Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um trúarlegt uppeldi

Ekki fyrir alls löngu ritaði djákninn Ásdís Pétursdóttir Blöndal áhugaverða grein sem bar titilinn Á ég að veita barninu mínu trúarlegt uppeldi? Það er í sjálfu sér mikill sigur fyrir okkur að nú á dögum séu jafnvel kirkjunnar menn farnir að spyrja sig þessarar spurningar í stað þess að gefa sér að svarið sé já. En eins og oftast þegar kirkjunnar menn grípa til pennans höfum við ýmislegt við afurðina að athuga.

Tveir þræðir eru ríkjandi í greininni. Í fyrsta lagi virðist Ásdís reyna að skapa sér einhverja andstæðu í gegnum alla greinina. Einhverja skoðun til að gagnrýna. En það virðist ekki skipta hana miklu þó þessar skoðanir sem hún gagnrýnir, séu vart til í samfélagi okkar.

Strámannsbrenna

Afstöðuleysi og þöggun eru orð sem hún notar í því samhengi. Ég veit ekki um neinn fjölda fólks sem vill boða börnum sínum afstöðuleysi, nema þá að Ásdís leggi töluvert aðra merkingu í það orð en ég. Og það er mér algjörlega framandi að einhver hér á landi vilji þagga niður í umræðum um trú svo að krakkarnir fái ekki að heyra um allar hinar misskrautlegu goðsagnir sem fólk hefur sagt hvort öðru gegnum árþúsundin. Er Ásdís hér að brenna strámenn eða er hún kannski bara ekki allveg fyllilega með á nótunum í þessari umræðu?

“Trúarblanda” virðist svo taka við sem andstæðingurinn í öðrum hluta greinarinnar. Hvað nákvæmlega hún á við hér er mér fyrirmunað að skilja.

Sérfræðingar telja að blanda af trúarskoðunum skapi óskýra sjálfsmynd hjá fólki sem leitar þá að öryggi í efnislegum þáttum sem leiði af sér efnishyggju.

Á hún við það þegar fólk aðhyllist mörg trúarbrögð eins og þau leggja sig eða þá parta og parta úr mismunandi trúarbrögðum? Og hvað á hún við með efnishyggju? Er það efnishyggja góðærisins sem sagði allt falt og setti efnisleg gæði ofar öllu öðru? Og er þetta þá ekki marklaust í sama mæli og þetta er torskilið?

Nútímamenning kennir mátaðu og prófaðu skoðanir sem getur gert börn ráðvillt.

Já vissulega getur verið erfitt fyrir lítið barn að mynda sér skoðanir þegar það er urmull af mismunandi skoðunum allt í kringum það, þó misgáfulegar séu. Væri ekki bara betra að við kæmum okkur niður á eina óumbreytanlega skoðun sem væri boðuð sem heilagur sannleikur í öllum skólum og á öllum heimilum landsins? Nei bíddu nú við, var það ekki einu sinni þannig? Þarna aftur í forneskju þegar öll menntun heimsálfunnar var í höndum stofnunar sem taldi sig sjálfa eina réttmæta boðbera guðs sannleika á jörðu. Já fyrirgefðu ef okkur hugsandi fólkinu klígjar við tilhugsuninni um að hverfa aftur í það farið. Ef þig langar til að láta mata þig á “sannleikanum” og hafa það viðhorf fyrir börnunum þínum þá máttu það okkar vegna.

Bullið endalausa

Hinn þráðurinn sem greinin virðist byggja á eru tilvitnanir í hina ýmsu fræðimenn sem tjáð hafa sig um málið. Það sem ég hef við þessi “sérfræðiálit” að athuga er einna helst það að flest þeirra eiga stutt í aldarafmæli sitt og bera þess glögglega merki. Ein tilvitnunin stendur þó útúr en það eru eftirfarandi orð Sálfræðingsins Erik Eriksson sem á að hafa látið eftirfarandi útúr sér:

Væri trúarþörfinni ekki fullnægt í trú á Guð væri hætta á að henni yrði fullnægt hjá leiðtogum eða stefnum, trúarlegum eða pólitískum, sem hefðu alræðistilhneigingu.

Og hvaða gögn standa bakvið þessa fullyrðingu? Hefur einhverntímann verið sýnt fram á tengsl milli guðleysis og leiðtogahollustu, pólitískrar athafnamennsku eða alræðistilhneigingar? Ef svo er þá þætti mér nú gaman að fá að vita af því, en þangað til er þessi tilgáta einskins virði í viðræðum við viti borið fólk. Það dugar ekki að vitna í mikla snillinga ef það sem þeir segja er órökstudd kjaftæði.

Því betur sem börn eru að sér í kristinni trú, því meiri möguleika hafa þau á að bera hana saman við aðrar kenningar og þannig hafna henni eða halda á grundvelli þekkingar. Ef börnin eru ekki alin upp í trú, fara þau á mis við það frelsi sem felst í að geta hafnað trúnni á grundvelli reynslu og þekkingar.

Er kannski málið að trúarlegt uppeldi er ekki bara hlutlaus fræðsla um trúnna heldur felur hún í sér boðun og innrætingu. Vissulega er mikill léttir af því að losna við þær andlegu klyfjar sem trúin ber oft með sér, en væri þá ekki bara enn betra að vera ekki að leggja þá byrgði á blessuð börnin?

Ljóstíra í lokin?

En svo við endum þetta á jákvæðu nótunum skulum við líta á eina góða tilvitnun í þessa grein þó höfundurinn hafi ef til vill lagt annan skilning í orð sín þegar hún ritaði þau:

Til að barn geti myndað sér heilbrigðar skoðanir þarf það að fá að kynnast hlutunum.

Akkúrat, kynntu barninu þínu endilega þína trú, og trú nágranna þíns og samlanda. Kynntu það fyrir öllum þeim mismunandi trúar og lífsskoðunum sem það er líklegt til að komast í snertinu við í gegnum lífið. Kenndu því UM trú en forðastu að innræta því eina trú sem hina einu réttu.

Haukur Ísleifsson 12.02.2010
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 12/02/10 11:37 #

Sérfræðingar telja að blanda af trúarskoðunum skapi óskýra sjálfsmynd hjá fólki sem leitar þá að öryggi í efnislegum þáttum sem leiði af sér efnishyggju.

Ég geri nú ráð fyrir að hún eigi við efnishyggju í naturalisma skilningi. Þeas. að efnið sé það sem er, annað séu draumórar; að hugsun okkar sem dæmi sé efnisleg, en ekki sál að leika sér í kroppi.

Í því samhengi er ég mjög sáttur við "sérfræðingana" hennar, því það er afar vitræn niðurstaða, þegar allar hinar fjölmörgu óprófanlegu hugmyndir um yfirnáttúru er bornar saman, að álykta sem er að þetta séu hlutir sem ekkir er hægt að staðfesta og hugsanlega tómur uppspuni.

Efnið er hinsvegar ekki uppspuni svo við getum gefið okkur, og náttúrulögmálin eru það eina sem við þekkjum sem er svo gott sem algilt.

Hugmyndirnar þurfa því að passa við náttúrulögmálin, eða vera að öðrum kosti líklega ósannar, eins og reynsla okkar yfirleitt sýnir.

Eða eins og setning sem ég var að snara á öðru bloggi áðan segir:

Þegar þú lagar hugsun þína að einu samfelldu kerfi, verður niðurstaðan trúleysi.


Davíð - 12/02/10 11:39 #

Ég er vægast sagt ósammála henni varðandi að trúað barn sem líklegra til að hafa frelsi til að velja og hafna varðandi trú seinna meir. Kannski er það bara ég en það meikar ekkert sens fyrir mér. Persónulega tók það mig mörg ár að verða alveg trúlaus og ég sé það greinilega í kringum mig hvað barnatrúin hefur lúmskt sterk tök á einstaklingum.

Að boða enga trú gefur mesta frelsið (en trúarbragðafræðsla þarf samt auðvitað að vera)


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 12/02/10 11:46 #

Sammála, Davíð. Þetta hljómar afar furðulega. Svo er líka eitt að fá mikla fræðslu um eitthvað og að annað að vera hvattur til að taka trú...


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 12/02/10 12:27 #

Sammála, Davíð. Þetta hljómar afar furðulega. Svo er líka eitt að fá mikla fræðslu um eitthvað og að annað að vera hvattur til að taka trú...

Þá á ég við að ég er ekki viss um að hún geri þar mikinn greinarmun á.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 12/02/10 16:15 #

Já það er oft eins og fólkið á þessu mbæ geri lítin sem engan greinamun á boðun og fræðslu.

Annars er ég sammála því að það að læra hlutlaust um öll trúarbrögðin sem í boði eru sé einna líklegast til að leiða mann að þeirri sömu niðurstöðu og ég komst að. Að þetta væri líklega bara allt vitleysa.


Ásdís Pétursdóttir Blöndal - 13/02/10 18:02 #

Þakka ykkur fyrir sýndan áhuga og athyglisverð viðbrög við greininni minni. Þetta eru mjög áhugaverðar rökræður sem eiga fyllilega rétt á sér.Málið snýst ekki um rétt eða rangt heldur að við höfum ólíkar jafnréttháar skoðanir á trúmálum því vissulega ríkir trúfrelsi á Íslandiog ég fagna þessum skoðanaskiptum.

Mig langar að varpa fram einum nýjum vinkli inn í þessa umræðu sem ég upplifi daglega í starfi mínu sem djákni:

Þegar líður að lífslokum eru þeir ríkir sem hafa fengið trúaruppeldi í æsku og ræktað trú sína. Trúin gefur þeim mikinn styrk á síðustu metrum lífsins og iðkun trúarinnar gefur þessum einstaklingum gleði. Það er eins og þau hitti gamla vini þegar þau heyra biblíuvers og sálma sem þau þekkja og það gefur þeim góðar tilfinningar. Þau eiga jafnframt góða heimvon þegar þessu lífi líkur og kvíða síður dauðanum en þeir sem enga trú eiga og bænin og trúin hjálpar þeim í baráttunni við þunglyndi, kvíða, óöryggi og einmanaleika sem sækir á marga aldraða þegar heilsan brestur og endalokin nálgast. Þá er gott að eiga Guð að í fararteskinu.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 14/02/10 11:38 #

Sæl, Ásdís Eins mikið og mig langar til að svara þér þá hefur annar penni beðið um orðið og ætlar að svara þessum fullyrðingum og skoðunum þínum í forsíðugrein fljótlega.

Takk fyrir innlitið og vonandi kemur greinin sem fyrst.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/02/10 12:31 #

Þegar líður að lífslokum eru þeir ríkir sem hafa fengið trúaruppeldi í æsku og ræktað trú sína. Trúin gefur þeim mikinn styrk á síðustu metrum lífsins og iðkun trúarinnar gefur þessum einstaklingum gleði. Það er eins og þau hitti gamla vini þegar þau heyra biblíuvers og sálma sem þau þekkja og það gefur þeim góðar tilfinningar. Þau eiga jafnframt góða heimvon þegar þessu lífi líkur og kvíða síður dauðanum en þeir sem enga trú eiga og bænin og trúin hjálpar þeim í baráttunni við þunglyndi, kvíða, óöryggi og einmanaleika sem sækir á marga aldraða þegar heilsan brestur og endalokin nálgast. Þá er gott að eiga Guð að í fararteskinu.

Er þetta ekki dæmi um að búa til mein svo hægt sé að græða það?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.