Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

„Við erum kristin og lesum Nýja testamentið“

Kynningarfundur Vantrúar

Þann 22. febrúar síðastliðinn mætti ég á kynningarfund Vantrúar í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Að kynningu lokinni var opnað fyrir spurningar úr sal. Kona nokkur tók þar til máls, og sagði meðal annars eitthvað á þessa leið: „Við erum kristin og lesum aðallega Nýja testamentið.“ Mér fannst eins og hún væri að vísa til þess að málflutningur Vantrúar gegn sannleiksgildi kristninnar byggðist aðallega á vísunum í „ljót“ vers úr Gamla testamentinu, og að hún vildi benda Vantrúarmönnum á, að hinir kristnu byggðu aðallega á hinu fallega og góða Nýja testamenti.

Mín skoðun er hinsvegar sú, að Gamla testamentið sé víða fallegra en það Nýja. Á þeim stöðum sem Gamla testamentið verður ljótt, kemst það ekki með tærnar þar sem Nýja testamentið hefur hælana á því sviði. Það er einungis í Nýja testamentinu sem menn finna ritningar um að fólki skuli fleygt í eldsdíki eftir dauðann (Op. 20:15). Það er í Nýja testamentinu sem við lesum um Jesú sem mun koma í logandi eldi með refsingu þeim til handa sem þekkja ekki Guð og hlýða ekki fagnaðarerindinu (2. Þess 1:8). Margir kristnir menn skilja vers Nýja testamentisisn þannig að þeim vantrúuðu verði refsað fyrir skoðanir sínar fram yfir gröf og dauða. Mönnum verður varpað í óslökkvandi eld, þar sem ormarnir deyja ekki, og eldurinn slokknar ekki (Mark 9:43-44). Nú kann einhver að segja að ég eigi ekki að skilja þessi vers bókstaflega. Versin eru engu að síður ljót í öllum þeim mögulegu óeiginlegu merkingum sem ég get hugsað mér. Sú var tíðin að ég reyndi eftir fremsta megni að skilja þessi vers ávallt í óeiginlegri merkingu. Það er hinsvegar eiginlega engin leið að túlka Gamla testamentið þannig að mönnum verði refsað eftir dauðann, ólíkt því sem á við um hið Nýja. Fólk sem lést fór hvorki til himna, né í óslökkvandi eld. Það dó bara (sjá t.d. 1. Mós 3:19, Job 34:14-15, Jer 51:57). Mark Twain sagði að Jesús hefði fundið upp helvíti. Prédikarinn, sem er eitt besta rit Gamla testamentisins, segir í 9:5: Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar. Prédikarinn hefur svo sannarlega rétt fyrir sér í þessu.

En konunni sem vildi benda okkur á að hún læsi aðallega Nýja testamentið, frekar en það Gamla, vil ég benda á, að höfundar Nýja testamentisins litu á Gamla testamentið sem heilagt myndugt orð Guðs. Þeir tóku það mjög alvarlega og höfðu það í miklum hávegum. Margir þekkja versin þar sem Jesús segist ekki vera kominn til að afnema lögmálið, og að þeir sem haldi lögmálið muni (í framtíð) verða fremstir í himnaríki (Matt 5:17-19). Í Matteusi 23:2-3 segir Jesús við fólk að það eigi að gera allt sem farísearnir og fræðimennirnir, sem sitji á stóli Móse, segi þeim að gera. Í Jóhannes 10:35 segir Jesús að ritnignin (Gamla testamentið) verði ekki felld úr gildi. Í 2. Tím 3:14-17 segir að Tímóteus hafi frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar innblásnar af Guði. Þegar þessi Tímóteus var barn, var Nýja testamentið ekki til, og því er ljóst að þessar heilögu ritningar eru rit Gamla testamentisins. Jesús hóf feril sinn, predikandi fátækum góðar fréttir, lesandi úr Gamla testamentis ritinu Jesaja spámanni (Lúkas 4:16-19). Bæði Filipus (Post 8:28-35) og Apollos (Post 18:24-28) notuðu Gamla testamentið til að leiða fólk til trúar á Jesú. Postularnir predikuðu Gamla testamentið. Höfundar Nýja testamentisins vísa sirka 1600 sinnum í Gamla testamentið. Þeir gefa sér að orð þess séu innblásin, og nota þau m.a. til að styðja mál sitt í guðfræðilegum rökræðum og deilum. Gamla testamentið hafði í þeirra augum óumdeilanlegt kennivald. Ef þú trúir ekki orðum Móse, getur þú ekki heldur trúað Jesú. Það sagði Jesús a.m.k. sjálfur ef marka má höfund Jóhannesarguðspjalls (Jóh 5:45-47).

Gamla testamentið er grundvöllur Nýja testamentisins. Ef Gamla testamentið er ekki nógu gott, er Nýja testamentið það ekki heldur.

Sindri G. 05.03.2010
Flokkað undir: ( Biblían )

Viðbrögð


ArnarÞ - 05/03/10 10:48 #

Góð grein. biblíugríni er alltaf ágætlega skemmtileg.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 05/03/10 13:36 #

Takk fyrir góða grein. Fínt að hafa svona anti-grænsápu grein til að grípa í þegar hvítþvotturinn byrjar:)


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 05/03/10 22:53 #

Virkilega góð grein og ég er sammála Sindra að ekki er hægt skilja hið nýja frá því gamla í Biblíunni. Það er mjög auðvelt að skilja hvers vegna kristnir brenndu fólk í tugþúsundatali í allri Evrópu fyrir tíma lýðræðis og mannréttinda. Svarið er: Lesið Nýja testamenntið.


Bárður - 06/03/10 12:58 #

Góð grein, takk.


gimbi - 07/03/10 02:04 #

[ athugasemd flutt á spjall ]


Sindri G - 07/03/10 10:54 #

Tilgangurinn með greininni var tvíþættur.

Í fyrsta lagi að rekja í örstuttu máli eina eða tvær af mörgum ástæðum fyrir því að mér finnst N.T. verra en G.T.: í G.T. virðist sú hugmynd að refsa eigi mönnum eða umbuna eftir dauðann yfirleitt ekki til staðar. Það er fyrst og fremst úr N.T. sem menn fá hugmyndir um eldsloga helvíti, o.s.frv. Það er líka bara í N.T. sem Jesús ætlar að koma að refsa mönnum fyrir þann ómerkilega glæp að „þekkja ekki Guð.“ (Í G.T. þurftu menn alla veganna yfirleitt að gera eitthvað sérstakt af sér til að hljóta refsingu Guðs.)

Í öðru lagi var ég að benda á að kristnir geta ekkert fríað sig af G.T. (sbr síðari hluta greinarinnar þar sem ég bendi á hversu oft N.T. vitnar í G.T., og byggir á því). Þegar maður bendir á vers í G.T. eins og t.d. að grýta ætti konur sem ekki væru hreinar meyjar á brúkaupsdegi sínum í dyragætt föður þeirra, eða vers þar sem Guð fyrirskipar þjóðaramorð, o.fl. í þeim dúr, þá segja kristnir oft „en þetta er bara G.T.“ Höfundur N.T. byggja hins vegar á G.T., og N.T. gerir ráð fyrir því að G.T. sé orð Guðs. Ein mikilvægasta undirstaða N.T. er G.T. Ef maður gagnrýnir G.T., þá er það valid gagnrýni gegn kristni.


Veneflu - 02/01/12 08:57 #

Ágætis lesning en ég vill benda á að til að ná góðum skilningi á gamla testamentinu þarf að lesa bækurnar sem Enok skrifaði(þar er talað eitthvað um lífið eftir dauðann), Maccabees, bækurnar um Adam og Evu og margar fleir bækur. þessi rit voru ekki sett í biblíuna þegar hún var tekin saman en það hefur engin áhrif á mikilvægi þeirra. það er ekki hægt að lesa bók, sleppa fullt af köflum og ættlast til að skilja það sem er verið að tala um.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.