Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hans heilagleiki herra Lama

Dalai Lama
Mynd af Dalai Lama frá Jan Michael
Það er rétt að byrja greinina á ákveðinni staðhæfingu til að koma í veg fyrir mistúlkun: Ég er á móti kúgun Kínverja á Tíbetum og teldi best ef Tíbet fengi sjálfstæði og íbúar landsins gætu stjórnað eigin málefnum.

Það er algengur misskilningur að stuðningur við Tíbeta sé einhvern veginn háður stuðningi við Dalai Lama*. Svo er nefnilega ekki. Frjálslynt fólk sem sér galla kaþólskrar trúar og páfans er alltof gjarnt á að líta framhjá göllum búddisma og Dalai Lama.

Tíbet undir stjórn Búddamunka var engin draumaveröld. Stjórnin var harkaleg og beitti líkamlegum refsingum. Trúarræði er ekki gott stjórnarform og ef Tíbetar losna undan kúgun Kínverja þá vonum við að landið lendi ekki aftur undir slíkri stjórn.

Ef við trúum því bókstaflega að Dalai Lama* sé endurholdgun fyrri manna sem báru þennan titil þá verður ferill hans áhugaverður. Hann ber þá persónulega ábyrgð á þeim voðaverkum sem voru framin í Tíbet á stjórnartímum forvera sinna. Við vitum augljóslega að hann er bara einhver náungi sem fæddist á heppilegum tíma miðað við andlát fyrri Dalai Lama en samkvæmt hans eigin trúarkerfi er ábyrgðin á höndum hans. Íslenskir blaðamenn mættu gjarnan lesa sér til um sögu Tíbet og spyrja hann hvers vegna honum þótti áður fyrr allt í lagi að höggva líkamsparta af fólki í refsingarskyni.

Dalai Lama hefur líka ýmsar skoðanir sem tengjast trú hans sem minna til dæmis á páfann. Hann er sérstaklega á móti munnmökum, endaþarmsmökum og sjálfsfróun vegna þess að þar koma við sögu líkamshlutar sem ekki eru ætlaðir til slíkra athafna. Raunar virðist hann helst telja að skírlífi sé rétta leiðin til að lifa.

Ég tek fram að við eigum ekki að líta framhjá því góða í fari Dalai Lama, eitthvað slíkt er vissulega til staðar, en það er engin ástæða til að láta eins og maðurinn sé heilagur því hann er það ekki.

*Það ergir mig mjög þegar ég heyri Dalai Lama titlaðan andlegan leiðtoga Tíbeta. Hann er það ekki. Hann er trúarleiðtogi tíbetskra búddista. Það er óhugsandi að ekki séu til einhverjir innfæddir Tíbetar sem ekki líta á hann sem andlegan leiðtoga sinn.

Óli Gneisti Sóleyjarson 28.05.2009
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Páll - 28/05/09 16:05 #

Voða er þetta eitthvað dapurlegt hjá þér Óli. Langar til að sjá þig örlítið meira málefnalegan en þetta. Þú hefur stundum skrifað ágætlega en þessi pistill nær víst engum hæðum verð ég því miður að segja.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 28/05/09 16:12 #

Páll: Ef þetta er slök grein hjá mér þá hlýtur þú að geta bent á galla hennar. Kommentakerfið er opið og þér er frjálst að tæta hana í þig.


Páll J. - 28/05/09 16:15 #

Kannski ekki alveg Óli í sínu besta formi nafni en engu að síður þarfur pistill. Við á Vesturlöndum eigum það til að líta á þá ofurfrjálslyndu hippaútgáfu af búddisma sem tíðkast hér sem einu útgáfuna.

Klassískur búddismi í austurlöndum getur hreinlega verið þónokkuð íhaldssamur og bókstafssinnaður. Það er ekki allt unnið með því að vera friðarsinni þó það skili manni býsna langt.


Haukur Þ. - 28/05/09 18:30 #

Mér finnst líka skrýtið þegar hann er titlaður andlegur leiðtogi Tíbeta. Hann var andlegur og veraldlegur leiðtogi Tíbeta þangað til Kínverjar boluðu honum frá völdum og er höfuð tíbesku útlagastjórnarinnar í Indlandi.

Það er sjálfsagt að gagnrýna það sem hann segir um kynlíf. Samt er rétt að hafa í huga að (ólíkt páfanum) heldur Dalai Lama því fram að siðferðisboð hans eigi aðeins við þá sem fylgja tíbeskum búddisma en ekki allt mannkynið. Það er líka rétt að hafa í huga að mannréttindabarátta samkynhneigðra hefur gengið mun hægar í Asíu en á vesturlöndum. Endaþarmsmök voru t.d. bönnuð með lögum í Kína fram til 1997 - og þá höfðu trúlausir haft öll völd í landinu í meira en 50 ár.


Henni - 28/05/09 18:40 #

Það var ágætt að þú tókst fram munnmaka, endaþarmsmaka og sjálfsfróunnar dæmið, því ég hef fengið með mér ummæli sem hafa verið höfð eftir honum í því sambandi og fylgdi því smá undrun manna í framhaldinu.

En ég held að þetta minnki ekki álit vestrænna manna á búddaklerkunum enda eru margir ginnkeyptir fyrir ljósinu frá hinu FJARLÆGJA austri.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 28/05/09 19:52 #

Trúleysingjar geta einmitt verið helvítis hálfvitar.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 29/05/09 08:23 #

Eins og aðrir! Þetta er góð og þörf grein, Óli, trúarræði er alltaf af hinu illa.

Tíbesk útgáfa búddisma er nokkurs konar blanda af suður-búddísma (Theravada) eins og hann er stundaðir á Sri Lanka og Indó-kínverska skaganum. og norður-búddisma (Mahayana) sem er ríkjandi í Kína og Japan.

Tíbeskur búddismi er talsvert í sérflokki, það sem helst einkennir hann er áhuginn á dauðanum, sbr. "Bók hinna dauðu", og trúna á endurholdgun einstaklingsins. Útfararsiðir Tíbeta eru ekki búddískir en móta eflaust afstöðu þeirra til lífs og dauða.

Tíbet er mjög harðbýlt land og samfélagslega hefur það þróast frá miðaldaríki með tilheyrandi ofbeldi til kommúnístanýlendu með ekki minna ofbeldi.

Lýðræði og sjálfstjórn er auðvitað framtíðin fyrir Tíbet.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 29/05/09 15:25 #

Ekki veit ég hvernig tíbet getur orðið sjálfstætt eða borið sig sem fullvalda ríki. Mér stendur líka stuggur af þjóðernishreinsununum sem það hefði í för með sér, að hreinsa landið af Han-Kínverjum og öðrum innflytjendum. Ég styð (auðvitað) sjálfsákvörðunarrétt þjóða -- en það eru fleiri en Tíbetar sem eru kúgaðir af stjórnvöldum í Kína. Með þjóðernislegri nálgun er samt hætt við að hinir gleymist -- hinir íbúar kínverska ríkisins. Ríkisstjórn Kína kúgar flesta þegna sína -- og það er á þeim grundvelli sem á að skoða málið. Ég sé fyrir mér byltingu með lýðræðislegu og sósíalísku inntaki, þar sem mundi fæðast sambandslýðveldi þar sem margar ólíkar þjóðir og þjóðabrot gætu búið hvert innan um annað. Ég held að það sé meira að segja eina leiðin.


B.S. - 29/05/09 15:44 #

Ágætur pistill.


Guðmundur I. Markússon - 30/05/09 20:06 #

Flott að kroppa í rómantík um hið fjarlæga austur--t.d. þessa upphafningu austulenskra lækninga á kostnað vestrænna læknavísinda, enda heilsufar þarna austur frá ekkert til að hrópa húrra fyrir. Og alltaf flott að fletta ofan af ofmetnum gúrum sem eru lítið annað en þokkalegir sjónhverfingamenn (Sai Baba er gott dæmi).

En þessi pistill er samt frekar ómerkilegur - að pönkast á DL fyrir það að Tíbet fyrr á öldum hafi ekki verið fyrirmyndarríki! Voru þau einhversstaðar? Hefur hann sérstaklega tekið fram að hann sé hrifinn af þessu harðræði fortíðarinnar? Þú verður að koma með eitthvað bitastæðara en þetta.

Að hann hafi ekki fullkomnar skoðanir á kynferðismálum gerir þær varla sambærilegar við eitrið sem Ratzinger spúir um samkynhneigð, getnaðarvarnir og alnæmi - nema þú hafir dæmi um slíkt?

Lamaræðið var örugglega ekki fullkomið, og vafalaust er útlagastjórn tíbeta heldur ekki laus við sín vandamál. Þetta er allt sjálfsagt að fjalla um, og ef það er eitthvað mjög slæmt sem maðurinn hefur gert, endilega að draga það fram--en kjötið var ekki á beinunum hjá þér í þetta skiptið.

Mér finnst maðurinn hafa lifað merkilegu lífi, hann er fulltrúi þjóðar sem hefur kerfisbundið verið kúguð og beitt harðræði af erlendu stórveldi og hefur talað fyrir skynsamlegri og friðsamlegri baráttu. Ég á erfit með annað en að dáðst að honum fyrir það. Ég veit hins vegar fullvel að hann "er bara einhver náungi sem fæddist á heppilegum tíma miðað við andlát fyrri Dalai Lama."

Aðeins um punkt Vésteins: Það að Kínverjar kúgi flesta þegna sína eru engin rök gegn því að styðja eða berjast fyrir sjálfstæðis/sjálfsstjór Tíbets. Það að fleiri hópar en trúleysingjar séu kúgaðir í BNA (og víðar) eru engin rök gegn því að berjast sértaklega fyrir réttindum trúleysingja.´

Svo þetta með persónulega ábyrgð. Ég veit það svo sem ekki, en þegar ég las um t. búddisma fyrir margt löngu síðan, sem var ekkert of mikið, minnir mig að hugmyndir þeirra um endurholdgun og hvað það þýddi að vera "sama" persónan samrýmdist illa vestrænum hugmyndum - það kann að vera að þetta sé rétt mat hjá þér, en til þess að vera viss þarf að skoða hugmyndir þeirra nánar um þetta atriði (hafir þú gert það ber pistillinn það ekki með sér).


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/05/09 20:24 #

"að pönkast á DL"

Kallar þú þetta "að pönkast á"?

Óskapleg viðkvæmni er þetta.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 30/05/09 20:30 #

Guðmundur, öll greinin er miðuð við þá umfjöllun sem hefur verið um manninn undanfarið í íslenskum fjölmiðlum. Meðal þess sem sagt hefur verið er að Tíbet hafi verið einhvers konar útópía þar sem allir voru hamingjusamir undir stjórn munkana. Ég er í raun fyrst og fremst að pönkast á lötum íslenskum blaðamönnum.


Guðmundur I. Markússon - 30/05/09 21:55 #

Óskapleg viðkvæmni er þetta.

Hm ... skil þessa sneið ekki alveg ... fannst innlegg mitt ekkert sérstaklega væmið ... en ég er ekki þú.

Ég er í raun fyrst og fremst að pönkast á lötum íslenskum blaðamönnum.

Gott og vel - alltaf þörf á því.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 31/05/09 00:53 #

Mér finnst bara furðulegt að tala um að verið sé "pönkast" í Dalai Lama í þessum pistli. Finnst farið afar mjúkum höndum um hann.


Guðmundur I. Markússon - 31/05/09 22:55 #

Óli - hvað fannst þér um þátt Þóru og Gauks á RÚV í kvöld? Ég sá hann reyndar bara í slitrum en þarna var amk. velt upp anstæðum sjónarmiðum meðal tíbeta. Athyglisvert að heyra að fólk telji lamaræðið ekki hafa verið fullkomið og það tilheyri fortíðinni. Einnig að DL telur eigin stofnun enga nauðsyn. Fjölmiðlar eru oft ótrúlega yfirborðskenndir og metnaðarlausir, en þarna var amk. gerð góð tilraun til vandaðrar umfjöllunar.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 01/06/09 00:56 #

Sá það ekki. Var úti í góða veðrinu.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 01/06/09 23:15 #

Guðmundur: Nei, punkturinn um almenna kúgun í Kína mælir ekki beinlínis gegn þjóðfrelsisbaráttu. Hann segir hins vegar að þessi kúgun beinist ekki frekar gegn Tíbetum heldur en fólki almennt. Alla vega er ég ekki sannfærður um það. Ef þeir eru ekki kúgaðir sem slíkir, heldur hluti af fjölbreyttari, kúguðum hópi, þá breytist myndin. Þá verður meirihluti landsmanna náttúrlegir bandamenn þeirra í raunhæfri baráttu fyrir lýðræði og mannréttindum, í staðinn fyrir að þeir séu einangraður minnihlutahópur sem á, í hreinskilni sagt, ekki séns. Tortryggni mín í garð Dalai Lama er bæði dýpri og víðari en sú sem kemur fram í þessari stuttu grein Óla.


Bjarki - 02/06/09 09:41 #

Það er rétt að það komi fram að opinbera afstaða Dalai Lama til sjálfstæðis Tíbet var lengi vel ekki sú að Tíbet yrði sjálfstætt ríki heldur að Tíbet nyti meiri sjálfstjórnar innan Kína. Á síðasta ári gafst DL svo endanlega upp og gaf það út að hann hefði ekki lengur opinbera afstöðu til þess hvernig ætti að haga pólitískri stöðu Tíbet. (http://www.guardian.co.uk/world/2008/oct/26/tibet-dalailama) Nú leggur hann aðeins áherslu á að sérkenni tíbeskrar menningar (þar á meðal þeirra afbrigði búddisma) njóti verndar. Hann gerir enga kröfu um það að teljast veraldlegur leiðtogi Tíbeta þó að fjölmiðlarnir klikki stundum á þessu.


Bjarki - 02/06/09 10:06 #

Uppáhaldið okkar allra, hann Jón Valur Jenssen, skrifar um DL í nyjum pistli.(http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/888916/) Hann virðist þjást af þeim misskilningi að DL sé pólitísk fígúra sem hafi það markmið að drottna einhvern daginn yfir sjálfstæðu Tíbet. Hann virðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með að DL fordæmdi ekki marxisma og lýsti ekki yfir sjálfstæðisstríði við Kína. Mér virðist sem það sé frekar hatur í garð Kína sem stýrir skrifum JVJ en umhyggja fyrir Tíbetum.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 02/06/09 13:34 #

DL er náttúrlega pólitísk fígúra. Hann tók þátt í því á sínum tíma, að skipuleggja vopnaða baráttu Tíbeta og var veraldlegur leiðtogi þeirra þangað til hann hraktist í útlegð. Nú, og með sjálfstjórnina, þá hefur Tíbet einmitt stöðu sjálfstjórnarlýðveldis innan Kína.


Bjarki - 02/06/09 13:47 #

"DL er náttúrlega pólitísk fígúra. Hann tók þátt í því á sínum tíma, að skipuleggja vopnaða baráttu Tíbeta og var veraldlegur leiðtogi þeirra þangað til hann hraktist í útlegð."

Einmitt. Í denn. Nú er hann fyrst og fremst lukkutröll fyrir andlegu týpurnar á vesturlöndum.

"Nú, og með sjálfstjórnina, þá hefur Tíbet einmitt stöðu sjálfstjórnarlýðveldis innan Kína."

Einmitt og mætti alveg við meiri og raunverulegri sjálfstjórn.


Bjarki - 02/06/09 13:55 #

Í denn hafði útlagastjórn DL líka milligöngu um að koma CIA peningum til uppreisnarmanna í Tíbet til að styðja vopnaða baráttu gegn hernáminu. Þessi deila er skítug eins og allar aðrar.


Ormurinn - 03/06/09 11:13 #

Fín grein hjá Óla. Því miður eru menn allt of gjarnir á því að taka á Dalail Lama gagnrýnislaust alveg eins og gert er með allt of marga svikamðila, heilara, handálækningarkuklara etc..

Einhverra hluta vegna er allt í lagi að pönkast á stjórn kínverja og mannréttindabrotum þeirra en við segjum ekkert við mannréttindabrotum Bandaríkjamanna sem eru æði mörg. Eða hvað með kjarnorkutilraunir Frakka í Kyrrahafinu fyrir um 10-15 árum síðan. Þeir eru núna að viðurkenna brot sín með því að bjóða þeim bætur sem veikst hafa af krabbameini í kjölfar tilraunanna.

Hver sá sem telst vera trúarlegur leiðtogi lands eða þjóðar ætti af þeirri sömu ástæðu að vera hunsaður.

Ég fann ágætis grein um Tibet hér: http://dissidentvoice.org/Articles9/Parenti_Tibet.htm

Hún sýnir að málið er aðeins flóknara heldur en það hvernig Lamarnir sjálfir leggja það fram. hér eru brot úr textanum:

"Theocratic despotism had been the rule for generations. An English visitor to Tibet in 1895, Dr. A. L. Waddell, wrote that the Tibetan people were under the "intolerable tyranny of monks" and the devil superstitions they had fashioned to terrorize the people. In 1904 Perceval Landon described the Dalai Lama's rule as "an engine of oppression" and "a barrier to all human improvement." At about that time, another English traveler, Captain W.F.T. O'Connor, observed that "the great landowners and the priests . . . exercise each in their own dominion a despotic power from which there is no appeal," while the people are "oppressed by the most monstrous growth of monasticism and priest-craft the world has ever seen." Tibetan rulers, like those of Europe during the Middle Ages, "forged innumerable weapons of servitude, invented degrading legends and stimulated a spirit of superstition" among the common people"

"Whatever wrongs and new oppressions introduced by the Chinese in Tibet after 1959, they did abolish slavery and the serfdom system of unpaid labor. They eliminated the many crushing taxes, started work projects, and greatly reduced unemployment and beggary. They built the only hospitals that exist in the country, and established secular education, thereby breaking the educational monopoly of the monasteries. They constructed running water and electrical systems in Lhasa. They also put an end to floggings, mutilations, and amputations as a form of criminal punishment."


Guðmundur I. Markússon - 03/06/09 12:47 #

Þetta er amk. orðið áhugavert núna.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/06/09 13:04 #

Ég gekk voðalega stutt í greininni minni af því að það er mjög erfitt að greina á milli áróðurs Kínverja og staðreynda. Það er til dæmis ekki alveg á hreinu hve umbætur í Tíbet voru komnar langt þegar Kínverjar tóku yfir. Það er hins vegar ljóst að þetta voru aðstæður sem höfðu verið lengi til staðar.


Guðmundur I. Markússon - 03/06/09 21:02 #

Hér má heldur ekki gleyma að marxismi var (og er enn að einhverju leyti) landlægur í háskólasamfélaginu á 20. öld, sérstaklega hug- og félagsvísindum, og hafði í för með sér ýmsar ranghugmyndir (t.d. að hugur mannsins væri blank slate); líklega best þekkta dæmið þar sem vísindi viku fyrir heitri marxískri pólitík var sociobiology deilan milli Wilsons, Gould og Lewontin á 8. og 9. áratugnum.*

Ekki kæmi á óvart að ýmislegt sem skrifað hefur verið um Tíbet og Kína sé undir marxískum áhrifum, amk. fannst mér framsetningin í þessari annars áhugaverðu grein sem ormurinn vísaði í á þeim nótunum.

Má líka velta fyrir sér hversu mikil framför er í því að afnema þessar líkamlegu refsingar af stjórnvöldum sem stunda fjöldaaftökur og pyntingar. Svo er það alþekkt að kúgarar koma með ýmsan infrastrúktur sem jafnvel gagnast þeim sem þeir kúga, sb. Life of Brian. Þeir sem vilja fegra framferði íslraela í Palestínu vísa oft til slíks.

Ef þessi grein er góð og gild sýnir hún fyrst og fremst að tíbetar eru fólk og að deilan er flókin og "skítug" eins og allar deilur. Varðandi CIA þá lentu menn ýmist BNA eða USSR megin í kalda stríðinu. Annars ætla ég ekki að þykjast hafa neina sérstaka þekkingu á þessari sögu - fer kannski að kynna mér þetta eftir þessar umræður hér.

Annars tek ég undir með Óla. Örugglega erfitt að finna hlutlausa aðila í þessu. Flóttamannastraumur, uppreisnir, og því hve lokuðu kínverjar halda Tíbet bendir til þess að pottur sé brotinn. Hvað segir Amnesty? Kv. gim

*Hafi einhver áhuga á þessu bendi ég á Blank Slate eftir Steven Pinker.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.