Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bingó á föstudaginn langa

bingo.jpgHið árlega bingó Vantrúar verður haldið föstudaginn langa klukkan 12:30 á Austurvelli.

Með þessu brjótum við í þriðja sinn lög um helgidagafrið sem banna sérstaklega bingó:

[Föstudaginn langa] er eftirfarandi starfsemi óheimil: Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram."

Þessi lög eru byggð á öfgakenndri lútherstrú sem þreifst hér á landi um aldir og reyndi eftir fremsta megni að hindra skemmtanir manna. Vegna óeðlilegs sambands ríkis og kirkju er þetta enn bundið í lög.

Við í Vantrú viljum aðskilnað ríkis og kirkju og bjóðum gestum og gangandi að sýna þessum málstað stuðning með því að spila með okkur bingó og fá um leið kakó og kleinur.

Ritstjórn 08.04.2009
Flokkað undir: ( Tilkynning )

Viðbrögð


Örninn - 08/04/09 22:48 #

Verða ekki kleinur á boðstólnum ásamt kakói?


Kristján Hrannar Pálsson - 09/04/09 11:06 #

Guðlast!


Ingvi Steinn - 09/04/09 13:52 #

Ég er þegar mættur, Þið bara takið ekkert eftir mér...


Eygló (meðlimur í Vantrú) - 09/04/09 15:51 #

Júbb, það verða kleinur og kakó :-)


Heimir Hermannsson - 09/04/09 16:03 #

Af hverju mætið þið ekki bara í vinnuna? Væri það ekki eðlilegra?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 09/04/09 16:23 #

Heimir, ég væri alveg til í að ráða því sjálfur hvenær ég tek mér frí í staðinn fyrir að vera skyldaður til þess að taka mér frí á helgidögum ríkiskirkjunnar. Væri það ekki eðlilegra?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 09/04/09 18:25 #

Já, en Hjalti, af hverju fáið ykkur ekki vaktavinnu og heimtið að fá að vinna á þessum dögum þá bara frekar bara? Ha? Svaraðu því! Af hverju að eyðileggja allt sem er fallegt, heildrænt og siðrænt fyrir öðrum mímímí... við erum kristin þjóð... mímímí... Jesús spilaði ekki bingó... mímímí...


anna benkovic - 09/04/09 23:59 #

mæti...


Eygló (meðlimur í Vantrú) - 10/04/09 01:21 #

Til Heimis: Gjörningur þessi beinist ekki beinlínis gegn því að föstudagurinn langi og aðrir kristnir hátíðisdagar séu lögboðnir frídagar. Það er atriði sem samið er um í kjarasamningum. Þó mætti vel skoða það að fækka lögboðnum frídögum og lengja þess í stað sumarfrí, taka upp vetrarfrí eða jafnvel stytta vinnuvikuna. Með bingóinu erum við að minna á lög um helgidagafrið sem m.a. banna bingó fyrir kl. 15 á föstudaginn langa. Þessi lög eru tímaskekkja og furðulegt að þeir sem ekki eru trúaðir eða annarar trúar en kristinnar þurfi að beygja sig undir þau. Mæli með því að þú kynnir þér lögin, sjá http://www.althingi.is/lagas/134/1997032.html


Ingvi Steinn - 10/04/09 14:25 #

Þetta Bingo var snilld og heppnaðist mjög vel, ég vil þakka kærlega fyrir mig... Ég hafði mjög gaman af þessu þrátt fyrir að ég vann ekki neitt og leikurinn var klárlega riggaður...


Aftaka - 10/04/09 15:15 #

Hey hvernig gekk, langar ykkur að senda okkur smá umfjöllun? Þið eruð frábær!!! Kúkum á kirkjuna - bingó spil á altari spillingarinnar! AFTAKA


Rúna - 11/04/09 00:19 #

Mér finnst fáránleg og barnaleg þessi uppákoma í dag - sem er að hafa bingó á föstudaginn langa. Það skiptir engu máli hvort menn eru trúaðir eða ekki, það er alger óþarfi að sýna óvirðingu og ögrun með þessum hætti - bæði þeim sem trúa og eins hefðum sem hafa verið við lýði í langan tíma. Margir álíta ykkur engu betri en hvern annan öfgatrúarhóp - eini munurinn er að ykkar guð eruð þið sjálfir og fremur innantóm hugmyndafræði. Þið eruð hópur sem eruð að troða ykkar hugmyndum inn í samfélagið, vanvirða skoðanir annarra og eigið með eindæmum erfitt með að þola gagnrýni á ykkar hegðun og gjörðir. Það er sorglegt að þegar hugmyndir félagshópa á borð við ykkar byggja á mjög svo þunnum og innantómum grunni, þá virðist næsta skrefið vera að lítisvirða einhverja aðra, eins og í þessu tilfelli helgi dagsins, til þess að reyna að vekja á sér athygli.


Viddi - 11/04/09 00:42 #

Er það ekki óvirðing gagnvart fólki af annarri trú að því sé bannað að gera þá hluti sem það vill bara því að einn hópur þjóðfélagsins vill það ekki, því að einn trúarhópur krefst þess að engin skemmti sér þennan eina dag á ári? Mér finnst það. Mér finnst líka óvirðing að fólk krefjist þess að ég haldi minni skoðun og sannfæringu fyrir sjálfan mig bara því fólki finnst óþægilegt að vita af henni, það er sérstök óvirðing þar sem sá hópur sem hvað síst vill vita af minni sannfæringu er hvað duglegastur við að boða sína eigin.

Ögrun hefða og "norma" er grundvöllur framsækins samfélags. Það er hvorki fáranlegt né barnalegt.

Þú ert væntanlega líka ótrúlega móðguð þegar samkynhneigðir "troða" sinni sannfæringu ofan í þig á ári hverju, eða hvað? Afhverju fá allir hópar þjóðfélagsins að bulla að vild nema trúlausir? Hvernig er árlegt bingo vantrúar frábrugðið skrúðgöngum samkynhneigðra?

Hvernig eru trúlausir að vanvirða skoðanir með því að gera það sem þeir vilja? Hvernig voru þínar skoðanir óvirtar þegar vantrúarmenn héldu bingo á austurvelli? Voðalega ertu hörundsár.

Skoðaðu stöðu þína, hún er voða ósmekkleg og full af fordómum og skít í garð trúleysingja. Mig langar að enda þetta á einhverju blótsyrðinu en ætla sleppa því í þetta skiptið.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 11/04/09 02:11 #

Eins og Viddi benti á, þá myndi ég nú frekar segja að það sé óvirðing hjá ríkiskirkjunni að banna fólki að spila bingó á þeim dögum sem hún telur vera heilaga.

Þið eruð hópur sem eruð að troða ykkar hugmyndum inn í samfélagið,...

Ef þú átt við að við séum að boða skoðanir okkar , eins og líklega allir sem skrifa eitthvað á netið, þá þá erum við og allir aðrir vissulega að því. Ertu að tala um eitthvað annað?

...vanvirða skoðanir annarra...

Það á ekki að virða skoðanir annarra.

...og eigið með eindæmum erfitt með að þola gagnrýni á ykkar hegðun og gjörðir.

Þessu er ég ósammála. Þegar einhver gagnrýnir okkur, þá svörum við því málefnalega. Eins og með þessa athugasemd þína, þá svörum við henni málefnalega. Ef til vill upplifir þú þessi svör okkar sem "óþol", en við erum bara að svara fyrir okkur. Mér finnst reyndar mjög gaman þegar einhver gagnrýnir okkur.

Sem gott dæmi um þol okkar á gagnrýni, þá er þetta að ég held opnasta vefrit Íslands, þeas að lesendur geta léttilega komið með gagnrýni við greinar (og ég hvet þig til þess að hrekja greinar sem birtast hérna). Ef þú skoðar til dæmis vef ríkiskirkjunnar (tru.is), þá heyrir það til undantekninga að það sé opið fyrir athugasemdir og þær fá ekki að komast í gegn fyrr en ritstjóri er búinn að samþykkja þær.


Jón Frímann - 11/04/09 06:01 #

Ég mæli með réttum link í lagasafnið.

http://www.althingi.is/lagas/nuna/1997032.html


Björn I - 11/04/09 08:47 #

Rúnu og fleiri finnst þetta bingóspil vera kjánalegt og ég skil það alveg og er henni nú bara nokkuð sammála. En kjánalegra finnst mér þó að mér sé lögum samkvæmt bannað að spila bingó á ákveðnum degi af því að einhverjum hópi fólks finnst að þannig eigi það að vera.

Ég sé þennan gjörning sem ábendingu á hversu brengluð lögin eru oft hér á landi þegar kemur að trúmálum, að það skuli, í dag, vera eitthvað mál að fólk spili bingó á föstudagin langa.

Ég sé það sem kúgunartilburði að Rúna, ríkið og fleiri skuli heimta að fá að ráða því hvað ég geri mér til dundurs á föstudaginn langa.

Ég fór í sund í gær, það hefði verði óhugsandi gjörningur fyrir 20 árum. Síðan fór yngsta stelpan í afmæli sem hefði líka verið óhugsandi fyrir nokkrum árum. Að því loknu mætti ég í fjórriti á bingóið og við unnum þarna fínasta páskaegg og bók og þakka ég Vantrú fyrir ágætis skemmtun.


Þundur Freyr - 11/04/09 10:29 #

Daginn sem mér finnst mér ögrað við það að einhverjir spili bingó, er dagurinn sem ég legg sjálfan mig inn á KLEPP.


Rúna - 12/04/09 22:44 #

Ég þakka fyrir frekar slöpp viðbrögð en viðbrögð engu að síður. Það er svo sem ekkert við þetta að bæta annað en það að ekkert sem þið hafið sagt hefur haft áhrif á að breyta skoðun minni um að þessi hópur sem kallar sig Vantrú sé að gera nokkuð merkilegt annað en að vanvirða helgi föstudagsins langa með það eina að leiðarljósi að ögra - alls ekki til að reyna að koma einhverju skynsamlegu til leiðar. Þetta hefur ekkert með það að gera, að banna ykkur að gera það sem þið viljið, það eru allir frjálsir að gera það sem þeir vilja á þessum degi og það drepur ykkur ekki eða skaðar þó svo að þið getið ekki spilað bingó þennan eina dag. Ekki hef ég heldur neina trú á að þið spilið bingó aðra daga ársins! Þið getið auðvitað gert það sem þið viljið þennan dag, en það þarf ekki endilega að vaða á skítugum skónum yfir þá sem halda þennan dag heilagan. Þar af leiðir stend ég við það að þetta er barnalegur og mjög svo grunnur gjörningur af ykkar hálfu.

Hins vegar kýs ég að gera athugasemdir við það sem kom fram í svari Hjalta Rúnars Ómarssonar, þar sem hann vísar til einhverrar smágreinar eftir einhvern Pál Skúlason, um hvort virða eigi skoðanir annarra. Er hann (Páll) 12 ára? Það er langt síðan að ég hef lesið aðra eins þvælu.

Hvaða hroki einkennir hann að halda að hann sé þess umkomin að dæma um það hvort einhver hafi réttar skoðanir eða ekki?

"Ég held að það sé ámælisvert að virða skoðanir annarra, ef maður veit að þær eru ekki réttar" (tilvitnun úr grein Páls).

Hugsanlega veit maðurinn ekki hvað skoðun er. Svo ég ætla að upplýsa hann hér með. Skoðun er hugmynd sem ekki þarf endilega að sannreyna. Skoðun er hvorki rétt eða röng, heldur huglæg og getur verið niðurstaða sem byggð er á tilfinningum eða túlkun staðreynda og geta menn haft mismunandi skoðanir á sömu staðreynd og það eru aðeins staðreyndirnar sem geta verið rangar eða réttar. Til að geta gagnrýnt skoðanir annarra t.d. á pólitík eða þjóðfélagsmálum þá þarf viðkomandi að hafa þekkingu á því sem hann er að gagnrýna og muna það að engir tveir sjá endilega með sömu augum, sömu hlutina. Það að ætla sér að leiðbeina vinum sínum um hvað sé rétt eða rangt í þeirra skoðunum og hugmyndum jaðrar við fasisma. Það að virða skoðanir annarra er einmitt merki um þroska, víðsýni og gáfur – og ekki síst – hér ætla ég að nota hugtak sem greinilega Páll þekkir ekki sem er - auðmýkt.


Gústi - 12/04/09 23:22 #

Rúna mín,

Páll Skúlason er ekki tólf ára. Hann er reyndar 64 ára. Hann er líka fyrrverandi rektor Háskóla Íslands og einhver mikilmetnasti heimspekingur sem Íslendingar hafa átt.

Mig bara rétt grunar að hann hafi fyllri þekkingu á því hvað felst í hugtakinu "skoðun" en þú getur ímyndað þér.

Skoðun er huglægt fyrirbæri, en dregur gildi sitt af staðreyndum. Þar sem fólk getur misskilið staðreyndir eða ályktað ranglega út frá þeim getum við réttilega sagt að einhver hafi ranga skoðun. Af skrifum þínum virðist þú ætla að skoðun sé það sama og álit. Páll á nú við um töluvert víðari skilning á hugtakinu í sínum pistli, en við skulum láta það liggja á milli hluta. Álit getur líka verið rangt. Tökum þá skoðun kaþólsku kirkjunnar að það sé bannað að nota getnaðarvarnir því, jú, allt líf er heilagt. Flestir eru ósammála þessu og eru það opinberlega, þeir virða ekki þessa skoðun kaþólikkanna heldur mæla gegn henni. Að virða skoðun kaþólikkan væri hins vegar að hunsa þær hrillilegu aðstæður sem fólk getur komist í ef þeim er fylgt (sbr. átta ára barnið sem átti að eignast tvíbura nýlega).

Það að virða skoðanir annarra er það sama og að leyfa vinum sínum að vaða í villu og í versta falli að valda einhverjum raunverulegum skaða.

kv. Gústi


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/04/09 23:27 #

Rúna, þú mátt til að koma oftar með athugasemdir hérna. Það er hrein unun að röksemdafærslu þinni.

það eru allir frjálsir að gera það sem þeir vilja á þessum degi og það drepur ykkur ekki eða skaðar þó svo að þið getið ekki spilað bingó þennan eina dag.

Ef lög banna bingó eru menn varla frjálsir að spila bingó, eða hvað? Þú telur menn sem spila bingó á Austurvelli vaða yfir þig á skítugum skónum en "það drepur þig varla eða skaðar".

Þú segir skoðanir Páls þvælu og dæmir þær hrokafullar.

Það að ætla sér að leiðbeina vinum sínum um hvað sé rétt eða rangt í þeirra skoðunum og hugmyndum jaðrar við fasisma.

Þú lítur greinilega ekki á okkur sem vini þína þar sem athugasemdir þínar eiga væntanlega að sýna okkur fram á hvað er rétt eða rangt í skoðunum okkar og hugmyndum.

Ég held að mér sé óhætt að segja að þú virðir hvorki skoðanir okkar né Páls en "það að virða skoðanir annarra er einmitt merki um þroska, víðsýni, gáfur og auðmýkt."

P.S. Páll Skúlason þessi er prófessor í heimspeki, fyrrum rektor Háskóla Íslands.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/09 04:02 #

Þetta hefur ekkert með það að gera, að banna ykkur að gera það sem þið viljið, það eru allir frjálsir að gera það sem þeir vilja á þessum degi...

Rúna, þú hefur greinilega ekki áttað þig á því að það er ýmislegt bannað á þessum degi. Þess vegna erum við einmitt ekki frjálsir að gera það sem við viljum á þessum degi.


Björn Friðgeir - 13/04/09 06:44 #

Lykilatriði í misskilningi Rúnu á öllu þess er auðvitað að hún heldur að föstudagurinn langi sé 'helgur'. Það er hann auðvitað ekki, hvorki fyrir mér né öllum hinum sem komu í bingóið. Það hvílir sama helgi yfir honum og frídegi verslunarmanna og ég þigg frí í vinnu með sömu ánægju á báðum þessum dögum, en nýti mér síðan, a.m.k. á hinum síðarnefnda, að hægt er að gera næstum hvað sem mig lystir, oft þökk sé fólki sem ákveður (eða þarf... en það er vinnupólitískt mál) að vinna á þeim degi, á yfirvinnu eða helgidaga taxta. Þannig er það nú.


Rúna - 13/04/09 22:42 #

Gústi minn – Reynir minn og hinir!

Það gleður mig ef ykkur finnst svona gaman að skrifast á við mig:)

Þó svo að Páll Skúlason sé 64 ára, fyrrverandi rektor og heimspekingur þá er hann ekki yfir gagnrýni hafinn! Það er bara skoðun einhverra að hann sé einhver mikilmetnasti heimspekingur Íslendinga! Ég efast þó ekki um það andartak að hann sé fær heimspekingur, en þetta sem hann segir í þessari grein sinni er ALGER ÞVÆLA. Mér finnst það svolítið áhyggjuefni að þið skulið taka það sem hann segir sem heilagan sannleik af því, að því sem mér virðist þið sumir segja, að hann prófessor í heimspeki, þá hljóti allt að vera rétt sem hann segir. Klárari menn en hann hafa sagt og gert kjánalega hluti.

Reynir! Það má deila um það hvort það sé fáránlegt að bannað sé að spila bingó á föstudaginn langa og að þetta séu gamaldags lög sem má breyta – en það er ekki endilega það sem ég er að gagnrýna ykkur fyrir, heldur þessi framkoma ykkar – að ögra með þessum hætti. Þetta er nefnilega svo ótrúlega íslenskt fyrirbæri (sem ekki hefur verið til góðs hingað til) – „ég læt sko ekkert segja mér fyrir verkum, ég geri sko bara það sem mér sýnist, alveg sama hvað öðrum finnst – þó svo að ég vaði á skítugum skónum yfir allt og alla, þá skal ég sko gera það sem ÉG VIL“! – Þetta er einmitt sem er svo lýsandi fyrir ástand samfélagsins í dag, bankamenn sem gerðu sko það sem þeir vildu og settu þjóðina á hausinn, stjórnmálamenn og ríkisstjórn sem gerðu sko það sem þeim sýndist og settu þjóðina líka á hausinn – „við skulum sko sitja áfram í ríkisstjórn alveg hvað sem þið (kjósendur) segið – þið segið okkur sko ekkert fyrir verkum“! Það að vilja breyta einhverju finnst mér að maður þurfi að gera á virðingarverðari hátt.

Síðan smá athugasemd – þar sem þú segir: "Þú lítur greinilega ekki á okkur sem vini þína þar sem athugasemdir þínar eiga væntanlega að sýna okkur fram á hvað er rétt eða rangt í skoðunum okkar og hugmyndum".

Nei það er hárrétt - ég álít ykkur enga sérstaka vini mína, en hinsvegar ef þið væruð vinir mínir þá teldi ég það ekki í mínum verkahring að segja ykkur hvort ykkar skoðanir á helgi föstudagsins langa væri rangar eða ekki. Ég þarf hins vegar ekki að vera sammála þeim og hef greinilega aðra skoðun sem mér finnst rétt að ég komi á framfæri. Þar með er ég ekki endilega að segja að mín skoðun sé réttari, en það er alltaf réttlátt að fleiri en ein skoðun komi fram á einhverjum tilteknum málefnum. Þess vegna hafa menn umræðu um ákveðna hluti þar sem mismunandi skoðanir koma fram, en ÁN þess að þurfa að dæma hvort ein skoðun sé réttari eða rangari en önnur. Það að vera svo hrokafullur að ætla sér að leiðbeina öðrum um það hvað þeim á að finnast – eða að leiðbeina öðrum með skoðanir eða hugmyndir er með ólíkindum og alls ekki á færi neinna, sér í lagi sjálfskipaðra gæslumanna um „hinar réttu skoðanir“!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/04/09 22:47 #

Þó svo að Páll Skúlason sé 64 ára, fyrrverandi rektor og heimspekingur þá er hann ekki yfir gagnrýni hafinn! Það er bara skoðun einhverra að hann sé einhver mikilmetnasti heimspekingur Íslendinga! Ég efast þó ekki um það andartak að hann sé fær heimspekingur, en þetta sem hann segir í þessari grein sinni er ALGER ÞVÆLA

Ertu að segja að þú virðir ekki skoðun Páls?


Kristín - 13/04/09 23:48 #

Hahahaha, þetta er nú meira bullið frá þér Rúna! Takk fyrir að deila gleðinni :D


Gunnar J Briem - 14/04/09 01:09 #

Það má deila um það hvort það sé fáránlegt að bannað sé að spila bingó á föstudaginn langa og að þetta séu gamaldags lög sem má breyta – en það er ekki endilega það sem ég er að gagnrýna ykkur fyrir, heldur þessi framkoma ykkar – að ögra með þessum hætti.

Á vísindavefnum má lesa um borgaralega óhlýðni. Þegar blökkukonan Rosa Parks neitaði að standa upp í strætó þegar hvítur maður kom inn og engin sæti voru laus, þá var hún að brjóta lög og hún var fullkomlega meðvituð um það. Framkoma hennar var sannarlega ögrandi á þeim stað og þeirri stund, og var innblástur fyrir fleiri Bandaríkjamenn að "vaða um á skítugum skóm yfir allt og alla" til að berjast gegn lögum sem þeir töldu óréttlát.

Martin Luther King og Mahatma Gandhi voru alræmdir fyrir þetta "ótrúlega íslenska fyrirbæri". Al Gore hvatti nýlega bandarísk ungmenni til þessarar séríslensku framkomu í baráttu gegn nýjum kolaorkuverum.

Þú segir að þú amist ekki endilega við gagnrýni á lögin, heldur þessari framsetningu á gagnrýninni. Þegar ég heyri skoðanir þeirra sem hneykslast á bingóandófinu þá hugsa ég hversu miklu fremur fjöldi Bandaríkjamanna hafi talið sig hafa ástæðu til að hneykslast á framkomu Rosu Parks, jafnvel þótt þeir teldu lögin sem hún var að andæfa ekki hafin yfir gagnrýni.

Er hann (Páll) 12 ára? Það er langt síðan að ég hef lesið aðra eins þvælu. Hvaða hroki einkennir hann að halda að hann sé þess umkomin að dæma um það hvort einhver hafi réttar skoðanir eða ekki?

Getur verið að dómur þinn um grein Páls séu pínu hrokafullur? Ert þú þess umkomin að dæma hvort faðir sem lætur umskera dóttur sína og sker hana síðar á háls fyrir að vera í stuttu pilsi hafi réttar eða rangar skoðanir? Ber þér að virða skoðanir hans?

Það má taka fram að ég er hvorki meðlimur í Vantrú né neinum jákórum, tel prófessorsnafnbót ekki til marks um óskeikulleika, tel grein Páls fjarri því að vera alger þvæla, og tel bingóandóf Vantrúar ekki jafn mikilvægt og andóf Rosu Parks og fleiri gegn kynþáttamisrétti í Bandaríkjunum á síðustu öld.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 14/04/09 02:50 #

...en þetta sem [Páll Skúlason] segir í þessari grein sinni er ALGER ÞVÆLA. Mér finnst það svolítið áhyggjuefni að þið skulið taka það sem hann segir sem heilagan sannleik af því, að því sem mér virðist þið sumir segja, að hann prófessor í heimspeki, þá hljóti allt að vera rétt sem hann segir. Klárari menn en hann hafa sagt og gert kjánalega hluti.

Rúna, það er enginn að halda því fram að allt sem hann segir hljóti að vera rétt af því að hann er prófessor í heimspeki. En hann rökstyður þessa skoðun sína í tilvitnuninni og ef þú ert ósammála, þá er rétt að hrekja rökin hans.


Rúna - 15/04/09 00:10 #

Sæll Gunnar Briem og hinir

Nei ég tel mig ekki vera hrokafulla þó ég gagnrýni það að einhver maður, hvort heldur heimspekingur eða ekki, telji sig þess umkominn að leggja dóm á hvað hann persónulega telji vera rétta skoðun á einhverju málefni eða ekki - það tel ég vera með ólíkindum.

Ég á bágt með að sjá samasemmerki um brot á grundvallarmannréttindum og því þó að fámennur hópur manna sé að mótmæla því að fá ekki að spila bingó. Mér finnst þetta fremur langsóttur og dramatískur samanburður á málefnum. Rosa Parks var ekki að mótmæla því hvort hún fengi að spila á spil á sunnudögum eða dansa á jólunum vegna trúarástæðna, heldur var hún að mótmæla broti á þeim grundvallarmannréttindum sem við eigum öll að hafa sem búum á þessari plánetu. Ég held að allflestir séu nú sammála um það að öllum mönnum beri sami réttur.

Einnig er ekki lítil dramatík í þessum ummælum; "Ert þú þess umkomin að dæma hvort faðir sem lætur umskera dóttur sína og sker hana síðar á háls fyrir að vera í stuttu pilsi hafi réttar eða rangar skoðanir? Ber þér að virða skoðanir hans?".

Þetta er það sem gerir svona umræður þreytandi, af því að þetta virkar pínulítið öfgakennt, við erum aðeins að ræða um frekar ómerkilegt málefni, skiptar skoðanir á hvort leyfa eigi spil eða ekki, en ekki hvort rétt sé að lífláta fólk eða umskera. Það hlýtur að vera grundvallarmunur á umræðu eftir því hvað hún fjallar um.

Það er mikill munur á því hvort við ræðum um það hvort að Davíð Oddsson hafi gert rétt í því að neita að fara úr Seðlabankanum - það eru mjög skiptar skoðanir á því og honum, eftir því hvar menn eru í pólitík. Eða hvort við erum að ræða um það að múslimi skeri son sinn 18 mánaða á háls, af því að hann (faðirinn) fái ekki búseturétt í einhverju Evrópulandanna (sem gerðist í rauninni).

Þar af leiðandi tel ég að ef við ætlum að hafa eitthvað vit í umræðu, þá verðum við að taka til samanburðar efni sem stenst samanburðinn. Annars missir öll vitræn umræða marks.

Að öðru leyti þakka ég flestum fyrir frekar kurteisislega umræðu og að fæstir hafa talið sig hafa þörf fyrir skítkast.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/04/09 00:16 #

Að öðru leyti þakka ég flestum fyrir frekar kurteisislega umræðu og að fæstir hafa talið sig hafa þörf fyrir skítkast.

Sagði Rúna sem hóf umræðuna með þessum orðum.

Mér finnst fáránleg og barnaleg þessi uppákoma í dag

...og hélt svo áfram á þeim nótum.

Vertu ævinlega velkomin Rúna og taktu endilega þátt í umræðum, við fögnum því að þú látir skoðun þína í ljós hér - jafnvel þó við séum ekki sammála þér.

Þetta er það sem gerir svona umræður þreytandi, af því að þetta virkar pínulítið öfgakennt, við erum aðeins að ræða um frekar ómerkilegt málefni, skiptar skoðanir á hvort leyfa eigi spil eða ekki, en ekki hvort rétt sé að lífláta fólk eða umskera. Það hlýtur að vera grundvallarmunur á umræðu eftir því hvað hún fjallar um.

Nei, ekki þegar kemur að því að ræða hvort bera eigi virðingu fyrir skoðunum annarra. Að sjálfsögðu berum við ekki virðingu fyrir ýmsum skoðunum, hvorki við í Vantrú né þú sem andmælir skoðunum okkar.

Ég botna enn ekkert í því hvernig þú getur látið bingó fara svona óskaplega í taugarnar á þér.


Gunnar J Briem - 15/04/09 02:31 #

Takk fyrir svarið Rúna.

Það er hægt að halda því fram að Vantrú sé með bingóinu að berjast fyrir grundvallarmannréttindum, þ.e. athafna- og trúfrelsi. Eflaust þótti ýmsum það fáránleg og barnaleg óvirðing og ögrun hjá Rosu Parks að vera með þetta vesen bara til að fá að sitja í einni strætóferð, en alveg eins og það snerist ekki bara um sæti í strætó snýst þessi gjörningur Vantrúar ekki um bingóið sem slíkt. Eins og ég sagði áður þá er bingóandófið ekki nærri eins mikilvægt (eins og sést t.d. á því að lögreglan kærir sig ekki um að framfylgja lögunum), en andófið beinist samt í báðum tilfellum að lögum sem færa má rök fyrir að vegi að grundvallarmannréttindum.

Og dæmið um vonda pabbann er vissulega mjög dramatískt, en mig langaði einfaldlega til að setja fram skýrt dæmi sem sýnir að orð Páls Skúlasonar um að það sé ámælisvert að virða skoðanir sem maður veit að eru rangar, eru ekki alger þvæla. Páll var ekkert frekar að tala um bingó en umskurð eða heiðursmorð. Ef þú virkilega meinar að orð Páls séu einhver mesta þvæla sem þú hefur lesið (og hrokafull þvæla í ofanálag), þá má skilja það sem svo að þú teljir rétt að virða skoðanir vonda pabbans, ásamt öllum mögulegum öðrum ókræsilegum skoðunum.

Ef til vill ættirðu að gefa Páli annan séns. :-)


jogus (meðlimur í Vantrú) - 15/04/09 09:10 #

Gunnar stal orðunum úr munni mínum (eða þannig). Ef Rúna heldur að þetta snúist um bingó þá er hún eitthvað að misskilja.


Jón Arnar Magnússon - 29/04/09 06:25 #

Ég var í Litháen um pásakana og þar er unnið á föstudag langa.

Föstudagur langi í Litháen er bara venjulegur föstudagur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.