Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Dekrað við heimskuna

Flestir trúmenn telja sig væntanlega vera hófsama og réttsýna og aðrar kirkjudeildir en þeirra eigin vera á villigötum í túlkun boðskaparins. Þetta viðhorf er sér í lagi áberandi meðal þeirra sem hallir eru undir ríkiskirkju þá sem rekin er hér í samfélagi okkar. En ætli þetta fólk spyrji sig aldrei hvort verið geti að öll trú og öll trúarbrögð sé einfaldlega heilaspuni og vitleysa, þeirra eigin trúarhugsjónir líka?

Já, getur verið að skiptingin sé ekki:

öfgavantrú - sinnulaus vantrú - rétt og hófsöm trú - öfgatrú,

Heldur:

trúleysi - grængolandi endemis bull og vitleysa - meiri endemis glórulaus vitleysa.

Já, getur þetta verið? Spyr trúmaðurinn sig einhvern tíma þessarar spurningar?

Segjum nú sem svo að þetta síðara módel sé rétt, svona bara fyrir umræðuna. Hvað hefði sú niðurstaða í för með sér þegar samfélagið er skoðað?

Níels Dungal talaði um musteri heimskunnar í inngangi sínum að Blekking og þekking og átti við kirkjur heimsins. Í huga þess sem horfið hefur frá trú verður þetta gjarna niðurstaðan, menn sjá þessar byggingar sem hrópandi tákngervingu um heimsku mannanna. En sá trúlausi hefur ástæðu til að hrylla sig yfir mörgu öðru en bara þessum bjánalegu byggingum.

Í ríkisútvarpi allra landsmanna er dekrað við heimskuna. Það finnst í það minnsta þeim sem telur seinna módelið hér að ofan rétt. Það getu jafnvel þyrmt yfir hinn almenna trúleysingja að upplifa það að sífellt sé verið að ganga út frá þessum ógeðslega költísku heimsendis- og syndahugmyndum sem sjálfsögðum hlut, og hann hugsar: Hvað er að ykkur kæru samborgarar!

Og honum rennur til rifja að sjá forvígismenn heimskunnar njóta sérstakrar virðingar í samfélaginu. Einnig að það þyki aðdáunarvert að vera trúaður.

Verst þykir honum þó að reka sig á að ekki megi blaka við þessum klikkaða hugmyndaheimi sem trúfólk hefur komið sér upp í aldanna rás. Einhver helgi fær að umvefja ranghugmyndirnar og móðgunargirni við saklausustu spurningum nær jafnvel að ala af sér sektarkennd fyrir frumhlaupið.

Sá sem sér heiminn út frá módeli tvö hlýtur að sjá í hendi sér að þessum ófögnuði verður að linna. Hann sér að við verðum að geta gagnrýnt trú og trúarbrögð á skynsamlegum forsendum, án þess að uppskera yfirlætisfullt tal um unglinga í uppreisn, siðleysi og öfgar. Hann sér hálaunamenn ryðja yfirlætislega út úr sér forneskjulegum bjánaskap á kostnað skattborgaranna og fá til þess allt það pláss í fjölmiðlum sem þeir þurfa. Og því þarf að linna.

Honum óar við þessum endalausu, tilgangslausu og tilgerðarlegu kirkjum sem ekki gagnast einu sinni vel sem tónlistarhús, út af glymjandanum sem hannaður er út frá þeim hégóma prestanna að vilja hlusta á sína eigin rödd fylla út í sali. Bæta mætti hljóðvistina í þessum rándýru byggingum og kaupa reverb til að tengja við mækinn í ræðupúltinu. Þannig væri egótrippi prestsins fullnægt og um leið hægt að fara að nota þessar byggingar í eitthvað af viti.

Og síðast en ekki síst hryllir þeim, sem sér heiminn á forsendum materíalismans við þessum sjálfskipuðu atvinnugóðmennum að vaða uppi sem einhverjir klínískir sálfræðingar og félagsráðgjafar. Til þeirra hluta hafa þeir einfaldlega ekki næga menntun, auk þess sem trú þeirra litar störfin.

Kristin trú er hindurvitni. Fyrir þeirri fullyrðingu má telja upp ótal góð rök. Það er í raun skelfileg tilvera sem mætir hinum vantrúaða að sjá sífellt daðrað við heimskuna í samfélagi okkar. Við sjáum skaðann. Við sjáum vitleysisganginn. Og við munum halda áfram að berjast hinni góðu baráttu gegn hinu heimska skrímsli.

Birgir Baldursson 11.09.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 11/09/09 10:26 #

Það er borin von að nokkur trúmaður stilli dæminu svona upp. Hins vegar geta bæði trúaðir og trúlausir viðurkennt að annað hvort er guð Biblíunnar til eða ekki.

Rétt - Rangt Satt - Logið Vit - Heimska

Þeir eru örfáir sem trúa hverjum bókstaf í Biblíunni svo (kristna) trúmenn greinir helst á um hversu miklu er logið í "heilagri ritningu".

En af því að það er ellefti september má ekki gleyma Kóraninum og enginn þarf að velkjast í vafa um hverju trúin og heimskan fær áorkað.


Sveinn Þórhallsson - 11/09/09 13:25 #

Fólk áttar sig oftast nær ekki á að það er í skjóli meðalhófsins sem öfgarnar þrífast.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 11/09/09 22:56 #

Sveinn: Heyr heyr. "Hófsöm" vitleysa skapar pláss fyrir alla vitleysu.


Jóhann - 12/09/09 02:21 #

Birgir segir: "Flestir trúmenn telja sig væntanlega vera hófsama og réttsýna og aðrar kirkjudeildir en þeirra eigin vera á villigötum í túlkun boðskaparins"

Því vil ég benda honum á að það eru til trúmenn utan kirkjudeilda.


Hörður - 12/09/09 16:09 #

En EF hin vantrúaði hefur rangt fyrir sér ... getur hann virkilega vitað hið rétta? Er það ekki tilgerðin ein líka í samanburði við trú á Guð? Hefur hinn vantrúaði þekkinguna á lífinu í hendi sér?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/09/09 16:53 #

Hinn vantrúaði spyr, vegur og metur rök og sönnunargögn. Það er eina færa leiðin að þekkingunni, öfugt við aðdáun á órökstuddum fullyrðingum aftan úr bronsöld.


Jón K - 12/09/09 18:45 #

Það er munur að vera maður og míga standandi !

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.