Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Stjörnuspekingur eða stjörnuglópur

Séra Bolli

Ég er einn af stjörnuspekingum ríkisins. Pabbi var stjörnuspekingur og systir mín er stjörnuspekingur (og maðurinn hennar). Stjörnuspeki er ofsalega merkileg fræðigrein, mörg þúsund ára gömul, og uppfull af visku og speki. Menn þurfa bara að passa sig á að taka ekki allt bókstaflega. Fræðin þarfnast nefnilega túlkunar eins og einn starfsbróðir minn sagði: „Spekin birtist ekki nema með því að lúta að útlistuninni, hugsa um hana, upplifa hana – eða breyta henni.“

Svo merkileg er þessi fræðigrein að hún er kennd við Háskóla Íslands og ríkið heldur uppi Stjörnuspekimiðstöð ríkisins og allir landsmenn voru skráðir meðlimir í henni fyrir nokkrum árum. Svo eru börn við fæðingu skráð sjálfkrafa í sama hóp við fæðingu og móðir þeirra. Að vísu hafa nokkur þúsund manns haft fyrir því að skrá sig úr hópnum en þó eru tæplega 80% landsmanna skráð í hópinn minn.

Sem stjörnuspekingur ríkisins fæ ég um 600 þúsund krónur á mánuði fyrir að ígrunda stjörnuspeki og miðla henni til annarra og svo rukka ég auðvitað hvern og einn ef ég þarf að veita honum einhverja þjónustu. Ég hef lagt sérstaka stund á að fullvissa börn í leikskólum um ágæti þessara fræða en því miður hefur sú iðja mín hlotið mikla gagnrýni. Þar sem nú eru áramót ákvað ég að skrifa hugvekju um þessi mál og miðla til bæjarbúa.

Það sem ég vildi segja er þetta:

Sko, stjörnuspeki er alveg svakalega mikil speki og það er ofsalega merkilegt að leggja stund á hana. Til þess þarf elju og dugnað sem jafna má við að byggja upp atvinnu í plássinu eða jafnvel heilt þjóðfélag. Þessi speki og andans dýpt er ekki öllum gefin en mér leiðist þegar menn gera grín að þessu brölti mínu. En það ætti þó ekki að gera grín að þeim sem gagnrýna þetta því þeir hafa bara ekki náð jafndjúpt og ég, þótt þeir séu eflaust að gera sitt besta. Sem göfugur maður vil ég heldur óska þeim góðs gengis við að ná jafnlangt og ég.

Mér leiðist þegar fólk er að þrátta um það hvort það sé hættulegt eða ekki fyrir litlu börnin að heyra um stjörnuspeki. Heyrði reyndar meira um þetta talað sem þjónandi stjörnuspekingur á höfuðborgarsvæðinu og umræðan er þrautseig. Stöndum bara vörð um börnin okkar og gerum ekki stjörnuspekina hættulega í huga þeirra, því þá missa þau af því að takast sjálf á við dýpt spekinnar og marka sér braut í þeim efnum.

Hvernig væri að takast á við dýpt stjörnuspekinnar, dýpt lífsins og prófa þig áfram með spekinna að leiðarljósi? Ég persónulega stefni að því ásamt því að taka af mér nokkur kíló af holdi, efla þannig sál og líkama.Mér leiðist þegar verið er að afgreiða hlutina sem vonlausa eða helbera lygi, í slíkri afgreiðslu felst leti eða ótti. Mér leiðist þegar verið er að kalla fólk fífl eða hálfvita ef það vogar sér að vitna um speki sína eða spik.

(Tilefni þessarar greinar er prédikun Bolla Péturs Bollasonar í dag)

Reynir Harðarson 31.12.2009
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Björn I - 31/12/09 14:27 #

Á þessi maður ekki a.m.k. tvær systur sem báðar eru stjörnuspekingar hjá ríkinu? Mig minnir að þær heiti Jóna og Hildur.


Hildur Eir Bolladóttir - 01/01/10 22:41 #

Faðir okkar er látinn, ég bið þig að virða minningu hans þó þér finnist lítið til okkar systkinanna koma. Hildur Eir Bolladóttir


Nonni - 01/01/10 22:55 #

Hildur, fannst þér vegið að föður þínum í þessum pistli?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 01/01/10 23:46 #

Ég þakka Hildi Eir Bolladóttur innlitið en skil ekki dylgjurnar.

Jónu Hrönn Bolladóttur þekki ég aðeins af óheiðarleika í Vinaleiðarmálinu.

Bolla Pétur Bollason þekki ég bara af ásókn hans í leikskólabörn.

Fram til þessa var eina vitneskja mín um Hildi Eir Bolladóttur að hún fékk Ágústínusarverðlaun 2007 fyrir að segja "Siðfræði er guðfræði" og svo hitt að hún er á móti Kárahnjúkavirkjun því lónstæðið var sköpunarverk guðs og því bæri ekki að raska því (ólíkt hólnum sem Laugarneskirkja stendur á, vænti ég).

Álit mitt á stjörnuspekingum jókst lítið við þessa athugasemd.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/01/10 03:38 #

Heyra má Bjarna Karlsson, í næsta sunnudagaskóla hér á Vantrú, tala um nauðsyn þess að trúlausir og trúmenn (þá væntanlega ekki síst guðfræðingar og prestar) efli samræðuna. En svo bólar ekkert á prestunum, nema þá í einhverri svona yfirlætislegri mýflugumynd, eins og sést hér að ofan.

Hildur, hvað finnst þér um þessa samlíkingu/framandgervingu á störfum ykkar systkina? Á hún rétt á sér? Náið þið að sjá störf ykkar á einhvern hátt í nýju ljósi? Af hverju þessi endalausa þögn úr ykkar átt?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 07/01/10 09:35 #

Er þetta ekki kostulegt?

Nú vitum við að þessir stjörnuspekingar guða hér á glugga og að allir hafa þeir lært nokkuð sem kallast "trúvörn". Allir segja þeir sögur af "glataða syninum" og prédika að "ekki þurfi heilbrigðir læknis við heldur hinir, sem sjúkir eru". Fyrirmynd þeirra og leiðtogi gerði sér far um að umgangast úrhrök samfélagsins, s.s. sjúka og tollheimtumenn. Efasemdarmaðurinn Tómas fékk meira að segja að vera memm.

Annað hvort er þekking þeirra á trúvörn í molum, kjarkur þeirra svona lítill eða þeim er sléttsama um þá sem ekki hafa hlotið þá gjöf að trúa.

Á tru.is er lokað fyrir athugasemdir og þeir stjörnuspekingar sem eru með eigin bloggsíður loka oftar en ekki fyrir athugasemdir vantrúarmanna.

Það hlýtur að vera svona sljóvgandi að liggja á spena ríkisins og þurfa ekki einu sinni að sjúga.


Guðmundur - 08/01/10 01:39 #

Hafið þið íhugað þann nærtæka möguleika að þið séuð svo óhemju LEIÐINLEGIR að enginn nenni að svara ykkur, hvorki stjörnuspekingar né aðrir?

Plís, vísið mér svo á wikipediasíðu um þá rök- eða hugsanavillu sem ég geri mig sekan um — það er svo gasalega skemmtilegt og upplýsandi!


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 08/01/10 03:36 #

Hér er ein.


Andrea - 08/01/10 05:41 #

'Hafið þið íhugað þann nærtæka möguleika að þið séuð svo óhemju LEIÐINLEGIR að enginn nenni að svara ykkur, hvorki stjörnuspekingar né aðrir?'

Hefur þú íhugað þann nærtæka möguleika að það sé svo mikill sannleikur í orðum Vantrúarmanna að það hafi enginn nein marktæk mótsvör við þeim, hvorki stjörnuspekingar né aðrir?


Írena - 08/01/10 06:02 #

Hveeeer var ownaður Guðmundur? Vassassú?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/01/10 10:23 #

Ég stenst ekki mátið að vekja athygli á nýjustu afrekum þessarar fjölskyldu. Nú vill eiginmaður systurinnar frama í pólitík og hans fyrsta verk er að þverbrjóta framboðsreglur.

Hér er svo afsökunin.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/04/10 09:17 #

Fylgist með fréttum frá Akureyri.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.