Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúfélagsleiðrétting: Sjálfboðaliðar óskast

Það hefur víst ekki farið framhjá aðdáendum og hatursmönnum Vantrúar, að undanfarin ár höfum við háð trúfélagsleiðréttingaherferð og leiðrétt trúfélagsskráningu hundruða Íslendinga. Nú höfum við ákveðið að setja í þyngri gír, alla vega um stundarsakir. Í þessari viku höfum við aðstoðað nokkra tugi manns í Háskóla Íslands með þjónustu okkar. Á morgun, föstudag 18. september, verður fjórði dagurinn okkar þar í röð. Þá verðum við með bás á Háskólatorgi frá klukkan 11:30 til 13:30.

Margar hendur vinna létt verk. Við viljum hér með bjóða fólki að koma og aðstoða okkur í sjálfboðastarfi við trúfélagsleiðréttinguna, öll hjálp er vel þegin, hvort sem fólk er lengi eða stutt. Fólk sem vill vera með á morgun mætir einfaldlega á Háskólatorg, er fljótt að finna okkur og gefur sig fram. Það fylgir þessu engin kvöð, engin skuldbinding, bara tækifæri til að láta gott af sér leiða og láta muna um framlag sitt til jafnréttisbaráttu lífsskoðana.

Ef einhver vill leggja málefninu lið, kemst ekki á morgun en er til í að vera með seinna, þá má hafa samband, t.d. með tölvupósti á vantru@vantru.is

Ritstjórn 17.09.2009
Flokkað undir: ( Tilkynning )

Viðbrögð


Þórður Ingvarsson - 22/09/09 04:53 #

Ef einhver vill leggja okkur lið eða skrá sig úr ríkiskirkjunni, þá verðum við í Öskju á Háskólasvæðinu á morgun frá því rétt fyrir hádegi þar til rétt eftir hádegi, ca. 11:30-13:30.


Þórður Ingvarsson - 22/09/09 14:46 #

Afsakið. Þetta verður á morgun, miðvikudag.


Þórður Ingvarsson - 24/09/09 12:31 #

Erum í Öskju akkúrat núna og verðum til hálf tvö eða tvö.


Þórður Ingvarsson - 24/09/09 12:35 #

Erum í Öskju núna og verðum til rúmlega tvö.


Sigurlaug - 14/10/09 16:24 #

Guðrún Karlsdóttir prestur í Grafarvogi sakar Vantrú um það í bloggi sínu að vera að ota þessu að ölvuðu fólki á öldurhúsum borgarinnar.. http://blog.eyjan.is/gudrun/2009/10/14/allgadar-skraningar-i-trufelog/


Björn Ómarsson - 14/10/09 16:43 #

Af fyrrnefndu bloggi:

Heyrst hefur af Vantrúarfólki með eyðublöð á öldurhúsum borgarinnar ... Ef það er satt að fyllt sé út í eyðublað fyrir ölvað fólk sem síðan skrifar undir, þá verð ég að segja að siðferði Vantrúarfólks er ekki upp á marga fiska

Þetta eru dylgjur. Í ljósi þess verð ég að segja að siðferði Guðrúnar Karlsdóttur er ekki upp á marga fiska.

(Til gamans: prófið að bera saman hugarástand tveggja bjóra manns við hugarástand tveggja mánaða barns. Hvor er líklegri til að veita upplýst samþykki?)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.