Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þórhallur Heimisson og níðingsskapurinn

Séra Þórhallur Heimisson hefur undanfarið farið mikinn í umræðum á bloggsíðu sinni. Þar er ótalmargt sem vert er að benda á og við munum gera það á næstunni. Við ætlum hins vegar að byrja á ummælum hans í okkar garð.

Þórhallur Heimisson

Táknmynd ykkar undirstrikar hvílíkir níðingar þið eruð.

Hún er níðingslegur útúrsnúningur á helgasta tákni kristninnar - sýnir vel að þið eruð ekki komnir til að rökræða heldur til að níða niður.

Níðið er ykkar eina innlegg í samfélagið. Ekert [sic] gott látið þið af ykkur leiða, engum hjálpið þið, engann huggið þið á erfiðum tímum.

Níðingar. Af ávöxtunum þekkist þið.

Af skondinni tilviljun hafði Þórhallur nokkrum dögum áður skrifað bloggfærslu undir titlinum "Vörumst alhæfingar". Þetta er ekki alveg gríman sem Þórhallur setur venjulega upp.

Einfalda leiðin til að svara orðum Þórhalls væri að benda á allt hið góða sem meðlimir Vantrúar gera utan félagsins. Okkar félagsfólk gefur til dæmis blóð, berst fyrir réttindum samkynhneigðra, gefur peninga til hjálparstarfs sem mismunar ekki á grundvelli trúarbragða (m.a. S.O.S. barnaþorp og Barnahjálp Sameinuðu Þjóðanna) og reynir bara að vera almennilegt við náungann í von um að það bæti samfélagið (en ekki af því að við höldum að guð vilji það). Við værum samt örugglega miklu duglegri við þessi góðverk okkar öllsömul ef við værum á ofurlaunum í boði almennings eins og séra Þórhallur.

Erfiða leiðin er að sjálfssögðu að sannfæra fólk um að vefritið og félagið Vantrú láti eitthvað gott af sér leiða. Eða er það svo erfitt? Við gætum líklega gert ótal góðverk ef við myndum fá milljarða til þess frá almenningi eins og ríkiskirkjan. En málið með Vantrú er að nær allir eru sammála okkur um eitthvað.

Góðverk Vantrúar:

  • Berjumst fyrir trúfrelsi og þar með aðskilnaði veraldlegs og trúarlegs valds.

  • Reynum að uppræta trúboð í skólum.

  • Gagnrýnum trúarbrögð sem hafa í gegnum tíðina og enn í dag staðið fyrir ofbeldi,kúgun, ofsóknum og fordómum á sama tíma og þau hafa barist gegn þekkingu og sannleika.

  • Aðstoðum fólk við að leiðrétta trúfélagsskráningu sína.

  • Afhjúpum aðferðir miðla sem féfletta syrgjandi fólk.

  • Fjöllum um skottulækna sem níðast á veiku fólki.

  • Stöndum gegn gervivísindum í öllum sínum myndum.

  • Hvetjum fólk til gagnrýnnar hugsunar og undanskiljum þá ekki einu sinni okkar eigin málflutning.

Það er erfitt að finna nokkurn mann sem er ekki sammála okkur í einhverju af þessum atriðum. En þó er það þannig í flestum tilfellum þeir sem verða fyrir gagnrýni okkar hverju sinni líta á okkur sem níðinga. En ef við höfum rétt fyrir okkur er ljóst að við erum að berjast gegn ótalmörgum birtingarmyndum níðingsskaps.

Hin endanlega niðurstaða er að sjálfssögðu sú að eina rökrétta mælistikan á verk okkar er sannleiksgildi málflutnings okkar. Þar stöndum við og föllum.

Það er um leið afhjúpandi að þar féll séra Þórhallur. Hann lét orð sín ekki falla eftir að við höfðum verið sérstaklega harkaleg í málflutningi okkar heldur eftir að honum sjálfum mistókst að svara rökum. Það er líka óneitanlega kaldhæðnislegt að þarna er hann ljótorðari um okkur en við höfum nokkru sinni verið um trúmenn. En þetta er fyrst og fremst ljótt af því að þetta er ósatt.

Ritstjórn 24.08.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Jón Frímann - 24/08/09 09:30 #

Orð, og hugarfar Þórhalls valda því að hann fellur undir skilgreininguna kristinn öfgatrúmaður. Hann er ekki líkur til þess að taka rökum, og almennri skynsemi. Hinsvegar munu aðgerðir hans valda skaða útá við fyrir almenning.

Hann mun á endanum boða hýðingar fyrir fólk sem vinnur á Sunnudögum.


Jói - 24/08/09 10:00 #

Það er áhugavert að umsjónarmenn Moggabloggsins leyfi svona ljótar fullyrðingar hjá presti en banni síðan efasemdarmann sem leyfir sér að tjá sig um kellingu sem stórhræddi fjölda manns. Ekki sama Jón og séra Jón.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 24/08/09 10:08 #

Það er nú rétt að benda á að við höfum nú ekkert kvartað til umsjónarmanna Moggabloggsins vegna Þórhalls enda teljum við að skoðanir hans ættu helst að ná til sem flestra og ekki heyrir neinn þær ef hann tjáir sig bara í kirkjunni eða á Trú.is (til að undirstrika þetta þá höfum við leyft honum að birta greinar hér).


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/08/09 12:11 #

Eins og Óli bendir á í síðustu athugasemd hefur Vantrú birt greinar eftir Þórhall.

Séra Þórhallur launar okkur greiðann með því að loka fyrir athugasemdir okkar af minnsta tilefni. Þannig lokaði hann nýlega fyrir mínar athugasemdir án ástæðu og nú hefur hann lokað fyrir athugasemdir frá blog.is notanda Vantrúar án tilefnis (fólk þarf að vera skráð á blog.is til að geta kommentað hjá klerk). Á sama tíma talar Þórhallur um "vilja til samtals". Grein Þórhalls birtist einnig á trú.is en þar er lokað fyrir athugasemdir eins og vanalega. Auk þess er engin vísun á greinina á bloggsíðu Þórhalls þar sem umræður eru í gangi. Á trú.is eru menn einnig afar uppteknir af því að segjast vilja samræður.

Nú gætu einhverjir sagt að það sé hræsni hjá mér að gagnrýna Þórhall fyrir þetta þar sem við á Vantrú höfum lokað fyrir athugasemdir frá vissum aðilum. Munurinn er sá að við gerum það ekki nema hafa góða ástæðu og færum athugasemdir á spjallborðið þar sem hægt er að ræða þær.


Arnaldur - 24/08/09 12:52 #

eg las yfir thetta blogg hjå honum og athugasemdir frå Hjalta

finnst otrulega kjånalegt af honum ad fara svona fljott i skitkast frekar en ad mæta ykkur med røkum.

Hann ætti nu ad fara lett med thad ad gera ykkur røkthrota ef heimildir hans eru jafn årædanlegar og hann heldur fram...

...en mer fannst åhugavert ad lesa umræduna sem var ad skapast og hefdi gjarnan viljad sjå hann svara almennilega en ekki med svona leidindum.

allavega fannst mer thetta ekki koma vel ut fyrir hann, ad minnsta kosti i augum thridja adila (tala fyrir mig).

Vonandi ad hann sjåi ad ser og taki thått i edlilegum røkrædum vid Hjalta


Ingvi Steinn Steinsson Snædal - 24/08/09 16:32 #

Ég væri verulega hissa ef hann getur komið fram með rökfærslur eða sannanir á einhverjum þessa staðhæfinga sem hann kom með í þessari grein sinni. Eftir að hafa kinnt mér rit og fyrirlestra alvöru vísinda og rannsóknarmanna á þessu sviði sé ég ekki betur en að hann sé bara að skrifa það sem honum dettur í hug, með engin gögn eða heimildir fyrir framan sig... ...Þannig á ekki að skrifa greynar Þórhallur minn...


Jón Frímann - 24/08/09 17:23 #

Hann vill ekkert ræða þær athugasemdir sem ég setti fram við þennan pistil hans.

Sérstaklega þegar ég benti honum á nokkur vitlaus atriði í biblíunni.


Teitur Atlason - 25/08/09 07:46 #

Það er fyndið í þessu samhengi að það sem triggeraði þessi heiftúðugu viðbrögð Þórhalls var lítil spurnig frá Hjalta.

Þessi hérna:

Svar[Þórhalls]: Þegar er til listi yfir þessi rit um 140 ekr. Þó Biblían hafi ekki verið formlega mótuð á þessum tíma er vitað að þetta voru ritin sem söfnuðirnir notuðu.

Hvaða listi er það?

Þórhallur hefur ekki enn svarað því. Ég kannast ekkert við svona lista þó hef ég próf úr guðfræðideild. Spurning hvað Prófessor Jón Ma segi um þessa fullyrðingu Þórhalls.


Einar Steinn - 12/05/11 15:15 #

Hvað sem sleggjudómum hans líður er hann er samt aðallega að vísa í lógóið ykkar og ég sé ekki að þið hafið svarað því. Ásökunin virðist fyrst og fremst snúast um guðníð.


Tinna (meðlimur í Vantrú) - 12/05/11 15:23 #

Níðið er ykkar eina innlegg í samfélagið. Ekert [sic] gott látið þið af ykkur leiða, engum hjálpið þið, engann [sic] huggið þið á erfiðum tímum.

Þetta snýst varla um guðníð. Þar að auki hefur geimverulógóið ekki verið notað lengi. Í þriðja lagi kemur það fram hér að ofan að þessi sprenging Þórhalls kom umræðuefninu ekki við.

Því miður er Þórhallur búinn að eyða blogginu sínu... ég get ekki ímyndað mér hvers vegna...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.