Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

MMS kraftaverkalausnin og Síðdegisútvarp Rásar 2

mms kraftaverkalausninÍ fréttum í gær var fjallað um s.k. kraftaverkalausn eða MMS, Miracle mineral solution, en eitrunarmiðstöð Landsspítala, sóttvarnarlæknir, Lyfjastofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun sendu frá sér sameiginlega viðvörun um að sala á þessari hættulegu vöru fari að einhverju leyti fram gegnum netið hér á landi (umfjöllun Morgunblaðsins og DV.is).

Seinna um daginn kom líka fram að þessi vara sé einnig til sölu í heilsubúðum í Reykjavík, með þeirri auglýsingu að þetta geti jafnvel læknað lifrarbólgu A, B og C, AIDS, herpes, berkla, astma, lúpus og krabbamein.

Ofangreindar stofnanir vara eindregið gegn notkun þessarar vöru, segja að engin vísindaleg gögn styðji notkun MMS við sjúkdómum og að inntaka á efninu geti valdið metrauðablæði, skemmdum á rauðum blóðkornum og nýrnabilun. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna sendi nýverið frá sér viðvörun til söluaðila.

Um er að ræða 28 % lausn natríumklóríts, en það efni er með efnaformúlu NaClO2. Athuga skal að á íslenskunni er eingöngu eins stafs munur á efninu natríumklórít og natríumklóríð, en natríumklóríð með efnaformúlu NaCl, er efni sem við þekkjum vel sem matarsalt.

Það er auðvitað grafalvarlegt mál að það skuli vera til sölu hættulegt efni í heilsubúðum, og sem ráðlagt er til inntöku. Það er ekkert nýtt að heilsubúðirnar (svo kölluðu) þrífast á því að selja fólki sem veit ekki betur, ýmis konar snákaolíu, hvort sem það eru skaðlausar hómopataremedíur, blómadropa eða Herbalife en maður átti kannski ekki von á því að heilsubúðirnar væru farnar að selja eiturefni sem eingöngu ættu að vera á rannsóknarstofum eða læstum vinnuskáp málarans.

Ég segi, hingað og ekki lengra. Nú þurfa matvæla- og lyfjaeftirlit landsins að fara taka sig á, viljum við virkilega að kuklbúðir landsins geti reynt að selja landsmönnum hvað sem er ?

Síðdegisútvarp Rásar 2

Rás 2 var svo nálægt Íslandsmeti í óábyrgri fréttamennsku með umfjöllun sinni í Síðdegisútvarpinu í gær. Byrjað var að tala við Harald Briem sóttvarnarlækni um málið en svo var tekið viðtal við verslunarkonu í Heilsubúðinni. Þarna hefði maður átt von á því að fréttamaðurinn hefði jafnvel kynnt sér málið aðeins og tæki þann pól í hæðina að spyrja bara hreint út "Hvað í ósköpunum eruð þið að gera með að vera selja landsmönnum eitur á brúsa ?!"


Hlustið á umfjöllun Síðdegisútvarps

Í staðinn var eins og fréttamaðurinn teldi sig vera að ræða um Icesave og ESB og að það væru alltaf tvær hliðar á öllum málum, þ.e. að manneskjan í heilsubúðinni væri jafn mikill sérfræðingur og sóttvarnarlæknir og að það væri enginn einn sannleikur í þessu máli. Umfjölluninni lauk með upplestri af vefsíðu einhvers hómopata um MMS lausnina.

Það kom fram í máli heilsubúðarkonunnar að MMS lausninni eða natríumklórítlausninni sé blandað saman við sítrónusýru og að þá verði til annað efni, natríum klórdíoxíð, sem sé allt annað efni og ekki ætandi. Taldi konan þetta því greinilega hið besta mál og sagðist einmitt hafa fengið sér slurk í morgun.

Við blöndun sítrónusýru og natríumklóríts verður vissulega til annað efni, sem heitir klórdíoxíð, ClO2 (ekki natríum). En það efni er stórhættulegt líka. Auk þess sem það umbreytist í klórít í líkamanum og jafnvel í klórat einnig, enn eitt stórhættulegt efni.

Allt eru þetta þekktir oxarar, m.a. notaðir til að bleikingar á tau og pappír og hafa þessi efni einnig verið notuð sem sótthreinsandi efni lengi vel, m.a. til hreinsunar vatns og væntanlega er hugmyndin um bakteríu- og veirudrepandi virkni þeirra þaðan komið. En maður sótthreinsar ekki innri líkamann með stórhættulegum efnum, ekki frekar en að maður gleypir ofnhreinsi! Þetta segir sig eiginlega sjálft. Í MMS lausninni er svo um að ræða mjög háan styrk natríumklóríts.

Þeir landsmenn sem hafa verið á þessum MMS-kúr gætu mögulega verið komnir með blóð-, nýrna- eða lungnaskemmdir þökk sé "sérfræðingum" í heilsubúðunum. Huggulegt eða þannig...

Viðbót

Rætt var við Sigríði Ævarsdóttur hómópata um mms í morgunþætti Rásar2 í morgun.

Ragnar Björnsson 13.01.2010
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Guðlaugur Örn (meðlimur í Vantrú) - 13/01/10 09:12 #

Flott grein Ragnar.

Vonum bara að fólk hafi ekki hlotið alvarlegan skaða af þessu kjaftæði.. og læri að hlusta á fagmenntað fólk sem raunverulega veit hvað það er að tala um - og taki orðum skottulækna með góðum fyrirvara.


Trausti Freyr (meðlimur í Vantrú) - 13/01/10 09:36 #

@ Guðlaugur:

Láttu þig dreyma ;)


Þröstur - 13/01/10 09:47 #

magnaðar útvarpskonur! Hlustaði á þetta og fannst hreinlega eins og þetta væri auglýsing fyrir vöruna.

Hefði verið gaman að fá að heyra frá lækninum aftur eftir að hafa heyrt hlið konunnar í heilsubúðinni.


Gummi - 13/01/10 10:55 #

Hahaha að hlusta á þessa umfjöllun er eins og að hlusta á eitthvað grín!! Í fyrsta lagi vita þessar útvarpskonur nákvæmlega ekki neitt um hvað þær eru að tala og svo er viðtalið við sóttvarnalækni eins og 7 ára barn sé að spyrja hann spurninganna, hún spyr bara í hringi og veit ekkert hvað hún er að gera. Hápunkturinn er svo þegar önnur kvennanna fer að fræða okkur um að matarsalt sé enn-a-sé-i en natríumklórít sé enn-a-sé-i-o-tveir!!! Ég hélt ég myndi hreinlega sálast ég hló svo mikið =)


Ester - 13/01/10 12:49 #

Sóttvarnarlæknir þyrti að vera mun harðorðari og skýrari í svona tilfellum. Ég get ímyndað mér að húsfrú útí bæ sem heyrir fyrst í honum og svo í kuklaranum sem hljómar 100% viss um gæði efnisins eigi frekar eftir að trúa kuklaranum... Og ekki skemmir það fyrir málstaðnum að hún hafi fengið sér sopa sjálf í morgun!

Og þessar útvarpskonur eru til skammar. Vitna í "menntaðan" hómópata sem sérfræðing og taka öllu sem hann/hún segir sem einhverskonar sannleik.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/01/10 14:41 #

Ég var að bæta upptöku úr morgunþætti Rásar2 neðst í færsluna. Þar var rætt við Sigríði Ævarsdóttur hómópata um efnið mms. Þáttastjórnendur mega eiga það að þeir reyndu að vera dálítið gagnrýnir.


Erlendur - 13/01/10 15:31 #

Það væri reynandi að selja sumu af þessu fólki svona: http://hnakkus.blogspot.com/2010/01/lausn-fyrir-trugjarna.html


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 14/01/10 11:43 #

@Erlendur

Þetta er frábært. Hvar kaupir maður svona:)


Siggi Örn (meðlimur í Vantrú) - 15/01/10 09:16 #

Komin út yfirlýsing frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.


Helgi - 08/02/10 23:01 #

• Óhætt er fyrir börn að taka efnið. IJOADFJIOASDJIODASJIODSAJIOASDJIOJIOSDG FGOKPFGPOOFKPGKOPFKOPSDFKODFKSPOD Það á að taka internetið af svona fólki. Og réttinn til að varpa hlutum fram sem staðreyndum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.