsvegar að vekja athygli einhverra að Heimir hefur sjálfur að minnsta kosti tvisvar lagt nafn sitt við sölu kukls. Annað kuklið er LifeWave plástrarnir[1] svokölluðu og hitt Wave úðarnir [2] sem mikið var talað um á tímabili en voru bannaðir af Lyfjaeftirlitinu vegna ólöglegs innihalds.

Auðvitað segir það í sjálfu sér lítið um viðhorf Heimis til greinanna á Heilsuhringnum að hann hafi sjálfur myndast við að selja óhefðbundin heilsuráð, en það gefur þó ástæðu til að ætla að hann sé fremur lítið gagnrýninn á þá hugmynd að selja megi vörur sem illa gengur að sanna að hafi þau áhrif sem lofað er. Það er hinsvegar áhyggjuefni, því þess eru mörg dæmi um allan heim að ráðþrota sjúklingar eyði stórfé og miklum tíma í að eltast við fokdýrar meðferðir hjá loddurum, eins og t.d. þeim sem selja SCIO Biofeedback meðferðina sem fjallað var um í Kuklvæðing Bylgjunnar.

Hvað sem segja má jákvætt um kuklgeirann hlýtur að teljast ljóst að oft er einfaldlega verið að hafa fé af fólki í neyð og gagnrýnislaus umfjöllun um slíkt kukl fer að okkar mati óþægilega nálægt því að vera siðlaust athæfi. Því skorum við á Heimi Karlsson og Bylgjuna að endurskoða með hvaða hætti er fjallað um þessi mál.

Á morgun þriðjudag má búast við því að Ingibjörg Sigfúsdóttir mæti til leiks hjá Heimi og taki fyrir enn eina greinina af Heilsuhringnum. Vonandi verður það hófsöm og vönduð umfjöllun en ekki skýlaus auglýsing fyrir miskunnarlausa fjárplógstarfsemi.


[1] LifeWave síða Heimis

[2] Grein um Wave úðana í DV, 5. okt. 1998, bls. 2 (timarit.is)

Kristinn Theódórsson 27.09.2010
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Haukur Guðnason - 27/09/10 15:06 #

Merkilegt þótti mér, þegar hún Ingibjörg er spurð hvort ekki geti verið vafasamt að taka vítamín í risaskömmtum og hún svarar:

þetta er mjög umdeilt og við sem höfum kynnt okkur annað, sjáum það sem okkur er ráðlagt hér af heilbrigðisstétttum, það fer ekki allaf saman við það sem fólki kemur að gagni.

Undir þetta humma báðir þáttastjórnendur.

Fyrir utan að eitur áhrif vítamína er vel þekkt þá virðist vera í góðulagi að væna fólk í heilbrigðisgeiranum um að gefa fólki vond ráð. Hvort sem hún var að meina vegna þekkingarleysi þess eða sem vísvitandi blekkingu skal ég ekki segja. En þetta allt í anda samsærikenninga sem virðast annsi oft fylgja kuklurnum, þar sem þau hafa leynda þekkingu sem "heilbrigðisgeirinn" vill ólmur að engin komist að.

En verður gaman að sjá hvort þessi umræði komi til með að hafa einhver áhrif á efnival í næsta þætti.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 27/09/10 19:36 #

En þetta allt í anda samsærikenninga sem virðast annsi oft fylgja kuklurnum

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er allt kukl ´ði raun og veru bara samsæriskenningar. Það er sama hvaða nafni það kallast, hvort sem það er hómópatía, kristallaheilun, spámiðlar, sjáendur, "náttúru"lækningar, galdraplástrar eða hvað annað.

Á endanum þarf allt þetta fólk að útskýra afhverju það sé ekki búið að sanna þetta og afhverju virtir háskólar, ríkisstofnanir og lyfjafyrirtæki séu ekki búin að meðtaka þetta.

Svarið er alltaf samsæri.


Árni Þór - 27/09/10 20:10 #

Já, svörin eru annaðhvort samsæri eða óljóst bull um hvernig "vestræn"vísindi hafi ekki svarið við öllu og hvernig við verðum að horfa "heildrænt" á líkamann.


Árni Árnason - 27/09/10 21:40 #

Það lýsir mest skorti á almennilegu umfjöllunarefni hvað útvarpsstöðvarnar eru orðnar ginkeyptar fyrir kukli og kjaftavaðli. Þáttastjórnendur virðast oft á tíðum heilalausir þegar þeir láta bjóða sér nánast hvað sem er gagnrýnislaust. Þetta á við að einhverju leyti um allar útvarpsstöðvar, en verst er þó útvarp Saga sem augsýnilega lifir ( ef marka má auglýsingarnar frá nýaldarkuklurum ) á bullurunum, sem aftur lifa á einföldum sálum í hópi hlustenda. Ég hélt satt að segja að kveðið væri á um það í útvarpslögum að auglýsingar og annað efni skuli aðskilið með skýrum hætti. Útvarp saga er með heilu viðtalsþættina sem eru ekkert annað en illa dulbúnar aulýsingar, og oftar en ekki um eitthvert nýaldarkukl eða lyf sem ekki má kalla lyf.


Jón Steinar - 28/09/10 00:30 #

Þessi klásúla úr siðareglunum er eins og öfugmælavísa. Þetta fyrirtæki hefur gagngert rekið hagsmunamál eigenda sinna og haft heilu dagskrárliðina undir "vænt umtal" um varning og verslanir samsteypunnar, svo við förum nú ekki út í samfylkingarspunann, sem tröllreið öllu þarna á meðan Jón Ásgeir átti flokkinn. (á hann kannski enn, sýnist mér)

Hafi þessi útvarpsstöð verið trash, hér áður, þá skortir málið orð yfir það sem hún er núna.


Jón Steinar - 28/09/10 00:35 #

Eru engin ákveððin og skýr lög geegn svona loddaraskap og fjárplógsstarfsemi?

Nú dettur mér í hug Omega, sem selur blessun, bænir gæfu og lækningu fyrir peninga og plöggar fyrir margdæmda sjónvarpsprédíkara í Ameríku. Er engin almenn nálgun við að kæra svona og draga þetta loddarahyski fyrir rétt? Hvað um Neytedasamtökin?


Jón Steinar - 28/09/10 00:48 #

Ég meina....þetta er komið langt út fyrir ramma skoðana og málfrelsis. Hér er verið að beita vísvitandi blekkingum.

Ef lyf eða lækningaaðferðir eiga að ná inn á spítala hér, þarf langt og strangt ferli að ganga á undan. Sigti sem fátt sleppur í gegnum. Þegar það gerist, þá er mönnum skylt að láta fylgja með Íslenskaðar viðvaranir um takmarkanir, aukaverkanir og varúðarflokka.

Lyf taka áratugi í þrotlausum prófunum áður en þau ná markaði. Jafnvel þótt sýnt hafi verið að þau bjargi lífum á prófunarskeiðiinu.

Þetta lið þarf ekki að sýna fram á neitt. Það getur selt hvað sem er og hvetur jafnvel fólk til að sleppa hefðbundnum og viðurkenndum lyfjum og lækningaráðum í staðin fyrir þetta.

Ég sé enn bækur og remedíur um töfralækningar við krabbameini m.a. í "heilsu"verslum. Fellur þetta utan lyfjaeftirlits og lýðheilsunorma hér?

Eigum við að hætta að fussa og sveija yfir þessari heimsku og fara að bjóða þessu byrgin fyrir rétti? Er hægt að fá gjafsokn á svona? Getur neytendastofa tekið þetta að sér eða einhver stofnun eða samtök? Er skeptískur lögmaður, sem er til í að leggja þessari baráttu lið?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.