Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lögreglustjóri vor, frelsa oss frá illu

PrestastefnaÞeir sem trúa á æðri máttarvöld hljóta að velta því fyrir sér með hverjum gvuðirnir halda. Fyrir rúmum mánuði braut Vantrú helgidagalög landsins með því að standa fyrir bingó á föstudaginn langa. Glæpurinn fór fram í sól og logni á Austurvelli.

Í gær röltu prestar landsins hundrað metra í hávaðaroki og rigningu frá safnarheimili að Kópavogskirkju. Einhverjir hljóta að spá í því hvað hafi reitt Gvuð til reiði.

Vantrú hafði gefið í skyn að hugsanlega yrði einhver uppákoma í kringum gönguna í ætt við það þegar Svarthöfði tók þátt í göngunni í fyrra. Þetta var reyndar bara plat, við ætluðum ekkert að atast í blessuðum prestunum.

Tveir fulltrúar Vantrúar mættu í Kópavog til að fylgjast með skrúðgöngunni enda góð skemmtun að fylgjast með körlum og konum í kjólum spígspora um götur í hávaðaroki.

Prestastefna

Því miður voru ekki margir áhorfendur, kannski hafði veður og staðsetning eitthvað um það að segja.

það vakti athygli vantrúarseggja að lögreglan var áberandi á svæðinu og fylgdi skrúðgöngunni. Tveir vaskir menn á mótorhjólum lokuðu götunni svo ekki yrði ekið yfir hersinguna og tveir aðrir röltu meðfram og höfðu gætur á göngumönnum. Himinhár laganna vörður fylgdi biskup alla leið að kirkjunni og gaf saklausum trúleysingjum illt auga þar sem þeir stóðu álengdar og tóku ljósmyndir.

Vissulega hafa borist fréttir af vafasamri framgöngu ríkiskirkjupresta undanfarið, siðleysi á Akureyri og full nærgöngul framkoma við unglingsstúlkur á Selfossi, en okkur í Vantrú þykir óþarfi að lögreglan fylgist svo náið með klerkunum.

PrestastefnaVar lögreglan mætt til að vernda hersinguna fyrir vantrúarseggjum og mögulegum uppátækjum þeirra? Því trúum við ekki enda þekkt fyrir að trúa ekki hverju sem er. Treysta guðsmennirnir ekki á vernd almáttugs guðs? Þó svarthöfðauppákoman sem félagsmenn Vantrúar stóðu fyrir hafi hugsanlega sært tilfinningar einhverra getur enginn haldið því fram að nokkrum hafi staðið ógn af Svarthöfða. Er eitthvað sem gefur tilefni til að lögreglan sendi fjóra af sínum vösku sveinum til að vernda hundrað presta?

Við sendum lögreglustjóra höfuðborgarsvæðis fyrirspurn og hann svaraði um hæl. Sagði að fyrir þetta væri ekki greitt. Lögreglan sinnir verkefnum í tengslum við svona götuleikhús skrúðgöngur, kröfugöngur og fleira þess háttar.

Við eigum þó bágt með að trúa því að lögreglan hafi haft frumkvæði að því að senda fjóra menn á svæðið í gær.

Matthías Ásgeirsson 29.04.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/04/09 10:21 #

Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og er ljúft að láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.

Lk. 20:46


Freyr - 30/04/09 10:14 #

Hann Svarthöfði hefði alveg mátt mæta, þó ekki væri nema til að veifa frá hliðarlínunni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/04/09 10:44 #

Svarthöfði mun vonandi sjást aftur við gott tækifæri.

Ég er dálítið hræddur um að lögreglan hefði farið að skipta sér af Svarthöfða ef hann hefði verið á svæðinu í fyrradag.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.