Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Séra Baldur Kristjánsson og fordómarnir

Fyrir nokkru skrifaði Baldur Kristjánsson prestur eftirfarandi klausu á bloggið sitt:

Það er í tísku að tala niður til starfa presta í bloggheimum. Það gera iðulega ungir kálfar með mikið fjör og mjóa leggi en litla reynslu af lífinu.

Hér sjáum við ágætlega leið sem hentar þeim sem ekki vilja stunda heiðarlegar rökræður. Andstæðingurinn er tekinn fyrir og búinn til skrípamynd af honum. Augljóslega veit séra Baldur ákaflega lítið um gagnrýnendur sína. Trúleysinginn sem gagnrýnir prestinn er ungur og reynslulaus. Þetta heita fordómar.

Við vorum sérstaklega oft brennimerktir með þessari steríótýpu á upphafsdögum Vantrúar. Birgir Baldursson var þá fertugur og mest áberandi meðlimurinn. Ég var yngstur 24 ára. Hvorugur okkar hefur þroskast upp úr þessu á þessum rúmu fimm árum. Núna höfum raunar miklu eldri meðlimi og töluvert yngri líka.

En snilldin á bak við þessa lygi séra Baldurs er að það gengur ekkert að hrekja hana. Ef ég myndi benda réttilega á að ég hef upplifað margt og mikið á mínum þrjátíu árum þá er næsta steríótýpa hins fordómafulla trúmanns dregin upp. Ef ég hef átt erfiða ævi er ég bara bitur og fæ útrás fyrir reiði mína í garð guðs og heimsins með því að vera leiðinlegur við prestinn.

George H. Smith kom með góð dæmi um þetta í bók sinni Atheism: The Case Against God:

Ef guðleysinginn er ungur þá er vantrú hans rakin til ungæðislegrar uppreisnar og vanþroska - skeið sem hann mun vonandi komast yfir. Ef guðleysinginn er miðaldra þá er vantrú hans tilkomin vegna gremju hans yfir tilbreytingaleysi lífsins, biturð yfir mistökum eða einangrun mannsins frá öðru fólki. Ef guðleysinginn er gamall þá liggur skýringin í vonbrigðum, kaldhæðni og einmanaleika sem stundum fylgja síðari æviárum.

Þetta er flótti, flótti frá málefnalegum umræðum, flótti frá heiðarlegri gagnrýni, flótti frá raunveruleikanum. Það væri nú gott ef séra Baldur myndi snúa frá fordómafullum málflutningi sínum og snúa sér frekar að rökræðu ... eða er vandamálið að rökin eru bara ekki til staðar?

Óli Gneisti Sóleyjarson 23.02.2009
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Teitur Atlason - 23/02/09 12:49 #

Mér þóttu þessi orð hins ofur-umburðarlynda vera asnaleg og særandi.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 23/02/09 14:52 #

Má ég frekar biðja um "unga kálfa með mikið fjör og mjóa leggi en litla reynslu af lífinu" en sílspikuð og líflaus sauðnaut sem virðast ekkert hafa lært á langri ævi, hugmynda- og hugsjónasnauð, rígbundin á sínum bási við ríkisjötuna.

Þetta er ekki lýsing á Baldri heldur á hún iðulega við presta. :)


FellowRanger - 15/10/09 10:22 #

Það er aldeilis hvað þessi lífsreynda belja veit um sína gagnrýnendur.

Ætli hann vilji meina með þessum skrifum að þetta sé tískubóla sem hverfur þegar augu almennings beinast að einhverju öðru?

Miðað við mína reynslu af viðhorfi fólks til glæpahrings trúarinnar á hann eftir að éta þessi orð margsinnis ofan í sig.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.