Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ranghugmyndir Davíðs Þórs

davidthor.jpg

Það er engin hótun í því fólgin að segja fólki að sennilega hafi það á röngu að standa ef það giskar bara út í bláinn frekar en að afla sér heimilda, að það lifi líklega í lygi ef það kynnir sér ekki sannleikann. #

Fyrr í vikunni var guðfræðineminn Davíð Þór Jónsson spurður út í álit sitt á The God Delusion eftir Richard Dawkins, en skömmu áður í þættinum hafði Reynir Harðarson mætt til að ræða um nýútkomna þýðingu sína á bókinni.

Rót allra ranghugmynda

Davíð byrjaði á að upplýsa að hann hafi ekki lesið bókina vegna þess að hann hefur ákveðið að forðast hluti sem ofbjóða honum og bætti því við að hann skoðaði vantru.is ekki lengur af því að „hann fær ekkert annað en uppnám út úr því”. Það vel skiljanlegt að fólk nenni ekki að standa í þessu trúmálakarpi endalaust og velta sér upp úr hlutum sem pirra mann, en eins og kemur í ljós þá gengur ekki að kynna sér ekki málstað ef maður ætlar að gagnrýna hann.

Davíð hefur hins vegar lesið bók sem er rituð gegn bók Dawkins, eftir guðfræðinginn Alister McGrath. Að hans sögn er hún „mjög góð”, en því miður afskræmir þessi hræðilega bók skoðanir Dawkins. Davíð endurtekur síðan þessar rangfærslur.

Ljótu hliðar biblíunnar

Fyrsta gagnrýni Davíðs, sem er tekin beint frá McGrath, er sú að Dawkins kynni lesendum sínum bara vondu hlið biblíunnar, það sé eins og hann hafi ekki „litið í sálmana” eða „opnað spádómsritin”, hann vitnar bara í ljóta kafla í Mósebókunum. Dawkins gefur sér auk þess niðurstöðuna „guð er vondur” og síðan „blaðar hann í gegn og fiskar út það sem rennur stoðum undir þær kenningar og lætur eins og hitt sé ekki til.

Þegar Dawkins vitnar í ljótu kafla biblíunnar, þá er punkturinn hans oftast sá að trúfólk byggi siðferði sitt ekki á biblíunni. Það sigtar út þá kafla biblíunnar sem því líkar við og lokar augunum fyrir hinum. Þegar maður veit það þá sér maður auðvitað að „Dawkins minnist ekki á góðu kaflana!” er ekkert svar, hann viðurkennir alveg að það eru góðir kaflar. Það vill svo heppilega til að einn þáttarstjórnandanna kom með nákvæmlega þennan punkt: „þið [guðfræðingar og prestar] tínið út þetta góða”.

Auk þess minnist Dawkins eitthvað á Gamla testamentið þegar hann ræðir um guðinn sem birtist okkur þar. Sá guð boðar þjóðernishreinsanir og setji grimmileg lög og þó svo að þú gætir fundið einhvern til að segja eitthvað fallegt um hann, þá mun það ekki breyta því að hann er illur. Það er því fullkomlega réttlætanlegt hjá Dawkins að benda á þessar ljótu hliðar guðs.

Barnalegir vísindamenn

Síðan kemur önnur rangfærsla ættuð frá McGrath. Davíð segir að Dawkins haldi því fram „að raunvísindarmenn sem séu trúaðir séu beinlínis að ljúga því, þeir séu meðvirkir, séu að spila rétt til að fá fólk ekki á móti sér”. Þetta er beinlínis rangt eins og við höfum þegar bent á, og Davíð hefði vitað það læsi hann Vantrú:

McGrath heldur líka því fram að Dawkins sé haldinn þeirri „[kreddukenndu einstefnu] að allir „alvöru” vísindamenn eigi að vera trúlausir” (bls 47) og að það sé „grundvallarregla” hans að „alvöru vísindamenn hljóti að vera trúlausir. Þeim getur einfaldlega ekki verið alvara ef þeir segjast vera trúaðir.” (bls 49). En Dawkins nefnir Faraday, Maxvell, Kelvin og fleiri sem merkilega kristna vísindamenn fortíðarinnar og segir að þeir séu ekki sérstaklega fágætir (bls 98-99).#

Þar næst endurtekur Davíð aðra afskræmingu frá McGrath, en hann segir að Dawkins segi að guðstrú sé álíka barnaleg og trú á tannálfinn og því ætti fólk að vaxa upp úr þessari trú. Hið rétta er að Dawkins líkir trú á guð vissulega við trú á tannálfinn, en þegar hann gerir það er punkturinn ekki sá að þetta sé barnalegt. Punkturinn hans er sá að við getum ekki afsannað tilvist tannálfsins og að það sama gildi um guð.

Að læra af mistökum

Það má segja að Davíð Þór hafi uppfyllt spádóm sem ég setti fram þegar bók McGraths kom út á íslensku:

Ég býst við því að fáir af þeim sem keyptu þessa skruddu og fóru á trúvarnarnámskeið hjá McGrath í Skálholti eigi eftir að lesa The God Delusion eftir Dawkins. Það er frekar sorglegt að þetta fólk muni fá þessa kolröngu mynd af málflutningi Dawkins, vegna þess að það á líklega eftir að endurtaka þessar vitleysur aftur og aftur. En þá verður örugglega auðvelt að svara þessu, sérstaklega ef bók Dawkins kæmi út á íslensku.

En nú er The God Delusion komin út á íslensku, og vonandi eiga prestarnir og guðfræðinemarnir sem lásu bók McGraths eftir að næla sér í Ranghugmyndina um guð og stökkva síðan í djúpu laugina til okkar hinna og fara að stunda almennilegar rökræður um trú sína. Davíð Þór sagði að bók Dawkins væri á leslistanum sínum og ég vona að hann eigi eftir að lesa hana og koma síðan með upplýsta gagnrýni á bókina.

Hjalti Rúnar Ómarsson 12.09.2010
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Óttar - 12/09/10 11:12 #

Magnað hjá Rás 2 að fá einhvern til að gagnrýna bók sem hann hefur ekki lesið. Er þetta normið í guðfræðinni. "Þið þurfið ekki að lesa bækur, það er nóg að hafa óljósa hugmynd um hana (sbr. t.d. Biblíuna)" Metnaðurinn hjá Davíð Þór er fyrir neðan allar hellur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/09/10 11:18 #

Þarna var Davíð mættur með sitt vikulega innlegg þar sem hann ræðir Eilífðarspurninguna (merkilega oft með kristnu ívafi). Ég geri ráð fyrir að það hafi verið tilviljun að Reynir Harðarson var næstur á undan í þættinum að ræða bókina. Svosem ekki óeðlilegt að spyrja Davíð út í þetta en í raun afskaplega kjánalegt að leyfa honum að blaðra áfram þegar í ljós var komið að hann hafði ekki lesið bókina. En samt dálítið dæmigert :-)


Ingó - 12/09/10 12:02 #

Ég reyndi að lesa bókina hans Dawkins og gafst ég reyndar upp á henn því mér fannst hann oft nota leiðinleg rökk gegn trúuðu fólki.

Ég er ekki að segja að allir eigi að vera sammála en mér finnst að fólk eigi að bera smá umbyrðarlyndi við öðrum skoðunum og passa sig að vera ekki dónalegur.

Ég er samt spenntur að ná mér í bókina á íslensku og lesa hana kanski fer hún öðruvísi í mig í þetta skiptið


Halldór Logi Sigurðarson - 12/09/10 12:15 #

Ef þetta er ekki mesta hroka hræsni sem að ég hef fyrirhitt í vikunni. Davíð ásakar Dawkins um að hafa bara blaðað létt í gegnum Biblíuna og ekki litið í sálmana þegar Davíð sjálfur las ekki einu sinni bókina sem hann átti að gagnrýna!


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/09/10 12:18 #

Það vill svo heppilega til að í bókinni svarar Dawkins allri þeirri gagnrýni sem Davíð Þór kemur með, enda einkar fyrirsjáanleg.


Bjarni - 12/09/10 13:45 #

Á síðustu árum hefur Davíð Þór farið sífellt meira í taugarnar á mér og sérstaklega í morgunútvarpi Rásar 2. Þvílíkur besserwisser og ótrúlega pirrandi hvað hann verður alltaf tilgerðarlegur þegar hann þykist vera gáfaðri en aðrir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/09/10 14:06 #

Er hann ekki bara að breytast hægt og rólega í ríkiskirkjuprest? Þetta er dálítið aðlögunarferli.


Rebekka - 12/09/10 14:15 #

Ég er frekar svekkt út í hann Davíð Þór, ég hélt í alvöru að hann væri betur gefinn en þetta. Ég hafði mjög gaman að Radíusbræðrasketsunum, er ánægð með talsetningavinnu hans í barnaþáttum + annað barnaefni sem hann hefur gefið út, finnst hann alveg ágætt skáld, og svo náði Bleikt og Blátt sínum hápunkti meðan hann var ritstjóri þess.

En svo fór hann í guðfræði...


Gunnar J Briem - 12/09/10 15:17 #

Hér má sjá Dawkins og McGrath ræða málin í rólegheitum.


Gunnar J Briem - 12/09/10 16:00 #

Ég held að þeir sem finna Dawkins allt til foráttu hefðu gott af því að sjá þetta 70 mínútna samtal við McGrath (sem hefur skrifað tvær bækur með "Dawkins" í bókartitlinum). Kannski er ég bara svona "star-struck", en ég sé enga froðu í munnvikunum á Dawkins. Ég kem honum engan veginn heim og saman við grýluna sem sumir hafa gert úr honum.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/09/10 16:19 #

Eins og Matti benti þegar á þá var hann ekki fenginn til að gagnrýna bókina, heldur var þetta bara óundirbúin spurning frá þáttarstjórnendunum.

Góður punktur Gunnar, ég held að málið sé bara það að Dawkins gagnrýnir trú og trúmenn skynja það eins og reiði og "öfga".

Rebekka, ég held að vel gefið fólk hafi oft blindan blett þegar kemur að trúmálum, að tilfinningar ráði leiðinni en ekki rök.


Tommi - 12/09/10 18:32 #

link á reynis viðtalið?


caramba - 12/09/10 18:38 #

Bókin er skemmtileg, stöku sinnum fyndin, en full af ranghugmyndum. Þeófóbía höfundar og hatur á þeim guði sem hann telur ekki vera til blinda honum sýn. Hann er líffræðingur en illa að sér í sögu og mannfræði. Hann heldur því t.d. fram að siðgæðishugmyndir hafi orðið til á undan trúarbrögðunum. Elstu mannvistarleifar sem hafa fundist benda allar til trúarathafna. Hvaðan hafa menn siðgæðishugmyndir? Dawkins segir þær uppsafnaðan árþúsundagamlan þekkingarforða úr samskiptum ættbálka og kynþátta sem styrktu þá þætti í menningu og hugmyndafræði sem gerðu mönnum kleift að yfirlifa, en eyddu neikvæðu öflunum í lífsbaráttunni.

Bíðum við .... æfaforn þekkingarforði... menning, hugmyndafræði....eeeh já! Er það ekki þetta sem menn kalla trúarbrögð?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/09/10 18:41 #

Það er rétt hjá tímanum undir f í "Sjónvarpsfréttir" hérna.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/09/10 19:02 #

Bíðum við .... æfaforn þekkingarforði... menning, hugmyndafræði....eeeh já! Er það ekki þetta sem menn kalla trúarbrögð?

Neibs, þó svo að eitthvað af þessu á við trúarbrögð, þá myndi ég segja að dýrkun á andaverum sé nauðsynlegur hluti þeirra.

Ef þú vilt segja frá því sem þér finnst athugavert við bók Dawkins, þá bendi ég þér á spjallið eða þá að skrifa einfaldlega bókadóm.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 12/09/10 19:05 #

@caramba

Hvaðan hafa menn siðgæðishugmyndir?

Hvað kallar þú siðgæðishugmyndir? Ekki drepa einstaklinga sömu tegundar, alla önn fyrir sjúkum, ganga munaðarleysingjum í foreldrisstað? Slík hegðun finnst hjá fjölmörgum dýrategundum - á hvaða gvuð(i) trúa þær?


Sigurður - 12/09/10 20:37 #

[Athugasemd sem tengdist ekki efni greinarinnar færð á spjallið]


Magnús - 13/09/10 11:21 #

Hvort kom á undan trúarbrögð eða siðgæði? Caramba, ég held að það sé enginn vafi að siðgæði var komið löngu á undan skipulögðum trúarbrögðum. Ég held raunar það sé kannski mikilvægara að spyrja; er síðgæði afurð þróunar rétt eins og flest önnur flókin fyrirbæri í eðli og líffræði mannskepnunnar eða þurfum við einhverjar aðrar og flóknari skýringar, jafnvel yfirnátturúlegar skýringar? Davíð Þór og margrir trúaðir einstaklingar segja einmitt - já siðgæðið er dæmi um e-ð sem getur ekki verið skapað gegnum þróunarfræðilegar skýringar.

Ég held að trúaðir einstaklingar ættu að hafa lært það gegnum tíðina að það er dálítið áhættusamt við trú þeirra að fara út í slag við skýringarmátt þróunarkenningarinnar, mörg trúarsannfæringin hefur farið illa út úr þeirri samkeppni.


Helgi Ingason - 14/09/10 08:24 #

Ég vil vekja athygli á því að Davíð Þór var ekki fenginn til að gagnrýna bókina heldur fékk hann að "commenta" á samtal Reynis og þáttastjórnenda. Hins vegar er ég hjartanlega ósammála Davíð Þór og augljóst að hann þekkir ekkert til Dawkins. Hann Ýjar meðal annars að því að Dawkins sé ekki virtur vísindamaður heldur einungis þekktur fyrir þessa bók sína.


Guðmundur I. Markússon - 16/09/10 21:40 #

Ég hef ekki lesið bók McGrath's, og fjögur ár síðan ég las God Delusion. Fljótt á litið finnst mér sumt af þessu ríma við mínar brigðulu minningar af lestrinum, en ég þyrfti að rifja upp til að vera viss.

Hvað um það - það sem mig langar að heyra er hvað er gangrýnivert í málflutningi Dawkins að mati Vantrúar. Eða er þetta bara allt frábært og fair? Eitthvað hlýtur að vera hægt að kroppa í hana, rétt eins og öll mannanna verk. En það sem væri áhugavert að heyra væri YKKAR krítik. Skora á ykkur hér með.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 16/09/10 22:02 #

Fljótt á litið finnst mér sumt af þessu ríma við mínar brigðulu minningar af lestrinum,...

Sumt af hverju?

Ég persónulega nenni ekki að gagnrýna The God Delusion.


Illuminati - 23/09/10 12:59 #

[ athugasemd færð á spjall ]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.