Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristin trú ER hindurvitni

altarisganga

Í greinum á þessu vefriti og á bloggum félagsmanna Vantrúar hefur kristin trú stundum verið kölluð hindurvitni. Í gegnum tíðina og undanfarið hefur borið töluvert á því að kristnir menn móðgist þegar þetta orð er haft um skoðanir þeirra á lífinu og tilverunni. Skiljanlega segja sumir, en ég ætla að leyfa mér að andmæla því.

Orðabókin mín segir að hindurvitni sé m.a. hjátrú, kerlingarbók eða bábilja. Orðið hjátrú skilgreinir hún svo frekar sem „trú á óraunverulega hluti“ eða „trú á tilvist e-s sem fer í bága við (vísindalega) heimskoðun samtímans“. Bábilja segir hún að merki „bull“ og kerlingabók er svo aftur kredda eða „(heimskuleg) hjátrú“. Ég held að þessa orðanotkun hljóti flestir að samþykkja, kristnir menn og aðrir.

Nú er svo farið með mig, líkt og aðra félagsmenn Vantrúar, að ég trúi ekki á Guð, upprisuna, meyfæðinguna, kraftaverkin né aðra hluti sem kalla mætti undirstöður kristinnar trúar. Jafnvel mætti segja að mér þyki þetta allt saman óttalegt bull.

Nú er vert að veita því athygli að af þessum skoðunum mínum um mikilvægustu atriði kristinnar trúar og skoðunum mínum um merkingu orðsins „hindurvitni“ leiðir röklega að ég hljóti að telja kristni trú vera einmitt það, hindurvitni. Ég get ekki annað en álitið hana annað en „trú á óraunverulega hluti“ og óneitanlega brýtur margt sem þar er að finna, til að mynda upprisan, meyfæðingin og öll hin kraftaverkin, í „bága við (vísindalega) heimskoðun samtímans“. Að svo miklu leyti sem ég tel kristna trú ósanna, hlýt ég að telja hana hindurvitni.

Nú eru kristnir menn að sjálfsögðu ósammála mér um hvort kristin trú eigi að kallast hindurvitni eða ekki, en að mógðast vegna þess að ég skuli vera þeirrar skoðunar er ekkert annað en, eins og Stephen Fry komst nýlega að orði, væl. Sú skoðun mín að kristin trú sé hindurvitni leiðir, eins og áður sagði, röklega af öðrum skoðunum mínum um kristna trú, skoðunum sem varla má kalla móðgandi. Ef kristin trú er sönn, eins og kristnir menn hljóta óhjákvæmilega að telja, þá ætti þeim að vera í lófa lagið að sannfæra okkur hin sem efumst.

Þess vegna segi ég við þá kristna menn sem hugsanlega gætu lesið þetta: Hættið að væla og sannfærið okkur.

Ásgeir Berg Matthíasson 16.12.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/12/09 14:27 #

Það er einfaldlega enginn munur á kristinni trú og öðrum bábiljum sem sýsla með guði og yfirnáttúrlegar verur. En vegna sterkar stöðu kirkjunnar í samfélaginu telja guðfræðingar sig þess umkomna að umgangast þessi tilteknu hindurvitni á annan hátt en t.d. astrólógíu.

Það skýtur skökku við í nútímasamfélagi að meðan menn hafa aflagt alkemíu og tekið upp efnafræði, skilið við stjörnuspeki og tekið upp stjörnufræði, að guðfræðideildin skuli enn vera föst í hvað guði lútersk-kristinna gengur til í stað þess að fjalla einungis fræðilega um ranghugmyndir manna um yfirnáttúru á öllum tímum.


Jón Arnar Magnússon - 16/12/09 19:40 #

Kæri lesadi góður

Það er gott að efast, það kemur manni niður á jörðina.

Það er svo margt til sem við vitum ekkert um hvort að sé raunveruleiki eða skáldskapur.

Td vitum við ekkert hvað gerist þegar líf deyr og heldur vitum ekkert um hver er munurinn á lífi hins vegar og dauða annars vegar.

Ég trúi á líf á öðrum hnöttum þótt það sé ekki vísindalega sannað og þá spyr ég geta vísindin hjálpað okkur að búa til líf úr dauðum hlut.

Hugsum okkur að við gætum lífga persónuna. Þar af leiðandi finnst mér gott að trúa og fyrir mér er trú sem tól til þess að komast í gegnum sálarlífið. Bænin sem slík er hugleiðsla. Ég er ekki að biðja til eitthvað sem er þarna úti heldur til minn innri manns.

Mér finnst Biblían ekki vera heillög bók eins og margir tala um. Fyrir mér gengur trúin meira út á að trúa á kærleikan og hið jákvæða þannig að ég get bygg upp minn innri mann. Þar að ég segi að ég trúi á að kærleikurinn sé til þótt að það sé kannski ekki vísindalega sannað. Svo nota ég nokkur tákn til þess að hjálpa mér að hugsa jákvæðara um mig sjálfan og aðra.

Er þessi trú hindurvitni? það er spurning

Ég skil það vel að hér inn eru menn sem efast um kristnatrú. það gefur mann tækifæri í stað þess að segja nei í upphafi þá frekar kem ég með spurningu Er Guð til? Þá fyrst þarf að skilgreina orðið Guð?

Ég trúi á að guð sé tákn kærleikans og Jesús er fyrirmynd okkur að kærleikanum. Er þessi trú hindurvitni?

Bull segja margir án þess að íhuga.

Fyrir mér er þessi bók biblía segja mér lítið um þá heimsmynd sem ég trúi á.

Meirihluti af Biblíunni fjallar um kærleikanum af því sem ég hef séð af henni.

Það voru menn sem skrifuðu bókina en ekki þessi maður Jesú sem sumir halda að hafa fæðst en aðrir segja að hann sé hugaburður.

Menn spyrja um kraftaverk, hvað eru kraftaverk væri gott að vita áður en fara deila um kraftaverk.

Er það ekki kraftaverk að úr einni sáðfrumu og einu eggi birtist ný lífvera. Hvers vegna ert þú til en ekki einhver annar? Af hverju fæddist þú?

Það veit engin svörin við þessum spurningum eða hvað.

Það veit heldur engin hvar við vorum áður en við fæddumst.

Sumir segja ekkert, er þá ekki kraftaverk að nýr lifandi einstaklingur verður til úr engu.


G2 - 16/12/09 20:16 #

@Jón

Það er svo margt til sem við vitum ekkert um hvort að sé raunveruleiki eða skáldskapur.

Satt og rétt. Það er samt óþarfi að gera skáldskapinn að raunveruleika, líkt og margur trúmaðurinn vill gera.

Td vitum við ekkert hvað gerist þegar líf deyr og heldur vitum ekkert um hver er munurinn á lífi hins vegar og dauða annars vegar.

Ekki rétt - við vitum ýmislegt um líf og dauða. Ég get t.a.m. staðhæft að afi minn sé steindauður.

Ég er ekki að biðja til eitthvað sem er þarna úti heldur til minn innri manns.

Um hvað ertu að biðja þinn innri mann?

Ég trúi á að guð sé tákn kærleikans og Jesús er fyrirmynd okkur að kærleikanum. Er þessi trú hindurvitni?

og

Meirihluti af Biblíunni fjallar um kærleikanum af því sem ég hef séð af henni.

Hér ertu alveg úti að aka - hver er eiginlega þín skilgreining á kærleika? Jesú er ákaflega grimmur, boðar t.d. eilífa helvítisvist þeirra sem eru honum ekki að skapi. Biblían er sömuleiðis full af hinum aðskiljanlegasta viðbjóði og víða er sagt frá ofbeldis- og grimmdarverkum gvuðs og fylgjenda hans.

Er Guð til?

Nei.

Er það ekki kraftaverk að úr einni sáðfrumu og einu eggi birtist ný lífvera. Hvers vegna ert þú til en ekki einhver annar? Af hverju fæddist þú?

Nei, þetta er ekki kraftaverk - fræðigreinin líffræði útskýrir þetta ágætlega. Spilverkið söng á sínum tíma; hví er ég, ég en ekki þú. Það er ágætis hugarleikfimi - láttu okkur vita þegar þú finnur svarið.

Það veit heldur engin hvar við vorum áður en við fæddumst.

Helmingurinn af þér var í eggjastokk móður þinnar, hinn helmingurinn í pung pabba þíns. Gátan leyst.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 16/12/09 20:42 #

Það eina sem ég hef að segja þér Jón Arnar er að af þessari lýsingu á "trú" þinni get ég enganveginn sagt að þú sért kristinnar trúar. Til að teljast sem slíkur þyrftiru til að byrja með að trúa á að Ésú hafi verði/sé sonur "Guðs"/"Guð" og að hann hafi dáið fyrir syndir okkar. Og þar með þarftu að trúa á erfðasyndina.


Þröstur Hrafnkelsson - 16/12/09 23:55 #

Sammála Hauki - þú ert eiginlega ekki kristinn trúaður - frekar bara húmanisti. Þetta er hálfgerður orðaleikur hjá þér. Þú kallar hugleiðslu bæn og kærleik Guð. Skv. þeirri skilgreiningu væru við öll trúuð! Ég skil þig þá þannig að Guð er ekki vera, ekki skapari alheimsins heldur hluti af lifandi verum sem hafa kærleik. Er þetta rétt?


Kristall Plús, rauður - 17/12/09 02:03 #

"Er það ekki kraftaverk að úr einni sáðfrumu og einu eggi birtist ný lífvera. Hvers vegna ert þú til en ekki einhver annar? Af hverju fæddist þú?"

Nei það er ekki kraftaverk. Pabbi þinn reið mömmu þinni líklega á dýrslegan hátt og þau deildu niður litningum á þig. Jafnt og hlutlaust. Það gerði þig að þig. Þetta er bara náttúrulegt. Svipað og að segja að storknun blóðs sé kraftaverk.

"Það veit engin svörin við þessum spurningum eða hvað."

Það vita allir með vísindalega eða a.m.k. rökfræðilega hugsun, sem vita um erfðir þróun og svipaðar vísindalega kenningar, og vafalaust fleyri.

"Það veit heldur engin hvar við vorum áður en við fæddumst."

Þú varst meirihluta "lífs þíns" eggfruma í móður Þinni. Síðan einn góðan veðurdag varð hinn helmingurinn af þér til í öðru eista pabba þíns. Og eftir sveitt kynmök og fullnægingu föður þíns skaustu inn í píku móðir þinnar. Þar syntir þú upp leg hennar og fannst loksins hinn helming þinn. Þið fóruð saman og gáfuð litninga ykkar 50% 50% til að gera þig. U.þ.b. níu mánuðum síðar fæddist þú.

"Sumir segja ekkert, er þá ekki kraftaverk að nýr lifandi einstaklingur verður til úr engu."

Ég ætla að benda á þetta

http://en.wikipedia.org/wiki/Conservation_of_energy

Það er hvorki hægt að búa til né eyða orku. Þannig að þú varðst ekki til úr engu. Þú varst einfaldlega annað form orku.


Ómar Harðarson - 17/12/09 18:46 #

Ég get tekið undir allt í greininni nema síðustu þrjú orðin. Ég er orðinn svo hatrammur guðleysingi að mér finnst að það ætti að banna trúboð með öllu. Þeir kristnu mega hætta að væla, en mikið svakalega væri gott ef þeir hættu líka að reyna "sannfæra" okkur hina um delluna í sér. Önnur trúarbrögð mega þó eiga það að þar er mönnum yfirleitt ekki uppálagt að pirra náungann.


FellowRanger - 17/12/09 21:32 #

Leitt að sjá svona tvöfalt niðurrif á ágætis rökfærslum/pælingum trúmanns sem virðist þó ekki viss á hvað hann trúir.

Ég ætla þó að taka eitt atriði sem hvorki "G2" né "Kristall Plús, rauður" tóku:

Ég trúi á líf á öðrum hnöttum þótt það sé ekki vísindalega sannað og þá spyr ég geta vísindin hjálpað okkur að búa til líf úr dauðum hlut.

Það er þó tölfræðilega (nánast) ómögulegt að ekki sé líf finnandi á öðrum plánetum, miðað við hvað við vitum um hvernig líf myndaðist á okkar plánetu


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 18/12/09 15:12 #

Ég hefði talið að það væru sterkar líkur á að það væri a.m.k. einn hnöttur sem styddi líf. En eins og James Randi og fleiri segja, þá er ekki hægt að sanna skort á einhverju (can't prove a negative). Við getum ekki sannað að það sé alls ekkert líf á öðrum hnöttum.


Nikulás Lasarus - 21/12/09 22:58 #

Ómar Harðarson skrifar:

Ég er orðinn svo hatrammur guðleysingi að mér finnst að það ætti að banna trúboð með öllu. Þeir kristnu mega hætta að væla, en mikið svakalega væri gott ef þeir hættu líka að reyna "sannfæra" okkur hina um delluna í sér.

Ómar, mig langar að benda þér á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Það er merkilegt plagg. 18. greinin er svohljóðandi:

Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar. Í þessu felst frjálsræði til að skipta um trú eða játningu og enn fremur til að láta í ljós trú sína eða játningu, einir sér eða í félagi við aðra, opinberlega eða einslega, með kennslu, tilbeiðslu, guðsþjónustum og helgihaldi.

Lýsing þín á því hvernig þú upplifir guðleysið er athyglisverð. Ótrúlegt er að efahyggja eða vantrú venjulegum skilningi þeirra orða geti gert menn svona hugfangna og hatramma svo notuð séu þín eigin orð. Yfirlýsing þín og sannfæring í guðlseysinu líkist meir pólitísku ofstæki eða trúarjátningu af einhverju tagi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.