Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gvuð er alltaf í boltanum

Ein furðulegasta árátta trúmanna er að þakka æðri máttarvöldum allt jákvætt sem gerist í lífi þeirra. Þetta verður sérlega kjánalegt þegar hópar trúmanna eigast við.

Íþróttakappleikir eru gott dæmi. Fyrir leiki er algengt að sjá keppendur signa sig, sumir benda til himins þegar þeir skora og eftir leik er algengt að sigurvegarinn þakki almættinu sigurinn, sjaldgæfara er að tapari kenni almættinu um. Ég velti því alltaf fyrir mér af hverju gvuðinn hélt með sigurliðinu en ekki hinu.

Álfukeppninni í knattspyrnu lauk um daginn. Í úrslitaleik mættust Brasilía og Bandaríkin. Flestir gerðu ráð fyrir auðveldum sigri Brasilíu en Bandaríkjamenn komu á óvart og náðu tveggja marka forystu fyrir hlé. Í seinni hálfleik mætti gvuð Brasilíumanna til leiks og þeim tókst að sigra, skoruðu sigurmark á lokamínútum.

Að leik loknum fögnuðu Brassarnir eins og vera ber. Endurtóku fræga senu frá heimsmeistramóti í knattspyrnu sem fram fór í Suður Kóreu og Japan árið 2002. Mynduðu bænahring og tilbáðu almættið sem skóp þeim þennan frækna sigur. Bolir með ástarjátningum til Jesús voru líka áberandi. "I love Jesus" og "I belong to Jesus". Hallærislegra getur það varla orðið. Sást síðast um árið þegar Kaka klæddist þessum bol. Hvað getur maður sagt, annað en Jesús!

Í þetta skipti var stuðningur almættisins þó undarlegri en oft áður því andstæðingurinn var "gvuðs útvalda þjóð", kristnasta ríki vesturlanda. Hvað í fjandanum gerðu þeir vitlaust? Hvað fór úrskeiðis í hálfleik? Gleymdu þeir að biðja bænirnar sínar? Kannski er ástæðan sú að um þrír fjórðu íbúa Brasilíu tilheyra kaþólsku kirkjunni en einungis um fjórðungur Bandaríkjamanna. Var sigurinn staðfesting á því að Gvuð er kaþólskur?

Hvað er það svo sem almættið gerir til að tryggja að sigurinn lendi réttu megin? Er gvuðinn að hafa áhrif á stefnu boltans, sér hann til þess að varnarmenn missa einbeitingu eða notar hann áhrifameiri aðferðir eins og drepa leikmenn annars liðsins með eldingu.

Já, það getur verið skemmtilegt að fylgjast með hegðun og atferli trúmanna því þetta meikar ekki sens. Menn haga sér eins og hálfvitar vegna þess að þeir vita ekki betur, gera bara eins og aðrir.

Ekki getum við verið á móti því að íþróttamenn séu trúaðir en er ekki furðulegt að þeir þurfi að auglýsa trú sína á kappleikjum? Ég man ekki eftir því að trúlaus knattspyrnumaður hafi lagt sérstaka áherslu á trúleysi sitt í kringum kappleiki. Ég man ekki eftir að nokkur hafi tileiknað Darwin eða Bertrand Russel sigurinn.

Meira af boltanum. Nýlega kom skemmtilegt atvik upp í norska boltanum í viðureign Stromsgodset og Sandefjor. Þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum skoraði Admir Rascic mark eftir barning í teignum . Eins og lög gera ráð fyrir fagnaði hann markinu að hefðbundnum hætti en auk þess tóku hann og Fenan Salcinovicran, Bosnískur félagi hans, auka fagn að hætti múslima. Sneru að Mekka, settu rassinn út í loftið og tilbáðu Allah sem varð að fá sínar þakkir fyrir framlag sitt til leiksins. Espen Nystuen liðsfélaga þeirra var ekki boðin þátttaka í þessu trúarfagni en honum fannst uppátækið fyndið og þóttist riðlast á Fenan Salcinovicran. Hann var jú með rassinn út í loftið og Espen fannst þetta dálítið fyndið.

Þetta fór að sjálfsögðu fyrir brjóstið á trúmönnum og Espen þurfti að biðjast opinberlega afsökunar. Fáir gerðu athugasemd við að knattspyrnumenn iðkuðu trú sína á vellinum. Eflaust má segja að í athæfinu hafi falist ákveðin óvirðing við trú liðsfélaganna en má ekki segja að trúarfagnið sé ákveðið virðinarleysi við trúarskoðanir allra annarra? Á trú ekki að vera einkamál?

Sem betur fer höfum við mest megnis verið laus við þessa áráttu trúmanna hér á landi. Kannski er það enn eitt dæmið um að íslendingar eru ósköp litlir trúmenn þegar allt kemur til alls.

Matthías Ásgeirsson 06.07.2009
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Arnar - 06/07/09 16:14 #

Hefur guðinn þeirra ekkert þarfara að gera en að fixa úrslit í fótbolta?


Þundur Freyr - 06/07/09 17:32 #

Ætli þeir hefðu beðið til guðs ef þeir hefðu tapað? Ætli kanarnir hafi hópast saman í bænahring eftir leikinn? Varla.

Þetta er sem sagt frekar skilyrt ást sem þetta fólk hefur á gælu-guðnum sínum eða hvað?


Árni Árnason - 06/07/09 23:50 #

Þessi fáránleiki að signa sig fyrir vítaspyrnu og þakka guði fyrir unnin leik í íþróttum er lýsandi fyrir trúarnöttarana. Ef við gefum okkur eitt augnablik, bara fyrir röksemdafærsluna, að guð sé yfirleitt til ( sem hann er auðvitað ekki ) og að hann hafi vald og getu til að hafa áhrif á úrslit fótboltaleikja, væri þá ekki helvíti hart að horfa upp á alla vesöldina í heiminum sem hann lætur viðgangast afskiftalausa á meðan hann er upptekinn við að rigga íþróttaúrslit.

Heldur þetta fávísa fólk virkilega að þessar athafnir þeirra ( íþróttaiðkunin ) sé svo merkileg að það sé verðugt algóðum og almáttugum guði að vasast í úrslitunum á meðan milljónir líða hungur, sjúkdóma, hamfarir og órétt. Eða er þetta guð þeirra svo illilega trivial fyrirbæri að taka þetta sprikl þeirra fram yfir nauðsynlegri viðbrögð.

Nei þetta er allt í sama rökleysu og þvættingsstílnum. Það er í raun alveg stórmerkilegt hvernig fólk sem að öðru leyti virðist hafa sæmilega heilastarfsemi, og er jafnvel treyst til ábyrgðarstarfa getur alið með sér svona botnlausar grillur.

Sér þetta fólk ekki að eitthvert guð sem má vera að fylgjast með fótbolta, en lætur á sama tíma sem hann hvorki sjái né heyri alla eymdina í veröldinni- getur einfaldlega ekki staðist. Sér það ekki að þetta er í andstöðu við sjálfa grundvallarhugmyndina um guð svona yfirleitt.

Eða er það bara stupid ?


Baldur - 07/07/09 04:08 #

@ Árna "Heldur þetta fávísa fólk virkilega að þessar athafnir þeirra ( íþróttaiðkunin ) sé svo merkileg að það sé verðugt algóðum og almáttugum guði að vasast í úrslitunum á meðan milljónir líða hungur, sjúkdóma, hamfarir og órétt."

Þú gerir þarna þau mistök að ályka að guð (sem þú reistir á ímyndaðri forsendu) hafi sömu forgangsröðun og við. Það er ekkert sem segir að guð hugsi eins og við, kannski þykir guði möl og steinar merkilegri en líf og boltinn merkilegri en mannslíf.

Reyndar þegar ég velti því fyrir mér þá gæti það vel verið rétt.


Guðjón B. (meðlimur í Vantrú) - 07/07/09 07:40 #

Baldur: Er hann þá merkilegur pappír að tilbiðja?


Arnar - 07/07/09 10:32 #

@Baldur: ".. kannski þykir guði möl og steinar merkilegri en líf og boltinn merkilegri en mannslíf.

Reyndar þegar ég velti því fyrir mér þá gæti það vel verið rétt."

Heh, satt. Það útskýrir margt :) Td. eins og afhverju hefur ekkert til hans spurst í yfir 2000 ár.


Baldur - 07/07/09 15:48 #

Guðjón: "Baldur: Er hann þá merkilegur pappír að tilbiðja?"

Það fer eftir. I minu dæmi er honum sama um folk og er að pæla i steinum þannig að það breyttir engu hvort við biðjum eða ekki- hann myndi liklega ekki hlusta. En það væri oþarfi að kalla hann "omerkilegan pappir" að tilbiðja vegna þess að hann er ekki að leitast eftir að vera tilbeðinn (i minu dæmi alla vegana).

Þetta er auðvitað bara hypothetical guð.

Arnar: "Heh, satt. Það útskýrir margt :) Td. eins og afhverju hefur ekkert til hans spurst í yfir 2000 ár."

Hehe, hann er liklega að skoða steina i einhverri fjarlægri vetrarbraut :] mikið ahugaverðara en mannfolk


Jóhann - 08/07/09 21:40 #

Finnst þér í alvöru furðulegt að trúaðir menn þakki "gvuði" fyrir velgengni sína, Mattías?

Hvað er undarlegt við það?


Davíð - 08/07/09 22:06 #

Það er athyglisvert að verið sé að gefa sér að íþróttamenn séu að biðja Guð um sigur. Kannski eru þeir bara að þakka Guði fyrir tækifæri til að spila, hæfileikana sem þeir eru gæddir o.s.frv.

Alltaf finnst mér samt æðislegt þegar íþróttamenn eru gagnrýndir fyrir að "auglýsa trú sína". Finnst höfundi ekki að tjáningarfrelsið ætti að ná til trúarafstöðu einstaklinga, eða er verið að þröngva trúarbrögðum á heildina þegar íþróttamenn nýta sér slíkt og geta ekki annað en lofað sinn Guð af gleði, á augljósan hátt.

Síðan finnst mér alltaf jafnskrýtið þegar trúlausir byrja að setja trúleysið sitt upp sem einhverskonar trúarbragð. (en venjulega lít ég á trúleysi sem það að trúa ekki, punktur) Það er í sjálfu sér engin þörf á að "auglýsa" slíkt neitt sérstaklega, eins og höfundur bendir á að hann hafi ekki séð mikið gert af. Vísun höfundar til þessa og til Darwins og Russels held ég þó að sé meira til þess að krydda umfjöllunina og hlæja soldið.

Læt þessi viðbrögð mín duga. Og þakka fyrir mig!

p.s. bara rétt í lokin, þegar ég skrifaði "þakka fyrir mig" þá fór ég að velta fyrir mér, hvenær er eðlilegt að vera "þakklátur" og hvenær ekki, og að hverjum á þakklæti að snúast? Ég er þakklátur ykkur aðstandendum vantrúar fyrir að vera með þessa heimasíðu og að benda á margt áhugavert, ég er þakklátur þeim sem gefa mér gjafir og þeim sem eru vinir mínir og góðir við mig. En t.d. ef ég er þakklátur fyrir að vera með 10 fingur og 10 tær, eða þakklátur fyrir eitthvað sem í raun er kannski almennt séð sjálfsagt og enginn hefur gefið mér, er það þá órökrétt tilfinning, eða þakklæti út í bláinn? Jæja, hef þetta ekki lengra.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/07/09 01:20 #

Jóhann/gimbi: Finnst þér í alvöru furðulegt að trúaðir menn þakki "gvuði" fyrir velgengni sína, Mattías?

Já, stundum. Mér finnst annars afar margt furðulegt við atferli trúmanna.

Jóhann/gimbi: Hvað er undarlegt við það?

Þeir gleyma gvuðinum sínum þegar illa gengur. Auk þess gera þeir ráð fyrir að þeirra gvuð sé upptekinn af þeim persónulega. Í athugasemdum hafa komið ágætir punktar varðandi þetta.

Davíð: Það er athyglisvert að verið sé að gefa sér að íþróttamenn séu að biðja Guð um sigur.

Gaf ég mér það? Stundum biðja íþróttamenn Gvuð um sigur, stundum þakka þeir honum eftirá. Aldrei kenna þeir gvuðinu um tapið.

Davíð: Alltaf finnst mér samt æðislegt þegar íþróttamenn eru gagnrýndir fyrir að "auglýsa trú sína". Finnst höfundi ekki að tjáningarfrelsið ætti að ná til trúarafstöðu einstaklinga, eða er verið að þröngva trúarbrögðum á heildina þegar íþróttamenn nýta sér slíkt og geta ekki annað en lofað sinn Guð af gleði, á augljósan hátt.

Vissulega finnst mér að tjáningarfrelsi eigi að ná til trúarafstöðu einstaklinga en reyndar er alþjóðaknattspyrnusamtök ekki endilega sömu skoðanunar. Leikmönnum er beinlínis óheimilt að setja fram tilteknar skoðanir í leik og hafa t.d. fengið ávítur fyrir að setja fram pólitískan áróður í kappleik. Mér finnst það aftur á móti ekki viðeigandi að íþróttamenn séu að "lofa sinn Guð af gleði" á kappleik. Það geta þeir gert við annað tækifæri. Það er stundn og staður til að iðka trú. Opinberir kappleikir eru hvorki staðurinn né stundin.

Davíð: Vísun höfundar til þessa og til Darwins og Russels held ég þó að sé meira til þess að krydda umfjöllunina og hlæja soldið.

Rétt til getið hjá þér. Þó er ég viss um að fjöldi íþróttamanna eru algjörlega lausir við trúarbrögð. Mér þætti ekki viðeigandi að þeir væru sérstaklega að setja þá lífsskoðun sína fram í kringum keppni. Það er hvorki staður né stund fyrir slíkt.

Þakka þér fyrir athugasemdina. Þakklæti getur verið ágætt. Sérstaklega þegar það beinist að raunverulegum persónum sem gera eitthvað og geta tekið þakklætið til sín.


Jóhann - 09/07/09 02:02 #

Matti svarar:

"Já, stundum. Mér finnst annars afar margt furðulegt við atferli trúmanna."

Það var ekki það sem ég spurði um. Reyndu ekki að drepa málum á dreif.

Ég spurði: "Finnst þér í alvöru furðulegt að trúaðir menn þakki "gvuði" fyrir velgengni sína"?

Þú þykist svara: "Þeir gleyma gvuðinum sínum þegar illa gengur."

Hvaðan kemur þér sú speki? Er það vegna þess að fótbolta-menn reyta ekki hár sitt þegar þeir tapa leik?

Þú segir: "Auk þess gera þeir ráð fyrir að þeirra gvuð sé upptekinn af þeim persónulega"

Nema hvað!!

Það er trú þeirra!

Hélstu kannski að þeir ættu að vera uppteknari af "efnishyggju" þinni?

P.S. Ef þér er einhver þægð í því að ég skrifi hér á aðalsíðu ykkar undir nafninu Jóhann, en ekki í hinu neðra, þá er það einfaldlega vegna þess að ég get ekki skráð mig sem Jóhann Sigurfinn Bogason á spjallinu ykkar. Því verð ég þar enn sem komið er "gimbi".

Þú heldur kannski að ég skammist fyrir hugmyndir mínar?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/07/09 02:16 #

Þakka þér kærlega fyrir athugasemdina Jóhann Sigurfinnur Bogason.

"Já, stundum. Mér finnst annars afar margt furðulegt við atferli trúmanna."

Það var ekki það sem ég spurði um. Reyndu ekki að drepa málum á dreif.

Svar mitt var: "Já stundum.". Stundum finnst mér furðulegt að trúaðir menn þakki gvuði sínum velgengnina. Yfirleitt er ég ekkert að spá í þessu en þegar heilt knattspyrnulið fer í bænahring eftir fótboltaleik finnst mér ástæða til að spá í þessu.

Mér þykir ákaflega leiðinlegt (nei, ég lýg því reyndar) ef svar mitt uppfyllir ekki væntingar þínar.

Hvaðan kemur þér sú speki? Er það vegna þess að fótbolta-menn reyta ekki hár sitt þegar þeir tapa leik?

Þeir reyta hár sitt. Þeir kenna sjálfum sér um, dómaranum, vellinum, boltanum, áhorfendum, veðrinu, treyjunni, mataræðinu eða einhverju öðru en ég hef aldrei séð eða heyrt um íþróttamann sem kenndi almættinu um tapið. Manst þú eftir að einhver hafi talað um að sennilega hafi Gvuð bara elskað andstæðinginn meira? Væri það ekki dálítið hressandi?

Nema hvað!!

Það er trú þeirra!

Nema hvað! Það er trú þeirra sem ég furða mig á.

Hélstu kannski að þeir ættu að vera uppteknari af "efnishyggju" þinni?

Nei, trú þeirra kemur mér ekkert við og ég er hér ekki að fara fram á að íþróttamenn gerist trúleysingjar.

P.S. Ef þér er einhver þægð í því að ég skrifi hér á aðalsíðu ykkar undir nafninu Jóhann, en ekki í hinu neðra, þá er það einfaldlega vegna þess að ég get ekki skráð mig sem Jóhann Sigurfinn Bogason á spjallinu ykkar. Því verð ég þar enn sem komið er "gimbi".

Þú hefur skrifað athugasemdir á vantrúarvefinn undir nafninu gimbi í þónokkurn tíma.

Svo getur þú reyndar breytt nafninu þínu á spjallborðinu. Smellir bara á "profile" og breytir því.

Þú heldur kannski að ég skammist fyrir hugmyndir mínar?

Nei, þú ert furðulega hreykinn. Ég sé ekki tilefnið.


Jóhann - 09/07/09 02:36 #

Ég heiti, rétt eins og þú ættir nú að vita, ekki Jóhann Sigurfinn Bogason, heldur Sigurfinnur. Á þessu er munur.

Þú áréttar að "stundum" sértu hissa á háttalagi trúaðra. Það var samt ekki að lesa í upprunalegu innleggi þínu. Þvert á móti mátti ætla að þú værir furðu lostinn yfir því að trúaðir fótboltamenn lofuðu "gvuð" sinn, þegar þeir urðu sigurvegarar. Ekki "stundum", heldur alltaf!

Nú þykist þú geta bætt við einhverjum óljósum fyrirvörum um að sömu trúar-fótbolta-menn reyti hár sitt þegar sömu trúmenn tapa leik.

Þvílíkt þvaður!

Að sjálfsögðu kunna þeir sem tapa fótboltaleik að reyta hár sitt, en það þarf ekki að vera vegna þess að þeir séu trúaðir.

En þarna skortir þig víðsýni; allt fótboltasjónarspilið fær á sig blæ "trúarbragða" þegar þú horfir á leikina.

Það er dapurt.

"Stundum"


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/07/09 14:12 #

Jóhann, slepptu því frekar að skrifa athugasemdir hér heldur en að vera með þessar leiðinlegur hártoganir og útúrsnúninga.

Að sjálfsögðu kunna þeir sem tapa fótboltaleik að reyta hár sitt, en það þarf ekki að vera vegna þess að þeir séu trúaðir.

Ertu að rökræða við mig eða sjálfan þig? Hef ég haldið einhverju slíku fram?

En þarna skortir þig víðsýni; allt fótboltasjónarspilið fær á sig blæ "trúarbragða" þegar þú horfir á leikina.

Ég er sérstaklega að ræða um afar áberandi vísanir í trú á kappleikjum eins í þeim dæmum sem ég vísa á. "Allt fótboltasjónarspilið" fær ekki á sig blæ trúarbragða þegar ég horfi á leikina.

Hvað er eiginlega í gangi? Af hverju getur þú ekki reynt að gangrýna þær skoðanir sem ég set fram í stað þess að gera mér endalaust upp skoðanir og snúa út úr því sem ég skrifa.

Svo finnst þér skrítið þegar við fáum nóg og færum athugasemdir þínar á spjallborðið.


Jóhann - 09/07/09 22:23 #

Voðalega ertu viðkvæmur!

Ég var nú bara að benda þér á að það er ekki neitt furðulegt við að heittrúaðir menn þakki Gvuði fyrir sig í velgengni. Hvort heldur er á fótboltavelli eða í Krísuvík.

Finnst þér það "útúrsnúningar"?

Gott og vel. Ekki veit ég hvað er svona merkilegt við þessa uppgötvun þína.

En vita máttu að mér þykir þetta háttalag fótboltakappa spaugilegt.

Furðulegt er það ekki...


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/07/09 22:31 #

Er tilgangur athugasemda sinna virkilega sá að mótmæla því að ég nota orðið "furðulegt" vegna þess að þú kýst að nota frekar orðið "spaugilegt".

Gott og vel. Ekki veit ég hvað er svona merkilegt við þessa uppgötvun þína.

Hvaða uppgötvun? Hélt ég því fram að ég hefði verið að uppgötva eitthvað?


Jóhann - 09/07/09 23:08 #

Þú viðurkennir, vænti ég, mun á því sem er hlægilegt, og hinu sem er furðulegt?

Það að þú hafir "uppgötvað" eitthvað, markast af því að þú hafir eitthvað nýtt fram að færa.

Teljir þú þig bara halda hér fram viðteknum sannindum, þá eru þau hvorki frumleg né skemmtileg.

Þetta innlegg þitt er bara klifun um það sem hverjum sæmilega vitibornum manni mætti vera ljóst.

Að heittrúaðir menn þakka gvuði sínum fyrir velgengni.

Það er nákvæmlega ekki nokkur skapaður hlutur frumlegt við það.

Hins vegar kann það að vera skemmtilegt að þú ætlist til þess að brasíliskir fótbóltakappar temji sér lífsýn þína.

Og frumlegt...


Guðmundur - 09/07/09 23:17 #

Jóhann gáfur þínar eru svo yfirþyrmandi,að mann setur hljóðan.


Jóhann - 09/07/09 23:21 #

Ekki svo mjög hljóðan...


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/07/09 01:40 #

Til hvers ertu að þessu?

Teljir þú þig bara halda hér fram viðteknum sannindum, þá eru þau hvorki frumleg né skemmtileg.

Viðtekin sannindi eru aldrei frumleg, það er rétt hjá þér. Til hamingju. Hvort þau eru skemmtileg hlýtur að vera álitamál, nema þú teljir þig dómara í slíkum málum. Mér gæti ekki staðið meira á sama um þína dóma eða skoðanir.

Þetta innlegg þitt er bara klifun um það sem hverjum sæmilega vitibornum manni mætti vera ljóst.

Að heittrúaðir menn þakka gvuði sínum fyrir velgengni.

Það er nákvæmlega ekki nokkur skapaður hlutur frumlegt við það.

Þú ert með frumlegheit á heilanum sem er merkilegt í ljósi þess að ég man ekki eftir því að hafa séð þig setja fram nokkra frumlega hugsun. Svo ég ítreki, þá taldi ég mig ekki vera að setja fram nokkuð frumlegt í þessum litla einfalda pistli.

Ef fólk mætti ekki opna munninn án þess að segja neitt frumlegt væri væntanlega lítið um samræður.

Hins vegar kann það að vera skemmtilegt að þú ætlist til þess að brasíliskir fótbóltakappar temji sér lífsýn þína.

Ætlast ég til þess? Það eru aldeilis fréttir.

Hættu þessum leiðindum.


Davíð - 10/07/09 03:16 #

Ég verð nú að taka undir með þér Matti, Jóhann, hvaða voðalegu stælar eru þetta. Ég meina þetta innlegg er flokkað undir "hugvekju" gefðu þessu smá slaka. Þetta er ekki flokkað sem einhverskonar heilagur sannleikur, heldur í raun sem hugleiðing...bara hugsanir á tölvuskjá, pæling, eitthvað eftirtektarvert.

Þetta eru bara hugsanir og Matti hefur fullan rétt á að finnast eitthvað furðulegt sem þér finnst skemmtilegt...æææ, nenni ekki að fara frekar út í þetta, þetta dæmir sig sjálft.


Jóhann - 11/07/09 02:21 #

Davíð segir: "Ég verð nú að taka undir með þér Matti, Jóhann, hvaða voðalegu stælar eru þetta."

Það má kannski áminna þig að þetta var fyrsta versið hjá Matta:

"Ein furðulegasta árátta trúmanna er að þakka æðri máttarvöldum allt jákvætt sem gerist í lífi þeirra."

Það er einfaldlega ekki nokkur skapaður hlutur furðulegur við það að trúmenn þakki æðri máttarvöldum fyrir allt það jákvæða sem gerist í lífi þeirra. Ekki neitt!

En líklega lítur þú á athugasemdir mínar við þessar markverðu hugmyndir Mattíasar sem viðleitni til að skemma partíið.

Þessi pistill Mattíasar er ekkert annað en drýldin hæðnisræða um það að trúaðir menn trúa.

Eru það ný sannindi?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/07/09 11:19 #

Jóhann/gimbi: Það er einfaldlega ekki nokkur skapaður hlutur furðulegur við það að trúmenn þakki æðri máttarvöldum fyrir allt það jákvæða sem gerist í lífi þeirra. Ekki neitt!

Það er ótrúlegur hroki sem birtist í þessum orðum Jóhanns. Hann er maðurinn sem segir okkur hvað er furðulegt og hvað ekki. Ég skal segja ykkur dálítið: mér finnst þetta alltaf jafn ótrúlega furðulegt.

Jóhann/gimbi: Þessi pistill Mattíasar er ekkert annað en drýldin hæðnisræða um það að trúaðir menn trúa.

Ég fjalla um tvo nýlega atburði í þessum pistli. Vonandi höfðu einhverjir dálítið gaman að því. Stundum bregst ég við því sem er að gerast með því að fjalla um það almennt. Í þessu tilviki er tilefni skrifa minna afar áberandi trúarathöfn sem Brasilíumenn héldu þegar þeir unnu Álfukeppnina í knattspyrnu.

Jóhann/gimbi: Eru það ný sannindi?

Eru hindurvitni ný ósannindi?

Mikið væri gott ef Jóhann myndi losna við þessa þráhyggju. Ég er ekkert að rembast við að skrifa ný sannindi á þessa síðu. Ég er sáttur meðan það sem ég skrifa teljast "sannindi", þó gömul séu.


Jóhann - 11/07/09 21:50 #

Finnst þér í alvöru furðulegt að heittrúaðir menn þakki meintum gvuði sínum fyrir velgengni?

Þú segir að þeir þakki ekki fyrir mótlæti með sama hætti. Gott og vel.

En setjum sem svo að trúlaus maður vinni í Lottói. Hann gæti þá væntanlega lofað tilviljunina samfara því að hann varð þess ávinnings aðnjótandi, ekki satt?

Mætti þá ekki samkvæmt þínum skilningi halda því fram að þegar trúlaus maður fær ekki Lottó-vinninginn, þá beri honum að þakka tilviljuninni fyrir það.

En þetta er líkast til bara "útúrsnúningur" hjá mér...

Ég er samt bara að benda ykkur á að, að því marki sem heittrúaðir kunna að vera hjákátlegir, þá er það einvörðungu vegna þess að þeir eru heittrúarmenn, en þið ekki.

Þessi pistill hjá þér kann að vera "aktúell", en mér finnst sem þú sért í raun bara að gera grín að trúuðum mönnum.

Þá vil ég bara benda þér á að þú ert ekki að leitast við að greina eitt eða neitt, enda er það sjálfsagt að trúmenn signi sig í velgengni.

Þú ert með þessum pistli að víggirða sjálfan þig og um leið að fjarlægjast möguleikann á því að koma þínum málstað á framfæri.

M.ö.o., þú ert bara að segja það sem þér og þínum viðhlægjendum þínum þykir gaman að heyra.

Heldur þú að Kaka muni snúast hugur vegna svona hugleiðinga?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/07/09 22:58 #

Þú segir að þeir þakki ekki fyrir mótlæti með sama hætti. Gott og vel.

Af hverju ættu þeir að þakka fyrir mótlæti? Ég segi það hvergi. Ég sagði að þeir kenni almættinu ekki um þegar illa gengur. Ekki með "sama hætti" heldur akkúrat öfugt, eins og heitt og kalt.

En setjum sem svo að trúlaus maður vinni í Lottói. Hann gæti þá væntanlega lofað tilviljunina samfara því að hann varð þess ávinnings aðnjótandi, ekki satt?

Mætti þá ekki samkvæmt þínum skilningi halda því fram að þegar trúlaus maður fær ekki Lottó-vinninginn, þá beri honum að þakka tilviljuninni fyrir það.

Af hverju ætti einhver að þakka tilviljuninni? Af hverju einhver að þakka sömu tilviljun fyrir að fá ekki vinning? Ég skil einfaldlega ekki það sem þú ert að reyna að segja. Hugsanlega er líking þín ótrúlega heimskuleg.

M.ö.o., þú ert bara að segja það sem þér og þínum viðhlægjendum þínum þykir gaman að heyra.

Já, það má vera. Er eitthvað athugavert við það?


Jóhann - 11/07/09 23:17 #

"Já, það má vera. Er eitthvað athugavert við það?"

Er eitthvað athugavert við það?

Er það ekki soldið svona kultish? Svona eins og þú sért ekki svo mikið með hugann um hvað má teljst álitamál, heldur fremur eins og Gunnar í Krossinum sem áréttar hinn eina sannleika.

Hér er hann sá að heittrúaðir menn eru kjánalegir þegar þeir þakka gvuði sínum fyrir góðan díl.

Finnst þér það í alvöru eitthvað markvert, Matti?

No kidding?


Mattii (meðlimur í Vantrú) - 11/07/09 23:57 #

Mér fannst markverkt hve mikla áherslu leikmenn Brasilíska landsliðsins lögðu á Jesús.

Mér fannst uppákoman í norska boltanum skondin.

Finnst þér eitthvað athugavert við það?


Jóhann - 12/07/09 00:35 #

Lifið er skondið.

Brasilíumenn eru alla jafnan trúaðir.

Trúarbrögð eru fyndin.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/07/09 22:24 #

Brazil footballers told: keep faith to yourself
Several of the national side’s players, including Real Madrid star Kaka, wore T-shirts bearing slogans such as ‘I belong to Jesus’ underneath their shirts during the Confederations Cup final last month.

But football’s governing body, FIFA, has now reminded the team that such displays on the pitch are against the rules.

FIFA wrote to the Brazilian Football Federation “to remind them of the relevant regulations, so that such incidents do not recur in the future”.

...

FIFA rules say: “Players must not reveal undergarments showing slogans or advertising. The basic compulsory equipment must not have any political, religious or personal statements.” #


Baldur - 21/07/09 02:46 #

Mér finnst þetta nokkuð undarlegt Jóhann, án þess að vera leiðinlegur.

Aðalpunkturinn í þessari grein virðist hafa verið að sumir trúaðir þakka guði sínum ef amma gamla far á bataveg en segja ekki "þetta var guði að kenna" ef barn deyr í slysi.

Annað hvort er allt sem gerist í heiminum (vinna/vinna ekki í lottói, sigra/tapa fótboltaleik, amma læknast/deyr..) guði að þakka eða ekki allt í heiminum er guði að þakka.


Kristján Hrannar Pálsson - 21/07/09 23:59 #

Reyndar finnst mér skrýtið að FIFA að þurfa sérstaklega að taka eitthvað svona fram. Mér finnst að leikmenn ættu að mega sýna það sem þeir vildu, hvort sem það væri eitthvað pólitískt, trúarlegt eða t.d. auglýsingar; þeir þyrftu bara að taka á sig eðlilega gagnrýni fyrir það ef það væri bjánalegt (eins og í þessu tilviki). Þetta finnst mér svipað og ef aðstandendur Óskarsverðlaunahátíðarinnar myndu banna allan pólitískan áróður (þar sem þeir ákveddu sjálfir hvað væri pólitískur áróður eða ekki). Hvað með indíánastúlkuna sem Marlon Brando sendi fyrir Godfather verðlaunin?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.