Nýlega birtist blogg á Eyjunni eftir ríkiskirkjuprestinn Guðrúnu Karlsdóttur. Þar veltir Guðrún vöngum yfir trúfélagsleiðréttingarátaki Vantrúar sem staðið hefur yfir frá árinu 2005. Í bloggi prestsins var þessa setningu að finna.
Heyrst hefur af Vantrúarfólki með eyðublöð á öldurhúsum borgarinnar og á lóð Háskóla Íslands. Ef það er satt að fyllt sé út í eyðublað fyrir ölvað fólk sem síðan skrifar undir, þá verð ég að segja að siðferði Vantrúarfólks er ekki upp á marga fiska og spurning hvort raunverulega sé hægt að taka mark á þeim pappírum.
Þessi setning hvarf reyndar eftir að hafa hangið í loftinu í nokkra klukkutíma. Presturinn hefur sennilega séð að sér - sem er gott - og jafnframt til eftirbreytni fyrir presta ríkiskirkjunnar. Eins og gefur að skilja þá mótmælti Vantrú þessum skrifum af alkunnri stilllingu. Sem er líka gott.
Ég sjálfur hef tekið þátt í þessu átaki og fór á gamals aldri í appelsínugulan bol merktan Vantrúnni góðu, vopnaður eyðublöðum frá Þjóðskrá og gaf mig á tal við fólk og kynnti fyrir því átakið.
Kári Svan og greinarhöfundur undirbúa sig fyrir Gay pride árið 2007.
Það er skemmst frá því að segja að ég þurfti eiginlega ekki að ýta þessu að fólki með fagurgala. Fólk bara kom til mín. Sumir voru forvitnir að vita hvað væri í gangi meðan aðrir vissu alveg hvað ég var að gera.
Mér eru minnistæð tvö dæmi frá þessum degi. Annars vegar var það fjölskylda sem kom til mín og þakkaði mér fyrir að nenna að standa í þessu. Pabbinn sagðist hafa ætla að gera þetta um árabil en aldrei nennt. Við spjöllum aðeins saman og ég stóð eftir með fjögur útfyllt eyðublöð um trúfélagaleiðréttingu.
Svo var það kallinn. Hann hafði staðið álengdar og fylgst með mér um stund. Svartklæddur eldri maður í snjáðum skóm. Hann vatt sér að mér og var augljóslega í uppnámi. Byrjaði síðan að tala ákaflega hratt um fáránleika þess að guð væri til. Að kirkjan þættist vera eitthvað merkileg og að prestarnir væru svona og svona. Ég komst eiginlega aldrei að því honum var augljóslega mikið niðri fyrir. Talaði og talaði. Rauk svo í burtu með formælingar á vörunum. Ég náði ekki einusinni að kynna fyrir honum hvað ég væri að gera.
Augljóst var að mikill og djúpur sársauki hafði plagað þennan mann. Eitthvað tengt kirkjunni og guði. Kannski var hann skrýtinn? Kannski var hann fórnarlamb einhvers prests? Kannski þurfti hann bara að tala um eilífðarmálin? Ég veit það ekki, en þessi kall er mér sérstaklega minnisstæður.
Aðalástæðan fyrir því að ég er á móti ríkiskirkjufyrirkomulaginu er sú að ég vil búa í almennilegu samfélagi[*]. Ég er á móti samblæstri ríkis og trúfélaga vegna þess að ég lít á trúmál sem einkamál. Samband manneskju við tilvistarpælingar sínar geta aldrei nokkurntíman verið á könnu hins opinbera. Trú er einkamál. Sennilega eitt mesta einkamál sem nokkur getur átt.
Hinsvegar ef hópur fólks með sömu skoðanir á eilífðarmálunum kemur sér saman um einhverskonar tilbeiðslu eða íhugun á eilífðarmálunum, þá er það bara fínt. En það á bara ekki að koma ríkinu við. Trúfélög eiga að reka sig sjálf án stuðnings frá hinu opinbera. Það kostar t.d um 1000 kall á mánuði að vera í trúfélagi og ekki er unnt að komast hjá þessum skatti. Trúlausir borga t.d þennan skatt beint aftur til ríkisins eins fáránlega og það hjómar.
Með einfaldri aðleiðslu má segja að þetta kerfi innifelur í sér skatt á þá sem ekki trúa á yfirnáttúrulega veru, son hans og vængjaða aðstoðarmenn téðra feðga.
Gagnrýnendur Vantrúar hafa sagt að kristni sé aðalskotspónn félagsins. Það er hálfur sannleikur. Staðreyndin er að það vill svo til að kristni er langstærsta trúarbragðið á Íslandi og auðvitað beinum við spjótum okkar í þá áttina frekar en annað. Reyndar er stefnuskrá Vantrúar afar einföld og rúmast í einni setningu:
Helsta markmið félagsins er að berjast gegn boðun hindurvitna í samfélaginu.
That's it!
Á annað borð hefur Vantrú hjálpað ríkiskirkjunni á Íslandi töluvert þótt fáir fatti það kannski. Ef ekki væri fyrir þá hörðu gagnrýni sem Vantrú hefur veitt væri kirkjan sennilega sjálfdauð. Gagnrýni er nauðsynleg hverju hugmyndakerfi.
Það þarf alltaf að spyrja sömu spurninguna aftur og aftur: Hversvegna? Þannig styrkist kerfið, þannig koma breytingar og þannig verður til eitthvað sem kallast má framför. Það er sérstaklega athyglisvert að skoða gamlar bloggfærslur í þessu samhengi og þá breytingu sem orðið hefur á orðræðunni um trúmál. Það hefur orðið framför og það er óumdeilt.
Það er líka alveg með ólíkindum að Vantrúarvefurinn er orðinn helsti vettvangur trúarlegra umræðu á Íslandi. Sumt er gott og annað er verra eins og gengur með lifandi vef, en staðreyndin er þessi. Vantrú hefur tekið forystuna í allri trúarumræðu á Íslandi.
Við höfum tekið viðtöl við Bjarna Karlsson og Skúla Pálsson presta og það eru ferlega skemmtilegar umræður. Þeir forðast ekki erfiðu spurningarnar þessir tveir og í dæmi Skúla þá hef ég aldrei heyrt betri rök í vísindin-gegn-trú-rimmunni. Þessar hljóðupptökur eru - enn sem komið er - óbirtar og eru í hjóðvinnslu og birtast á næstu dögum á Vantrúarvefnum. Vonandi birtum við álíka viðtöl við aðra presta og trúarleiðtoga.
Heimsóknir á Vantrúarvefinn fer stöðugt fjölgandi og meðlimum líka. Sem er gott.
Trúleysi var nefnilega hálfgert tabú á Íslandi. Við erum á skjön. Margir meðlimir Vantrúar skrifa t.d undir dulnefnum af ótta við viðbrögð fjölskyldna sinna, vina og vinnuveitenda! Já, svona er þetta barasta.
Viðbrögð ríkiskirkjuprestsins Guðrúnar Karlsdóttur þegar hún sagði að Vantrú sækti í drukkið fólk til þess að leiðrétta trúfélagaskráningu þess, eru svolítð á pari við þetta tabú. Það er eins og hugsunin sé: Það er útilokað að fólk íhugi trúfélagaskáningu sína án þess að vera ölvað. En Guðrún hefur tekið út þessa setningu og það ber að virða.
Hinsvegar þurfa trúleysingjar enga Vantrú til þess að fækka í röðum ríkiskirjunnar. Endalaus hneykslismál, hæpnar fullyrðingar og rangindi eru að mínu mati langstærsti þátturinn í því að fækkun í ríkiskirkjunni er viðvarandi. Þetta gerist þrátt fyrir að fjöldinn allur af hvítvoðungum eru sjálfkrafa skráðir í ríkiskirkjunna við fæðingu.
Því miður er það svo að þetta snýst um krónur og aura - ekki trú. Ég bind vonir við það að óréttur trúfélagaskráningarinnar verði afnumin með lagabreytingu á næstunni og því næst verði stjórnarskránni breytt til samræmis við lýðræðis og mannréttindaþróun landanna í kringum okkur.
Ég er hæfilega bjartsýnn á þetta og gæti alveg séð fyrir mér að einhverskonar millivegur verði farinn. Að trúleysingjum verið boðið upp á að greiða sóknargjaldið sitt í félögin sín (Siðmennt eða Vantrú) og núverandi kerfi verið óbreytt.
Hugsanlega verður hægt að haka við það trúfélag sem maður vill borga til á skattaeyðublaði ársins eða þvíumlíkt. Ég hald að það yrði næstbesti kosturinn. En það er nú svo með óréttlætið að hálfur óréttur er öngvu skárra en alger óréttur. Þetta er spurning um annað hvort eða. Spurning sem þeir sem trúuðu ættu að velta aðeins fyrir sér í víðu samhengi hlutanna.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.