Þegar ég hugsa um ástæður þess að ég missti trúna leitar hugurinn til æskuáranna þegar trúin þótti sjálfsögð, a.m.k. í mínum hugar- og reynsluheimi. Sjálfsagðir hlutir eru sjaldnast umhugsunarefni og e.t.v. er ekki hægt að ætlast til þess að trúmál séu alvarlegt umhugsunarefni í huga almennings. En þó er líklega óhjákvæmilegt að spurningin um eilífðarmálin leiti einhvern tíma á flesta.
Ef börn alast ekki upp í einhvers konar kristni, venjist kvöldbænum eða öðru slíku (kannski prestaheimsóknum á leikskólum eða kirkjuferðum), sér skólakerfið til þess að hugmyndum hennar sé komið inn í koll barnanna strax frá fyrsta ári grunnskóla. Jólasveinarnir og Jesús eiga samleið í barnshuganum. Áður en börn öðlast of mikla þekkingu á umheiminum eða tileinka sér gagnrýna hugsun er svo komið að fermingunni. Eftir það er kristnin svo að segja úr sögunni, sjálfsögð en merkingarlaus.
Mig grunar að ofuráhersla kirkjunnar á að koma kristninni sem fyrst að í barnshuganum sé nokkuð tvíeggjað sverð. Biblíusögurnar verða fyrir vikið órjúfanlega tengdar barnæskunni, fá á sig sama stimpil og jólasveinarnir, föndur og litabækurnar, barnaskapur. Það verður þeim ekki til vegsauka eða framdráttar þegar eilífðarmálin skjóta upp kollinum síðar á lífsleiðinni.
Mín reynsla er að þegar þekkingu minni óx fiskur um hrygg varð sífellt minna pláss og hlutverk fyrir guð í heimsmyndinni. Með gagnrýninni hugsun tókst mér svo að ýta honum alfarið til hliðar sem tálmynd og óskhyggju. Þekkingu mína á umheiminum átti ég skólakerfinu fyrst og fremst að þakka en gagnrýna hugsun að viti lærði ég þó ekki fyrr en í háskóla. Þó má ekki gleyma að þegar ég var sjö ára kom sjónvarpið til sögunnar á mínum heimaslóðum og þar var alltaf eitthvað um vandaðar fræðslu- og heimildamyndir.
Hápunktur sjónvarpsmenningarinnar að mínu viti var þáttaröð Carls Sagans, Cosmos, enda var þjóðin límd við kassann þau kvöld sem þættirnir voru sýndir. Sem betur fer voru myndbandstæki þá líka að ryðja sér til rúms og þegar ég fór síðar að kenna unglingum eðlisfræði, efnafræði og líffræði var hluti kennsluefnisins valdir þættir af Cosmos.
Strax í fyrsta þætti raðarinnar greindi Sagan frá því að sá staður sem hann vildi helst geta sótt heim væri bókasafnið í Alexandríu. Auðvitað voru engar bækur í þessu „bókasafni“ heldur pappírusrúllur, handskrifaðar. Það var ekki fyrr en á fimmtándu öld sem prentun hófst á Vesturlöndum. Merkilegt að menn tengja þá uppfinningu iðulega við endurreisnina og upphaf vísindabyltingarinnar, þegar völd kirkjunnar tóku að dvína og skynsemi og þekking (heimspeki og vísindi) gat loksins náð andanum eftir langt hlé.
Handrit – bækur – sjónvörp – myndbönd - diskar. Allt hefur þetta stuðlað að útbreiðslu þekkingar í heiminum. Ég held þó að enginn þessara miðla komist í hálfkvisti við tölvuna og netið. Nú þurfum við ekki lengur að láta mata okkur eða búa við takmarkaðan kost næsta bókasafns þegar við viljum leita okkur þekkingar. Það má segja að bókasafnið í Alexandríu sé nú svo að segja á öðru hverju heimili í þróuðum löndum. Áhrif þessa eiga eftir að verða margfalt meiri en áhrif prentunar bóka. Hugsið ykkur.
Með aukinni þekkingu eykst frjálslyndi og víðsýni. Við erum að sjá endurreisn, vísindabyltingu og upplýsingu í margföldu veldi, beint fyrir framan nefið á okkur. Fórnarlömbin eru fáfræði, kreddur og þröngsýni, hornsteinar gyðingdóms, kristni og íslam. Þótt ég geri ekki ráð fyrir að þessi trúarbrögð verði að engu í bráð tel ég deginum ljósara að veldi þeirra er á enda, góðu heilli. Fyrr en síðar fara Jehóva, Jesús og Múhammeð sömu leið og Osiris, Seifur og Þór og skaðinn af fráfalli þeirra fyrrtöldu verður metinn nokkurn veginn sá sami og skaðinn af fráfalli þeirra síðartöldu.
Þættir Attenboroughs eru gulls ígildi, um það er engum blöðum, stöðvum og síðum að fletta. :)
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Valtýr Kári Finnsson - 03/05/10 22:19 #
Þó að Carl Sagan hafi verið merkis maður þá kemst hann í mínum huga ekki með tærnar þar sem Sir David Attenborough er með hælana.
Ég held að hann hafi kennt mér meira um hvernig heimurinn er, og af hverju, heldur enn flestir kennarar sem ég hef haft um ævina. Ég horfði alltaf á þættina hans þegar þeir eru sýndir (og endursýndir) í sjónvarpinu og er akkúrat núna að horfa á "Life of Mammals" á DVD eftir að ég keypti allt "Life" safnið á tilboði. Hreint frábærir þættir.
P.S. Svo verður maður að fá skemmtun í bland við fróðleik, ég mæli með að þú lesandi góður farir í bíó og horfir á kvikmyndina "KICK-ASS"!