Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Biblían: Vindhani kristninnar

Nýverið tók ég þátt í spjalli á bloggi um hvort biblían sé orð guðs. Sjálfum þykir mér ljóst að guð er ekki til og því geta engin orð verið orð guðs. En umræðan snérist augljóslega ekki um þær vangaveltur, því þá hefði verið nær að spyrja einfaldlega hvort guð sé til. Fáeinir trúmenn mættu til leiks og fullyrtu að biblían væri orð guðs, eða öllu heldur Orð Guðs með stórum upphafsstöfum. Þóttust þeir síðan hver öðrum duglegri að taka biblíuna hátíðlega.

Biblían er þó augljóslega ekki orð guðs, og ekki aðeins af því að guð er ekki til, heldur af því að það er ekki hægt að lesa biblíuna án þess að túlka merkingu hennar eftir eigin skilningi á hlutunum og þá eru orðin mikið til orðin orð lesandans, en ekki orð guðs. Því það eru ekki orðin sem skipta máli, það er merking þeirra sem skiptir máli og biblían er viðlíka spennandi og símaskráin ef hún er ekki lesin og ekki er reynt að skilja hvað hún á að merkja.

Merking orða

Þetta á auðvitað við um allt ritmál í einhverjum skilningi og reyndar líka talmál, en hefur mjög sérstakt mikilvægi í þessu tilfelli, þar sem biblían er ekki aðeins einhver saga fyrir trúuðum, heldur eins og áður segir hreinlega orð guðs. Orðin eiga að innihalda einhvern ódauðlegan sannleik, reglur um hvernig lifa skuli lífinu og hvernig maður fari að því að öðlast eilíft líf. Það má því heldur betur skipta máli hvernig lesið er úr þessum orðum og þar af leiðandi eru hagsmunir fólks mun líklegri til að lita skilninginn en ef verið væri að lesa eitthvað allt annað.

Það á m.ö.o. við um biblíuna rétt eins og lagabókstafinn að menn túlka hana eftir eigin þörfum, og þar á lagabókstafurinn þó vinninginn í að halda ákveðinni merkingu, því hann er mun skýrari og betur undir það búinn að lenda í túlkun lesandans. Biblían hins vegar er mótsagnarkennt kraðak af dæmisögum, beinum ræðum og óbeinum, sem leikur einn er að túlka á nánast hvern þann hátt sem henta þykir.

Eða eins og George Bernard Shaw orðaði það:

Enginn maður trúir því sem í Biblíunni stendur: Hann er alltaf sannfærður um að í henni standi það sem hann trúir.

Sem dæmi eru kaþólska kirkjan, lútherska kirkjan, hvítasunnukirkjan og fleiri kirkjur ósammála um merkingu margs í biblíunni, allt frá því hvaða dag skuli halda hvíldardag, til þess hvort konur megi vera prestar og til þess hvort samkynhneigðir megi syngja í kirkju. Það er fjasað um hvernig helvíti er, hvort það er til yfir höfuð. Hvert óskírð börn fari, hvernig messa fari fram, hvort menn geti verið dýrlingar, hvort borða megi svona og hinsegin fæðutegundir og hvort seinni tíma ofsatrúarfólk eins og Ellen White, spámaður sjöunda dags aðventistanna, sé nýr spámaður eða bara rugludallur. Allir lesa þessir trúarhópar sína sannfæringu út úr biblíunni og furða sig á því að hinir sjái ekki það sama.

Missannfæringakraftur

Það þarf þó ekki að leita til trúarfylkinga til að finna ósamrýmanlegar túlkanir á biblíunni, nóg er að spyrja fólk úti á götu hvað orð guðs eigi að fyrirstilla. Þá kemur í ljós að fólk hefur eins margar ólíkar skoðanir á því eins og það er margt. Guð er orka, guð er ljós, guð er kærleikurinn, guð er ekki að finna í biblíunni, guð er að finna í biblíunni og svo framvegis.

Auðvitað má þrátt fyrir allt þetta kalla orðin orð guðs, gefi menn sér að biblían sé skrifuð undir handleiðslu guðs, sem kristnir menn gera. En hvort er merking þeirra rétt skilin hjá hvítasunnufólki eða kaþólikkum? Jóni eða Páli? Siggu eða Gunnu? Hvort er merking þeirra rétt hjá íhaldssömu og hómófóbísku repúblikönunum í Bandaríkjunum eða hjá Íslensku Fríkirkjunni, þar sem hommar og lessur fá að giftast mökum sínum eins og ekkert sé sjálfsagðara?

Bókstafstrúarfólk heldur því gjarnan fram að það sé sanntrúaðra en annað trúfólk; það sé að lesa rétt í orð guðs, því það gefi sér ekki valdið til að velja og hafna úr boðskap biblíunnar, heldur taki pakkann óskiptan til greina. Valdið til að túlka texta er þó ekki eins frábrugðið valdinu til að velja og hafna og bókstafstrúaðir vilja vera láta. Túlki maður eitt í biblíunni sem boð guðs, en annað sem saklausa dæmisögu eða einfaldlega sagnfræðilegan bakgrunn, er það ekki svo frábrugðið því að kjósa að líta á annað sem boð guðs og hitt sem t.d. túlkunarmistök eða óþarfa. Í báðum tilfellum er verið að ákvarða merkingu og mikilvægi orðanna eftir eigin skilningi, þörfum eða vilja.

Þær þarfir og vilji flestra eru á þá leið að biblían endurspegli orð og verk guðs sem er góður. Því langflestir aðhyllast hugmynd um guð sem er algóður og elskar okkur. Allt sem guð gerir þarf því að vera til góðs og til þess að svo megi verða, túlkar lesandinn biblíuna með það að leiðarljósi að þetta sé góður guð, en þó hugsanlega með einhverjar kenjar sem falla að eigin skoðunum þess sem les. Bókstafstrúarmenn og hóflega trúaðir eru því í raun að leika nákvæmlega sama leikinn. Biblían er einfaldlega með mismunandi aðferðum látin segja það sem geð þeirra vill að hún segi og látin lýsa þeim guði sem þeir þurfa á að halda, eða vilja trúa á.

Hið póstmóderníska orð guðs

Leiðin sem er farin til að velja á guð þá eiginleika sem falla að smekk lesandans er lúmsk og jafnvel ómeðvitað notuð. Hún felst í að eigna alltaf guði það sem gott þykir, en skrifa allt annað á frjálsan vilja mannsins. Þannig má alltaf færa ábyrgðina til og frá, eins og perlur á reiknitöflu, þangað til allar heppilegu perlurnar eru öðru megin, en þær óheppilegu hinum megin.

Víkur nú sögunni að nútímakristni hér á landi. Vitnum aðeins í Trú.is:

Að elskan til Guðs er undanfari, forsenda, elskunnar til náungans er hins vegar ljóst af bæði textanum úr 5. Mósebók og guðspjallinu, Mk 10.17-27. Við þekkjum öll tvöfalda kærleiksboðorðið, sem einmitt er byggt upp á þennan hátt. Jesús var reyndar ekki upphafsmaður þessarar hugsunar. Báðir liðir kærleiksboðorðsins eru sóttir til Gamla testamentisins (sjá 5M 6.5 og 3M 19.1), en Jesús leggur þetta svona upp fyrir okkur samkvæmt þeirri hefð sem ríkti á hans tíma. Málið er ekki “bara” að elska Guð eða “bara” náungann, heldur er hvort um sig háð hinu. Án elskunnar til Guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika. Og ef við elskum ekki mennina er ástinni til Guðs augljóslega ábótavant. #

-Sr. María Ágústsdóttir

Íslenskum prestum er einmitt mikið í mun að guð sé góður, og hamra stöðugt á því atriði. Þeim er þannig tíðrætt um elskuna og kærleikinn, og kristnina sem forsendu þessara tilfinninga. Því eins og á við hjá flestu eðlilegu fólki eru það slíkar hugmyndir og hvatir sem þeim finnast huggulegastar að hefja upp til skýjanna og af þeim sökum er það sá boðskapur sem þeir vilja og telja að boðaður sé í biblíunni.

Kristni er ekki forsenda góðs, heldur er góðmennska forsenda þess að kristni verði ekki til ills.

En hvað með fólk sem af einhverjum ástæðum hefur aðrar hugmyndir um hvað kalla megi elsku og kærleik, eða hefur jafnvel engan áhuga á þeim hugtökum? Jú, það fólk les bara biblíuna með það ómeðvitaða markmið að láta hana staðfesta aðrar hvatir en elsku. T.d. reiði, andúð eða kvalarlosta. Það má nefnilega sem dæmi hæglega lesa það út úr biblíunni að samkynhneigðum eigi að mismuna með fremur ísmeygilegum hætti: setja þeim sem víðast stólinn fyrir dyrnar og segjast vera að gera þeim ljóst að þeir verð að láta af syndugri hegðun sinni, því guð elski þá, en hati syndina.

Kristni og fordómarnir

Að sama skapi geta menn fundið leiðir til að réttlæta með biblíunni þjóðernisrembing, kvenfyrirlitningu, kynþáttahatur og fleira í þeim dúr. Biblían segir sem sagt það sem menn vilja að hún segi, því það túlka hana jú allir og það sem mótar skilning okkar á henni eru hvatir okkar, langanir og meintur skilningur. Það er þó ekki þar með sagt að biblían geti ekki vakið menn til umhugsunar um gildi sín og jafnvel þokað mönnum til og frá í eigin þankagangi, en sagan sýnir að allt sem nöfnum tjáir að nefna hefur og getur verið réttlætt með biblíunni og kristnum gildum.

Til þess að biblían verði skilinn þannig að um leiðarvísi að manngæsku, kærleik, umburðarlyndi sé að ræða, þurfa menn sem sagt að hafa slíkar hugmyndir í hausnum fyrir og vilja fá þær staðfestar í biblíunni. Þá blasir vitaskuld við að biblían er ekki forsenda kærleiksins, heldur er sæmilega falleg biblíutúlkun háð því að lesandinn sé þannig þenkjandi. Góð og falleg kristni er háð því að kærleikurinn og manngæskan sé fyrir hendi áður en ráðist er í að lesa biblíuna, túlka hana.

Merking biblíunnar verður aldrei betri en manneskjan sem les hana.

Nú kann einhver að benda á að ég sé ekki búinn að skilgreina hugtakið góður, að vera til góðs. Það er vitanlega klassísk heimspekileg spurning: er gott til í sjálfu sér, eða er það sem guð gerir alltaf gott?

Að gera gott

Þótt spurningin sé góð og allrar athygli verð sem heimspekileg vangavelta, þar sem tilvist guðs er gefin, þá hefur hún ekki mikil áhrif á það sem ég er að segja hér að ofan. Það kemur til af því að guð hefur lítinn vilja, annan en þann sem lesandinn felur honum. Því það er lesandans að skilja hvað guð vill og hvað guð gerir, og þar sem lesandinn er óhjákvæmilega að túlka biblíuna um leið og hann les, svo hún falli að þörfum hans og væntingum, verður vilji lesandans að vilja guðs. Þess vegna verður það eftir sem áður forsenda þess að boðskapurinn sé góður og kærleiksríkur, að lesandinn sé þannig þenkjandi - og þá vitaskuld að mati hans sjálfs.

Það er mér því ráðgáta að nokkur skuli tala um biblíuna og kristnina sem forsendu góðrar hegðunar, kærleiks og elsku, þegar það blasir við að þessu er öfugt farið. Kristnin á allt sitt undir því að gott fólk túlki biblíuna á sem bestan hátt, svo merking hennar og meintur vilji guðs, verði ekki hver sá sori sem flýtur efst á mannhafinu hverju sinni.

Kristinn Theódórsson 01.03.2010
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 01/03/10 12:07 #

Biblían er handónýtur leiðarvísir. Við vitum í hvers konar ógöngur hann hefur leitt menn og heilu þjóðfélögin, jafnvel álfur, og gerir enn. Þetta ætti hverjum hugsandi manni að vera ljóst.

Í hugum flestra eru boðorðin hafin yfir allan vafa og túlkun, þykja jafnvel eitthvað ógurlega merkileg og falleg. En þar segir skýrum stöfum:

Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni.

Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata...

Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.

Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.

Þú skalt gjöra mér altari af torfi, og á því skalt þú fórna brennifórnum þínum og þakkarfórnum, sauðum þínum og nautum. Alls staðar þar sem ég læt minnast nafns míns, mun ég koma til þín og blessa þig.

En gjörir þú mér altari af steinum, þá mátt þú ekki hlaða það af höggnu grjóti, því að berir þú meitil á það, þá vanhelgar þú það.

Og eigi mátt þú þrep upp ganga að altari mínu, svo að blygðun þín opinberist þar ekki.

Ef þetta er það mikilvægasta sem guðinn hefur fram að færa fellur glansinn af fyrirbærinu. Hvort guð er algóður eða refsiglaður og hégómagjarn fer alfarið eftir túlkun. Eitt sinn taldist það dyggð að vera guðhræddur. Hræddur við algóðan guð?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 01/03/10 12:23 #

Svolítið skondið að rifja upp í þessu samhengi samtal við trúaðan félaga minn sem stóð á því fastar en fótunum að boðorðin væru grundvöllur löggjafar og siðferðis.

"Ef þú sleppir þremur boðorðum þá er þetta grundvöllur að ..."

"Bíddu, bíddu, má ég sleppa þremur? Þau eru meitluð í stein og beint frá guði. Og ég má sleppa þremur af tíu? Má ég velja hverjum ég sleppi?"

Þurfti ekki að benda á að sambærilegur grunnur að siðferði er í flestum ef ekki öllum samfélögum hvort sem þau hafa séð biblíuna eða ekki.


Aðalsteinn Þ - 01/03/10 23:26 #

Sæll Kristinn. Þakka þér fyrir áhugaverðan pistil. Það er allrar athygli vert að lesa þessar rökfærslur þínar fyrir þeirri sýn sem þú hefur á það safn rita sem að öllu jöfnu nefnast einu nafni biblían. Sjálfur lít ég á biblíuna sem guðs orð en hef ekki áhuga á að rökræða við þig eða aðra hér um þá skoðun mína. Mig langar aðeins bara að benda á eitt sem vakti alveg sérstaka athygli mína undir lok pistilsins. Þú bendir þar réttilega á að biblían er ekki forsenda kærleika. Í samhengi við það bendirðu á að kærleikur og manngæska þurfi að vera fyrir hendi hjá einstakling svo viðkomandi túlki biblíuna þannig að úr verði falleg og góð kristni. Nú er ljóst að hjá nokkrum fjölda fólks skortir verulega á kærleika og manngæsku og eins er það að fjöldi fólks les biblíuna en túlkar hana alls ekki þannig að þeir fái út úr því góða og fallega kristni. Ég veit ekki hvort það má sjá á skrifum mínum að ég fæ ekki alveg botn í þetta hjá þér og því langar mig að fá að leggja fyrir þig nokkrar spurningar sem mér þætti forvitnilegt að lesa svör þín við.

  1. Ef einstaklingur á fyrir kærleika og manngæsku áður en hann byrjar að lesa í biblíunni hvaðan koma hann þá og ef hann með það veganesti gerði biblíuna að "Orði Guðs" fyrir sér og varð góður og fallegur kristmaður hvers vegna verða þá ekki allir það sem lesa biblíuna?

  2. (að hluta til það sama og niðurlag 1. spurn.) Þar sem ég geri ekki ráð fyrir að þig (þó ég þekki þig ekkert persónulega) skorti kærleika og manngæsku umfram annað fólk í okkar samfélagi hví túlkar þú þá ekki biblíuna þannig að það fallega og góða sem þar stendur séu orð til að fara eftir og gerist fallegur og góður kristin?

  3. (kannski hefði verið eðlilegt að byrja á þessari spurningu) Telur þú þá að til sé falleg og góð kristni?

Þú segir að menn þurfi að hafa þær hugmyndir í hausnum að biblían sé leiðarvísir að manngæsku, kærleik og umburðarlyndi og vilja til þess að fá það staðfest í biblíunni til þess geta skilið hana þannig. Fyrir utan það að ég tel orðið leiðarvísir ekki gefa rétta mynd og ekki heldur að menn lesi biblíuna til að fá eitthvað staðfest þá gefur þessi fullyrðing þín nokkra innsýn inn í málið. Umorðað hljómar þetta að vísu nokkuð klisjukennt: - Til þess að menn sjái að biblían er orð guðs verða þeir að hafa þá hugmynd í hausnum fyrir og vilja til að fá það staðfest.


Árni Árnason - 02/03/10 00:32 #

Er þetta ekki kjarni málsins???? Segir tilvitnaða setningin hér að neðan ekki allt sem segja þarf?

"Til þess að menn sjái að biblían er orð guðs verða þeir að hafa þá hugmynd í hausnum fyrir og vilja til að fá það staðfest."

Fyrirfram gefnar hugmyndir = fordómar Vilji til að fá það staðfest = heilaþveginn

Ef þú ert nógu fordómafullur til að gefa þér fyrirfram að biblían sé orð guðs og nógu heilaþveginn til að ekkert annað komi til greina þá biblían orð guðs. Verði mönnum að góðu.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 02/03/10 09:45 #

Sæll Aðalsteinn Þ, takk fyrir athugasemd þína.

Ef einstaklingur á fyrir kærleika og manngæsku áður en hann byrjar að lesa í biblíunni hvaðan koma hann þá og ef hann með það veganesti gerði biblíuna að "Orði Guðs" fyrir sér og varð góður og fallegur kristmaður hvers vegna verða þá ekki allir það sem lesa biblíuna?

Hvaðan kom kærleikurinn og manngæskan? Ég vil meina að blóði borin samkennd og sæmilega gott og uppbyggilegt lífshlaup (uppeldi og fl.) séu lykillinn að því að fólk sé kærleiksríkt og finni til manngæsku - með eða án trúarbragða.

Hvers vegna verða það ekki allir, spyrð þú. Vegna þess, eins og þú segir, að fólk þarf líka að hafa löngun eða tilhneigingu til að gefa biblíunni mikið vægi. Ef maður er sæmilega fallega þenkjandi og alveg laus við að telja sig verða að sjá biblíuna á einn ákveðinn veg, þá vil ég meina að menn sjái í henni mjög gallað hipsumhaps regluverk sem ekki stendur undir nafni.

(að hluta til það sama og niðurlag 1. spurn.) Þar sem ég geri ekki ráð fyrir að þig (þó ég þekki þig ekkert persónulega) skorti kærleika og manngæsku umfram annað fólk í okkar samfélagi hví túlkar þú þá ekki biblíuna þannig að það fallega og góða sem þar stendur séu orð til að fara eftir og gerist fallegur og góður kristin?

Nú skulum við bara gefa okkur til gamans að ég sé fallegur og góður trúleysingi. Eina ástæðan fyrir því að ég les ekki slíka hegðun úr biblíunni er að ég sé hana fyrir það sem hún er (að mínu hógværa mati), þar sem það er enginn innri eða ytri þrýstingur á mér til að finnnast hún falleg og góð - né heldur í hina áttina. Mér finnt margt í henni einfgaldlega of ljótt til að sætta mig við það sem guðs orð - væri guð til.

Telur þú þá að til sé falleg og góð kristni?

Já, ég tel allavega, og veit, að það er til fallega þenkjandi og gott kristið fólk sem telur trú sína veita sér innblástur og vera sér bakland að þeirri hegðun. Mín kenning er sú að það fólk sé einfaldlega þannig gert og gæti grundvallað þá lífsskoðun og hegðun í nánast hverju sem er öðru líka.

Umorðað hljómar þetta að vísu nokkuð klisjukennt: - Til þess að menn sjái að biblían er orð guðs verða þeir að hafa þá hugmynd í hausnum fyrir og vilja til að fá það staðfest.

Eins illa og það hljómar, þá held ég einmitt að þetta sé málið, en þó ekki í 100% tilfella. Auðvitað hrífast margir með vegna þess hvað biblían er stórbrotin og mögnuð sem heimild um liðna tíma og ýmist skálduð eða að parti til sönn ævintýri manna.

En í flestum tilfellum tel ég að það megi rekja þá hugmynd fólks að biblían sé orð guðs til þess að það er trúað fyrir og vill trúa því, og/eða það hefst fyrir í umhverfi þar sem það er ætlast til þess að það taki undir þá hugmynd og þá er auðveldara að leyfa huganum að reika í þá áttina en að fylgja eigin sannfæringu.

En þyki þér þetta síðasta vera fordómafullt og skemma fyrir innihaldi pistilsins, þá held ég að þú sért að misskilja mig aðeins. Svo endilega spurðu mig út í þetta frekar ef svo er, því það vil ég gjarnan útskýra það nánar.

mbk,


Aðalsteinn Þ - 02/03/10 12:17 #

Sæll Kristinn. Þakka þér fyrir að gefa þér tíma til þess að fara yfir spurningar mínar og svara þeim. Svör þín hafa hjálpað mér við að átta mig frekar á því hvað þú telur og hver skilningur þinn er á því hvað liggi að baki fullyrðingum kristinna manna um að biblían sé guðs orð.

Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að sá einstaklingur sem komist hefur að þeirri niðurstöðu að guð sé ekki til átti sig á því samspili guðs og manns sem átti sér stað við skrif þeirra rita sem í biblíunni eru eða því samspili sem á sér stað milli guðs og manns við lestur minn eða annarra guðhræddra manna á biblíunni. Fullljóst finnst mér hins vegar að þú gerir þér ekki vel grein fyrir þessu heldur afskrifar málið. Ég tel það vera ákveðin mistök þín að halda að einfalt svar finnist við svo flókinni spurningu og að þekking þín sé nægileg til þess að geta afgreitt málið með jafn uppblásnum hætti og raun er - að kalla biblíuna vindhana kristninnar.

Vel má vera að þú sért víðlesin í biblíunni og teljir þig þekkja nokkuð vel til þess innihalds sem hún hefur að geyma enda má svo skilja að þú hafir sjálfur komist að þeirri niðurstöðu að hún sé "hipsumhaps regluverk sem ekki stendur undir nafni" eftir að hafa kynnt þér innihaldið. Ljóst er að vandi þinn stafar m.a. af þeirri mynd sem þú hefur gert þér af guði. Það passar augljóslega ekki saman við þína guðsmynd að það séu ljótir hlutir í biblíunni.

Sá guð sem þú heldur að væri til ef að guð væri til myndi aldrei leyfa ljótleika, þjáningar, hatur ... Þetta er ekki óalgengt vandamál og í raun ein af stærstu glímum mannkyns um langt skeið að skilja þjáninguna. Þú ert ekki sá fyrsti og ábyggilega ekki sá síðasti sem kemst að þeirri niðurstöðu að einfaldast sé að skilja þennan vanda með því að afskrifa guð en reyna sjálfur að takast á við það óréttlæti og þær þjáningar sem mæta þér á lífsleiðinni. Ég efa ekki að þú munt leitast við að lifa réttlátu og góðu lífi og leggja þitt að mörkum til þess að gera þennan heim betri, berjast gegn óréttlæti, þjáningu, kúgun ...

Sé svo raunin þá erum við í sama liðinu því þá ert þú að hluta til í raun að vinna það verk sem þú varst skapaður til. Ég er sannfærður um að það truflar guð ekki neitt þó svo að þú haldir að hann sé ekki til og eigir í erfiðleikum með að draga lærdóm af því sem stendur í biblíunni. Ljóst er mér hins vegar að það truflar þig.

Ekkert í málflutningi þínum og röksemdarfærslum hreyfir þó við mér og mun ég áfram nota biblíuna trú minni og eftirbreytni til innblásturs. Ekki ætla mér að halda því fram að ég sé þ.a.l. eða telji mig betri og fallegri manneskju en þig [þó svo að þú standir reyndar ekki undir nafni ;)]. Hitt vil ég þó leyfa mér að fullyrða að ég er miklu betur settur. Það hvarflar ekki að mér að skipta biblíunni út - ekki einu sinni fyrir símaskránna ;)

mbk


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 02/03/10 13:23 #

Aðalsteinn Þ,

Þú hefur ýmislegt við þetta að athuga. Það er gott, annars fengi ég lítið tækifæri til að endurskoða hugmyndir mínar.

Þú segir:

Fullljóst finnst mér hins vegar að þú gerir þér ekki vel grein fyrir þessu heldur afskrifar málið. Ég tel það vera ákveðin mistök þín að halda að einfalt svar finnist við svo flókinni spurningu og að þekking þín sé nægileg til þess að geta afgreitt málið með jafn uppblásnum hætti og raun er - að kalla biblíuna vindhana kristninnar.

Þú hleypur nú dálítið á þig, þykir mér, þegar þú segir að þér sé fulljóst hver þekking mín og skilningur á þessum efnum er. Titillinn er til þess valinn að vekja athygli, en að sama skapi endurspegla vissan sannleik, sem mér þykir vera fyrir hendi og þú vera að dansa dálítið í kringum, viljandi eða óviljandi.

Málið er ekki það að biblían geti ekki verið orð guðs, heldur það að sagan hefur sýnt svo ekki verði um villst að trú á biblíuna sem orð guðs, óháð því hversu bókstafleg sú trú er, hefur aldrei tryggt fallega og góða hegðun. Þess vegna m.a. þykir mér rétt að kalla hana vindhana, því hún er olía á hvern þann eld sem menn eru að kveikja hverju sinni.

Þá skiptir litlu máli skilningur minn á biblíunni eða hvort hún sé orð guðs, því hún er sannarlega vindhani en ekki ör sem bendir í neina ákveðna átt. Með gagnrýni þinni hefur þú hvergi komið inn á neitt sem veikir þá fullyrðingu mína, so ég fái séð.

Þú segir:

Ljóst er að vandi þinn stafar m.a. af þeirri mynd sem þú hefur gert þér af guði. Það passar augljóslega ekki saman við þína guðsmynd að það séu ljótir hlutir í biblíunni.

Jú jú, ég er sæmilega kunnugur rifrildum um vandann við illsku í biblíunni; að algóður og almáttugur guð leyfi illsku sé þversögn og það allt. Um þá hluti fjallar þessi pistill ekki nema að mjög litlum hluta. Menn réttlæta vonsku í biblíunni með ýmsum hætti og þar er hver höndin uppi á móti annari í apólógíunni. En þær afsakanir koma málinu lítið við. Málið er að burt séð frá réttmæti biblíunnar er hún i sjálfu sér ekki nein trygging þess að fólk verði gott, heldur þarf fólk að vera gott til að lestur hennar verði til góðs. Á hinn bóginn geta fautar líka fundið eitthvað í henni til að réttlæta sínar hvatir með. Ritið sem slíkt er að því er virðist fremur máttlaus stólpi siðgæðis - siðgæðið kemur annarstaðar frá.

Ljóst er mér hins vegar að það truflar þig.

Ég á að ég held ekki í neinum sérstökum erfiðleikum með að draga lærdóm af bibliunni. Ég hef rætt þessi mál mikið og lengi vð marga trúmenn af ýmsu tagi og veit orðið að það sem leitað er að í trúarbrögðum er að finna í þeim öllum. Það eru fullyðingar af einhverju tagi sem menn geta hengt sig í annarsvegar og hugmyndafræði sem hægt er að gefa sér að sé tilgangur þeirra hinsvegar.

Margir lifa virðingarverðu lífi eftir þeim hugmyndum og margt í þessum fræðum, sérstaklega túlkunum mysticista á þeim, tel ég mjög þess virði að leggja sig eftir að skilja og læra.

En ekkert þykir mér benda til þess að biblían geri þessa hluti betur en t.d. búddisminn, og fátt þykir mér benda til þess að biblían sem slík setji stefnuna til góðs, það þykja mér aðrir vindar gera.

Þú segir:

Ekkert í málflutningi þínum og röksemdarfærslum hreyfir þó við mér og mun ég áfram nota biblíuna trú minni og eftirbreytni til innblásturs.

Ekki stóð það nú heldur til að veikja trú þína, Aðalsteinn, heldur aðeins að benda þér og öðrum á þann möguleika að biblían sé alls ekki sá kompáss sem látið er að liggja í kristnu samfélagi. Hún er ekki kompáss, heldur vindhani. En góðir menn sjá í henni góð hluti og það gleður mig að þú teljir þig vera þess háttar mann og eflaust ertu það. Þá er heldur ekkert að því að þú finnir í biblíunni hvatningu til góðra verka. En því miður virkar hún bara ekki þannig á þá sem eru með óhreint mjöl í pokahorninu, það er það eina sem ég vil að þú áttir þig á, eða mótmælir að öðrum kosti með rökum um hið gagnstæða.

mbk,


Kristján - 02/03/10 17:22 #

Þessi grein er allrar athygli verð fyrir ýmsar sakir en ég hef eitt og annað við hana að athuga.

Fyrir það fyrsta þá verður maður að hafa það í huga að Biblían er skrifuð fyrir einstaklinginn en hún er ekki úrskurðaraðili í málefnum manna í milli. Hún er m.ö.o. ekki pólitísk.

Menn hafa ólíka reynslu og greind og þess vegna er það augljóst að menn leggja mismunandi skilning í texta Biblíunnar.Það er auðvitað auglóst og engin opinberun hjá þér að segja okkur það.

Biblíunni er ætlað að vera leiðarvísir fyrir einstaklinginn til að bæta líf sitt og ef hann rangtúlkar hana þá er það augljóslega verst fyrir hann sjálfan. Þess vegna er það ekki rétt hjá þér að menn geti túlkað Biblíuna eins og þeir vilja. Ekki ef menn ætla að hafa það gagn af henni sem henni er ætlað að vera.

Svo vil ég meina að fullyrðing þín um að menn verði að hafa fyrirfram góðar hugsanir eða hugmyndir til að túlka Biblíuna á góðan hátt standist ekki nánari skoðun.

Nú þurfum við til að byrja með, átta okkur á því til hvers Biblían var skrifuð. Nú fæddist Jesú og dó, samkvæmt Biblíunni, til að bjarga hinum fallna manni. Hann dó fyrir syndarana.

Það er líka staðreynd að langflestir þeir sem taka kristna trú í dag gera það til að bæta líf sitt á einn eða annan hátt. Mjög margir alkóhólistar eða aðrir sem eru komnir með líf sitt í ógöngur fyrir eihverjar sakir taka trú í þeirri von um að það geti bjargað þeim frá bölin sem eitrar líf þeirra. Oft er þetta upp á líf og dauða að tefla.

Ástæðan hjá þessu fólki til að lesa Biblíuna er semsé ekki sú að það vilji lesa um eitthvað fallegt endilega heldur bara eitthvað sem getur hjálpað þeim. Svo kemst það að því að það hefur verið eigingjarnt í lífi sínu og leiðin til endurreisnar er að gera bragarbót á því undir handleiðslu krists. Þetta er ekki einhver órökstudd fullyrðing út í bláinn hjá mér heldur er þetta reynsla milljóna manna út um allan heim.

Eða í stuttu máli sagt þá byrjar fólk að lesa Biblíuna í eigingjörnum tilgangi en við lesturinn lærist því að gera bót á lífi sínu.

En auðvitað er alltaf til fólk sem byrjar að lesa Biblíuna eins og þú fullyrðir en það fólk er í miklum minnihluta.

Það byggist einfaldlega á því að maður sem er sáttur við líf sitt og því hamingjusamur hann hefur í sjálfu sér ekki mikla ástæðu til að leita í trúnna. Honum finnst hann ekki vanta neitt.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 02/03/10 18:19 #

Sæll Kristján,

Takk fyrir að viðra þína skoðun á málinu.

Ég svara þér að sjálfsögðu með gagnrökum, en það er ekki þar með sagt að það sé ekki ekki eitthvað til í þessu hjá þér.

Við skulum muna að það aðeins brotabrot af fólki sem kallar sig kristið les biblíuna. Þrátt fyrir það halda gríðarlega margir af endursögnum presta og af sunnudagaskóla að þetta sé mjög fallegt verk í alla staði.

Við verðum því að einskorða þessa umræðu við fólk sem hefur lesið biblíuna og eru kristnir. Þú fullyrðir að flestir lesi hana í leit að hjálp, sbr. alkóhólistar og fleira í þeim dúr. Ég er sammála þér um að það geri það margir af þeirri ástæðu, en leyfi mér að fullyrða á móti að þú sért að gera dálítið mikið úr þeim þætti.

Fólk sem er alið upp í kristni fer eflaust líka margt að glugga í þessa bók með aldrinum og er þá einmitt gírað til að lesa úr henni þau gildi sem það heldur í heiðri fyrir.

Að það fólk sé í miklum minnihluta er ég ekki viss um. Ertu með einhver gögn um það?

Ég las hana t.d. ekki í leit að hjálp, heldur af forvitni um menningararfleifð okkar. Það á eflaust við um marga aðra líka.

Fyrir það fyrsta þá verður maður að hafa það í huga að Biblían er skrifuð fyrir einstaklinginn en hún er ekki úrskurðaraðili í málefnum manna í milli. Hún er m.ö.o. ekki pólitísk.

Segðu þetta við Gunnar í Krossinum, Jón Val og fleiri trúmenn sem fullyrða að það sé hlutverk þeirra sem kristnir biblíulesnir menn að hamast í hommum og reyna að koma í veg fyrir "synd" þeirra.

Þetta er því ekki eins einfalt og þú gefur í skyn. Fólk telur þetta rit oft á tíðum gera því skylt að lifa ákveðnum lífsstíl, eftir eigin túlkun, sem ekki endilega er fullt umburðarlyndis í garð náungans og sem ekki er laus við skera úr um málefni á milli manna.

Biblíunni er ætlað að vera leiðarvísir fyrir einstaklinginn til að bæta líf sitt og ef hann rangtúlkar hana þá er það augljóslega verst fyrir hann sjálfan. Þess vegna er það ekki rétt hjá þér að menn geti túlkað Biblíuna eins og þeir vilja. Ekki ef menn ætla að hafa það gagn af henni sem henni er ætlað að vera.

Hér fullyrðir þú stórt. Ertu viss um að biblían eigi að vera það sem þér finnst? Kannski hefur hún "átt" að vera eitt og annað eftir því sem mismunandi skríbentar áttu við hana og löguðu hana að tíðarandanum.

Svo vil ég meina að fullyrðing þín um að menn verði að hafa fyrirfram góðar hugsanir eða hugmyndir til að túlka Biblíuna á góðan hátt standist ekki nánari skoðun.

Þetta er skemmtileg yfirlýsing, en þú rökstuddir hana ekkert í svari þínu. Við erum sammála um að margir leiti hjálpar í biblíuna og finni þar óeigingjarna hugmyndafræði - sérstaklega ef það er skólað til slíks eftir 12 þrepa prógrammið.

En hvað með milljónir amerískra repúblikana, sem dæmi, sem réttlæta sína oft á tíðum merkilegu daglegu hegðun með biblíunni og hafa margir hverjir margsinnis lesið verkið spjaldanna á milli? Hvað með alls kyns villuráfandi sjónvarpspredikara sem í stjórnlausum trúaræsingi hegða sér eins og verstu bílasölumenn og loddarar?

Hvað með kristni nasistanna, eða kristni rannsóknarréttarins, eða kristni kaþólsku klaustranna og kirkjana þar sem ofbeldið grasseraði áratugum saman?

Án þess að ég vilji steypa þessu í einhverja Hitlersumræðu, þá er það einfaldlega ljóst að trúað fólk réttlætir hegðun sína með biblíunni, hver sem sú hegðun er, og sú hegðun er ekki nægilega oft falleg til að teljast til góðs. Enda eru Norðurlöndin líklega með minna biblíulesnum löndum og hér mælast hlutirnir bestir í ýmsum skilningi - sem er áhugavert, en ekki endilega mjög háð kristni - ég viðurkenni það.

Þannig að fólk les biblíuna ekki bara í leit að hjálp, heldur oft af forvitni eða í leit að trúarlegum hugmyndum um tilgang, algilt réttlæti og fleira í þeim dúr.

Það fólk er ekki endilega eins fámennt og þú virðist halda.

Það er síðan eflaust heilmikið til í því að sátt fólk leiti síður í biblíuna. En það er loðiðn skilgreining og margt fleira spilar inn í.

Mér þykir innlegg þitt dálítið litað af svona AA sjónarmiði. Að guð sé traust og það allt. Biblían er svo miklu meira en snuð, þó guð sé kannski snuð. Biblían er regluverk, spádómur, siðalögmál og fleira. Hún verður ekki afskrifuð sem hjálpartæki þeirra sem "skilja hana rétt".


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 02/03/10 18:51 #

Það er nú meira hvað ég hef beygt margt undarlega þarna í svari mínu. Ég bið ykkur að afsaka það.

En þess má einmitt geta að á moggablogginu hef ég rekist á nokkra eldheita AA menn sem komu út úr þeim pakka með ofsatrú og mikla homma-andúð.

Það þykir mér ágætt dæmi um að menn lesi sinn vilja úr biblíunni, hvort sem þeir eru að leita hjálpar í henni eða ekki.


Aðalsteinn Þ - 03/03/10 11:13 #

Sæll Kristinn. Þakka þér fyrir skírt og greinagott svar við athugasemdum mínum. Lítil áhrif tel ég skrif mín hafa haft í þá átt að fá þig til að endurskoða hugmyndir þínar. Mér finnst þú setja skoðanir þínar fram af festu og útskýra rök þín vel. Þú hefur misskilið mig ef þú hefur lesið það úr niðurlagi síðustu skrifa minna að ég ætli þér með skrifum þínum að vilja veikja trú mína. Þú leiðréttir mig ef það er rangur skilningur minn en ég hef lesið það svo að skrif þín séu fyrst og fremst hugsuð til að styrkja þitt eigið trúleysi. Það var ákveðin einfeldni af minni hálfu að halda að ég gæti með þessum hætti opnað augu þín fyrir því að rök þín, sem mér finnst ég lesa úr skrifum þínum að þér finnist þau góð, eru lítilfjörleg.

Eins og ég hef áður skrifað þá hef ég ekki áhuga á því að rökræða við þig. Ég vildi eingöngu fá svör við nokkrum áleitnum spurningum mínum til að skilja betur mann eins og þig sem kastar rýrð á biblíuna á opinberum vettvangi. Ég skulda þér engin rök hér á þessu vefsvæði um það hvað það er sem setur biblíuna á sérstakan stall en engu síður skal ég gefa þér smá innlegg í hugleiðingar þínar.

Biblían er kompáss og hún bendir öll í eina átt. Sú staðreynd að margir, allt frá nasistum til kirkjuleiðtoga, hafi (og geri jafnvel enn) misnotað hana til þess að réttlæti eigin misgjörðir breytir því ekki. Ekki heldur sú staðreynd að þú skulir snúast eins og rella við lestur hennar og hafir því ákveðið að grýta hana í þeirri von að hugur þinn sefist við það. Þú virðist hafa einhvers konar hugmyndir um töframátt fyrst þú segir biblíuna ekki virka rétt á fólk sem hefur óhreint mjöl í pokanum. Hér, líkt og svo víða annars staðar, eru það ranghugmyndir þínar um það hvernig sá guð sem þú heldur að sé ekki til væri ef hann væri til.

Ég hef ekki haldið því fram að mér sé fullljóst hver þekking þín og skilningur á þessum efnum er. Ég fullyrði hins vegar að þú hafir ekki gert þér grein fyrir samspili guðs og manns í ritun og lestri biblíunnar. Ég get heldur ekki ætlast til að þú getir gert þér grein fyrir því, samt reyni ég að leggja orð mín á vogaskálar rökhugsunar þinnar. Þú réttilega bendir á að trú á biblíuna sem guðs orð er alls ekki nægileg forsenda fallegrar og góðrar hegðunar og því gagnrýni ég þá fullyrðingu þína ekki neitt. Þér verður hins vegar tíðrætt um gott fólk, fauta, fallega þenkjandi fólk og þá sem hafa óhreint mjöl í pokahorninu og því snúast hugleiðingar þínar meira um glímu mannsins við illskuna en þú vilt af láta. Þú segir biblíuna vera máttlausan stólpa siðgæðis og það komi annarsstaðar frá og því liggur beinast við að þú spyrir þig hvaðan.

Svo ég svari þeirri spurningu fyrir mig þá kemur besta siðgæðið frá Guði, það eina sem er laust við alla eigingirni. Jesús lifði fullkomlega eftir þessu siðgæði og eru samskipti við Jesú og samband við hann forsenda góðs og réttláts lífs (vegna þess að hjálparlaust getur maður það ekki). Vandi kristindómsins (að margir sem kalla sig kristna skuli vera óréttlátir, hrokafullir, fordómafullir, ógeðfeldir ...) felst ekki í því að biblían (sem þeir þá jafnvel misnota til að réttlæta gjörðir sínar) bendi ekki skýrt í rétta átt heldur að þessir, þó þeir kalli sig Krists, eru ekki í sambandi við hann, hlusta ekki á hann, fylgja honum ekki eftir.

Ef þú, Kristinn, vilt standa undir nafni þá getur þú kropið niður og talað við Jesú. Játaðu þá að þú viljir fylgja honum eftir: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni“. Það hefur gert margan að betri manni og í kjölfarið hefur sá hinn sami farið að lesa biblíuna til þess að læra að þekkja þann Jesús betur sem hann á í samskiptum við og þann guð, föður, sem Jesús talar um. Ef þú hefur ekki þörf fyrir Jesú og þarft enga hjálp til að lifa góðu og réttlátu lífi þá skaltu ekki beygja þig heldur reisa höfuðið hátt og halda hnakkreistur áfram. Ég leyfi mér þó að draga í efa að það að kasta rýrð á gildi biblíunnar sem innblásið guðs orð fyrir þeim sem trúa á Jesú sé hluti slíks lífernis.

mbk.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 03/03/10 11:36 #

Sæll Aðalsteinn,

Takk fyrir svarið, þarna er margt skemmtilegt að japla á.

Ég svara þér almennilega í kvöld.

mbk,


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 03/03/10 21:57 #

Aðalsteinn Þ,

Það var ákveðin einfeldni af minni hálfu að halda að ég gæti með þessum hætti opnað augu þín fyrir því að rök þín, sem mér finnst ég lesa úr skrifum þínum að þér finnist þau góð, eru lítilfjörleg.

Það sem ég er að segja er einfaldlega að viljinn til að lesa góða hluti úr biblíunni er forsenda þess að túlkunin á biblíunni verði góð. Fyrir því hef ég fært ýmis rök og hvort sem þau eru lítilfjörleg eða ógurleg, hefur þú í raun ekkert mótmælt því.

Vindhani er hani sem snýst eftir vindi, það á hann sameiginlegt með biblíunni að blási úr einni átt, þá verður það afstaða hans.

Biblían er kompáss og hún bendir öll í eina átt.

Það má vel vera að einhver ein stefna sér rétt, en þar sem vindhaninn bendir bara hvert sem vindurinn feykir honum, þá veit engin hver sú stefna er.

Þín túlkun er sú að óeigingirni og fylgni við orð Jesú sé rétta áttin. En þú virðist ekki átta þig á því að menn eru langt frá því að vera sammála um hvað Jesús kenndi og gerði; hvort hann hafi verið heimsendaspámaður eða tímalaus friðarsinni; hvort hann hafi boðað eignaleysi eða hagsæld; hvort hann hafi afnumið reglur gamla testamentisins eða fest þær í sessi.

Fullt af fólki trúir af hjartans einlægni, eins og ég geri ráð fyrir að þú gerir, en trúir því líka að eitt og annað verði yfir það sjálft og aðra að ganga til að spádómurinn rætist og Jesús komi aftur, eða til að það öðlist eilíft líf og svo framvegis.

Að sjálfsögðu gefur þú þér samt að þetta sé allt saman vitrænt, annars værir þú ekki trúaður. Þú gefur þér að þetta sé áætlun af einhverju tagi sem gangi upp því guð hafi gefið okkur samkenndina og getuna til að lesa biblíuna, en einnig gefið okkur val um að fara eftir henni eða gera það ekki.

Þitt val á sjónarhorni á þetta allt saman og túlkun þín á hvað gjöra skuli til að vera í náðinni hjá guði, er hinsvegar einfaldlega þitt val, eða þín vindátt og því mun vindhaninn snúa sér þannig þegar þú þeysir yfir síður biblíunnar.

Auðvitað trúir þú því að það sé um eitthvað meira að ræða, en fyrir því hefur þú engin rök, aðeins trú. Og á meðan allir eru í þeirri sömu stöðu en meta hana ólíkt, þá er biblían sannarlega dálítið bilaður kompáss.

Ég fullyrði hins vegar að þú hafir ekki gert þér grein fyrir samspili guðs og manns í ritun og lestri biblíunnar

Nei það er rétt. En ég fullyrði að það hafir þú ekki heldur, nema hvað sjálfan þig snertir. Milljónir annarra halda svo viðlíka hluti og þú, en eru með aðrar hugmyndir um hvað það þýðir um hvernig þeir eiga að hegða sér.

Svo ég svari þeirri spurningu fyrir mig þá kemur besta siðgæðið frá Guði, það eina sem er laust við alla eigingirni.

Guð GT er allt annað en laus við eigingirni. Hann hegðar sér oft eins og frekur krakki. Jesús kom síðan á svæðið og var þá búinn að ná sér í betri almannatengslaráðgjafa, því hann kunni að heilla skrílinn.

Það má síðan telja sér trú um ýmislegt til að skýra hegðun Jahve/Elohim í GT. T.d. að þetta hafi verið sú forsaga sem þurfti til að fólk myndi eftir guði og til að nýja testamentið gæti notið þeirra vinsælda sem það gerir enn þann dag í dag.

Skemmtilegar kenningar, en í raun ógreinanlegar frá hreinum fantasíum byggðum á því vali að ætla biblíunni að hafa fallega og heilsteypta merkingu. Aðrir velja síðan bara að kalla GT úreltar flökkusögur, en NT sannar sögur. Hver er með sína aðferð við að fella þetta allt saman að skynsemi sinni og vilja.

Vandi kristindómsins (að margir sem kalla sig kristna skuli vera óréttlátir, hrokafullir, fordómafullir, ógeðfeldir ...) felst ekki í því að biblían (sem þeir þá jafnvel misnota til að réttlæta gjörðir sínar) bendi ekki skýrt í rétta átt heldur að þessir, þó þeir kalli sig Krists, eru ekki í sambandi við hann, hlusta ekki á hann, fylgja honum ekki eftir.

Margur telur sig vera í sambandi, hlusta og fylgja eftir í einhverjum loðnum skilningi. T.d. telja kaþólikkar að þeir séu að því þótt páfi sé löngu tekinn við sem skapari lögmálanna. Eru allir kaþólikkar með sitt hommastress og smokkavesen með tilheyrandi vandamálum í Afríku villuráfandi sauðir, en ekki þú?

Nei, Aðalsteinn, það má vel vera að biblían bendi í grófum dráttum í eina átt hvað margt snertir, en hvernig fólk kýs að velja úr henni stefnur, túlka þær og matreiða fyrir sjálft sig og aðra er að ansi miklu leyti ekki að sjá að sé annað en tómur þarfa og viljaleikur þess sem velur.

Þess má auk þess geta að værir þú múslími, hindúi eða gyðingur værir þú að segja eitthvað viðlíka um kóraninn, tóruhna eða bhagavad gita. Í þessum fræðum sæir þú einhvern rauðan þráð, einhvern sannleik sem nálgast mætti með því að fylgja einhverju einu af hjartans einlægni og óeigingirni - en værir samt ekki sammála sérlega stóru hlutfalli af einlægt trúuðu fólki heims um hvað það þýddi - nema hvað allir eru sammála um að þeir séu og eigi að vera "góðir", það hvað það þýðir er bara ekki nógu vel skilgreint.

Ef þú hefur ekki þörf fyrir Jesú og þarft enga hjálp til að lifa góðu og réttlátu lífi þá skaltu ekki beygja þig heldur reisa höfuðið hátt og halda hnakkreistur áfram. Ég leyfi mér þó að draga í efa að það að kasta rýrð á gildi biblíunnar sem innblásið guðs orð fyrir þeim sem trúa á Jesú sé hluti slíks lífernis.

Þeir sem trúa á Jesú kasta á degi hverjum rýrð á þá hugmynd mína að við séum öll fædd jöfn sem lífverur á þessari plánetu og þannig sé málum háttað. Þeir trúa því flestir að ég muni vegna trúleysis míns fara á mis við eitthvað ógurlegt í yfirnáttúrulegum eða veraldlegum skilningi, eða í versta falli að ég muni brenna í helvíti um alla eilífð. En helvíti er einmitt nokkuð sem Jesú er eignað að hafa talað um og varað okkur við:

Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Einu sinni var maður nokkur ríkur er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því er féll af borði ríka mannsins og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gerðist það að fátæki maðurinn dó og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér og send Lasarus að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína því að ég kvelst í þessum loga. Lúkasarguðspjall 16:19-24

Af vissu yfirlæti telja trúaðir síðan margir að ég geti ekki skilið þeirra afstöðu og hljóti að lifa tómlegu lífi.

Ég fæ ekki séð að vangaveltur mínar um eðli þessara hluta sé ljótari hegðun en sú sem trúaðir leyfa sér, og þá ekki síst Karl Sigurbjörnsson biskup, þegar hann lýsir trúleysi sem kuldalegu og skaðlegu fyrirbrigði sem ógni mannlegu samfélagi og talar þá fyrir hönd þjóðkirkjunnar sem að sögn er byggt utan um þá hugmynd að Jesús sé frelsari mannkyns.

Nei, ég tel að ég geti þusað með þessum hætti til dómadags og samt verið í fullum rétti á meðan ég þó er almennilegur og fólki góður í daglegu lífi.

Ég skil þó alveg hvað þú ert að fara með þessu og hef þessa hluti reyndar yfirleitt í huga þegar ég skrifa um trúmál, enda tel ég að þau mál eigi að þola umræðu og gagnrýni eins og aðrar afstöður og hugmyndir og því er ég ekki að mínu mati að kasta rýrð á neitt, heldur að bjóða upp á umræðu og vangaveltur þar sem ég sjálfur á upphafsorðin og set fram mína túlkun á hlutunum til að leiðrétta megi þar rangfærslur.

Ekkert af ofangreindu er þó sönnun þess að þú sért ekki sanntrúaður eða að fylgja eigi Jesú, en sú fullyrðing að biblían sé dálítill vindhani í eðli sínu stendur enn, lítt hreyfð og keik í rokinu.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 04/03/10 07:29 #

Sá trúaði er hinsvegar eins og maður sem stendur ofan á vindhananum og finnnst hann alltaf snúa fram, hvernig sem haninn snýst.


Guðmundur I. Markússon - 05/03/10 13:12 #

Skemmtileg og skörp grein.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.