Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sr. Birgir Ásgeirsson er sjálfumglatt flón

Þann 15. nóvember flutti Birgir Ásgeirsson prédikun í Hallgrímskirkju þar sem hann sagði meðal annars:

Enginn kennari er nákvæmari en Jesús í þessu efni, af því að hann þekkir föðurinn, þekkir Guð. Það gerir hann af því að hann er opinberun Guðs. Ef hann er það ekki, þá er ónýt trúin öll. Hvað ætlum við þá að kenna börnum okkar? Að Guð sé ekki til? Til eru þeir, sem gjarnan tala svo og fullyrða svo. Þeir eru flónin, sem halda að naflinn á þeim sjálfum sé skráargat himinsins. Lykill að slíku skráargati getur aldrei verið annað en hofmóður, drambsemi og eigingirni. Hallgrímur kenndi fólkinu sínu, íslensku þjóðinni, að lykill himnaríkis er auðmjúk bæn í nafni Drottins Jesú. Hann einn frelsi frá synd, hann einn opni leið til föðurins, sem er á himnum.
Hvað viljum við kenna börnum okkar? Að Guðsnafnið sé bábilja? Að föðurímynd Jesú sé blekking? Að Jesú hafi ekki verið til? Að grundvöllur lagakerfis og menningar í þessu landi til 1200 ára sé tómur misskilningur? Að Gullna reglan sé gagnslaus hégómi? Að kirkjan sé tímaskekkja? Þetta eru allt dálítið uppáþrengjandi spurningar!! Ekki síst þegar við eigum í þjóðarkreppu og erum samankeyrð og örmagna á sál og líkama, eins og værum við í langvarandi sjávarháska og hafrótið eitt og grýttar strendur framundan.

Birgir má trúa því mín vegna að Jesús sé opinberun Guðs. Vissulega er margt ágætt haft eftir þeim manni þótt ég hefði búist við einhverju meira af opinberun Guðs, satt best að segja. En er ekki fulldjúpt í árina tekið hjá þessum opinbera starfsmanni í sínu opinbera starfi á þessum opinbera vettvangi að fullyrða að þeir sem trúi þessu ekki séu flón? Ber sú afstaða ekki vott um hofmóð og drambsemi prestsins, sem veit svona miklu betur en við hin?

Hins vegar er sú fullyrðing hans að trúlausir haldi að naflinn á þeim sjálfum sé skráargat himinsins svo arfavitlaus að engu tali tekur. Hvaðan hefur sérann þessa visku sína? Trúlausir eru ekki líklegir til að trúa á tilvist himinsins, í skilningi prestsins. Miklu líklegra er að þeir viti sem er að í víðáttum alheimsins er hvert og eitt okkar varla meira en afskaplega ómerkileg rykarða þegar á heildina er litið. Sú afstaða er allt annað en hofmóður, drambsemi og eigingirni.

Öllu nær væri að telja þá afstöðu prestsins að halda að hann hafi höndlað endanlegan sannleika lífs og dauða og að hann sé í persónulegu sambandi við skapara himins og jarðar, meira að segja launaður fulltrúi hans hér á jörðu, órækt vitni um hofmóð, drambsemi og eigingirni.

Efast um Jesús

En Birgir spyr hvort við viljum kenna börnum okkar að Guðsnafnið sé bábilja. Birgir vill eflaust að börnum okkar sé kennt að tilvist Guðs sé staðreynd, jafnvel heilagur sannleikur. Þannig er enda staðið að málum í skólum. En væri hægt að fara milliveginn og kenna þeim að til séu menn sem trúa þessu, aðrir sem trúa öðru og sumir engu? Væri það til of mikils mælst?

Þótt nokkrir fræðimenn hafi haldið fram að efast megi um tilvist Jesú er enginn að fara fram á að því verði haldið á lofti. Hins vegar er óþarfi að troða kristinni trú upp á börn fólks af öllum trúarbrögðum í leik- og grunnskólum.

En getur verið að grundvöllur lagakerfis og menningar í þessu landi til 1200 ára sé tómur misskilningur? Var rangt að drekkja „bersyndugum“ konum, húðstrýkja eða hengja þjófa og brenna nornir? Presturinn virðist álykta sem svo að grundvöllur lagakerfis og menningar í þessu landi sé kristin trú (og þá hefði verið nær að nefna 1000 ár). Vissulega hafði hún sín áhrif en varla er hún nauðsynleg. Heimsmynd manna og siðferðiskennd er í stöðugri mótun og hefur þróast óraveg frá frumstæðum hugmyndum bronsaldar, sem betur fer. Siðferðiskennd manna um allan heim er sú sama í meginatriðum óháð trúarbrögðum og helstu framfarir okkar í þeim efnum hafa ekki náðst vegna trúarbragðanna heldur þrátt fyrir þau, því oft hafa trúabrögðin verið helsti dragbíturinn í þeim efnum.

Hin opinbera Gullna regla

Eigum við að kenna að Gullna reglan sé gagnslaus hégómi? Gullna reglan stendur ekki og fellur með trú á Guðsnafnið, þvert á móti, hún er óháð trúarsetningum og afbrigði hennar eru þekkt í öðrum menningarheimum.

Eigum við að kenna að kirkjan sé tímaskekkja? Svo sannarlega, a.m.k. kirkja rekin af ríkisvaldinu. Skýrara dæmi um tímaskekkju er vandfundið.

Fer dónaskapurinn í titli þessa pistils nokkuð fram hjá þér? Hvernig stendur á því að prestar og biskupar mega ítrekað spúa slíkum óhróðri yfir trúlausa, og það opinberlega á ofurlaunum frá almenningi? Í siðareglum starfsfólks og vígðra þjóna kirkjunnar segir að þeir skuli:

1. Gera sér far um að mæta hverjum einstaklingi í kærleika Krists með virðingu eftir því sem skilningur og samviska bjóða hverju sinni og láta sér annt um líðan og velferð annarra.

20. Sýna jafnan trú og siðum annarra umburðarlyndi og forstöðumönnum og prestum annarra trúfélaga og kirkjudeilda virðingu.

21. Gæta þess að vera málefnaleg og gæta varkárni í ummælum um kenningarleg og guðfræðileg mál, hvort sem er í samræðum eða opinberlega.

Braut sr. Birgir ofantaldar siðareglur með þessum ummælum sínum? Það er til lítils að fást um það því eins og allir vita eru engin viðurlög við siðferðisbrotum í heilagri, almennri Þjóðkirkju.

Reynir Harðarson 18.11.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 18/11/09 10:48 #

Þess má til gamans geta að sami prestur hefur einnig sagt:

Merki hnignunarinnar kemur helst fram, þegar við reynum að sníða trúna að eigin sjálfhverfu, duttlungum og hroka. En þannig verðum við einmitt hluttakendur heimskunnar. Heimskinginn segir: enginn Guð. #


Kristinn - 18/11/09 17:24 #

Flott hjá þér að vekja athygli á þessu, Reynir.

Ég er búinn að hlekkja á greinina út um allt. Þetta er fyrir neðan allar hellur hjá sr. Birgi.


Steindór J. Erlingsson - 18/11/09 17:41 #

Ég sendi Birgi þessi skilaboð í Fréttablaðinu 21. desember 2006. Greinin birtist á ritstjórnasíðu blaðsins:

Í byrjun desember stofnuðu þrettán trúfélög hér á landi Samráðsvettvang trúfélaga, en markmið hans er samkvæmt fréttum „að stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks af ólíkum lífsviðhorfum, trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi“. Þjóðkirkjan er eitt þeirra trúfélaga sem aðild eiga að samráðsvettvanginum. Þátttaka hennar í þessum félagsskap fór hins vegar ekki vel af stað því nokkrum dögum eftir stofnun hans birtist á vef Þjóðkirkjunnar prédikun eftir sr. Birgi Ásgeirsson þar sem því er haldið fram að þeir sem hafna meintri tilvist Guðs kristinna manna séu „hluttakendur heimskunnar“.

Á einum stað í prédikuninni segir að mesta „hættan [sé] fólgin í afneituninni. Afneitun staðreynda. Afneitun Guðs. Afneitun þess að maðurinn er hluti sköpunarinnar. Afneitun þess að við erum Guðs börn og þurfum á því að halda að eiga samfélag við hann“. Hættan sem stafar af því að afneita Guði virðist samkvæmt sr. Birgi vera hnignun menningarinnar, en merki hennar „kemur helst fram, þegar við reynum að sníða trúna að eigin sjálfhverfu, duttlungum og hroka. En þannig verðum við einmitt hluttakendur heimskunnar. Heimskinginn segir: enginn Guð“.

Greinilegt er af samhengi sr. Birgis að þessum gagnrýnu ummælum er beint til trúleysingja og varpa þau sem slík skírara ljósi á hann sjálfan en þá sem hann gagnrýnir. Í sjálfhverfu sinni, svo við styðjumst við orðalag sr. Birgis, virðist hann hins vegar gleyma því að það eru ekki bara trúleysingjar sem hafna meintri tilvist Guðs kristinna manna, því allir þeir sem ekki játa kristna trú eru trúlausir gagnvart hinum kristna Guði. Samkvæmt skilgreiningu sr. Birgis eru því vel á fimmta milljarða jarðabúa, þ.e. allir þeir sem ekki játa kristna trú, heimskingjar. Þar sem þessi prédikun birtist á opinberum vef Þjóðkirkjunnar, www.tru.is, hlýtur málflutningur sr. Birgis að njóta stuðnings innan vébanda hennar. Ef sú er raunin ættu Baháísamfélagið, Félag Múslima á Íslandi, Ásatrúarfélagið, Búddistafélagið og önnur félög sem taka þátt í Samráðsvettvangi trúfélaga að vara sig á því að innan Þjóðkirkjunnar eru áhrifamiklir einstaklingar sem álíta meðlimi þessara félaga heimskingja.



Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.