Allt í kringum mig sé ég fólk gangandi um með lítil nestisbox. Sumir halda boxinu varfærnislega í fangi sér. Aðrir valhoppa og sveifla boxinu létt, til og frá með bros á vör. Enn aðrir stika stórmannlega um göturnar með hökuna hátt og aðra hendina í vasanum. Svo eru hinir nestisboxa eigendurnir en meira um þá seinna.
Ég á hinsvegar ekkert nestisbox.
Og hvað er í þessum nestisboxum? Það eru skiptar skoðanir um það. Ef þú spyrðir mig þá myndi ég segja ekkert. Bara myrkur. En ef þú spyrðir þessi sem ganga með þau, þá myndu þau segja þér að inni í boxinu væri... guð.
Mögulega spyrðu sjálfan þig, lesandi góður, hvað guð sé að gera í nestisboxi. Til að svara því þurfum við að fara aftur í tímann. Langt aftur í tímann. Þannig er að einu sinni var ekki bara myrkur í nestisboxum heldur var myrkur um allan heiminn og í þessu myrkri bjuggu forfeður okkar og reyndu að draga fram tóruna. Þið getið ímyndað ykkur hversu hræðilegt og erfitt það var að reyna að komast af í kolsvörtu myrkrinu. En það vildi svo skemmtilega til að til var fólk sem gat útskýrt myrkrið. Það sagði að í myrkrinu væri Guð. Þessi guð elskaði alla og þess vegna væri ekkert að óttast. Fólk gat haldið sínu daglega lífi áfram í myrkrinu án þess að vera stöðugt skíthrætt.
En svo gerðist það einn daginn að einhver ólátabelgur ákvað að kveikja ljós og kíkja sjálfur á það sem var í kringum hann. Guðsfólkið var ekki par hrifið af því og sagði honum að treysta því bara að guð væri allt í kring. En allt kom fyrir ekki og ljós var keikt í einu skúmaskotinu í heiminum. Og hvað haldið þið að ólátabelgurinn hafi séð? Þið ættuð að vita það. Hann sá það sama og allir sem í kjölfarið fóru að kveikja ljós. Það eina sem hefur í sögu mannkynsins komið í ljós við nánari athugun.
Það var enginn guð í myrkrinu.
Bara náttúran. Bara náttúrulegir hlutir sem höfðu náttúrulegar orsakir. Guðsfólkið hafði útskýringar á þessu öllu saman. Ja, sko guð er kannski ekki í þessum helli. En hann er pottþétt þarna í hinum hellinum sem ekki er búið að lýsa upp. Nei, nei það er alger óþarfi að skoða það nánar.
En ólátabelgirnir létu sér ekki segjast. Þeir héldu áfram að lýsa og lýsa og leita að þessum dularfulla minnkandi guði. Og það sem hann gat skroppið saman! En ekkert hreyfði við trú guðsfólksins á Guð. Enn í dag trúir fólk á guðinn í myrkrinu. Á guðinn sem útskýrir allt sem við skiljum ekki enn. Og nú er svo komið að við erum búin að lýsa upp megnið af heiminum og eina örugga skjól hans er í nestisboxum guðsfólksins. Þetta eru prívat nestisbox (sem ég vil ímynda mér sem Hello Kitty nestisbox) sem innihalda oft á tíðum einhverskonar einkaguð. Fólk talar oft um „minn guð“. Þetta er svona vasaguð. Mjög handhægur skilst mér. Fer líka með öllu. Svona eins og svart.
Inn í þetta box má víst ekki lýsa neinu ljósi. Það er dónalegt. Það er svo dónalegt að það er meira að segja dónalegt að tala um að gera það.
En afhverju er ég að skrifa um þessi box? Satt best að segja er mér skítsama um þessi nestisbox. Mín vegna má fólk alveg eiga svona box. Mér er meira að segja sama hvaða mynd er á þeim. Það þarf ekkert endilega að vera Hello Kitty. Það mætti alveg eins vera Spider-man eða Justin Bieber... Ok kannski ekki Justin Bieber.
Fullt af því fólki sem ég lít hvað mest upp til eiga svona box. Fullt af því fólki sem mér þykir mest vænt um á svona box. T.d. á megnið af fjölskyldu minni box. Mér er alveg sama. Meira en það; ef boxið veitir þessu fólki eitthvað gott eins og stuðning í erfiðum tímum og svona, þá er ég bara rosalega ánægður fyrir þeirra hönd. Ég hef ekkert á móti fólkinu sem ég var að lýsa hér í byrjun greinarinnar. Ég get alveg labbað með hnarreista fólkinu með Hello Kitty nestisboxin þótt ég sé tómhentur og því er oftast nær líka alveg sama þótt ég sé tómhentur.
En svo er það hitt nestisboxafólkið...
Að öðru hvoru hittir maður fávita sem láta sér ekki nægja að ganga um með nestisbox heldur þurfa þeir að troða boxinu upp í andlitið á manni upp úr þurru. Stundum nudda þeir nestisboxinu við andlitið jafnvel þótt ég segi þeim að mig langi ekkert að sjá þetta helvítis box. Ég hafi séð svoleiðis oft áður. En þetta fólk er alltaf að reyna að telja mér trú um að þeirra nestisbox sé ekki eins og öll hin. Á þeirra boxi er Hello Kitty með samvaxnar augabrýr.
Úúúúúúúú, það er allt annað. Nei bíddu, það er ekki annað, þetta er bara enn eitt nestisboxið. En það fyndna er að ef ég tek svo boxið og opna það og lýsi ljósi ofan í það þá er það víst ég sem er dónalegur. Fólkinu sem ég lýsti í byrjun, fólkið sem mér líkar oftast vel við, verður jafnvel móðgað. Jafnvel, og haldið ykkur nú fast, jafnvel tómhent fólk móðgast og telur mig vera í órétti! Hvað er það?
Svo eru fleiri týpur til. Aðrir labba um göturnar flengjandi höndunum með boxunum í allar áttir. Gera sér far um að labba í átt að fólki (jafnt öðruvísi boxafólki sem tómhentum) sem er að reyna að komast leiðar sinnar þannig að það þarf að beygja sig frá eða skutla sér niður til að verða ekki fyrir boxunum. Svo eru meira að segja þeir sem ganga um með boxin sín og nota þau sem barefli. Þeir njóta sín gríðarlega þegar þeir berja fólk í hausinn sem gengur með öðruvísi nestisbox. Jafnvel þótt boxin séu mjög svipuð. T.d. bara Uni-brow Hello Kitty vs. Pretty Hello Kitty. En mest fá þeir út úr því að berja okkur tómhentu í hausinn.
Því það er svo magnað að ef boxafólkið er að berja hvort annað í hausinn með boxunum sínum þá kemur oftast fleira boxafólk til að reyna að stilla til friðar. En ef boxafólkið ber tómhent fólk í hausinn þá horfir restin af boxafólkinu bara á. Meira að segja flest tómhenta fólkið horfir bara á.
En á ég að segja ykkur það alfyndnasta? Ef ég fæ nóg af því að láta berja mig í hausinn með boxinu og ríf það af manninum og lýsi ljósi ofan í það þá er það ÉG sem er dónalegur. Ég spyr aftur, hvað er það?!? Það er amk. ekkert sem ég sætti mig við. Og það sem meira er við erum fleiri sem sættum okkur ekki við það. Ég er t.d. í félagi fólks sem hefur ákveðið að sætta sig ekki við að vera barið í hausinn með nestisboxaguðinum og fá ekkert um það sagt og mega ekki verja okkur
Það sem ég vil segja er það að ef þú vilt ganga um með nestisbox þá er það í lagi mín vegna og ég er jafnvel ánægður fyrir þína hönd. En ef þú svo mikð sem reiðir þetta box til höggs í átt að mér þá mun ég rífa það af þér, snúa þig niður og troða því þangað sem sólin aldrei skín.
Annað, þeir sem standa hjá og gagnrýna mig fyrir það eiga von á einhverju svipuðu.
Friður sé með ykkur.
Mitt box er blátt og með mynd af Didier Drogba - og það er fullt af yndislegu ljósi og góða skapinu.
Finnst það nú samt táknrænt að þú ætlir að taka boxið með myrkrinu og stinga því lengra upp í myrkrið, veit samt ekki hvort þú tókst eftir því sjálfur.
Jú þetta er kaldhæðni. Það hefði verið hægt að enda pistilinn á meira dipló hátt en mér fannst þetta bara svo meinfyndið að það varð að standa:)
Frábær pistill.
Þetta með ljósið og hellanna minnir mig á ritgerð sem ég skrifaði í framhaldsskóla um guð sem leyndist í myrkrum skúmaskotum torfkofa. Fékk C eða D fyrir hana með einni athugasemd "Ég skil ekki hvað þú ert að meina"..
Frábær grein! En þú gerir þér grein fyrir að eiga ekki nestisbox er bara eitt form af því að eiga nestibox :p
Frábær grein sem ég mun óspart vitna í í framtíðinni. En hvað með fólkið sem gengur um með nestisbox þó að það viti vel og viðurkenni á stundum að þau séu tóm?
Fékk C eða D fyrir hana með einni athugasemd "Ég skil ekki hvað þú ert að meina"..
:D
En þú gerir þér grein fyrir að eiga ekki nestisbox er bara eitt form af því að eiga nestibox :p
Jú jú mikið rétt. Eins og það að safna ekki frímerkjum er bara önnur tegund af áhugamáli.
En hvað með fólkið sem gengur um með nestisbox þó að það viti vel og viðurkenni á stundum að þau séu tóm?
Já ég gleymdi að telja þau upp. Þau tilheyra fyrri hópnum ekki satt? Það eru meira að segja nokkrir prestar í þessum hóp.
Já það hljóta að vera fullt af prestum sem hafa áttað sig á vitleysunni en hafa byggt líf sitt í kringum þetta og það er ekki aftur snúið og þá er eins gott að viðhalda blekkingunni...
Já það hljóta að vera fullt af prestum sem hafa áttað sig á vitleysunni en hafa byggt líf sitt í kringum þetta og það er ekki aftur snúið og þá er eins gott að viðhalda blekkingunni..
Við skulum setja okkur samt í spor prests sem missir trúna. Hann(eða hún) á væntanlega maka sem er trúaður. Börn sem hann er búinn að ala upp sem kristin. Það er ekki auðvelt að segja börnum sínum allt í einu að allt það sem hann sagði var bara kjaftæði.
Hvað með sóknina hans? Þar er mögulega fólk sem hann hefur skírt, fermt og gift. Fólk sem hann hefur stappað stáli í þegar það var í vafa með sína trú. Prestur gegnir ábyrgðarhlutverki í slíkum aðstæðum eða hvað?
Erlendar athuganir (man ekki hvað gaurinn heitir í svipan, sem tók þessi viðtöl) sýna að prestar halda áfram vegna þessarar ábyrgðarkendar gagnvart sóknarbörnunum.
Svo er þetta helvíti vel borgað og gott inni-job:)
Trausti:
Það er nákvæmlega það sem ég átti við þegar ég sagði að þá væri sennilega best að viðhalda blekkingunni.
Flott myndlýking, en þú gleymdir að nefna þá sem átta sig á því að Guð var aldrei í myrkrinu heldur í ljósinu,
@Styrkár Snorrason Myrkrið er það sem ekki er hægt að sjá, felur það sem er innra með því. Guðinn sást ekki í ljósinu, þar sem hlutir sjást, og því hlaut hann að bærast í myrkrinu.
Myrkrið var líking yfir það sem við skiljum ekki, ljósið yfir það sem við vitum. Þegar vitnesjka var notuð til þess að vita meira um myrkrið varð það að ljósi, og því minna myrkur því minni guð. Þar til loks ekkert myrkur var eftir sem ekki var vitað um, og enginn guð þar. Þar sem guðinn var hvergi í myrkrinu, og við vitum að hann er ekki í ljósinu því að annars myndum við sjá hann eða vita næstum 100% um tilvist hans, þá getum við lagt saman tvo og tvo og fengið fjóra.
Veit ekki hvort það er góð tenging, en einu sinni sem oftar, þá kom ég til gömlu sovétríkjanna í den. Ég undraðist mikið að allstaðar voru einkennisklæddir menn í þykkum og borðalögðum frökkum og með hátimbruð kaskeyti á höfði. Ábúðin og valdið leyndi sér ekki. Allir voru þeir með leðurskjalatöskur, sem virtust vandaðar og traustvekjandi. Leyniskjöl, hugsaði ég. KGB. Eitthvað gasalega important.
Einn eftirmiðdaginn tók ég sporvagn, sem var líklega búinn að vera í gangi síðan á keisaratímanum. Þá settist einn svona "officer" handan gangsins og ég virti hann fyrir mér. Hann var gersamlega gleðisnauður að sjá. Hann opnaði skjalatöskuna sína hægt og rólega og ég beið spenntur eftir að eygja hvað væri í helgidómnum.
Í töskunni var brauðsneyð með síld í smjörpappír og mjólkurflaska og ekkert annað. Sennilega haði aldrei neitt annað verið þarna heldur.
Maðurinn borðaði brauðið sitt og saup á mjólkinni og ég sá að hann lyngdi aftur agunum eins og hann hefði lengið beðið þessarar fróar. Sá jafnvel glitta í tár á hvarmi, en það getur hafa verið frostið.
Ég fann mikið til með þessum manni og sá ímynd hans dragast úr grimmum herforingja í hrædda og ófullnægða mús.
Mig langaði ekki í hlutskiptið hans og mig langaði ekki í nestið hans né svona skjalatösku. Hef aldrei séð þörf fyrir hana raunar.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Ásta Elínardóttir - 22/09/10 09:17 #
Skemmtileg samlíking hjá þér og mjög svo myndræn, þakkir kærlega fyrir.
Finnst það nú samt táknrænt að þú ætlir að taka boxið með myrkrinu og stinga því lengra upp í myrkrið, veit samt ekki hvort þú tókst eftir því sjálfur.