Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vantrú á fundi Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema

[Facebook-síða]

Fundarnefnd Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema við Háskóla Íslands boðar til kynningar- og umræðufundar um félagið Vantrú í stofu 229 í aðalbyggingu skólans mánudaginn 22. febrúar klukkan 11.40. Gestir félagsins að þessu sinni eru Reynir Harðarson, formaður Vantrúar, Óli Gneisti Sóleyjarson og Matthías Ásgeirsson.

Eins og mörgum er kunnugt er Vantrú félagskapur yfirlýstra trúleysingja er iðka gagnrýni á trú og trúarbrögð á samnefndri vefsíðu undir kjörorðinu:,,í baráttu gegn hindurvitnum.” Samkvæmt aðstandendum Vantrúarvefsins er það mikilvægur vettvangur fyrir skoðanaskipti um trúmál og tengd málefni frá sjónarhóli trúleysingja. Hafa ýmsir sem ekki eru sammála málflutningi vantrúarmanna fengið það óþvegið þar og hefur Guðfræði- og trúarbragðafræðideild ekki farið varhluta af því. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu er helsta markmið félagsins að vinna gegn boðun ,,hindurvitna” í samfélaginu með ,,netútgáfu, blaðaskrifum, fyrirlestrum og rökræðum, hvar sem því verður við komið.”

Þess vegna vill fundarmefnd Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema bjóða forsvarsmenn og fulltrúa Vantrúar sérstaklega velkomna. Í þeirri von að skynsemis og vísindahyggjusinnarnir muni sjá ljós hins andlega sviðs tilverunnar.

Umsjón með fundinum hafa Arnaldur Máni og Þorri Jóhannsson, sem mun leiða umræður.

Ritstjórn 21.02.2010
Flokkað undir: ( Tilkynning )

Viðbrögð


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 22/02/10 10:44 #

Í þeirri von að skynsemis og vísindahyggjusinnarnir muni sjá ljós hins andlega sviðs tilverunnar.

Þetta er GILDRA!


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 22/02/10 11:53 #

Krysslingar komnir í nauðvörn og tala um að "sjá ljósið":

" ... að skynsemis og vísindahyggjusinnarnir muni sjá ljós hins andlega sviðs tilverunnar."

Gefið er í skyn að við vantrysslingar séum á einhvern hátt blindir, að krysslingar sjái eitthvað sem við sjáum ekki. En þetta er auðvitað misskilningur, við sjáum öll það sem er sýnilegt, hvort sem það er andlegt eða ekki.

En krysslingar hafa hæfileikann til að sjá ímyndaða hluti með brúna auganu.


Andrés Helgi Valgarðsson - 22/02/10 14:03 #

Ég vildi nú bara hrósa ykkur fyrir ágæta framkomu, ég var þarna sjálfur og fannst gaman að.

Mér reyndar fannst fundarstjórnin alveg afleit, en það var ekki ykkur að kenna.


Guttormur Árni Ársælsson - 22/02/10 14:53 #

Mér fannst þetta áhugaverður fundur og gaman að sjá að fólki er þetta hugleikið, svo mikið að það var ekki pláss fyrir alla í stofunni.

Þá er ég sammála því að fundarstjórnin var út í hött.


Jóhann - 22/02/10 16:15 #

Ég vil þakka fyrir hreint frábæran fund að ykkar hálfu í aðalbyggingu HÍ í dag. Það er eitt, mig langar alveg ofboðslega til í að skrá mig í félagið, en ég er ekki trúleysingi heldur efasemdarmaður (agnostic) sem þýðir að ég er ekki tilbúinn að afskrifa æðri mátt, Guð, Allah, Jahve, Krishna, Óðinn eða hvað sem er. Til þess að ég geti það þá þarf ég að fá sönnun fyrir því að enginn sé ,,æðri máttur" , en aftur á móti, ef hann er til þá væri ég líka gjarnan til í að fá sönnun fyrir þessu.

Hinsvegar er ég afar gagnrýnin á skipulögð trúarbrögð sérstaklega innan Kristni, Íslam og Gyðingsdóm, þar sem trúin er notuð til þess "enslave believers mind" og fólk látið trúa arfarugli svo að trúarbáknið nái nú að halda völdum. Einnig er ég móti skipulögðu trúboði þar sem skattpeningarnir mínir eru notaðir. Trúboð í gegnum hjálparstarf, sem birtist mér víða þegar ég vann sem sjálfboðaliði (ekki á vegum TRÚFÉLAGS) í Úganda veturinn 2006. Þar vanda ég trúfélögum frá USA ekki kveðjurnar. Þetta eru hræsnarar og kúgarar af verstu gerð.

Þjóðkirkjan þarf aðhald i gegnum gagnrýni, og því meira sem er af því aðhaldi því betra. En gleymið ekki öðrum trúfélögum sem njóta góðs af okkar skattpeningi. Næst stærsta einstaka trúfélagið utan þjóðkirkjuna er Kaþólska kirkjan á Íslandi. Móðurkirkja allra Kaþólskra safnaða um gjörvallan heim er í Vatíkaninu, þar er staðsett stærsta einstaka skjalasafn í heimi, sem enginn hefur aðgang að nema örfáir trúaðir kaþólikkar. Ef þeir eru svona flekklausir, hvað hafa þeir þá að fela? Kaþólska kirkjan hefur í gegnum aldinar staðið sem klettur í vegi framfara, nær nefni sólmiðjukenningu Galíleós. Það tók þá 400 ár að viðurkenna að bannfæring Galeileós hafi verið röng!! Kaþólska kirkjan seldi um alla Evrópu syndaaflausnarbréf til þess að fjármagna byggingu stærstu kirkju í heimi á þeim, Péturskirkjunnar. Þeir sem hafa lesið bíblíuna sjá að Jesú, ef hann hefur verið til, var jafnaðarmaður, og fyrir honum eru allir jafnir. Samt er til maður í Kaþólikkalandi (Vatíkaninu) sem kallar "Filus Dei" eða sonur Guðs, þ.e. páfinn og skv. Kaþólsku ritningunni er hann orðrétt: ,,staðgengill Guðs á jörðu"!!!. Skv. Félaga mínum sem er fyrrv. Kaþólikki voru sett á lög í Vatíkaninu 2004, þar sem kardínálum og biskupum er sagt að þegja yfir barnaníð innan kirkjunnar. Þrátt fyrir þessi lög þá hafa komið upp fjölmörg mál víða um heim þar sem börn hafa verið misnotuð af prestum og jafnvel biskupum (sjá heimildarmyndina "Deliver us from evil"). Það er verðugt verkefni fyrir ykkur í vantrú að kafa dýpra í þessi mál (því miður hef ég ekki tíma sjálfur :-) ), láta þjóðkirkjuna eiga sig í smá stund og skoða kaþólska báknið, spillinguna og yfirganginn sem hefur verið í þessari undirgrein kristinnar frá Níkeuþinginni 348 e.kr.!


Þröstur Hrafnkelsson - 22/02/10 17:49 #

Ágætis fundur og vonandi verða fleiri svona þar sem trú og trúleysi geta verið rædd enn frekar.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 22/02/10 20:36 #

Jóhann, ég á kannski ekki að vera að tala fyrir hönd Vantrúar, en mér sýnist þú eiga vel heima í Vantrú..

Ég lít amk. svipað á þetta og þú, ég er ekki að fullyrða að ekkert geti verið til sem ég þekki ekki. Ég vil einfaldlega fá sönnun í stað þess en að trúa án staðreynda.

Vissulega finnast mér ekki miklar líkur á yfirnáttúrulegum öflum, hvað þá í líkingu við einhverja guðs ímynd - og mér finnast stjarnfræðilega litlar líkur á að guðinn sem biblían segir frá sé til.

Og Andrés, átt þú ekki líka heima í Vantrú þó við ræðum það kannski betur annars staðar??


Arnaldur Máni Finnsson - 23/02/10 19:39 #

Heilt veri vantrúarfólk allt og þakka ykkur komuna í guðfræði-og trúarbragðafræðideild. Til lukku með fundinn og fróðleg erindi.

Þar sem í kynningu nefnds fundar var tekið fram að ég myndi fara með fundarstjórn í slagtogi við hinn mikla Þorra Jóhannsson, sem samdi fréttatilkynninguna auk þess með ívitnuðum yfirlýsingum; þá vil ég að hér komi fram að ég kom hvergi nærri fundarstjórn þessarar samkomu.

Aftur á móti, vegna greinaflokks ykkar sem er hálfnaður þegar þetta er skrifað, um kennsluefni Bjarna Randvers - þar sem 'atheist outreach' vantrúar er tekið fyrir (boðað trúleysi í bókstafstrúarsamhengi) - þá vil ég bjóða hverjum þeim málsvara ykkar sem verða vill, að birta grein í prentuðu málgagni guðfræðinema, Orðinu, um það hvers vegna það sé ómálefnalegt af Bjarna að fjalla um ykkur sem hluta af flóru 'nýtrúarhreyfinga' á Íslandi.

Bestu kveðjur, f.h. Orðsins, ritstjóri AMF.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 19:45 #

...hvers vegna það sé ómálefnalegt af Bjarna að fjalla um ykkur sem hluta af flóru 'nýtrúarhreyfinga' á Íslandi.

Eins og ítrekað hefur komið fram finnst okkur ekkert ómálefnalegt að hann fjalli um Vantrú í þessu námskeiði, okkur þykir ómálefnalegt hvernig hann fjallar um Vantrú. Þú munt sjá fínt dæmi um það klukkan eitt á morgun.

En við þiggjum örugglega boð um að skrifa grein í Orðið.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 20:47 #

Sæll, Arnaldur Takk fyrir gott boð.

hvers vegna það sé ómálefnalegt af Bjarna að fjalla um ykkur sem hluta af flóru 'nýtrúarhreyfinga' á Íslandi.

Ég vil taka undir það sem Matti segir. Ég hef persónulega póstað margsinnis við komnar greinar að við erum þvert á móti mjög ánægð með það að vera tekin fyrir í HÍ. Við fögnum allri umræðu og meira að segja gagnrýni á okkur.

Við viljum augljóslega helst að sú umræða verði á málefnalegum nótum. Ég veit satt best að segja ekki hve oft ég hef imprað á því:) En það virðist ekki móttekið af fólki sem samt hefur greinilega lesið allar færslur (þar á ég ekki við um þig)


Guðmundur Ingi Markússon - 23/02/10 21:05 #

Til að bera blak af Þorra á hann hrós skilið fyrir að koma Vantrú á dagskrá fundarséríunnar.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 21:36 #

Þorri Jóhannsson á allan heiðurinn af því að bjóða Vantrú á fund félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema. Sá heiður er ekki lítill í okkar huga. Um leið er það umhugsunarefni fyrir Háskóla Íslands að nemi í trúarbragðafræði skuli skjóta þannig bæði stjórnendum þessarar deildar og kennurum rækilega ref fyrir rass.

Hitt er þó enn meira íhugunarefni hvers vegna svo fáir guðfræðinemar létu sjá sig á fundinum (voru þeir tveir eða þrír, af um sextíu fundargestum?).

Í því sambandi má rifja upp skemmtisögu sem Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði sagði af fyrstu reynslu sinni af fyrirlestri í tengslum við guðfræðideild. Hópur guðhræddra nemenda ákvað þá að fara heldur í kapellu skólans (það er nú eitt ruglið) og biðja fyrir þeim voluðu tetrum sem sóttu fundinn með Hilmari Erni.

Þetta kom fram á öðrum málfundi þessa félags, eða öllu heldur Þorra, þar sem Hilmar Örn hélt stórskemmtilegt erindi um galdra.

En Arnaldur, má skilja orð þín sem svo að okkur sé boðið að fjalla um hvað er athugavert við umfjöllun Bjarna Randvers í Orðinu? Ég spyr þar sem tillaga þín sýnir berlega að þú skilur ekki um hvað málið snýst?


Arnaldur Máni Finnsson - 23/02/10 22:29 #

Sælir Reynir, og aðrir heiðraðir andsvarendur.

Vissulega á Þorri heiðurinn af því frumkvæði að bjóða til fundarins; en það gerir hann jú með samþykki og stuðningi (þó hann sjálfur kunni að kjósa líta ekki svo á) þeirra sem að félagi guðfræði-og trúarbragðafræðinema standa. Annars væri fundurinn ekki haldinn í nafni félagsins.

Fundinum er fagnað þó ég hafi því miður ekki tölu á aðsókn formlega skráðra nemenda í guðfræði-eða trúarbragðafræðum. Hitt er svo að fundir félagsins eru ekki eingöngu miðaðir við nemendur eða félaga Fisksins (nemendafélagið). Sjálfur var ég vant við látinn vegna veikinda sonar míns. Auk þess bendi ég á að fundurinn var haldinn í starfsviku deildarinnar og því ekki um formlega starfsemi (tímasókn) að ræða þessa daga. Ef það huggar ykkur mætti heldur enginn í leikfimitíma nemendafélagsins! (jæja, smá grín, ef mér leyfist.)

Það er algjör óþarfi að tala niður til mín vegna boðsins um að birta grein í Orðinu um tillhögun í kennslu við deildina. Greining mín á þykkju ykkar vegna nefndrar umfjöllunar fól í sér 'tillögu' að efnisdrögum; því ekki er víst að mér þyki það jafn áhugavert efni til birtingar 'hvernig' hann fjallar um ykkur. Ég held því verði líka gerð fyllileg skil hér. Ég ítreka því að „ég skil berlega um hvað málið snýst“.
En hvort er það á akademískum nótum meira 'alvarlegt' eða 'áhugavert'?
Bjarni er um margt sérstakur kennari og leggur sig mjög fram við að reyna koma að 'áhugaverðu' efni um alls kyns kirkjudeildir og trúfélög.

Ég held að Bjarni sé að reyna gera efni sitt áhugavert. Auk þess bendi ég á að sú 'virðing' sem hann sýnir ykkur er í fullu samræmi við þá skoðun hans að Vantrú/Siðmennt eigi að hafa jafnan rétt á við 'önnur trúfélög' / lífsskoðunarfélög, (þá m.a. eins og Nátthagi (guðlaust sjálfræktarfélag) félag zenbúddista á Íslandi). Sú er einnig skoðun Hjalta Hugasonar forseta guðfræðideildar og margra nemenda deildarinnar. Ég ætla mér ekki að taka málstað Bjarna hér en það gæti skýrt það hvers vegna hann fjallar um ykkur í námskeiðinu - enda tekur hann ítrekað fram að stuðst sé við 'víða félagsfræðilega skilgreiningu' á hugtakinu 'trú'. Vissulega er það ekki vafamál að þið eruð trúaðir menn, í víðri og ógildishlaðinni skilgreiningu sagnarinnar 'að trúa'. (T.d. trú á málstað eða hugsjón, en þó og jafnvel í tengslum við merkingu grísku sagnarinnar sem notuð er í ritningu kristinna manna 'pisteo' sem er 'traust': Þið hafið vissu fyrir eða leggið traust ykkar á 'náttúrulegar'/vísindalegar skýringar á allri tilveru og öllu umhverfi manna.) Ég vil ekki fara lengra út í þá sálma hér - og bið ykkur að reyna ekki að gera ykkur mat úr þessari yrðingu minni á sömu nótum og svo oft vill verða á vef þessum.

En vinsamlegast, hossist nú bara ofanaf háa hestinum og fjallið á hvern þann hátt sem ykkur lystir um málefnið sem hér (greinarflokkurinn) er til ítarlegrar umræðu á vefnum ykkar. Ég heiti því að öll málefnaleg umræða á heima í riti félags guðfræðinema.

Með bestu kveðju.

Arnaldur Máni


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 22:53 #

Ég held að Bjarni sé að reyna gera efni sitt áhugavert.

Örugglega. Einnig finnst mér áhugavert hversu margir hafa komið hingað til að verja Bjarna og segjast einfaldlega ekki vilja trúa því að hann sé viljandi að mála okkur í svartri mynd. Það segir mér að Bjarni sé áreiðanlega góð manneskja... en öllum getur orðið á.

Auk þess bendi ég á að sú 'virðing' sem hann sýnir ykkur er í fullu samræmi við þá skoðun hans að Vantrú/Siðmennt eigi að hafa jafnan rétt á við 'önnur trúfélög' / lífsskoðunarfélög,

Vantrú getur ekki í nokkrum skilningi orðsins verið trúfélag.

En ÉG amk er alveg tilbúin til að fallast á það að Vantrú sé lífskoðunarfélag (ég tala auðvitað ekki fyrir alla). Mér finnst frábært að Vantrú sé tekið fyrir í þessum áfanga og þar tala ég, að ég held, fyrir okkur alla.

[það getur] skýrt það hvers vegna hann fjallar um ykkur í námskeiðinu

Enn og aftur. Við fögnum því að við séum tekin fyrir.

Við viljum hins vegar að það sé á málefnalegum nótum. Glærurnar benda til þess að svo sé ekki.

Annars kemur raunverulega sprengjan á morgun að ég held. Afsaka langan aðdraganda.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 23:07 #

Arnaldur

Þar sem ég er á svo háum hesti að ég tel mig hljóta varanlega örkumlun ef ég reyni að stíga af baki;)

Er einhver möguleiki að við fáum að skrifa grein í Orðið sem fjallar ekki um BR málið? T.d. kynning á félaginu eins og við vorum með á fundinum plús kannski betri svör við þeim spurningum sem komið var með á fundinum.

Eins og: Erum við fundamentalistar? bókstafstrúarmenn? Viljum við bara að börnin deyi frekar? Erum við trúaðir? Höfum við kennisetningar? Og svo fram eftir götunum.

Ég spyr því ég held að öll okkar orka í BR málið fari í vefsíðuna og okkur langar miklu meira til að kynna okkur fyrir guðfræðinemum en að fjalla bara um eitt mál.

NB nú hef ég ekki rætt þetta enn við félaga mína, ég er bara að skoða hvar landið liggur og hverjir möguleikarnir séu.


Guðmundur Ingi Markússon - 23/02/10 23:08 #

Annars vil ég nota tækifærið og koma því á framfæri að ég fór með fleipur í umræðum á fundinum: Ég hélt því fram að Dawkins segði þróunarkenningu Darwins nauðsynlega fela í sér guðleysi. Þetta var hreint misminni -- ég taldi mig muna upp á prik að kallinn hefði sagt þetta berum orðu.

Ég fór í fyrirlesturinn sem ég vitnaði til, því ég ætlaði að benda Óla og Matta á, og komst að því að þetta var vitleysa. I stand corrected, eins og þeir segja.

Það sem hann segir, er eitthvað á þá leið að sköpunarsinnar hafi rétt fyrir sér um eitt: "I think they're right that evolution is fundamentally hostile to religion. I believe a true understanding of darwinism is deeply corrosive to religious faith."

Þetta er að sjálfsögðu ekki það sama -- þótt það breyti engu um það sem ég tók upp.

Hérna er fyrirlesturinn. Mæli með honum ef þið hafið ekki séð hann -- stórgóður:

http://www.ted.com/talks/richarddawkinsonmilitantatheism.html


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 23:14 #

Oops! The talk that you requested does not exist or has been removed.


Guðmundur Ingi Markússon - 23/02/10 23:36 #

Mér tekst ekki að setja hana rétt inn. Það á að vera undirstrikun _ á milli richard og dawkins og on og militant og antheism.

Þú getur kannski sett hana rétt inn?


Guðmundur Ingi Markússon - 23/02/10 23:52 #

http://www.ted.com/talks/richard _ dawkins _ on _ militant _ atheism.html

Ef þið límið þetta í vafrann og þurkið út bilin virkar þetta.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 23/02/10 23:55 #

Er þetta ekki það?


Arnaldur Máni Finnsson - 24/02/10 00:05 #

Trausti, og ágætu félagar.

Vitanlega er Orðið opið fyrir öllum góðum og/eða gagnlegum greinum um trú og trúmál, vantrú sem og ofsatrú, ef svo ber undir. Ritstjórn áskilur sér engu að síður rétt til að velja og hafna greinum eftir því hvort efnistök hverju sinni henta. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að lofa því þó að birta grein sem felur í sér það sem þú nefndir í vefútgáfu blaðsins. Aftur á móti er málefnaleg grein um akademísk vinnubrögð í deildinni kærkomin, sérstaklega hvað viðkemur trúarbragðafræðinni (sem einsog hér hefur komið fram af mörgum talið alsekúlar fag) enda mikilvæg fyrir viðgang þessarar yngstu námsbrautar við Háskóla Íslands. Guðfræðideild er að stofni til embættisnámsbraut sem skýrir ítök ráðandi guðfræðihefðar (prótestant) hvað varðar 'praktíska guðfræði' o.s.frv. og því verður það að vera hafið yfir vafa að kennsla sem í sjálfu sér er óskyld því embættisnámi sé fagleg í alla staði. Orðið vill taka þátt í þeirri umræðu.

Með bestu kveðju - og hvatningu til þess að þið félagarnir takið sameiginlega og ígrundaða ákvörðun varðandi efnistök ykkar í vonandi upplýsandi grein til ritsins - á ný: Arnaldur


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 24/02/10 00:24 #

Ætti Þjóðkirkjan ekki að hafa sinn eigin embættismannaskóla þar sem inntökuskilyrði væri guðfræðimenntun? Væri það ekki lang-sanngjarnast og akademískt eðlilegast?


Guðmundur I. Markússon - 24/02/10 12:14 #

Jú, Trausti, þetta er það.


Bryndis - 24/02/10 15:35 #

Varðandi Bjarna og hinar víðu skilgreiningar hans á trúarbrögðunum. Það var ekki hann sem fann upp þessa víðu skilgreiningu heldur trúarlífsfélgasfræðingar. Lesið til að mynda bókina Religion The Social Context, e. Meredith B. McGuire. Hún fjallar lítið um það hvort trúarbrgöðin séu jákvæð eða neikvæð heldur meira um það hvað fær fólk til að trúa og stofna í kring um það hópa eða samtök. Fjallar eins um flokkanir á slíkum hópum og eins ýmsar skilgreiningar fræðimanna á því hvað það er að trúa.

Gott að hann Arnaldur nefndi einnig orðið Pisteú í grískunni sem þýði einmitt að trúa og treysta á. Kristur virðist eins hafa haft þessa víða skilgreiningu út frá hugtakinu pisteú. Hann talaði um að menn gætu ekki þjónað tveimur herrum, Guði og Mammón (peninga), og var þá að vísa til þessara víða samhengis að það er hægt að treysta á margt í lífinu. Þið treysti, eða trúið á guðleysið. Og þar með má tala um það sem ykkar trú.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/02/10 15:37 #

Þið treysti, eða trúið á guðleysið. Og þar með má tala um það sem ykkar trú.

Við hvorki treystum né trúum á guðleysið.


Bryndís - 24/02/10 17:39 #

Hvað sem ykkar skilgreiningum líður, þá er það samt fjölmargir trúarlífsfélagsfræðingar sem hafa hreyfingu eins og ykkar með í skilgreiningum sínum um trúarhreyfingar. Búddisminn boðar til að mynda ekki trú á Guð, en er höfð með sem trúarbragð. Eins ganga sumir lengra og hafa með fótboltahreyfingar og annað í þeim dúr.

Punkturinn er sá að Bjarni er ekki að finna neitt upp hér, heldur aðeins að vinna út frá þeim skilgreiningum sem hans fræðasvið hefur gefið honum.

Þið eruð nú líka að græða smá athygli á þessu. Spurning hvort hún þyki af öllum neikvæð. Aðhyllist fólk sömu lífssýn og þið, kann þeim að þykja allt gott og blessað sem heimildirnar um ykkur vísa til.

En ég hef ekki lesið allar þessar glærur hans Bjarna í þessum tiltekna áfanga, aðeins örfáa minnispunkta um tilvist ykkar úr áfanga í Trúarlífsfélagsfræði og eitthvað af þeim glærum sem þið hafið sjálfir byrt hér. Það litla sem ég sá þótti mér afar meinlaust.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/02/10 18:04 #

Hvað sem ykkar skilgreiningum líður, þá er það samt fjölmargir trúarlífsfélagsfræðingar sem hafa hreyfingu eins og ykkar með í skilgreiningum sínum um trúarhreyfingar. Búddisminn boðar til að mynda ekki trú á Guð, en er höfð með sem trúarbragð. Eins ganga sumir lengra og hafa með fótboltahreyfingar og annað í þeim dúr.

Skilgreining sem setur Vantrú í flokk með fótboltahreyfingum er einfaldlega ekki gagnleg.

Hversu oft þarf svo að svara því að við gerum ekki athugasemd við að Bjarni fjalli um okkur eða noti þessar skilgreininar, þó okkur þyki þær marklausar.

Þið eruð nú líka að græða smá athygli á þessu. Spurning hvort hún þyki af öllum neikvæð. Aðhyllist fólk sömu lífssýn og þið, kann þeim að þykja allt gott og blessað sem heimildirnar um ykkur vísa til.

Hvaða athygli erum við að græða? Umfjöllunina í þessu námskeiði. Við græðum ósköp lítið á henni.


Guðmundur I. Markússon - 24/02/10 21:31 #

Búddisminn boðar til að mynda ekki trú á Guð, en er höfð með sem trúarbragð.

Búddismi er einginn mónólít. Þar eru mismunandi stefnur með mismunandi áherslur.

Það eru vissulega einhverjir afkimar búddisma sem hægt er að kalla guðlausa, en þessir afkimar eru undantekningar og þar hrærast helst sérfræðingar, þ.e munkar. Ef þú ferð meðal almennings morar allt í guðum og yfirnáttúrulegum verum.

Staðreyndin er sú að í yfirgnæfandi meirihluta þess sem við köllum trúarbrögð eru yfirnáttúrulegar verur (guðir, forfeður, draugar, o.s.frv.) í lykilhlutverki.

Því liggur nærri að skilgreina trúarbrögð sem menningarleg kerfi sem tengjast yfirnáttúrulegum verum á einhvern hátt. Þetta er sú skilgreining sem menn hallast að í hugrænum trúarbragðafræðum (cognitive science of religion).

Ég er alveg sammála því að hlutverkaskilgreining trúarlífsfélagsfræðinnar er gagnslaus því við getum ekki lengur greint milli golfs og miðnæturmessu.

Það þýðir samt ekki að trúalífsfélagfræðin eigi ekki rétt á sér. Það getur verið áhugavert að bera saman ólíka hópa útfrá félagslegu skipulagi -- trúarhópa, stjórnmálaflokka, félög - en við þurfum innihaldsskilgreining til þess að greina á milli hópanna.

Vandamálið er auðvitað að það er enginn konsensus í trúarbragðafræðunum almennt um hvernig skilgreina eigi trúarbrögð.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.