Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gurrí Haralds er númer þúsund

Gurrí Haralds
"Trúmál ættu að vera einkamál hvers og eins."

Ég hef ætlað að segja mig úr Þjóðkirkjunni árum saman ýmissa hluta vegna en einhver veginn vaxið það í augum þar sem ég er bíllaus og hélt að ég þyrfti að fara á Hagstofuna til að gera þetta. Það var síðan í gegnum Facebook vin minn, meðlim í Vantrú, að ég fékk leiðbeiningar og ákvað að drífa í þessu. Ég vil taka fram að gefnu tilefni að ég gerði þetta bláedrú og ekki á öldurhúsi.

Guðríður Haraldsdóttir blaðamaður er þúsundasti einstaklingurinn sem Vantrú aðstoðar við að leiðrétta trúfélagsskráningu. Fulltrúi Vantrúar brá sér í heimsókn til Gurríar, ræddi við hana um þessi tímamót, sótti eyðublaðið og skilaði til Þjóðskrár. Gurrí segir okkur að henni hafi blöskrað þegar Þjóðkirkjuprestur dylgjaði nýlega um Vantrú og hafi þá ákveðið að drífa í að skrá sig loks úr kirkjunni.

Trúmál ættu að vera einkamál hvers og eins. Ríkið ætti alls ekki að vasast í þeim og borga hátt í sex milljarða til kirkjunnar á meðan t.d. þjónusta heilbrigðiskerfisins versnar með hverju árinu. Við eigum besta heilbrigðiskerfi í heimi ... þangað til við þurfum á því að halda.

Ég vil frekar að sóknargjöld mín fari til ríkisins og hjálpi þannig við að greiða Icesave skuldina upp hraðar svo við getum farið að byggja heilbrigðiskerfið upp aftur. Fársjúkt fólk á ekki að þurfa að borga háar fjárhæðir en ég veit um mörg dæmi þess. Á meðan fær kirkjan sitt. Vissulega ætti ég að hafa það val að borga til t.d. Siðmenntar en slíkt er ekki í boði.

Sumt ríkiskirkjufólk telur að meðlimir og lesendur Vantrúar séu einsleitur hópur - ungir og óþroskaðir menn. Gurrí segir okkur að hún hafi lesið Vantrú í nokkurn tíma og einnig blogg sumra félagsmanna. Þegar við í Vantrú höfum rætt við fólk um þessi mál kemur í ljós að fjölmargir hafa lengi verið á leiðinni að skrá sig úr Þjóðkirkjunni, eins og Gurrí. Margir eru ósammála kirkjunni í stórum málum og hafa jafnvel verið trúlausir áratugum saman.

Margir í kringum mig hugsa ekkert út í þessi mál, telja sig ekki vera trúaða og fara aldrei í kirkju nema þá helst jarðafarir, en borga alltaf til kirkjunnar án þess að átta sig í rauninni á því.

Ríkiskirkjan hefur komið sér fyrir víða og er í raun eins og stórfyrirtæki með einokunaraðstöðu, það er erfitt að keppa við hana.

Systir mín rekur virtar og vinsælar sumarbúðir sem eru óháðar trúarbrögðum. Það hefur pirrað mig ósegjanlega mikið að kristilegu sumarbúðirnar skuli árlega fá tugmilljónir frá ríki og borg sem skekkir samkeppnisstöðuna gróflega. Annað hvort ætti að styrkja alla aðila á markaðnum eða enga. Það er eitthvað mjög mikið athugavert við þetta en engar vitsmunalegar skýringar fást. Margir ráðamenn þjóðarinnar senda sín börn til systur minnar árlega en styrkja hina.

Við ræddum þessi mál nánar og veltum fyrir okkur þeirri þversögn að fjölmargir trúlausir eða trúlitlir íslendingar skuli senda börn sín í kristilegar sumarbúðir sem reknar eru á trúarlegum forsendum og þar sem stíft trúboð fer fram. Kirkjan er víðar í samfélaginu og sumt þarf einfaldlega að gagnrýna jafnvel þó góður hugur sé að baki.

Kunningi minn sem er lögreglumaður sagði mér fyrir nokkrum árum að honum fyndist erfitt að þurfa að þiggja áfallahjálp frá presti þótt viðkomandi prestur væri indæll. Kunningi minn er trúlaus og sagði að slökkviliðsmenn fengju sálfræðing í sálgæsluna sem honum fannst miklu eðlilegra.

Þó Gurrí hafi nú sagt sig úr Þjóðkirkjunni, sé trúleysingi og lesandi Vantrúar er ekki þar með sagt að hún sé hatrömm þó biskup og fleiri haldi að þannig megi dæma marga úr leik. Sumir ganga svo langt að halda því fram að trú sé forsenda siðferðis.

Margt gott fólk er að finna innan Þjóðkirkjunnar. Presturinn sem jarðsetti föður minn reyndist okkur systkynunum einstaklega vel og mér mun alltaf þykja vænt um hann fyrir vikið. Besta og kærleiksríkasta manneskja sem ég þekki er reyndar hundheiðin þannig að ég mótmæli harðlega þeim áróðri sumra kirkjunnar manna og kvenna að kærleikurinn finnist bara í trúnni.

Á þessu þingi verður vonandi lagt fram lagafrumvarp til breytinga á lögum um trúfélagskráningu barna. Eins og staðan er í dag er barn skráð í trúfélag móður við fæðingu.

Ég er þeirrar skoðunar að ekki eigi að skrá barn í trúfélag móður við skírn, leyfa frekar barninu að ráða þegar það hefur þroska til, svipað og ef um stjórnmálaflokk væri að ræða.

Við þökkum Gurrí kærlega fyrir samtalið og óskum henni til hamingju með að vera númer þúsund.

Ritstjórn 25.10.2009
Flokkað undir: ( Samherjar )

Viðbrögð


Bjarni Jónsson - 25/10/09 16:39 #

Vildi óska Guðríði og hinum 1000 sem hafa notið þjónustu Vantrúar að undanförnu við að leiðrétta skráningu sína. Ég vil sérstaklega óska Vantrú til hamingju með þetta þarfa starf. Það hefur margsinnis komið fram að margir eru skráðir í ríkiskirkjuna af hagkvæmnisástæðum eða koma sér ekki til að skrá sig úr eða halda að þetta sé eitthvert mál.

Hafið þökk fyrir og vonandi verður þess ekki langt að bíða að Siðmennt hljóti jafna stöðu og aðrar lífsskoðunarhreyfingar þannig að valmöguleiki þeirra sem telja sig trúlausa aukist!


Einar - 26/10/09 15:17 #

Glæsilegt.

Ég sagði mig úr þessu bákni líka.

Hef verið að pæla í þessu lengi en ég held að punkturinn yfir i-ið hafi komið þegar kirkjan telur ekki vera brottrekstrarsök að snerta fermingarbörn og strjúka þeim til að sækja sér styrk eftir erfiða jarðarför. Þótt að maðurinn hafi ekki verið dæmdur að þá sýnir þetta siðleysi hans og í raun allarar kirkjunnar. Að við þurfum að halda þessu uppi, prestum á ofurlaunum osfrv. í kreppunni á meðan við þurfum að skera niður í löggæslu, heilsugæslu og nánast öllu.

Dreif í þessu og sé ekki eftir því.


DoctorE - 30/10/09 19:55 #

Frábært hjá henni... vonandi nenna íslendingar að drífa sig í að hætta að halda uppi stóði af hjátrúardurgum.. og borga þess í stað til uppbyggingar íslands


Jón Valur Jensson - 08/11/09 17:40 #

Vitaskuld vill Gurrí eins og margir frjálslyndir og líbó, víðsýnir og vinstrisinnaðir frekar borga ólögmætu mafíurukkunina fyrir hundraða milljarða Icesave-"skuldina" heldur en að leyfa trúfélögum að njóta laga og réttar og fá þá takmörkuðu peninga sem samkvæmt þeim lögum eru innheimtir af meðlimum þeirra trúfélaga og tilheyra þeim, ekki ríkinu og sízt af öllu gömlum nýlendukúgurum. Sé hún sósíalisti, er það viss passi á þeim bænum að virða ekki lög né eignarrétt mikils.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 08/11/09 18:10 #

...sem samkvæmt þeim lögum eru innheimtir af meðlimum þeirra trúfélaga og tilheyra þeim, ekki ríkinu og sízt af öllu gömlum nýlendukúgurum.

Nei, þessir peningar eru ekki innheimtir af "meðlimum þeirra trúfélaga" heldur eru þeir innheimtir af öllum.


Jón Valur Jensson - 08/11/09 22:53 #

Jú, þetta er að u.þ.b. 97–98% innheimt af meðlimum trúfélaga, en 2–3% af fólki utan trúfélaga. Gjöld síðarnefnda fólksins fara ekki til trúfélaga, heldur Háskóla Íslands.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/09 22:57 #

Jón Valur, þetta er einfaldlega rangt hjá þér. Kynntu þér málið betur.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 09/11/09 00:20 #

Jú, þetta er að u.þ.b. 97–98% innheimt af meðlimum trúfélaga, en 2–3% af fólki utan trúfélaga. Gjöld síðarnefnda fólksins fara ekki til trúfélaga, heldur Háskóla Íslands.

Til að byrja með eru það 10% sem eru ekki í þessum trúfélögum sem fær peninginn.

Ríkið er hætt að gefa HÍ peninginn vegna þeirra sem eru ekki í skráðu trúfélagi.

Og það er ekki þannig að bara meðlimir þeirra sem eru í skráðu trúfélagi borgi þennan pening. Það væru miklu betra ef kerfið væri þannig. Peningurinn er greiddur úr sjóðum sem allir borga í, þar á meðal þeir sem eru ekki í skráðu trúfélagi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.