Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guði sé lof?

Dóttir hans Kristins

Það er dálítið áhugavert að velta fyrir sér forsendum þess að lofa guð fyrir ánægjulega hluti, t.d. lífsbjörg. Það er áhugavert fyrir hvað það er óviðeigandi í sumri guðfræðinni og í raun órökrétt þess utan.

Gefum okkur að guð sé til - hann þarf jú helst að vera til svo það sé nokkuð vit í að lofa hann. Gefum okkur líka að við séum að lofa guð fyrir að barn lifði af flugslys, á meðan allir hinir 100 farþegarnir dóu.

Ég ætla að færa fyrir því rök að þrátt fyrir að blessaður himnaföðurnum sé sísona gefin tilvera, verði það ekkert meira gáfulegt fyrir það að lofa hann fyrir eitt né neitt - nema til að skora hjá honum stig fyrir kappssemi.

Sé farið eftir dálítið bókstaflegri og dramatískri túlkun á kristni lifum við á tímum þar sem Lúsífer ræður ríkjum á jörðinni eftir fall mannsins. Margir vilja meina að samkvæmt þeim fræðum sitji guð í raun bara hjá, á meðan mannkynið sannar sig. Lúsífer (Satan) er prins heimsins og hann hrærir í daglegu lífi okkar, ekki guð. Þegar eitthvað gerist er það honum að kenna, og það að honum tókst ekki að granda öllum 101 farþegum flugvélarinnar er því hending ein - eða hluti af lymskulegu plani. Barnið sem lifði er því upp á náð Satans komið og engin ástæða til að lofa guð fyrir neitt í því samhengi.

En ef fólk trúir ekki á Satan kemur þrennt til greina.

1 - Guð er alltaf með puttana í sköpunarverkinu.
2 - Guð er stundum með puttana í sköpunarverkinu.
3 - Guð er aldrei með puttana í sköpunarverkinu.

Í tilfellum 1 og 2 er ljóst að guð veldur hlutunum, eða velur að valda þeim ekki (a.m.k. ef við gefum okkur að hann sé almáttugur og alvitur í hefðbundnum skilningi). Maður spyr sig því af hverju hinir 100 farþegar þurftu að deyja og af hverju hann bjargaði bara einu barni.

Þykist maður bera nægilegt skynbragð á hlutina til að vita að lofa beri guð fyrir björgun barnsins, því björgunin sé góð, mætti ætla að manni bæri að bölva honum að sama skapi fyrir dauða allra hinna. Að öðrum kosti verði maður að viðurkenna að maður geti ekki dæmt um það til eða frá.

Það að Adam og Eva hafi bitið í epli af skilningstrénu breytir þar engu um, við ættum þá að skilja bæði gott og vont, ekki bara gott.

Taki maður þann pól í hæðina að guð sé algóður og allt sem hann gerir gott, hlýtur maður að eiga að lofa guð fyrir dauða hinna farþeganna rétt eins og björgun barnsins, eða lofa að öðrum kosti ekki neitt. Guð veit jú best.

Að lokum gætum við gefið okkur að hinir 100 hafi verið syndarar sem áttu skilið að deyja, en barnið gott. Í því tilfelli væri það eiginlega eðlilegt að barnið lifði og einungis ástæða til að lofa guð fyrir að granda syndurunum sem settu ljótan blett á heiminn.

Í tilfelli 3 er ljóst að guð gerði ekki annað en að skapa heiminn og allt sem í honum gerist því ekki honum að þakka, ekki frekar en ævintýrin sem eiga sér stað í hjónarúmum fólks eru húsgagnasmiðnum að þakka.

Ætli menn að fara að tala um að lofa beri guð fyrir að hafa hannað hlutina þannig frá upphafi tímans að barnið myndi bjargast, eru þeir komnir hringinn og eru í raun að ætla guði afskipti sem þá fellur undir lið 1.

Ef þetta er allt tómt rugl hjá mér, sem er ekki ólíklegt, því vegir guðs eru órannsakanlegir, þá skilur þetta líklega ekki nokkur maður og þá kannski enn minni ástæða til að gera sér upp nægilegan skilning á kerfinu til að treysta sér til að velja hvenær lofa skal guð fyrir eitthvað eitt sem hentar manni vel, en ekki eitthvað annað sem hentar manni síður.

Ég fæ því ekki séð að það sé nokkurn tíma logískt að lofa guð fyrir neitt. Nema eins og áður segir til að ganga í augun á honum. Hið fullkomna kristilega lítillæti virðist mér hljóta að felast í að svara öllu sem gerist í tilverunni með sama jafnaðargeðinu og alls ekki með: Guði sé lof!

Kristinn Theódórsson 06.11.2009
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Logo - 07/11/09 00:12 #

Bull


Logo - 07/11/09 00:19 #

http://www.vantru.is/2006/10/09/23.17/


Bjarki - 07/11/09 03:35 #

Logo: Í hvaða brunna meig Kristinn?


Kristinn - 07/11/09 07:53 #

Þetta er nú bara hugleiðing á léttu nótunum - og þó nokkuð rökrétt.

Ertu pirraður trúvarnarmaður, Logo?


Logo - 07/11/09 09:23 #

Sé ekkert rökrétt við þetta


Kristinn - 07/11/09 13:31 #

Á meðan þú tjáir þig í svona fáum orðum hjálpar þú okkur vitleysingunum ekki neitt við að sjá villu okkar vegar - eða alla vega ekki mér að sjá mína.

Hvað er ekki rökrétt við þetta, Logo?


Hans - 08/11/09 12:08 #

http://www.visir.is/article/20091107/SKODANIR/546432367

Vona að hann fari ekki á þing aftur .

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.