Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst heldur fyrirlestur í fyrirlestraröð Siðfræðistofnunar: Siðfræði og samfélag. Hann fjallar um tvenns konar ólík viðhorf til umburðarlyndis:
- Þá sýn að lífsskoðanir sem eru aðrar en manns eigin séu rangar en maður kjósi þó að láta þá sem aðhyllast þessar röngu skoðanir óáreitta.
- Þá afstöðu að þar sem lífsskoðanir séu hvorki réttar né rangar sé engin leið að gera upp á milli þeirra og því tilgangslaust að fetta fingur út í lífsskoðanir sem eru aðrar en þær sem maður sjálfur hefur tilhneigingu til að aðhyllast.
Jón heldur því fram að hvorugt viðhorfið virðist sérlega hjálplegt við að gera grein fyrir umburðarlyndi sem hugsjón eða dygð og það er alls ekki ljóst hvernig hægt er að gera grein fyrir viðhorfi til ólíkra skoðana og lífsviðhorfa sem felur í sér virðingu gagnvart þeim og um leið leiðir til að gagnrýna þau. Í fyrirlestrinum verður vandinn reifaður og fjallað um tilraunir til að leysa hann.
Fyrirlesturinn verður haldinn í Þjóðarbókhlöðunni föstudaginn 6. nóvember og hefst klukkan 15:15 og stendur í rúman klukkutíma. Við hvetjum alla umburðarlyndisfasista og óumburðarlyndisfasista til að mæta og hlýða á.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.