Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Helgi Hóseasson

Þau dapurlegu tíðindi bárust þjóðinni að Helgi Hóseasson, heiðursfélagi í Vantrú, hefði látist á elliheimilinu Grund í morgun, 89 ára gamall að aldri.

Helgi Hóseasson

Helga verður minnst fyrir óþreytandi og hartnær hálfrar aldar baráttu sína við ríkiskirkjubáknið sem hófst með þeirri einföldu bón að fá skírnarsáttmála sínum rift. Rökin hans voru einföld: Hann fékk ekkert ráðið um þá athöfn enda var hann hvítvoðungur og óviti þegar hann var skírður. Helgi reyndi að koma sínu máli á framfæri með friðsamlegum hætti að fyrstu en var ætíð hunsaður af embættis- og kirkjunnarmönnum. Þá loks greip Helgi til þeirra róttæku aðgerða sem hann er þekktur fyrir.

Okkur í Vantrú hefur stundum þótt eftirfarandi tilvitnun í Helga vera ákall um og fyrirboði stofnun okkar félags:

Það er alveg furðulegt að menn sem halda að þeir séu með fullu ráði og rænu skuli vera að ljúga þessum bölvuðu lygasögum í börn. Það er íhugunarvert og mér finnst það vera kynjalegt hvað lítið er gert að því að hamla móti þessum vitleysingsgangi með þessa svokölluðu Kristni. Ég hef verið steinhissa á því lengi að það skuli ekki vera stofnaður formlegur félagsskapur eða samtök gegn svona glæpaverki að vera að teygja börn út í þennan andskota og kalla þetta heilagan sannleik hérna norður við pól. Það vita allir menn sem ekki hafa eintómt hey í hausnum að það er enginn guð til. Enda væri hann argasti óþokki sem sögur fara ef hann væri til. Ég hef orðið vitni að því að hann reyndi ekki að hindra þær tvær heimsstyrjaldir sem ég hef lifað.

Við í Vantrú svörum ákalli hans og segjum já, við munum berjast gegn hindurvitnum kristinnar kirkju og öllum hennar ágangi, sérstaklega þegar kemur að börnum.

Við viljum að lokum senda aðstandendum Helga samúðarkveðjur okkar. Í okkar huga var hann frumkvöðull og mikilmenni.

Þessu tengt:
Dómsmál Helga
Viðtal við Helga
Viðtal við Helga ásamt minningarorðum blaðamanns
Fyrrverandi vinnufélagi minnist Helga
Helgi mótmælir með Vantrú á Austurvelli 2004 (myndir)

Ritstjórn 06.09.2009
Flokkað undir: ( Helgi Hóseasson , Tilkynning )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/09/09 16:14 #

Við eigum Helga margt að þakka og gerum það best með því að halda baráttu hans áfram.

Helgi bar af andskotum sínum eins og gull af eir. Sannur hugsjónamaður gegn eðalhræsnurum og kerfiskörlum.


Helgi Örn Helgason - 06/09/09 16:40 #

Var Helgi Hóseasson meðlimur í félaginu Vantrú?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 06/09/09 18:40 #

Eins og kemur fram hér að ofan var Helgi heiðursfélagi í Vantrú.


Daníel Páll Jónasson - 06/09/09 19:42 #

Frábær náungi, alltaf fylginn sér og gaf allt í baráttu sína, hver sem hún var í það og það skiptið.

Hvíl í friði Helgi, þín verður sárt saknað.


ArnarG - 06/09/09 20:28 #

Hann þorði meðan aðrir þögðu. Hitti hann einu sinni og þakkaði honum hans framlag í þessari miklu réttindabaráttu. Einn merkasti Íslendingur sem uppi hefur verið að mínu mati.


Trausti Freyr - 06/09/09 23:42 #

Að kirkjunnar menn hafi ekki getað séð sóma sinn í því að verða við annars eðlilegri bón er aumingjalegt.

En bjóst einhver við einhverju öðru?

Far vel, Helgi. Þú stóðst á þínu alveg fram í dauðann.


Árni Árnason - 07/09/09 21:56 #

Nú þegar Helgi er látinn, er eins og við höfum tapað röddinni. Það veitti okkur hugarhægð að hann skyldi segja fullum hálsi það sem við vildum sagt hafa, en vorum of prinsipplausir til að stíga sjálfir fram fyrir skjöldu. Hafi hann ævarandi heiður og þökk fyrir það.

Kirkjuófreskjan skírði hann ómálga, fermdi hann ólögráða og neitaði honum allt til loka um að afturkalla þær meingjörðir. Hafi þeir ævarandi skömm og smán fyrir það.


Gunnar - 08/09/09 15:38 #

Eins og marg oft hefur komið fram á þessari síðu er kirkjan ekki bara Musteri heimskunnar eins og læknir nokkur orðaði það heldur full af hroka og hræsni í garð fólks með aðrar skoðanir.


Sveinn Þórhallsson - 09/09/09 10:18 #

Það er óhætt að segja að heimurinn er ögn fátækari í dag en hann var í síðustu viku.


Jellosaurus - 09/09/09 16:11 #

Ég legg til að Vantrú setji upp undirskriftarlista þar sem almenningur geti skráð sig vilji það fá skírnarsáttmála sinn ógildan. Hann verði síðan afhentur "stjórnvöldum" og "kirkjunnar mönnum" við hátíðlega athöfn. Auðvitað til heiðurs Helga Hós


Kristinn - 10/09/09 09:44 #

Þessi tillaga Jellosaurusar þykir mér snilld.

Er ekki málið að hrinda þessu í framkvæmd. Ég skrái mig fyrstur manna, enda skírður sem kornabarn og fékk ekkert við ráðið.


ArnarG - 10/09/09 11:04 #

Sammála Kristni að hugmynd Jellosaurus er afar góð. Myndi glaður skrifa undir slíkt plagg. Eins væri frábært ef einhver sæi sér fært að framleiða boli með tilvitnunum eftir Helga Hóseasson.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?