Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Af helgun reita

Fúinn krossÉg geng reglulega gegnum fallegan reit í Reykjavík. Hann er við sjávarsíðuna, með rólegt hverfi bak sér og skógarhlíð hinum megin, svo þar er ávallt stillt og rótt. Stígar hans eru breiðir án þess að vera fyrir faratæki, sem gerir það einkar þægilegt fyrir gangandi vegfarendur að dóla um lautir hans. Þarna er einmitt líka myndarlegur gróður, bæði gömul og digur tré sem og fallegir runnar.

Hann er staðsettur í Fossvogi, og kannski áttið þið ykkur á því hvaða garður þetta er. Þið munuð allavega átta ykkur þegar ég nefni skiltið við innganginn, sem biður fólk að bera virðingu fyrir þeim sem í honum hvíla.

Sama skilti tilkynnir manni, nokkuð hátíðlega, að þetta sé helgur reitur.

En hvað er það sem gerir hann helgan?

Það er ekki endilega vegna þess að bók ríkiskirkjunnar skipar það, eða þríeinguðinn þeirra. Hann er heldur ekki bara helgur gagnvart því kristna fólki sem grefur ættingja sína þar; mun fleiri greftra þar og hafa hlýhug með reitnum burtséð frá trúarskoðunum.

Ég vil meina að helgur reitur sé staður sem samfélagið er búið ákveða að aðrar hátternisreglur skuli gilda en venjulega. Það er afar auðvelt að fá alla til að samþykkja þessar reglur, af nokkrum lykilástæðum. Öll berum við virðingu fyrir fólkinu sem varð til á undan okkur. Það hefur, að jafnaði, haft meiri reynslu, meiri þekkingu, meiri visku. Við myndum sambönd við þetta fólk, og hugsum til þess löngu eftir að það hættir að vera til. Sérhvert okkar ber virðingu fyrir látnum foreldrum, forfeðrum eða forverum, og þar sem við viljum ekki lenda í því sjálf að vera trufluð meðan við stöndum við gamla gröf í endurminningu, þá viljum við veita öðrum einnig þá hugarró.

Þess vegna er reiturinn helgur. Við viljum aðgreina hann frá öðrum almenningsrýmum, því þetta er staðurinn sem allir eiga að geta komið á til að hugsa um látna ástvini í friði.

Valdimar Björn Ásgeirsson 27.09.2009
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Kristinn - 27/09/09 19:12 #

Fín lesning. Takk fyrir þetta Valdimar Björn.


Andrés Björgvin Böðvarsson - 27/09/09 20:41 #

Góð pæling. Sem kristinn maður get ég alveg tekið undir þetta.


Akagi - 28/09/09 12:00 #

vel skrifuð grein og þú hefur svo sannarlega rétt fyrir þér.


Axel - 28/09/09 19:59 #

Langt síðan ég leit hingað inn. Mikið til í þessu hjá þér. Sjálfur er ég kristinn og tek undir þetta með þér. Reyndar þýðir orðið "heilagur": "frátekinn" og þá frátekinn fyrir eitthvað ákveðið.


Björn Ómarsson - 28/09/09 20:26 #

Skemmtileg pæling. Þetta má að mínu mati yfirfæra á aðrar hefðir sem eru í grunninn kristnar, svosem að signa grafir í jarðarförum. Sem trúleysingi geri ég krossmark yfir ný-jarðaðri kistu af virðingu við þann látna og ekki síður aðra gesti. Mér finnst það ekki hræsni að trúleysingjar fylgi þessari "hátternisreglu".

En nú ætla ég að vera smámunasamur og leiðinlegur. Axel sagði:

Reyndar þýðir orðið "heilagur": "frátekinn" og þá frátekinn fyrir eitthvað ákveðið.

Þetta held ég að sé ekki rétt. Ég veit ekki betur en að íslenska orðið "heilagur" hafi sömu rót og orðið "heill", á sama hátt og enska orðið "holy" hefur sömu rót og "whole". Þetta passar við skilgreiningu sem ég heyrði einhverstaðar, sem var að það sem er heilagt tilheyrir bæði því jarðneska og því guðlega, og er því "heilt", þ.e. tilheyrir báðum heimum. Það er því ekki hægt að "seculisera" orðið heilagt, en takk fyrir að reyna ;)


Svanur Sigurbjörnsson - 29/09/09 15:07 #

Áhugavert. Hins vegar er hugsanlega betra að nota annað orð en helgur fyrir þennan veraldlega skilning á því hvers vegna grafreitir eru staðir sem við viljum virða sérsstaklega. Orðið helgur er samt notað í veraldlegum skilningi, t.d. þegar læknir á Lsh ræður sig þangað og lofar að vera aðeins þar (ekki með sjálfstæðan rekstur einnig) og fær því helgunaruppbót. Þarna er orðið notað í stað "frátekinn" fyrir spítalann og á ekkert skylt við "heilagur". Mig vantar orð í staðinn fyrir "helgur".


Valdimar Björn Ásgeirsson (meðlimur í Vantrú) - 30/09/09 14:03 #

Takk fyrir hrós og skemmtilegar athugasemdir.

Ég er ekki sannfærður um það, Axel, að heilagur þýði ,,frátekinn", mér finnst útskýring Björns sennilegri. En ég held að það megi vel færa rök fyrir því að orðið ,,helgur" sé búið að glata að stórum hluta trúarlegum tengingum, út frá því hvernig við tölum um ,,helgar". Helgidagar vekja aðeins trúarlegri hugmyndir, en út frá algjörlega stjórnsýslulegum skilgreiningum er verkalýðsdagurinn alveg jafn mikill helgidagur og jóladagur eða annar í hvítasunnu... ekki satt?

Ef við finnum annað orð væri það líka fínt, en ég held að stundum séu trúarleg orðanotkun það samofin tungumálinu að það verði að búa til nýja merkingu fyrir það til að geta komist áfram í umræðunni.


Axel - 01/10/09 15:13 #

Fullyrðing mín og fullyrðing Björns þurfa að vísu ekki að stangast á. Nú er sennilega auðvelt fyrir þá sem aðstöðu hafa að fletta þessu upp og því tilgangslaust að rökræða um hver rétt merking orðsins er. En þó svo að orðið heilagur eða helgur sé komið af orðinu heill, þarf það ekki að þýða að orðið geti ekki haft merkinguna "frátekinn". Hins vegar væri best að einhver sem hefur aðstöðu gæti flett þessu upp fyrir okkur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.